16.10.1957
Sameinað þing: 3. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. alþm. hafa haft með höndum ríkisreikninginn 1956, aðalreikninginn, og get ég því verið stuttorður um afkomu ríkissjóðs það ár, en vil aðeins drepa á nokkur atriði.

Tekjur fóru fram úr áætlun. Útgjöld fóru einnig talsvert fram úr, en þó minna en tekjurnar. Útgjöld á rekstrarreikningi urðu 57 millj. kr. hærri, en fjárl. gerðu ráð fyrir. Þessar umframgreiðslur nema um 91/2%, og eru það heldur minni umframgreiðslur, en verið hafa yfirleitt. Greiðsluafgangur varð rúmlega 13 millj. kr., og er það dálítið betri útkoma, en gert var ráð fyrir í bráðabirgðayfirliti, sem gert var um þessi efni á s.l. vetri. Kemur hér til, að meira innheimtist af beinum sköttum, áður en reikningum ársins var lokað, en innheimtumennirnir gerðu ráð fyrir, þegar gert var upp til bráðabirgða.

Helztu ástæður fyrir umframgreiðslum eru þessar: Kaupgjaldsvísitala ársins varð nokkru hærri, en gert var ráð fyrir, og mun það valda um 4 millj. kr. umframgreiðslum. Hin nýju launalög munu hafa valdið nokkrum millj. meiri útgjöldum fyrir ríkissjóð en áætlað var, þegar þau voru sett. Landhelgisgæzlukostnaður varð 2 millj, og 300 þús. kr. hærri, en ráðgert hafði verið. Sérstaklega varð rekstur varðskipsins Þórs óhagstæðari, en ráðgert var, og munaði þar 1 millj. kr. Kostnaður við vegamál fór verulega fram úr áætlun, vegaviðhaldið um 4 millj. rúmar og brúargerðir um 5 millj. og 800 þús. kr. Var sú umframgreiðsla ákveðin í samráði við hv. fjvn, s.l. haust. Þá fór strandferðakostnaður fram úr áætlun um 3 millj. og 250 þús. kr. Veldur þar mestu stóraukinn rekstrarhalli á Esju vegna mikillar vélabilunar, sem skipið varð fyrir og kostað hefur stórfé að lagfæra. Langmestar eru þó umframgreiðslur í kennslumálum, eða raunverulega rúmar 8 millj. Hluti ríkissjóðs af rekstrarkostnaði barnaskóla og gagnfræðaskóla hafði t.d. farið 3 millj. kr. fram úr áætlun. Útgjöld ríkissjóðs vegna niðurborgunar á verðlagi innanlands hafa farið 9 millj. og 600 þús. kr. fram úr áætlun á árinu 1956. Neyzluaukning, hefur orðið meiri, en gert var ráð fyrir, en aðallega stafar þessi hækkun af því, að s.l. haust var ákveðið að greiða niður þá verðhækkun, sem átti að verða á landbúnaðarafurðum. Var það í sambandi við þær almennu ráðstafanir, sem þá voru gerðar til þess að stöðva hækkun á kaupgjaldi og verðlagi. Af greiðslum skv. heimildarlögum er helzt að nefna útgjöld vegna óþurrkanna á Suðurlandi 1955, 1 millj. og 50 þús., og eru það eftirstöðvar. Af 20. greinar útgjöldum umfram fjárl. er rétt að nefna: Greiðslur vegna ríkisábyrgðarlána í vanskilum voru áætlaðar 12 millj., en reyndust 18 millj. og 300 þús. Eru þessi útgjöld ríkissjóðs vegna ríkisábyrgða enn sívaxandi, enda beinlínis teknar ríkisábyrgðir fyrir mörg byggðarlög og fyrirtæki þeim til stuðnings, þótt vitað sé, að ekki muni verða staðið í skilum um greiðslurnar. Gerði ég ýtarlega grein fyrir þessum málum í fyrravetur, um leið og ég lagði til, að 18 millj, yrðu veittar á fjárl. yfirstandandi árs í þessu skyni. Er það raunar ljóst, að þær 18 millj, muni ekki einu sinni duga til þess að standa undir þessum töpum á yfirstandandi ári.

