04.06.1958
Sameinað þing: 54. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (3159)

Þinglausnir

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér fyrir hönd þingmanna að þakka þau fögru orð og góðu óskir, sem hæstv. forseti beindi til okkar. Það er kunnugt mál, að hæstv. forseti sameinaðs þings og ég erum ekki sammála um allt, og virtist mér það nú koma fram í fáum orðum, sem hann sagði um síðasta deilumál Alþingis. En það vona ég, að hæstv. forseti geti verið mér og öllum öðrum þingmönnum sammála um, að hann hefur verið prýðilegur forseti, réttlátur og röggsamur, og fyrir það leyfi ég mér að færa honum þakkir. Ég veit ég mæli fyrir hönd allra þingmanna, þegar ég bið honum og ástvinum hans allrar blessunar og læt í ljós þá ósk og von, að við megum hitta hann heilan hér, þegar við komum saman að nýju. Vil ég leyfa mér að biðja hv. alþm. að rísa úr sætum og staðfesta þar með ummæli mín. [Þingmenn risu úr sætum.]