05.11.1957
Sameinað þing: 11. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (3083)

Varamenn taka þingsæti- rannsókn kjörbréfa

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Ég vil aðeins mótmæla hér þeim ummælum, sem hér hafa verið höfð í frammi af hv. 1. þm. Reykv. í garð fjarstaddra alþm. og þá alveg sérstaklega í garð forseta Nd., sem hér er fjarstaddur, og tel þau ummæli á allan hátt mjög ómakleg og óeðlileg, sem hann hefur hér látið falla um hann. Ég ætla, að það sé almennt dómur þingmanna, að hann hafi rækt störf sín sem forseti í deildinni vel og ekki brotið þar neinar settar reglur, heldur farið að öllu eftir því, sem reglur mæla fyrir um.

Jafnframt vil ég lýsa undrun minni á þeirri ræðu, sem hv. 1. þm. Reykv. hefur hér haldið um þetta mál. Hér er til umræðu kjörbréf, og afgreiðsla þeirra hefur venjulega farið eftir mjög föstum reglum. Hv. þm. lýsir því yfir, að við kjörbréfið sé ekkert að athuga. Hann lýsir því enn fremur yfir, að hann vilji ekki gera neina aths. út af fyrir sig út af þeim forföllum, sem hér eru boðuð í sambandi við það, að varaþingmaður þarf nú að taka sæti, enda veit hann, að það hefur verið hér föst regla á Alþ. um margra ára skeið, að þegar þm. eru fjarri þingstað, þá hefur það athugasemdalaust verið tekið, þegar óskað hefur verið eftir því, að varamaður tæki sæti þingmanns, en ekki látin fara fram nein sérstök rannsókn á því í hverju tilfelli um sig, vegna hvers þm. hefur talið sig þurfa að víkja af þingstaðnum. Hann lýsti því einnig yfir, að út af fyrir sig, þar sem hér sé fullt ferðafrelsi, þá sé ekkert við það að athuga, að einstakir þm. eða aðrir fari í nafni þeirra fulltrúasamtaka, sem þeir annars kunna að vera í, því að þeir hafi fullt ferðafrelsi. En hvernig stendur þá á hans mótmælum hér, ef hann er ekki að reyna að fika sig í þá áttina að reyna að koma hér á einhverju ferðaófrelsi, að ætla að þvinga menn til þess, að þeir megi ekki fara nema í tiltekin lönd og það á tilteknum tíma?

Vissulega hafa þessir tveir hv. alþm., sem hér eiga hlut að máli, fullt frelsi til þess eins og aðrir að ferðast út fyrir landssteinana og velja það land, sem þeir ferðast til, og rækja þær skyldur, sem þeim eru lagðar á herðar af þeim félagasamtökum og flokkum, sem þeir eru í, og er þar vitanlega enginn munur á þessum mönnum og öðrum alþingismönnum.

Ég vil líka benda á, að það er ekkert einstakt fyrirbæri, hvorki í sambandi við alþm. né aðra, að nafntogaðir menn og það úr öllum flokkum fari jöfnum höndum til þessa lands, sem hér er um að ræða, og annarra landa. Ég minnist þess t. d., að ekki er langt síðan einn af nafntoguðustu mönnum á vegum Sjálfstfl. í þessu landi, Magnús Jónsson dósent, hafði verið ráðh. flokksins um nokkurra ára skeið og jafnan gætt einhverra mestu trúnaðarverka á vegum þess flokks, sem hv. 1. þm. Reykv. talar hér fyrir, hann tók sér ferð á hendur austur til hins kommúnistíska Kína og fór þá yfir Sovétríkin líka. Þannig mætti vitanlega nefna fjöldamarga menn úr öllum flokkum, sem hafa jafnt farið til þessa lands og annarra, og hafa þá ekki verið uppi höfð mótmæli á Alþ. eða annars staðar, þó að þeir kysu að fara þangað, enda hygg ég, að það muni líka sanni nær, að þessi hv. þm., sem hér talaði, hafi nokkrum sinnum líklega rennt hýru auga til þess að fá boð um að fá að fara til þessa lands, sem hér er um að ræða, þó að það láti svona í honum að þessu sinni.

Auk þess vil ég svo nota tækifærið til þess að lýsa yfir fullkominni andúð minni á öllum ómaklegum ummælum, sem hér eru látin falla í sambandi við afgreiðslu þessa máls um eina af okkar þýðingarmestu og beztu viðskiptaþjóðum, sem við höfum átt og eigum. Það er vitanlega í hæsta máta óeðlilegt að blanda hér inn í afgreiðslu gersamlega óskyldra mála hnútukasti til þessarar þjóðar og á allan hátt óviðeigandi.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja um þetta frekar. Hér er vitanlega um það að ræða, að það er þörf nokkurra sjálfstæðismanna til þess að gusa úr skálum reiði sinnar út í það, að tilteknir menn hafa farið til tiltekins lands, það áttu þeir vitanlega að gera á öðrum stað, en hér á Alþingi og í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Það er siður þeirra manna, sem kunna mannasiði, að afgreiða mál eins og efni standa til, en ekki að taka hér upp umræður um gersamlega óskylda hluti.

Ég legg svo til, að það kjörbréf, sem hér er raunverulega til umræðu, verði afgreitt, og ef hins vegar Sjálfstfl. óskar eftir almennum umræðum hér um gersamlega óskylt mál, þá verður vitanlega tækifæri til þess, en þá á líka að gera það undir öðrum dagskrárlið en þessum.