13.11.1957
Sameinað þing: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (3089)

Varamenn taka þingsæti- rannsókn kjörbréfa

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég vil bara taka fram út af því, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Reykv. (BBen), að ég tel það alls ekki neitt óeðlilegt, heldur sjálfsagt, að málið sé tekið fyrir á þann hátt, sem forseti ætlast til, utan dagskrár, strax og bréfið kemur fyrir. Það er annað mál, hvernig stendur á því, að bréfið hefur ekki komið, og það stafar einfaldlega af því, að það var ekki búið að útvega það kjörbréf, sem nú liggur fyrir, en það er sem sagt tekið fyrir af hæstv. forseta, um leið og kjörbréfið liggur fyrir.

Hv. 1. þm. Reykv. þarf ekki að segja okkur hér, að hann sé óviðbúinn. Þetta er mál, sem hann var búinn að ræða mjög mikið í fyrra, og það er ekkert nýtt í þessu máli fram yfir það, sem þá kom fram, þannig að það er ekkert atriði í málinu, sem hann þarf að kynna sér og þarf sérstakan tíma til þess.

Ég vil þess vegna eindregið styðja það, að forsetinn fylgi þeim hætti, sem hann hefur hugsað sér, að taka kjörbréfið fyrir núna og veita þá fundarfrest, á meðan kjörbréfanefndin fjallar um það.