18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

67. mál, fasteignamat

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara að bæta mörgu við, enda var málsvörn hv. frsm. meiri hl. heldur lítilfjörleg.

Það er tvennt, sem hann nefnir sem ástæðu fyrir því, að hann hafi neitað og meiri hl. hafi neitað að athuga málið nánar, en gert var í n. Í fyrsta lagi, að ef sá siður væri tekinn upp að fresta jafnan málum eftir kröfum minni hlutans, geti minni hl. komið í veg fyrir samþykkt mála. Hvað eiga nú svona ummæli að þýða? Hver hefur haldið því fram, að það ætti að fresta og fresta málum, eftir því sem minni hl. þóknaðist.

Það, sem ég hef vitnað í, er það, að ég veit ekki dæmi þess, að þegar mál hefur verið tekið fyrir í fyrsta skipti í n. og fæst einu sinni varla rætt þar, þá sé ekki orðið við kröfum nefndarmanna eða óskum um að fresta málinu til næsta fundar, sem þá vitanlega væri hægt að halda samdægurs seinni partinn eða næsta dag. Þessi ummæli hv. frsm. eru gersamlega út í loftið. Hitt vekur öllu meiri furðu, þegar forseti Ed. lýsir því yfir, að vegna þess að málið hafi verið samþykkt ágreiningslaust í Nd., eigum við að gleypa það ómelt. Ég hélt, að hans virðing fyrir hönd þessarar d., og hefur heyrzt það stundum í munni hans, væri meiri en svo, að hann teldi, að ef Nd, afgreiddi mál, þá sé gersamlega ástæðulaust að athuga það hér í Ed. Hins vegar sýndi ræða hv. frsm. glöggt, hversu lítið hann er inni í þessum málum og hefur lítið sett sig inn í þau. Það hefur ekki eitt orð fallið á þá lund, að ég teldi með þessu verið að ganga á hlut Reykjavíkur, og ummæli hans um það eru gersamlega ástæðulaus og út í hött. Það, sem ég er að tala um, er það, að ég tel málið ekki nægilega upplýst og undirbúið. Það snertir öll sveitarfélög á landinu, ekki Reykjavík fremur en önnur. Ég tel þá málsmeðferð að setja lagaákvæði, sem binda þannig hendur sveitarfélaganna, án þess að það verði borið undir þau eða a.m.k. rætt þá við samtök þeirra, Samband ísl. sveitarfélaga, og að bæta svo gráu ofan á svart að brjóta þingvenjur með því að neita um venjulega athugun á málinu í n., — þetta tel ég alveg óforsvaranlega afgreiðslu.