03.12.1957
Neðri deild: 32. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

67. mál, fasteignamat

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er borið fram í þeim tilgangi að koma í veg fyrir, að sveitarfélög verði fyrir tekjuskerðingu, en svo gæti farið, að þau yrðu það, vegna þess að þess var ekki gætt við setningu laga, sem tóku gildi á s.l. sumri um samræmingu á mati fasteigna, að taka þar fram í 10. gr. l., að reglugerðir, sem til var vitnað, skyldu allar halda gildi og viðmiðun vera óbreytt um gjaldskrár ýmiss konar.

Þetta stafaði af gáleysi. Svo standa sakir, að með lögum um samræmingu á mati fasteigna ákvað fjmrh., að hið nýja samræmda mat skyldi ganga 1 gildi 1. maí núna í ár, en samkvæmt 10. gr. þeirra laga féllu þann dag úr gildi lög nr. 29 frá 4. febr. 1952, um heimild fyrir sveitarstjórnir til þess að innheimta með ákveðnu álagi fasteignaskatta til sveitarsjóða. Jafnframt féllu einnig úr gildi allar reglugerðir sveitarfélaganna um fasteignaskatta svo og allar reglugerðir um vatnsskatta og lóðagjöld og holræsagjöld og máske fleiri gjöld, sem miðuð eru við fasteignamatið. Í sumum þessara reglugerða eru ákvæði um, að gjalddagar skattanna skuli vera hinir sömu og gjalddagar annarra sveitarsjóðsgjalda. Það getur því farið svo, að einhver hluti þessara gjalda verði á þessu ári ekki innheimtur með löglegum hætti, eins og nú standa sakir, og gæti þá leitt til þess, að sveitarfélög yrðu fyrir tekjuskerðingu, sem þau eru auðvitað allsendis óviðbúin að taka á sig. Í þessu frv, er þess vegna lagt til, að lögin um samræmingu á mati fasteigna breyti ekki í neinu opinberum gjöldum, sem miðuð eru við fasteignamatið og falla í gjalddaga 31. des. 1958, en hins vegar verði þessi gjöld frá þessum tíma miðuð við hið nýja mat á þann veg, að það leiði ekki sjálfkrafa til hækkunar á þessum gjöldum. Einnig er lagt til, að sveitarstjórnir endurskoði samþykktir, reglugerðir og gjaldskrár um álagningu gjalda, sem miðuð eru við fasteignamatið, og leiti síðan staðfestingar á þeim hjá stjórnarráðinu eða hjá sýslunefndum, ef um er að ræða fasteignaskatta til hreppa. Það er vafalaust, að það mundi taka alllangan tíma og hlýtur að taka alllangan tíma að endurskoða þessar reglugerðir og gjaldskrár, og þess vegna teljum við, að frestur til þess þurfi að veitast til ársloka 1958, en þá eigi að vera hægðarleikur að vera búinn að koma öllum þessum gjaldskrárákvæðum í lag og endurskoða þær og samræma þær löggjöfinni.

Það eru tiltölulega fá sveitarfélög, sem hafa notfært sér heimild l. nr. 29 frá 1952, og þykir því rétt að leggja til, að þau lög verði nú afnumin, enda fá þessi sveitarfélög frá 1. jan. 1959 möguleika til þess að fá verulegan hluta þess álags vegna hækkunar á matinu.

Það er sammæli allra, sem hafa kynnt sér það, að lögin frá 27. júní 1921, um fasteignaskatt, séu nú orðin algerlega þýðingarlaus, eins og þau eru nú orðin eftir þá breytingu, sem á þeim var gerð með lögunum frá 1957. Heimild fyrir sveitarfélög til þess að leggja á fasteignaskatt er til í lögum frá 1945, sem veita rýmri heimildir en þær, sem fólust í lögunum frá 1921, og er því talið rétt, að þau verði felld niður, og getur ekki komið í bága við hagsmuni sveitarfélaganna. Að öllu öðru leyti eru ákvæði laganna frá 1945 í samræmi við lögin frá 1921, að því er varðar undanþágu, tryggingu o.fl. Þess vegna er lagt til, að þessi lög verði nú numin úr gildi.

Að öðru leyti er ástæðulaust að fjölyrða um frv. En þar sem hér er um að ræða mál, sem gæti verið óheppilegt að veltist lengi fyrir þinginu, hef ég farið fram á það við hv. stjórnarandstöðu, að hún féllist á, að þessu frv. væri hleypt í gegnum þingið á sem skemmstum tíma. Það er ekki verið að breyta neinu öðru, en að tryggja það, að öll gjöld, sem við er miðað í fyrrnefndri lagasetningu, haldist óbreytt ákveðinn tíma, meðan verið sé að endurskoða reglugerðir og gjaldskrár hjá sveitarfélögunum, og vænti ég, að við því verði orðið. Ég hef borið þau tilmæli fram og tel, að það væri heppilegra, að lagasetningin gæti hér farið hljóðalaust gegnum þingið á sem skemmstum tíma.