07.05.1958
Sameinað þing: 43. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (3072)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Forseti (EmJ) :

Án þess að fara að ræða bollaleggingar hv. 1. þm. Reykv. almennt, þá skal ég þó taka fram, að ég er ekkert síður en hann óánægður með þann drátt, sem orðið hefur á afgreiðslu nokkurra mála, bæði í þessari nefnd, sem hann nefndi, og öðrum. Það er ekki einasta, að þessar 4 þáltill., sem hann minntist á, liggi óafgreiddar hjá nefndum, heldur ýmsar aðrar, bæði sem ég sjálfur er flm. að og aðrir fleiri. Og það væri mjög æskilegt, að þeir, sem um nefndarstörfin eiga að sjá, sæju nú til þess, að till. gætu verið afgreiddar á einn veg eða annan, aðeins að afgreiðsla fari fram, svo að hv. alþm. gætu fengið þær hér til endanlegrar afgreiðslu. (Gripið fram í.) Já, ég ætlaði að segja um það nokkur orð líka, en ef ekki kemur neitt nál. um þau mál, sem ég tel alveg nauðsynlegt að afgreiðslu fái, þá mun ég taka til athugunar, hvort ekki verður nauðsynlegt að taka málin á dagskrá án nál. eða koma þeim á annan hátt inn í þingið aftur.