07.05.1958
Sameinað þing: 43. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1938 í B-deild Alþingistíðinda. (3071)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vildi vekja athygli á því, að enn hefur ekki verið skilað nál. varðandi 4 þáltill., sem ég hef flutt, ýmist einn eða ásamt öðrum. Það eru till. um myndastyttu af Ingólfi Arnarsyni og skýrsla um Ungverjalandsmálið, sem voru sendar til hv. utanrmn., og till. um athugun á menntaskólahaldi í Skálholti, sem var send til allshn., og till. um Stjórnarráð Íslands, sem var send til fjvn.

Ég hef hreyft þessum málum hér áður, en án árangurs. Það má segja, að nokkuð ólíkt standi á um þau, vegna þess að kunnugt er, að það eru þó haldnir fundir í allshn. og fjvn., þannig að minni hl. þar hefur í hendi sér að gefa út minnihlutaálit, þegar þrautreynt er, að meiri hl. fáist ekki til þess að afgreiða málið. Ég vil beina því til minni hl., að hann a. m. k. athugi það sem neyðarúrræði, þó að æskilegt væri, að nefndirnar í heild fengjust til að taka málið til afgreiðslu.

En þetta úrræði er ekki fyrir hendi varðandi utanrmn. og þær till., sem þar liggja fyrir, því að í henni fæst alls ekki fundur haldinn. Ég vildi spyrja hæstv. forseta þeirrar ákveðnu spurningar, hvort hann telur fært fyrir minni hl. að kljúfa sig út úr nefndinni, ef ekki fæst haldinn lögmætur fundur í n. yfirleitt, eða hvort hægt er að safna mönnum saman á nefndarfund án atbeina formanns, annaðhvort meiri hl. eða minni hl., þannig að einhverju nál. verði komið út.

Þetta er mikilsvert, að þm. fái leiðbeiningu um. Efnislega má þó segja, og ég vil segja það hér berum orðum, að það væri ákaflega óviðfelldið, ef það þyrfti að gefa út minnihlutaálit, sérstaklega ef það væri með vafasamri formlegri heimild, að minni hl. skæri sig frá meiri hluta, — þá væri það ákaflega varasamt og leitt, ef það þyrfti að gefa út minnihlutaálit um till. varðandi myndastyttu af Ingólfi Arnarsyni. Ég stend í þeirri meiningu, og menn úr öllum flokkum hafa tjáð mér, að það sé meiri hl. á Alþingi fyrir samþykkt þessarar till. og það hafi ekki orðið vart neins ágreinings um afgreiðslu málsins, eftir að upplýst er, að kostnaður við þessa framkvæmd verður síður en svo talinn óviðráðanlegur.

Þegar þannig stendur á, þá er það með öllu óviðunandi, að málið skuli ekki fást tekið fyrir í nefnd, og það er einnig með öllu óviðunandi, að einstakir nefndarmenn verði neyddir til þess að gefa út sérálit um slíkt mál, þannig að það liti út fyrir, að þingið sé klofið um mál, sem ég hef fulla ástæðu til að ætla, að þingheimur sé sammála um, og mál, sem ekki veit fyrst og fremst að okkur inn á við, heldur gagnvart okkar nánustu frænd- og vinaþjóð, Norðmönnum. Hér er því um gersamlega óviðunandi ástand að ræða, og ég vil beina því til hæstv. forseta og ríkisstj., allra þeirra, sem þessu ráða, að úr þessu verði bætt, þannig að málið fáist fyrir tekið og ekki verði úr því leiðindamál, öllum þingheimi til skammar.

Varðandi skýrsluna um Ungverjalandsmálið má segja, að öðruvísi standi á. Mér þykir ekki ósennilegt, að það kunni að vera deilumál. Það er skiljanlegt, að sumir valdamiklir menn hér á Alþingi séu því andstæðir, að skýrsla um Ungverjalandsmálið verði gefin út á Íslandi, svo að það sjáist, hversu áberandi margt er líkt um stjórnarhætti í Ungverjalandi og Íslandi nú, þó að það sé aðeins lítill skuggi á Íslandi, sem er orðið mara í Ungverjalandi. Skiljanlegt er, að um þetta geti verið málefnalegur ágreiningur. En hitt er óskiljanlegt með öllu, að það skuli staðið á móti og hindruð þingleg meðferð máls eins og styttunnar af Ingólfi Arnarsyni, máls, sem er flutt af þingmönnum úr öllum þingflokkum, að því er ég bezt veit, eftir að þeir voru búnir að hafa samráð við sína þingflokka, og þegar flm. fullyrða, að það sé engin andstaða enn í þingflokkunum á móti málinu.

