22.04.1958
Neðri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (3065)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Snemma á þingi flutti ég þrjú frv., sem mun hafa verið vísað til n., en ekki hafa komið þaðan aftur.

Það fyrsta er frv. til l. um breyt. lögum nr. 34 1946, um fræðslu barna. Þetta er 58. mál Nd., og hinn 17. des. 1957 skilar minni hl. menntmn. svo hljóðandi áliti:

„Frv. þetta, sem flutt er nú í þriðja sinn af 1. þm. Reykv., Bjarna Benediktssyni, fjallar um stuðning ríkisins við einkaskóla.

Í hittiðfyrra felldu vinstri flokkarnir frv. þetta, og í fyrra afgreiddu fulltrúar þeirra í menntmn. Nd. málið ekki þrátt fyrir ítrekuð tilmæli Sjálfstfl. Málið var samt oft rætt í nefndinni.

Á þinginu nú í vetur hefur málið enn legið fyrir, en meiri hl. ófáanlegur til að afgreiða það. Minni hl. finnst hins vegar engin ástæða til að draga afgreiðsluna úr hömlu og telur:

1. að einkaskólana beri að styðja vegna þeirrar fjölbreytni, sem þeir eru líklegir til að skapa í fræðslumálunum;

2. að engin ástæða sé til að gera fólki, sem heyrir til söfnuðum utan þjóðkirkjunnar, fjárhagslega erfiðara fyrir, en öðru fólki að senda börn sín í þá löggiltu einkaskóla, sem söfnuðirnir reka.

3. ef skólahald þetta hættir vegna fjárskorts, mundu börnin, sem annars stunda nám í einkaskólum, fara í almenna barnaskóla, og yrði þá að fjölga þar kennurum, sem launaðir eru af hinu opinbera.

Þess vegna er sanngjarnt að fara fram á, að laun fastra kennara verði greidd úr ríkissjóði, enda verði þeir þá ráðnir og launaðir eins og kennarar barnaskóla.“

Þetta segja þau Ragnhildur Helgadóttir og Kjartan J. Jóhannsson hinn 17. des., og þá hefur sem sagt þar komið fram, að meiri hl. menntmn. er ófáanlegur til að afgreiða málið.

Nú skil ég það að vísu, að menn geti verið ósammála um þetta mál eins og öll önnur. En hitt er mér óskiljanlegt, að meiri hl. n. reynist með öllu ófáanlegur til að afgreiða mál, sem sent er honum til athugunar. Jafnvel þó að hann hafi þurft einhvern lengri tíma, en var fyrir hendi til 17. des., þá er nú komið fram yfir 20. apríl, og Alþ. hefur lengst af setið síðan, — látum nú vera, hversu störfin hafa verið mikil, — en menn hafa a. m. k. verið viðloðandi og á launum af ríkisfé allan þennan tíma. Það sýnist því alls ekki til of mikils ætlazt, að meiri hl. þessarar hv. n. fáist til þess að skila einhverju áliti um málið, annaðhvort með eða á móti, svo að hæstv. forseti sjái sér fært að taka málið á dagskrá.

Svipuðu máli sýnist vera að gegna um tvö önnur frv., sem þó eru náskyld hvort öðru, þ. e. frv. til l. um breyt. á l. nr. 57 5. júní 1957, um breyt. á l. nr. 56 frá 31. maí 1927, um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, sem er 81. mál, og frv. til l. um breyt. á l. nr. 50 5. júní 1957, um menningarsjóð og menntamálaráð, sem er 82. mál. Efni þessara tveggja frv. er það að láta greiða fé í menningarsjóð af ágóða áfengisverzlunarinnar, sem eins og kunnugt er hefur farið milljónatugi fram úr áætlun á undanförnum árum, en hverfa frá þeirri ófremd, sem tekin var upp á s. l. ári, að leggja skatt á hvern einasta kvikmyndamiða á venjulegum sýningum í þessu skyni, og má því segja, að þar sé nánast um nefskatt að ræða á mjög holla almenningsskemmtun, gagnstætt því, sem verða mundi, ef tekjurnar væru teknar af umframgróða áfengisverzlunar ríkisins.

Ég veit að vísu, að hæstv. fjmrh. hefur mjög beitt sér á móti þessari réttarbót og ber manna mest ásamt hæstv. menntmrh. ábyrgð á því, að þessi óheppilegu ákvæði voru sett í lög á sínum tíma. Mér er því ljóst, að það eru sterk öfl hér á Alþingi, sem standa í vegi fyrir því, að þessi réttarbót nái fram að ganga. En það er ekki hægt að þola, að þeir hindri þinglegar umræður um málið. Það minnsta er, að þeir hafi þá kjark til þess að standa fyrir máli sínu hér í hv. d. og færa rök fyrir sinni villu, ef þeir hafa nokkur rök, og komist ekki upp með það ofbeldi og rangindi að hindra, að málið sé tekið hér til umræðu.

Ég vil af þessum sökum mjög eindregið fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann nú, helzt fyrir næstu mánaðamót, hlutist til um það, að þessi mál verði tekin á dagskrá. Mér finnst það ekki skammlaust, að enn sé látin líða ein mánaðamót, án þess að hv. d. eigi þess kost að bæta um það, sem áður hefur misfarið í þessum efnum. Það má vera, að ýmsir þm. hafi nú séð sig um hönd og vilji breyta til frá því, sem þeir áður létu hafa sig til. En hvort sem málið hefur stuðning eða stuðning ekki, þá er það þinglegur réttur að fá úr því skorið, hvort málin hafa fylgi eða ekki.