25.04.1958
Neðri deild: 83. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (3069)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Snemma á þessu þingi flutti ég ásamt nokkrum öðrum hv. þ.m. frv. um ráðstafanir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

Þessu frv. var snemma á þinginu vísað til fjhn. þessarar deildar, en hins vegar hefur enn ekki neitt nál. komið frá þeirri hv. n. Þetta frv. hefur áður verið hér til meðferðar í Alþingi, þannig að það er hv. n. vel kunnugt að efni til, þannig að það getur naumast þurft að taka mjög langan tíma að átta sig á málinu.

Ég verð að láta í ljós óánægju yfir því, að svo mjög hefur dregizt, að málið væri afgreitt úr n. þar sem þegar eru nú margir mánuðir liðnir síðan því var þangað vísað, og vil ég beina því til hæstv. forseta, hvort hann hefði ekki tök á því að ýta á eftir, að málinu yrði skilað úr nefnd.

Þá er jafnframt annað mál, það er um eflingu iðnlánasjóðs. Þar eru tvö frv., annars vegar um breyt. á lögum um iðnlánasjóð og hins vegar um breyt. á lögum um gjald af innlendum tollvörutegundum. Það er einnig orðið langt síðan þessum frv. var vísað til nefndar, og hefur eigi heldur borizt nál. um þau.

Ég vildi jafnframt beina því til hæstv. forseta, hvort ekki mundu tök á að ýta á eftir því, að nefndin skilaði áliti um þessi mál. Það hefur nú dregizt það lengi þingtími, að það hefðu átt að vera tök á því, bæði fyrir þessa nefnd og aðrar, að skila þeim málum, sem hjá þeim liggja. Það eru einnig ýmis önnur frv., sem ég er meðflm. að, en geri ekki hér sérstaklega að umtalsefni, þar sem það eru aðrir hv. þm., sem þar eru 1. flm., en ég verð að láta í ljós óánægju yfir því, að ekki skuli fást afgreiðsla á þessum málum. Það er að sjálfsögðu ekkert við því að segja, ef nefndirnar ekki treysta sér til að mæla með þeim, en það er eðlilegt og ekki annað en þinglegur réttur hvers þingmanns að fá málið til afgreiðslu inn í þingið á þann veg, að hægt sé að fá niðurstöðu um það hér, hver afstaða manna er til málanna.

Það mætti ætla, að færi að draga að þinglokum, þannig að ástæða virðist vera til þess að reyna að ýta á eftir því, að þessi mál komi til afgreiðslu. Ég vil því vinsamlegast fara þess á leit við hæstv, forseta, að hann beiti sínum áhrifum til þess, að svo megi verða, því að mér er kunnugt um, að hann hefur sjálfur áhuga á því, að mál fái afgreiðslu hér í deildinni.