Við samanburð á umframgreiðslum nú síðari árin við þær, sem áður voru, kemur í ljós, að umframgreiðslur hafa minnkað verulega að tiltölu. Eigi að síður er full ástæða til að gera sér grein fyrir því, að umframgreiðslur eru enn of miklar. Kemur þar ýmislegt til, og ætti að vera hægt að ráða bót á sumu a.m.k. Svo að segja allur útgjaldabálkur fjárl. er framkvæmdur á vegum útgjaldaráðuneytanna, ef svo mætti að orði kveða, og þeirra stofnana sem undir þau heyra. Þessi ráðuneyti og þessar stofnanir eiga að skila fjmrn. áætlunum og till. um útgjöldin, þegar fjárl. eru samin, Mestur hluti útgjaldanna er lögboðinn eða fyrirsjáanlega óhjákvæmilegur til þess að halda rekstri stofnananna gangandi eða þjónustunni uppi. Allt veltur á því, að áætlanir um slík útgjöld, lögboðin eða af öðrum ástæðum óhjákvæmileg, séu rétt gerðar, en á því hefur verið stórfelldur misbrestur hjá mörgum stofnunum, sem gengið hefur mjög illa að fá úr bætt þrátt fyrir harða eftirgangsmuni fjmrn. ár eftir ár. Það nær auðvitað engri átt, að ekki skuli vera áætluð nokkurn veginn rétt fyrirsjáanleg útgjöld, og vil ég skjóta því til hv. fjvn. Alþ., að hún komi fjmrn. hér til hjálpar og veiti aðhald í þessum efnum.

Hér verður einnig að geta þess, að lengi var sá siður á hafður af Alþ. og ríkisstj. að skera niður útgjaldaáætlanir til þess að veita aðhald, oft án þess að mögulegt væri að komast af með það, sem veitt var. Þessi stefna varð því aðeins til að auka umframgreiðslur og draga úr forstöðumönnunum að vanda áætlanir sínar og standa við þær í framkvæmd. Þessum handahófsniðurskurði á áætlunum er hætt að mestu, en mér leikur grunur á, að enn eimi eftir af áhrifum þeim, sem hann hafði.

Þá er önnur ástæða fyrir umframgreiðslum sú, að forstöðumönnum ýmissa starfsgreina gengur illa að átta sig á því, að þeir mega ekki fara fram úr áætlun fjárl. og ekki gera ráðstafanir, sem hafa umframgreiðslur í för með sér. Eru menn þó sífellt af hendi fjmrn. brýndir til þess að gæta sín í þessum efnum.

Þá kemur hér einnig til, að Alþ. og ríkisstj. hafa mikla tilhneigingu til þess að falla fyrir þeirri freistingu að ákveða útgjöld, eftir að fjárl. hafa verið samþ. Sérstaklega hefur þetta verið áberandi síðan uppbóta-, styrkja- og vísitölukerfið var tekið upp í þjóðarbúskap Íslendinga. Það leiðir af þessu búskaparlagi, að sífellt er að koma fram alls konar ósamræmi í uppbóta- og styrkjakerfinu og sífelld viðureign á sér stað við verðlagið í landinu, sem ævinlega leitar upp á við. Verðhækkanir hér, kauphækkanir þar og verðhækkanir hér, sem metnar eru óhjákvæmilegar, og í því sambandi sífelld pressa í þá átt, að komið sé í veg fyrir verðhækkanirnar í búðunum með fjárframlögum úr ríkissjóði, hvað sem fjárveitingum líður.

Allt þetta kemur til og raunverulega margt fleira í sambandi við framkvæmd fjárl. og baráttuna við að halda ríkisútgjöldunum innan ramma fjárl. En það gefur að skilja, að óhugsandi er, að fjárl. standist, ef fjmrh. getur ekki byggt þau á öruggum og vönduðum áætlunum, og þá ekki heldur, ef forstöðumenn í ríkisrekstrinum gera skuldbindandi ráðstafanir, sem ekki samrýmast fjárl., en fjmrn. neyðist síðan til þess að borga, svo að forðað verði frá vanskilum og hneisu. Hefur þetta ósjaldan skeð á undanförnum árum, en þeim dæmum fer fækkandi, og vil ég treysta því, að þeim fari enn fækkandi og að forstöðumenn í ríkisstofnunum og einstökum starfsgreinum hafi örugga samvinnu um þessi mál við hv, Alþ. og ríkisstj. Þrátt fyrir þetta allt hefur bilið á milli fjárl. og ríkisreiknings farið minnkandi, og stefnir það í rétta átt. En því fer þó fjarri, eins og ég sagði áðan, að ástandið sé orðið eins og það þyrfti að verða.

Auðvitað mundi fjmrn. geta bætt áætlanirnar og komið í veg fyrir sumt af umframgreiðslum einstakra stofnana, ef það hefði heilum her manna á að skipa, sem þekkti í einstökum atriðum allar greinar ríkisbúskaparins og gæti skapað sér sjálfstæða skoðun um hvað eina og verið með nefið niðri í svo að segja öllum ráðstöfunum, jafnóðum og þær væru gerðar, í öllum ráðuneytum skrifstofum og stofnunum. En hvort tveggja er, að fjmrn. hefur viljað komast hjá því að fjölga starfsliði og að það gæti heldur aldrei blessazt, að fjmrn. ætti að taka að sér allan ríkisreksturinn. Slíkt væri ekki framkvæmanlegt, og þess vegna verður að treysta á hin ráðuneytin í þessum efnum og forstöðumenn starfsgreina og skrifstofa, ásamt því takmarkaða aðhaldi, sem hægt er að veita af hendi fjmrn. og Alþ.

