11.12.1957
Neðri deild: 37. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

67. mál, fasteignamat

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vakti athygli á því á síðasta Alþingi, að það væri varla vert að viðhafa þá venju að veita afbrigði til þess að taka mál til meðferðar, þegar þau hafa ekki verið lögð fram með lögskyldum fyrirvara.

Þeir fyrirvarar, sem ætlaðir eru í þingsköpum, eru til þess, að þm, gefist færi á því að átta sig á málunum og kynna sér þau, áður en þau koma til umr., og þeir eru engan veginn eingöngu settir af formsástæðum, heldur vegna þess, að reynslan hefur sýnt, að þingskipulag fengi ekki staðizt, nema því aðeins að þm, ættu þess kost að átta sig á þeim málum, sem eiga að koma til ákvörðunar þeirra.

Í vetur hefur þinghaldinu verið háttar þannig, að oftast nær hafa verið mjög fá mál á dagskrá, stundum hafa þingfundir ekki staðið nema eina eða tvær mínútur. Einhver sagði, að meðaltal þingfunda í Nd., þangað til nú í þessari viku, mundi vera 71/2 mínúta hvern fundardag. Þegar ekki hleðst að meira af störfum, en þessu nemur, sýnist ekki vera ofætlun að haga þingstörfum þannig, að þm, eigi þess kost að njóta lögáskilinna fresta til þess að kynna sér þau mál, sem fyrir liggja. Það er ómögulegt, ef mörg skjöl eru lögð á borð þm., eins og t.d. nú, allmörg skjöl, að ætlast til þess, að menn hafi rennt augunum yfir þau, hvað þá heldur hugleitt, áður en til umr. kemur. Og ég verð að átelja mjög þann hátt, sem virðist vera orðinn nokkuð fastur, að loksins þegar einhver mál koma til meðferðar, þá er látið sem þeim liggi svo mikið á, að lögáskildum frestum megi ekki fylgja.

Ég vil þess vegna beina því til hæstv. forseta, alveg án tillits til þeirra mála, sem hér liggja fyrir, sem ég hef í raun og veru ekkert við að athuga að fram gangi skjótlega, hvort hann vilji ekki breyta til og fylgja þeirri reglu yfirleitt að ætla mönnum lögáskilda fresti. Mér er það fullljóst, að meiri hluti Alþingis, stjórnarliðið, hefur það í hendi sér og vafalaust af því mikla ánægju að greiða atkv. um að taka þessi mál fyrirvaralaust á dagskrá., Þeirra helzta stolt af þingstörfunum virðist vera með þeim hætti að taka ómelt og óathugað við því, sem stjórnarherrarnir fá þeim í hendur. Þegar Alþingi kom saman og fjárlög voru lögð fram með nær 100 millj. kr. tekjuhalla, var lýst yfir því, að það væri vegna þess, að stjórnin vildi bera sig saman við lið sitt um það, hvernig fram úr þessum vanda ætti að ráða. Nú veit allur þingheimur, að ákveðið er að afgreiða fjárlög með mjög óvenjulegum hætti, og þó að það að sjálfsögðu verði ekki játað hérna í þingsölum, þá vita allir þm. það jafnvel, að það er ekki með vitund flokkanna, sem að ríkisstj. standa, sem þær ákvarðanir eru teknar, sem nú á að knýja fram, heldur eru þær ákvarðanir teknar af sjálfri ríkisstj. og síðan sendar sem alger fyrirskipun til sinna flokksmanna og þeim ætlað að fylgja í blindni.

Mér dettur ekki í hug, að mér takist að leysa þennan — ja, mér liggur við að segja auma lýð, en vil ekki nota það orð, úr þeim álögum, sem hann virðist vera lentur í, og geri ráð fyrir því, að þeir samþykki öll þau afbrigði frá þingsköpum, sem nú eru ráðgerð og ákveðin, til þess að firra þingheim þeim rétti, sem hann á til að kynnast málunum, áður en ákvarðanir eru teknar. En ég verð að segja, að ég ber þó það meira traust til hæstv. forseta, að hann vilji ekki gersamlega misbeita sinni stöðu til þess að brjóta á móti þeim þingræðisreglum, er hann er settur til að framfylgja, og vildi því beina til hans, hvort hann teldi ekki ráðlegra að hafa á þessu annan hátt, en upp hefur verið tekinn.

Jafnframt verð ég, þótt það varði ekki beint þetta atriði, en það varðar starf þingdeildarinnar og Alþingis, að hreyfa því, að það hlýtur að koma mjög kynlega fyrir sjónir, að nú skuli einn þeirra daga, sem samkvæmt föstum starfsháttum hefur verið ætlaður Sþ., tekinn undir deildafundi.

Reynslan í vetur hefur sýnt, að deildafundir hafa yfirleitt staðið mjög stutt og vandræði hafa verið að finna nóg verkefni fyrir deildirnar, en engu að síður hefur þeim verið ætlaður langsamlega mestur hluti af fundartíma Alþingis. Á hinn bóginn hefur Sþ. alls ekki komizt yfir að anna 1. umr. líkt því allra þeirra þáltill., sem þar liggja fyrir. Ég veit um sjálfan mig, að það er drjúgur mánuður, síðan ég bar fram till. um mikils háttar efni varðandi birtingu skýrslna um Ungverjalandsmálið. Þó að þeirri till. hafi verið útbýtt fyrir meira en mánuði, og hún oft verið á dagskrá, hefur hún aldrei getað komið til umr., ekki vegna neinnar vanrækslu hæstv. forseta Sþ., heldur vegna þess, að nauðsyn hefur þótt að taka önnur mál á undan, sennilega eftir réttri röð um framburð þeirra, — ég skal ekki véfengja það. En niðurstaðan er sú, að þessi till. virðist ekki hafa von um það einu sinni að komast til nefndar á þeim fyrri hluta þingsins, sem nú er langt liðinn. Og ég verð að telja það mjög miður farið, að sá háttur skuli vera hafður á í þinginu, að deildunum með svo að segja ekkert verkefni fyrir höndum skuli vera ætlaður nær allur fundartíminn, en Sþ. með ærið verkefni skuli vera svo hrapallega afskipt sem raun ber vitni. Ég skil að vísu, að nú þykir nauðsyn að knýja fram fyrir jólafrí einhver tiltekin mál, en vandinn hefði þá verið einungis sá að leggja þau fram fyrr, þannig að hæfilegur, lögmætur tími hefði gefizt til meðferðar þeirra, en ekki beita þeirri aðferð, sem hér sýnist vera ráðgerð.