18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

73. mál, kosningar til Alþingis

Sigurður Bjarnason:

Það er aðeins örstutt athugasemd. — Hv. 1. þm. N-M. kastaði nú út mörsiðrinu undir lok umr. um þetta mál. Mér skildist, að hann vildi ómerkja allan minn málflutning hér og rökstuðning gegn þessu frv. vegna þess, að upp hefðu komizt, eins og hann orðaði það, einu kosningasvik á nokkrum áratugum heima í mínu kjördæmi. Ég skal ekki fara að draga þetta mál inn í umr., og ég held, að það mundi sízt auka hróður Framsfl., ef það yrði gert. En ég vil benda hv. 1. þm. N-M. á það, að þegar till. var flutt um það hér á hv. Alþ. að svipta löglega kjörinn þm. N-Ísf. þá þingmannsrétti, þá klofnaði Framsfl. Sanngjarnari og skynsamari menn sáu, að um pólitískt ofsóknarmál var að ræða, ljótt mál, mjög ljótt mál, og neituðu að fylgja eftir hinum æstustu og hatrömmustu leiðtogum sínum. Ef til vill er Hnífsdalsmálið eitt greinilegasta dæmi um það, hvernig pólitískt ofstæki getur leitt skynsama menn út á villigötur. Sú saga gerðist þá, að greindir og gegnir menn í Framsfl. leiddust út á villigötur, en var þó bjargað af sínum eigin mönnum. Nú gerum við sjálfstæðismenn tilraun til þess að bjarga þeim af þeim villigötum, sem þeir eru á í þessu frv. Því miður virðist sú björgunarviðleitni ekki hafa borið nægilega mikinn árangur.