Áður en ég vík að frv. því til fjárl., sem hér er til 1. umr., vil ég koma nokkuð að horfunum í efnahagsmálum landsins á þessu ári, þar sem þessar horfur setja að sjálfsögðu sinn svip á fjárlagafrv., og verður að hafa það í huga, þegar frv. er skoðað.

Það, sem einkennir mest ríkisbúskapinn, það sem af er þessu ári, er fyrst og fremst stórkostleg lækkun ríkistekna frá því í fyrra og frá því, sem gert var ráð fyrir, þegar fjárl. voru sett.

Þegar gengið var frá fjárl. í vetur á Alþ., lét ég svo um mælt um tekjuáætlun fjárl.: „Annars er þessi tekjuáætlun byggð á reynslu yfirstandandi árs og því miðuð við, að innflutningur á næsta ári verði svipaður því, sem hann er í ár. Má það í rauninni telja furðu djarfa áætlun að gera ráð fyrir slíku, eins og ástatt er um gjaldeyrismálin. Það er sem sé augljóst, að það er flutt inn meira, en hægt er að borga, og þess vegna þarf aukna framleiðslu og auknar þjóðartekjur, til þess að þetta fjárlagafrv. standist í framkvæmdinni.“

Hv. stjórnarandstæðingar litu á hinn bóginn þannig á, að tekjur væru of lágt áætlaðar, og fluttu tillögur um að hækka tekjuáætlunina. Enda þótt ég héldi, að tekjuáætlunin væri mjög teygð, varð þó ofan á að miða hana við reynslu áranna 1955 og 1956, og var það gert með það í huga, að verið var að gera ráðstafanir í framleiðslumálum, sem gera varð ráð fyrir að mundu hafa í för með sér aukna framleiðslu og auknar þjóðartekjur frá því, sem áður hafði verið.

Við höfum nú fyrirliggjandi yfirlit um tekjur og gjöld ríkissjóðs til ágústloka. Kemur þá í ljós, eins og ég sagði, að tekjur hafa brugðizt verulega á þessu tímabili og útlit mjög alvarlegt. Verðtollstekjur eru t.d. um 31 millj. kr. lægri, en þær voru árið áður, og hluti ríkissjóðs af tekjum útflutningssjóðs er aðeins 50 millj. 1. sept., en átti að verða 108 millj, allt árið, Er raunar nú þegar fyrirsjáanlegt, að greiðsluhalli verður hjá ríkissjóði á þessu ári og sömuleiðis hjá útflutningssjóði, því að tekjur hans hafa einnig brugðizt, Þá kemur spurningin: Hvers vegna lækka tekjur ríkisins og tekjur útflutningssjóðs? Þegar ráðstafanir voru gerðar vegna framleiðslunnar á s.l. vetri, var hlutur útflutningsframleiðslunnar gerður betri, en áður hafði verið um skeið. Á þessu leikur enginn vafi. Ætlunin var að sjálfsögðu sú að jafna skakka, sem þarna hafði verið, og stuðla að aukningu framleiðslunnar. Þetta náði tilgangi sínum að því leyti, að framleiðslan hefur sjaldan verið sótt af meira kappi, en einmitt nú. Óvenju stórum flota var haldið úti til þorskveiða s.l. vetur og til síldveiða í sumar. En uppskeran var ekki að sama skapi. Vertíðin varð léleg, a.m.k. miðað við undanfarin ár mjög léleg, og síldveiðin varð léleg, og sérstaklega varð heildarverðmæti síldarframleiðslunnar ódrjúgt vegna þess, hve síldin var framúrskarandi mögur og afurðarýr til viðbótar aflabrestinum.

Betur sést, hvað hér hefur gerzt, ef athugaður er annars vegar fjöldi þeirra skipa, sem haldið hefur verið til veiðanna, og úthaldsdagar þeirra og hins vegar aflaverðmætið á þessu ári og undanfarið. Hef ég látið athuga þetta, og getur ekki skakkað að ráði. Kemur þá í ljós, ef miðað er við fjölda skipa og úthaldsdaga á vertíð annars vegar 1955 og hins vegar s.l. vetur, að aflaverðmætið nú á vertíðinni er raunverulega um 29% minna en 1955, miðað við framlagið til veiðanna, þ.e.a.s. bátafjöldann og úthaldsdagana. Og ef við tökum á sama hátt meðaltal áranna 1954–1956 og berum saman við vertíðina í vetur, þá kemur í ljós, að aflinn er í vetur um 22% minni að magni, en meðalafli þessara ára, miðað við úthaldsdaga og bátafjölda. Ef við svo lítum á síldveiðarnar, þá kemur í ljós, að í sumar stunduðu 233 skip að meðaltali 47 daga, en í fyrra 187 skip í 37 daga að meðaltali. Það eru því um 60% fleiri úthaldsdagar á sumarsíldveiðum nú, en í fyrra, en heildaraflinn, sem fékkst í sumar, er lægri að verðmæti, en í fyrra. Hér við bætist, að togaraafli hefur verið mun minni, það sem af er árinu, en í fyrra. Af þessu sjáum við betur en ella, hve framleiðsluverðmæti miðað við tilkostnaðinn er stórkostlega miklu minna, en verið hefur.