Þegar litið er til þeirra mála, sem eru fyrir hv. utanrmn., þá er mjög torskilið, af hverju nefndin fæst ekki kölluð saman. Einhver hefur látið sér detta í hug, að það kynni að vera vegna þess, að koma ætti í veg fyrir kosningu undirnefndarinnar, sem á að vera til ráðuneytis hæstv. ríkisstj. í utanríkismálum. En ég sé ekki, af hverju meiri hl. utanrmn. getur ekki alveg eins fellt að kjósa undirnefndina, þó að hann brjóti með því lög, eins og lög eru brotin með því að kalla ekki saman utanrmn. til þess að hún geti kosið þessa lögskipuðu nefnd. Og ég skil ekki, af hverju form. utanrmn. einn er látinn taka á sig ábyrgð af þessu lögbroti, sem er óhugsandi að honum héldist uppi, nema hann hefði þinglegt fylgi til þess á bak við sig.

Og jafnvel þó að undirnefndin væri kosin, þá sé ég ekki, ef hæstv. ríkisstj. vill fram halda í sínum lögbrotum, af hverju hún getur ekki neitað að kveðja þriggja manna nefndina til, eins og hún hefur skotið sér undan að bera nokkurt mál undir utanrmn. Það hefur heyrzt sú skýring á þessu, að það væri fyrirsjáanlegt, að ef undirnefndin yrði kosin, þá yrði í hana óhjákvæmilega kosinn einn af Alþýðubandalagsmönnum eða kommúnistum, hverju nafni sem við viljum nú nefna þann mjög virðulega flokk, og það væri talið mikilsvert út á við, að það kæmi fram, að menn úr þeim flokki væru ekki kvaddir til meðferðar utanríkismála. En ef mennirnir hafa þinglegan styrk til þess að vera í þessari nefnd, þá er ekki hægt með þessu móti að hindra þá í að verða þar kjörna. Þá þarf að breyta lögum til þess að svipta þá þeim möguleika.

Auk þess er það fullkomin blekking, ef með þessu móti á að gefa í skyn og vekja þá fölsku von hjá okkur vinveittum þjóðum, að kommúnistar hafi ekki afskipti af og full ráð í utanríkismálum á við aðra stjórnarflokka. Vitanlega lætur sá flokkur ekki bjóða sér að sitja í ríkisstj. árum saman án þess að fylgjast með öllum þeim utanríkismálum, sem hann lætur sig nokkru skipta.

Það er þannig fyrir löngu orðið ljóst, að áframhaldandi dvöl varnarliðsins hér á landi er samþykkt jafnberlega og ótvírætt af Alþb. og Sósfl. og kommúnistum eða hvað þeir nú kalla sig eins og öðrum stjórnarflokkum.

Ef þeir hefðu nokkurn áhuga fyrir því að láta varnarliðið hverfa burt, þá hefðu þeir að sjálfsögðu beitt sínu afli innan ríkisstj., í fyrsta lagi til þess að fá málið tekið fyrir á stjórnarfundi og í öðru lagi til þess að knýja fram framkvæmd á stjórnarsamningnum um þetta efni, en málgagn hæstv. utanrrh. hefur skýrt frá því, að ráðherrar Alþb. hafi ekki hreyft málinu í ríkisstj. allan tímann, frá því að ríkisstj. var mynduð.

Það er líka opinbert mál hér í þinginu nú, að dráttur er nú orðinn á afgreiðslu mikilvægra mála vegna tortryggni stjórnarflokkanna innbyrðis varðandi viðkvæm mál, sem mjög snerta utanríkisaðgerðir.

Með þeim drætti, sem þannig er á orðinn, þá er sannað svo berlega, að ekki þarf um það að þræta, að hver stjórnarflokkur hefur í hendi sér að stöðva framgang allra mála, þangað til hann hefur tryggingu varðandi afgreiðslu annarra mála á þann veg, sem hann telur sér henta. Þetta liggur í augum uppi og hefur alltaf verið vitað, en er að sannast áþreifanlega fyrir þingheimi þessa dagana.

Ég vil því af öllum þessum ástæðum mjög eindregið fara þess á leit, að það verði hætt þessum skollaleik, sem engan svíkur lengur, að utanrmn. verði kölluð saman, að hún fái að afgreiða þau mál, sem til hennar hefur verið skotið. Stjórnarflokkarnir svo um það, hvort þeir kjósa þriggja manna nefndina. Þeir geta beitt þar meirihlutavaldi sínu, ef þeir vilja, og stjórnin getur haft nefndina að engu, ef henni sýnist. En það minnsta er þó, að formlega sé farið að bókstaf laganna, og það allra minnsta, að ekki sé trufluð meðferð annarra mála og þjóðin gerð að viðundri út á við, eins og lítur út fyrir að eigi að gera gersamlega að þarflausu varðandi till. um gjöfina til Norðmanna.