04.02.1958
Sameinað þing: 24. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (3075)

Minning látinna manna

forseti (EmJ):

Síðastliðinn föstudag, 31. janúar, andaðist Páll Hermannsson fyrrverandi alþingismaður, 77 ára að aldri. Verður hans minnzt hér með nokkrum orðum.

Páll Hermannsson fæddist 29. apríl 1880 á Þorgerðarstöðum í Fljótsdal. Foreldrar hans voru Hermann bóndi þar og síðar á Krossi í Fellum Jónsson og fyrri kona hans, Soffía Guðbrandsdóttir smiðs úr Kelduhverfi Gunnarssonar. Páll missti móður sína nokkrum dögum eftir fæðingu og ólst upp hjá föður sínum og stjúpmóður. Á fjórtánda ári missti hann einnig föður sinn og dvaldist eftir það í Fljótsdal, unz hann gekk í Möðruvallaskóla og brautskráðist þaðan vorið 1903. Eftir það dvaldist hann enn um skeið í Fljótsdal, var á sumrum verkstjóri við brúargerð á Lagarfljóti. Á árunum 1905–1909 var hann húsmaður í Bót í Hróarstungu, 1909–1923 bóndi á Vífilsstöðum í sömu sveit, en gerðist árið 1923 bústjóri skólabúsins á Eiðum. Eftir nokkur ár keypti hann skólabúið og rak það til ársins 1946 er hann brá búi og fluttist til Reyðarfjarðar og tók þar að sér umsjónarstörf fyrir Kaupfélag Héraðsbúa. Átti hann síðan heimili á Reyðarfirði til dauðadags.

Jafnframt bústörfum á Eiðum gegndi Páll Hermannsson um hríð kennslustörfum við Eiðaskóla, og um langt skeið var hann valinn til forustu í ýmsum málum sveitar sinnar og héraðs. Hann var mörg ár hreppsnefndaroddviti og sýslunefndarmaður, átti lengi sæti í stjórn Búnaðarsambands Austurlands og Kaupfélags Héraðsbúa og var formaður í þeim samtökum. Á árunum 1928–1946 var hann fulltrúi Norðmýlinga á Alþingi, sat á 25 þingum alls. Í landsbankanefnd átti hann sæti 1936–1947.

Páll Hermannsson var atgervismaður, mikill að vallarsýn, gáfaður og minnugur. Í stuttri skólavist sýndi hann skarpa námshæfileika, og síðan aflaði hann sér af sjálfsdáðum staðgóðrar menntunar og víðtæks fróðleiks um sögu lands og þjóðar. Hann var ágætlega máli farinn, rökvís og orðfimur, talaði og ritaði vandað og fagurt mál. Hann var málafylgjumaður, en þó jafnan drenglundaður og hygginn og gat sér því gott orð bæði andstæðinga og samherja.

Ég vil biðja hv. alþm. að votta minningu hins látna sæmdarmanns virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]