Í þjóðarbúskapnum koma afleiðingarnar af þessu þannig fram, að gjaldeyristekjur lækka, enda hafa gjaldeyristekjur af varnarliðsframkvæmdum minnkað, en gjaldeyriseyðsla, sem óhjákvæmileg er til þess að halda framleiðslunni gangandi, eykst stórum. Jafnvel að óbreyttum útflutningi og gjaldeyristekjum af framleiðslunni sjálfri minnkar sá gjaldeyrir stórlega, sem hægt er að verja til þess að kaupa annað, en rekstrarvörur og allra brýnustu nauðsynjar, en einmitt þær vörur, sem á hakanum sitja við gjaldeyrisúthlutun, þegar svona fer um úthald og aflabrögð, bera meginþunga þeirra aðflutningsgjalda, sem ætluð eru til þess að standa undir ríkisbúskapnum og framleiðslunni sjálfri í gegnum útflutningssjóðinn.

Einnig kemur hér til greina, að þegar búið er við sífellt uppbótakerfi, sem byggist á mjög mismunandi álögum á aðfluttar vörur, eykst eftirspurnin eftir þeim vörum, sem lægri gjöldin bera, og gjaldeyriseyðslan til kaupa á þeim vex, og verður þá minna af gjaldeyri eftir til kaupa á hinum tollahærri vörum.

Til þess að myndin verði gleggri, hef ég beðið hagstofuna að athuga innflutning og tolltekjur á nokkrum tegundum hátollavara. Kemur þá í ljós, að innflutningur þeirra vörutegunda, sem teknar voru í þetta dæmi, hafði orðíð fram til 1. sept. 50 millj. kr., en 80 millj. kr. í fyrra. Enn fremur kom í ljós, að þessi lækkun innflutningsins í þessum vöruflokkum í dæminu þýddi nærri því 19 millj, kr. tekjutap fyrir ríkissjóð, miðað við innflutninginn í fyrra, og auðvitað mjög stórfellda fjárhæð fyrir útflutningssjóð. Á þessu sjáum við, að hér er ekki lengi að muna.

Þá kemur spurningin: Hefði ekki verið hægt að koma í veg fyrir tekjulækkun hjá ríkissjóði og útflutningssjóði með því að yfirfæra meira fyrir tollháar neyzluvörur?

Þetta hefði vitaskuld verið mögulegt, en þá hefði það að sjálfsögðu þýtt minnkandi innflutning af öðrum vörum, og auðsætt, að eins og gjaldeyrisástandið er og hefur verið hér á undanförnum árum, hefði fljótlega skort nauðsynjar til daglegrar neyzlu og til þess að halda framleiðslunni gangandi, að ég nú ekki tali um framkvæmdirnar. Það fer einnig sífellt vaxandi ár frá ári, eins og hér er háttað, sem sjálf framleiðslustarfsemin og þjóðarbúskapurinn þarf á að halda af gjaldeyri til kaupa á brýnustu nauðsynjum. Veldur því m.a. hin stórfellda vélvæðing framleiðslunnar og sívaxandi samgöngur. Kemur hér fram enn sem fyrr, hversu hættulegt það er að byggja ríkisbúskapinn og framleiðsluna sjálfa að verulegu leyti á innflutningi, sem þjóðin hefur í raun og veru ekki efni á að veita sér nema í einstökum góðærum.

Ég benti áðan á, hversu vetrarvertíðin hefði verið léleg og síldveiðarnar komið illa út. Ég treysti mér ekki til þess að dæma um, hvort hér var um aflabrest að ræða, sem telja megi einstakan í sinni röð. Hitt vil ég fullyrða, að þessi reynsla okkar í ár og reynsla okkar raunar á undanförnum árum bendir örugglega í þá átt, að við getum ekki án þess að biða tjón teflt jafndjarft í þessum efnum og við höfum gert. Við getum ekki og megum ekki eiga það á hættu, að þjóðarbúskapurinn verði fyrir verulegum hnekki, þótt eitthvað beri út af einstaka ár um aflabrögð og framleiðslu. Við getum ekki til frambúðar byggt afkomu framleiðslunnar og ríkisbúskapinn á eyðslu, sem þjóðin getur ekki staðið undir nema í mestu góðærum. Eitt allra gleggsta dæmið um það, sem við ekki getum leyft okkur í þessum efnum, er það, þegar við fyrir nokkrum árum héldum togaraútgerðinni gangandi heilt ár með því að leyfa ótakmarkaðan innflutning á bílum. Við verðum að finna ábyggileg úrræði í efnahags- og framleiðslumálum okkar, úrræði, sem tryggja mikla framleiðslu, fulla atvinnu, og eru fundin og framkvæmd í samráði við samtök vinnandi fólks í landinu.

