18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

67. mál, fasteignamat

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var þar samþ. ágreiningslaust. Frv. var dálítið breytt í hv. Nd. að forminu til, þannig að samkv. till. hv. fjhn. þar voru ákvæði frv, sett í ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 33 14. maí 1955.

Eins og frv. ber með sér, fjallar það aðallega um frest, sem sveitarstjórnum og bæjarstjórnum hefur verið veittur til loka næsta árs til þess að gera reglugerðir um fasteignagjöld, sem þær hafa rétt til að innheimta lögum samkvæmt innan ákveðins ramma, og er miðað, eins og ég sagði, við 1. Jan. 1959, enda eiga þessi lög að gilda til ársloka næsta árs. Enn fremur er svo ákveðið í frv., að lög frá 1921 um fasteignaskatt og síðari lög um breytingar á þeim lögum séu úr gildi felld, enda eru þau lög orðin þýðingarlaus með öllu, þar sem ríkissjóður hefur nú þegar afsalað sér fasteignaskattinum til sveitarfélaganna og það er þá sveitarfélaganna að ákveða fasteignaskattinn innan þess ramma, sem þau hafa rétt til. Þykir nauðsynlegt að veita þennan frest, því að vitanlega tekur það nokkurn tíma að breyta reglugerðum um þetta efni, og er sennilega ekki of langur tími ákveðinn til þess.

Mér skilst, að í þessum tilgangi sé frv. aðallega borið fram.

Enn fremur er það ákveðið í frv., að þar til nýjar reglur hafi verið settar, skuli sveitarstjórnum heimilt að innheimta þessi gjöld á sama hátt og áður var gert, m.ö.o. að miða við eldra fasteignamatið. Er þá einnig heimilt, meðan farið er eftir eldri reglum, að innheimta gjöldin með því álagi, sem um getur í l. nr. 29 frá 1952. En þetta gildir að sjálfsögðu ekki nema til ársloka 1958.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta litla frv. Ég álít, að það orki ekki tvímælis, að það sé í því réttarbót fyrir bæjar- og sveitarfélög, þó að segja megi ef til vill, að það hafi ekki mjög mikla þýðingu, einkum þar sem það munu ekki vera mörg bæjar- eða sveitarfélög, sem nota réttinn til þess að leggja á fasteignagjöld.

Fjhn. þessarar deildar hélt fund um málið, og leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþykkt. Minni hl. n., hv. 6. þm. Reykv. (GTh) og hv. þm, Vestm. (JJós), óskaði eftir fresti til athugunar á málinu, en við, sem þegar vorum ákveðnir í okkar afstöðu um málið, sáum ekki ástæðu til þess að taka frest fyrir okkur að minnsta kosti. En af þessum ástæðum, að frestur var ekki veittur, vildu þessir tveir hv. nm. ekki taka afstöðu til málsins. Skal ég taka það fram, að ég held, að það geti varla verið, að borgarstjórinn í Reykjavík, hv. 6. Þm. Reykv., hafi ekki verið búinn að átta sig á málinu, ekki flóknara en það er, svo að einhverjar aðrar ástæður hafi valdið því, að hann vildi ekki taka afstöðu til málsins. En það þykir nauðsynlegt vegna framkvæmdar á þessu máli, að þessi l. verði samþ. á þeim þinghluta, sem nú stendur yfir, og geti orðið að lögum fyrir áramót, og frá því sjónarmiði var það einnig, að meiri hl. n. vildi ekki fresta málinu, því að með því að fresta málinu í gær á nefndarfundi gat ekki orðið um það að ræða að afgreiða það á þessum þinghluta.