11.12.1957
Neðri deild: 37. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

67. mál, fasteignamat

Frsm. (Skúli Guðmundason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um breytingu á lögum frá 1955 um samræmingu á mati fasteigna.

Í lögunum nr. 33 1955, um samræmingu á mati fasteigna, var ákveðið, að við gildistöku nýja matsins skyldu falla úr gildi ákvarðanir stjórnarvalda um opinber gjöld, sem heimt eru sem hundraðshluti af fasteignamati, og komi nýjar ákvarðanir til.

Hið endurskoðaða fasteignamat gekk í gildi 1. maí þetta ár, en eins og vænta mátti tekur það nokkurn tíma að semja nýjar gjaldskrár um þau opinberu gjöld, sem miðuð eru við fasteignamat, og fá staðfestingu stjórnarvalda á þeim. Hefur því þótt óhjákvæmilegt að veita hæfilegan frest til endurskoðunar á þessum gjöldum, og í þeim tilgangi er frv. þetta fram borið. Er þar lagt til, að sveitarstjórnum verði gert að endurskoða samþykktir, reglugerðir og gjaldskrár um opinber gjöld til sveitarsjóða, sem miðuð eru við fasteignamat, og leita staðfestingar réttra stjórnarvalda á þeim og hafa lokið þessu fyrir 1. jan. 1959.

Jafnframt er ákveðið í frv., að þar til nýjar reglur hafa verið settar, skuli sveitarstjórnum heimilt að innheimta slík gjöld á sama hátt og áður var gert, þ.e. miða þau við eldra fasteignamatið. Er þá einnig heimilt, meðan farið er eftir eldri reglunum, að innheimta gjöldin með því álagi, sem um getur í lögum nr. 29 frá 1952. Þetta gildir þó í engu tilfelli lengur, en til ársloka 1958.

En jafnskjótt sem eitthvert sveitarfélag hefur fengið staðfestar nýjar gjaldskrár byggðar á nýja fasteignamatinu, fellur að sjálfsögðu niður heimildin til þeirrar hækkunar, sem fólst í lögunum nr. 29 frá 1952.

Í 2. gr. frv. er lagt til að fella úr gildi lög um fasteignaskatt, nr. 66 frá 1921, og lög nr. 39/1957, um breytingu á þeim lögum. Í gildi eru önnur lög um heimild sveitarfélaga til að leggja á fasteignaskatta, og þykir óþarft að hafa í gildi tvenn lög um sama efni.

Þetta eru efnisatriði frv., en fjhn. hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að heppilegra sé hvað formið snertir að hafa efnisatriði frv. í bráðabirgðaákvæði við lögin nr. 33 frá 1955, sem gildi til ársloka 1958. Hefur n, gert brtt. í samræmi við þetta og haft um það samráð við ráðuneytið, sem undirbjó málið. Hefur ráðuneytið ekkert við þá formsbreytingu að athuga, og fjhn. er sammála um að mæla með samþykkt frv. með þessum breytingum, sem er að finna á þskj. 120,