Afleiðing þess, sem nú hefur gerzt, og þó miklu fremur þess, sem gerzt hefur á undanförnum verðbólguárum, verður fyrirsjáanlega sú, að greiðsluhalli verður á ríkisbúskapnum og greiðsluhalli hjá útflutningssjóði, sem standa ber framleiðslunni skil á því, sem of mikið er af henni krafið. Er því enn fram undan vandi í efnahags- og framleiðslumálum landsins, sem verður að mæta af raunsæi, ef vel á að fara.

Háttvirtir stjórnarandstæðingar hafa undanfarið látið að því liggja, að ráðstafanir ríkisstj. í framleiðslumálum væru hér undirrót. Ekkert er meiri fjarstæða, en einmitt þetta, þar sem augljóst er, að framleiðslustarfsemin öll hefur verið sótt af meira kappi á þessu ári en nokkru sinni fyrr um langt skeið, og það einmitt vegna þess að þessar ráðstafanir, sem ríkisstj. beitti sér fyrir, ýttu undir aukna framleiðslu við fiskveiðar og landbúnað. Það er svo annað mál, að lagt var á tæpasta vaðið, eins og nú sýnir sig. En núverandi ríkisstj. hafði ekki skapað það ástand, sem svo var alvarlegt, að þær ráðstafanir, sem þá voru gerðar til mótvægis og bjargar, hafa ekki reynzt nægilega djúptækar.

Ég hef nú minnzt á horfur varðandi afkomu ríkissjóðs, framleiðsluna, útflutningssjóðinn og gjaldeyrisástandið. En við þetta vil ég bæta því um verðlagið í landinu, að mikið starf hefur verið í það lagt á vegum ríkisstj. að halda því í skefjum. Hefur í mörgum greinum orðið af því starfi góður árangur, Hefur verðlagsvísitalan að vísu hækkað um 2.7%, en það er sízt meira, en fyrir fram var vitað að verða hlyti. En því miður er ekki öll sagan með þessu sögð, því að í nokkrum greinum hefur verðlaginu verið haldið óbreyttu með nýjum niðurgreiðslum á vöruverði. Á þetta við um fisk á innanlandsmarkaði og landbúnaðarafurðir, en fé vantar til þess að standast kostnað við þessar niðurgreiðslur.

En það er fleira, sem þarf að hafa í huga, en það, sem ég nú hef rakið, þegar reynt er að bregða upp mynd af þeim grundvelli, sem fjárlög ríkisins verða að byggjast á. Er hér enn einn höfuðþáttur ónefndur, en það eru fjárfestingarmálin og fjáröflun til framkvæmdanna.

Um langa hríð hefur fjárfesting verið mjög mikil á Íslandi. Sennilega er í fáum löndum jafnmiklum hluta þjóðarteknanna varið til fjárfestingar og hér. Hef ég fengið öruggar skýrslur um fjárfestingu og þjóðartekjur hér á landi undanfarin þrjú ár og í sex löndum, Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Bretlandi, Vestur-Þýzkalandi og Frakklandi. Kemur í ljós af þessari skýrslu, að fjárfestingarprósenta af þjóðartekjum hefur árin 1953 og 1954 verið hæst í Noregi, eða 29.2–29.5%, þar næst á Íslandi 25.8 og 25.4% og svo mun lægri í hinum löndunum fimm. En árið 1955 gerðist það, að fjárfestingarprósentan hér fer langt fram úr prósentu Norðmanna og allra hinna. Eru þá hlutföllin þessi: Ísland 32.5%, Noregur 28.9%, Danmörk 17.1%, Svíþjóð 20%, Bretland 14.7%, Vestur-Þýzkaland 23.2% og Frakkland 16.9%. Er fjárfesting þá orðin langhæst á Íslandi, miðað við tekjur þjóðarinnar, og álitið er, að fjárfestingarprósentan hér hafi verið sem næst 31.2% árið 1956. En frá hinum löndunum hef ég ekki upplýsingar fyrir það ár.

Þessar tölur tala sínu máli, og er ekki að furða, þó að framkvæmdaspenna eins og sú, sem við erum að reyna að halda uppi, setji svip sinn á þjóðlífið allt og valdi verðbólgu og ýmsum vandkvæðum. Framkvæmdir geta ekki orðið kostaðar af öðru fé en því, sem landsmenn leggja til hliðar af tekjum sínum í banka eða sparisjóði og til framkvæmda á sjálfs sín vegum, og svo erlendu fjármagni. Fróðir menn telja, að um 3/4 hlutar hinnar gífurlegu fjárfestingar eftir stríð hafi Íslendingar kostað af eigin fé. Er það ekkert smávegis átak.

Eins og kunnugt er, voru allar innstæðurnar frá stríðsárunum fullnotaðar í árslok 1946, og var minna af því fé, en skyldi varið til uppbyggingar.

Íslendingar fengu mikla Marshallaðstoð hjá Bandaríkjamönnum, aðallega á árunum 1948–53, og hjálpaði það fé mjög til þess að halda uppi hinni miklu fjárfestingu. Þannig fengum við mjög mikinn hluta af stofnkostnaði við síðustu Sogsvirkjun, áburðarverksmiðju og Laxárvirkjun sem gjafafé frá Bandaríkjunum samkvæmt Marshalllögunum, og hafði það vitanlega stórfellda þýðingu fyrir allt efnahagslíf landsins, og án hennar hefði svona mikil fjárfesting ekki verið möguleg.

Stöðug verðbólguþróun átti sér stað í landinu frá 1942, sem minnkaði verðgildi íslenzkra peninga og hafði áhrif í þá átt að draga úr lánsfjármyndun í landinu sjálfu. Þótt verðgildi peninganna minnkaði mjög, var reynt að halda óbreyttu skráðu gengi krónunnar og komið á uppbóta- og styrkjakerfi í staðinn fyrir að breyta gengisskráningunni. Gekk þetta þannig til 1950, að menn töldu ekki lengur fært að halda áfram á þessari braut, og var þá gengi íslenzku krónunnar leiðrétt eða fært til samræmis við það, sem það raunverulega var orðið. Sú ráðstöfun og það, sem aðhafzt var í því sambandi til þess að stilla fjárfestingarframkvæmdum í hóf og koma jafnvægi á ríkisbúskapinn, varð til þess, að þegar áhrif gengisskráningarinnar nýju voru að fullu komin fram, komst stöðvun á verðlagið í landinu, sem segja má að héldist í tvö og hálft ár. Varð þetta til þess, að stórum meira fjármagn fór að safnast fyrir í landinu sjálfu, en áður hafði verið, og kom það að mjög góðu haldi til þess að standa undir kostnaði við fjárfestinguna, enda fór Marshallframlagið þá þverrandi, eins og ráð hafði verið fyrir gert.

En eftir árið 1953 urðu enn tímamót í þessum málum. Slakað var á fjárfestingarhömlum. Ný fjárfestingaralda reis í landinu. Almennar kauphækkanir urðu. Afleiðingarnar komu fram í nýrri verðbólgu, stórhækkandi framleiðslukostnaði, minnkandi sparnaði eða lánsfjármyndun í landinu sjálfu og enn aukinni fjárfestingarpanik, ef svo mætti segja. Aðgangur að erlendu fjármagni var nú mjög takmarkaður og ekki lengur hægt að moða úr innstæðum eða gjafafé. Komust efnahags- og framleiðslumálin í algeran hnút veturinn 1955 og 1956, sem leystur var þá til bráðabirgða með stórfelldum álögum og uppbótum.

Sumarið 1956 var ástandið enn orðið þannig, um stjórnarskiptin, að enn þá var framleiðslukostnaður stórhækkaður og sýnileg stöðvun framleiðslunnar, ef ekkert væri að gert, og ástandið í fjárfestingar- og fjáröflunarmálum til framkvæmda, var síður en svo árennilegt. Lántökur erlendar höfðu þá orðið litlar í tvö ár, eins og ég drap á, enda þótt fast væri eftir leitað, og þær, sem orðið höfðu, voru yfirleitt til stutts tíma til þess að fleyta áfram framkvæmdum, sem enga bið voru taldar þola. Undantekning frá þessu var lán frá Bandaríkjastjórn fyrir mestum hluta erlenda kostnaðarins við sementsverksmiðjuna, sem var til langs tíma. Framkvæmd nýrrar Sogsvirkjunar var komin algerlega í eindaga þrátt fyrir mikla lánaleit. Raforkuáætlun dreifbýlisins hafði verið tekin til framkvæmdar og þar á meðal bygging tveggja raforkuvera, sem mjög mikið fjármagn þarf til á árunum 1956–1958. Fyrirsjáanlegt var á hinn bóginn, að það fjármagn, sem útvegað hafði verið til raforkuáætlunarinnar, mundi hrökkva mjög skammt til að greiða þá samninga, sem búið var að gera, hvað þá meira. Bygging sementsverksmiðjunnar hafði verið sett af stað. Fjármagn hafði verið fengið fyrir mestum hluta erlenda kostnaðarins, en fé skorti nær gersamlega til þess að standa undir innanlandskostnaðinum. Ræktunarsjóð skorti fé til þess að lána þá um haustið og fiskveiðasjóð sömuleiðis, en bæði bændur og útgerðarmenn höfðu gert ráðstafanir í því trausti, að þessir sjóðir gætu lánað eins og áður.

Eru hér nefnd þessi fimm fjárfestingarmál, sem með sérstökum hætti mega teljast verið hafa og vera á vegum ríkisstj. Þótt aðeins þau séu nefnd, þýðir það ekki, að öðruvísi eða betur hafi verið ástatt um fjármagn til ýmissa annarra framkvæmda.

Það er því ekkert ofsagt í því, að vegna verðbólguþróunar undanfarinna ára og vegna þess, hve stór verkefni hafði verið ráðizt í, voru efnahagsmál og framleiðslumál landsins reyrð í hnút, fullkomlega sumarið 1956, og hefur þetta að sjálfsögðu sett sinn svip á það, sem síðan hefur gerzt í þessum efnum.

Núverandi ríkisstj. sneri sér að því að reyna að greiða fram úr þessari flækju og m.a. að því að reyna að finna leiðir til þess að halda þessum þýðingarmiklu framkvæmdum áfram og byrja á Sogsvirkjuninni, áður en það yrði of seint, til þess að forðast stórtjón. Tókst á s.l. vetri að útvega lán í Bandaríkjunum fyrir erlenda kostnaðinum við Sogsvirkjunina. Enn fremur tókst með mjög hagkvæmum samningum um vörukaup í Bandaríkjunum með löngum gjaldfresti, hliðstæðum þess háttar samningum, sem margar aðrar þjóðir hafa gert, að tryggja mjög hagstæð lán fyrir verulegum hluta af innlenda kostnaðinum við Sogsvirkjunina, og er það von manna, að hægt verði að fá slíkan viðbótarsamning áfram fyrir næsta ár. En augljóst er þó, að eftir þessum leiðum fæst ekki allur kostnaðurinn við Sogsvirkjunina. Er það því óleyst vandamál, hvernig afla á fjár innanlands til viðbótar.

Þá tókst í fyrravetur að útvega 4 millj. dollara lán í Bandaríkjunum, og var því láni skipt upp handa sementsverksmiðjunni, ræktunarsjóði, fiskveiðasjóði og rafmagnsframkvæmdum dreifbýlisins. En þetta lán hrökk lítið meira, en til þess að greiða þann kostnað, sem þá var á fallinn við þessar framkvæmdir.

Kemur þá spurningin: Hvernig standa málin nú varðandi fjáröflun til þessara framkvæmda? Er skemmst frá því að segja, að framkvæmdir í raforkumálum dreifbýlisins og við byggingu sementsverksmiðjunnar hafa haldið áfram á þessu ári fyrir það fé, sem fyrir hendi var og ætlað var til þessara framkvæmda af fjárveitingum og innlendu fé. Þótt það fé sé nú allt upp étið fyrir nokkru, hafa þessar framkvæmdir ekki verið stöðvaðar, heldur haldið áfram með bráðabirgðaframlögum af yfirdráttarlánum ríkissjóðs í bönkunum. Er þetta gert í trausti þess, að þær ráðstafanir, sem verið er að gera til þess að útvega lánsfé til þessara framkvæmda erlendis nú á þessu ári, beri árangur.

Að því er orkuverin snertir, kemur hér einnig til, að ef bygging þeirra væri stöðvuð, yrði ríkið skaðabótaskylt til verktakanna, sem sömdu um á sínum tíma að ljúka verkinu á tilskildum tíma og hafa búið sig undir það. Slíkar framkvæmdir verða að ganga eftir áætlun, ella verða allir aðilar fyrir stórtjóni.

Þá standa togarakaupin nú fyrir dyrum og útvegun lánsfjár í því sambandi. Er þar um mjög háar fjárhæðir að ræða.

Lán til hafnargerða hafa ekki komizt að enn þá vegna annarra þarfa.

Um ræktunarsjóð og fiskveiðasjóð og fjárþörf þeirra til þess að mæta lánaþörf í haust er það að segja, að það mál er óleyst, en verið að reyna að leysa það ásamt lánamálum sementsverksmiðjunnar og raforkuáætlunarinnar. Er þess fastlega vænzt, að þær umleitanir beri árangur í tæka tíð. En yrði ekki svo mót von manna, yrði samt að finna leiðir til þess, að hægt væri að afgreiða lán frá þessum stofnunum nú í haust, svo sem verið hefur. En ef ekki kemur til erlent fjármagn, mundi fé til þessa verða að takast á þann hátt, að það hlyti að auka verðbólguna og þar með auka vandann í efnahagsmálunum.

Takist að útvega fé til þess að greiða kostnaðinn við þessar framkvæmdir í ár, kemur strax upp spurningin um það, hvernig útvega skuli fé til þeirra næsta ár.

Ekkert sýnir betur, að mínu viti, en þær upplýsingar, sem ég hef nú gefið varðandi þessar framkvæmdir og fjáröflun til þeirra, hve teflt hefur verið og teflt er á tæpasta vað í efnahagsmálum landsins og þjóðarbúskap yfir höfuð. Hlýtur sú spurning að vakna í hugum manna, hvort hægt sé að halda svo áfram, sem gert hefur verið, hvort mögulegt sé að halda uppi jafnstórkostlegri heildarfjárfestingu og gert hefur verið, hvort hugsanlegt sé, að erlent lánsfjármagn sé fáanlegt í nógu stórum mæli, til þess að slíkt gæti verið mögulegt, hvort óhætt mundi að taka svo stór lán erlendis ár eftir ár sem til þess mundi þurfa. Og þá vaknar síðast, en ekki sízt sú spurning, hvort þjóðin vill minnka eyðslu sína svo, að hún geti kostað enn þá meira af þessari fjárfestingu sjálf af tekjum sínum, en hún gerir nú, og þá með hvaða hætti slíkt ætti að komast í framkvæmd.

Sumum hættir til að tala eins og Íslendingar geti fengið að láni erlendis fármagn eftir vild. En ég held, að mönnum hljóti að verða ljósara og ljósara, hvernig ástatt er í þessum efnum. Sannleikurinn er sá, að í flestöllum löndum eru gífurlegar verklegar framkvæmdir, eins konar fjárfestingarkapphlaup. Þetta fjárfestingarkapphlaup hefur í för með sér verðbólgu í flestum löndum, en verðbólguþróunin veldur því, að minna safnast af fjármagni, sem getur orðið til útlána, bæði heima fyrir og út úr löndunum. framkvæmdirnar vaxa, lánsfjárframboðið minnkar. Aðeins örfá lönd skera sig úr í þessu efni, og allir beina þá þangað ferð sinni til þess að fá lán. Það er því stórkostlegur lánsfjárskortur ríkjandi í heiminum og mjög erfitt að fá lán eða nærri ókleift á frjálsum peningamarkaði, og útlánamálunum er yfirleitt stjórnað af opinberum aðilum og alþjóðastofnunum, sem til þess hafa verið settar á fót.

Það er m.a. til marks um, hvernig ástatt er í þessum efnum, að aðalbankastjóri þjóðbankans danska sagði í vor sem leið, samkvæmt fréttum í ríkisútvarpinu hér 12. maí s.l., að það væri ekki sérstakt fyrir Dani, að þeir gætu ekki fengið lán á frjálsum markaði erlendis, það gæti varla nokkur þjóð lengur. Eru þó fjármál Dana í framúrskarandi góðu og öruggu horfi.

Því fer þess vegna víðsfjarri, að lánsfé erlendis liggi á lausu. T.d. er þannig ástatt um okkur, að við höfum ekki fengið lán í Alþjóðabankanum í nokkur ár. Sumpart hefur það stafað af deilu við bankann út af sementsverksmiðjunni, sem hann neitaði um lán til, en við lögðum í samt, sumpart af því, að Alþjóðabankinn er mjög tregur til að lána þeim löndum, sem búa við ofþenslu vegna mikillar fjárfestingar, og loks af því, að Alþjóðabankinn hefur sett sér þá reglu að lána aldrei nema fyrir erlendum kostnaði við hverja framkvæmd.

Lánaþörf okkar til þeirra fyrirtækja, sem við erum að leita að lánum til erlendis, nær hins vegar miklu lengra, eins og bezt sést á því, að við erum að taka lán erlendis í innlendan kostnað við Sogsvirkjunina, sementsverksmiðjuna og að nokkru leyti raforkuáætlun dreifbýlisins. Ég vil ekki halda því fram, að það þurfi að vera óheilbrigt að taka lán erlendis að einhverju leyti fyrir innlendum kostnaði við einstakar framkvæmdir, en það er þá a.m.k. áríðandi, að þess sé gætt, að þar sé raunverulega um framkvæmdir að ræða, sem auka þjóðartekjurnar og standi því hreinlega undir þeim erlendu lánum, sem til þeirra eru tekin. Annars getum við vaknað upp við vondan draum, þegar að skuldadögunum kemur, og komizt að raun um, að óviðráðanlega stór hluti af gjaldeyristekjunum sé orðinn bundinn í vexti og afborganir.

Ég held, að það sé nauðsynlegt fyrir menn að gera sér grein fyrir því, að það er takmark fyrir því, hvað þjóð eins og við Íslendingar getum byggt mikið á erlendu lánsfé.

Hin mesta nauðsyn væri að mínum dómi, að erlent fjármagn kæmi inn í landið einnig eftir öðrum leiðum en lánsleiðinni, enda væru þar eðlileg takmörk sett. En slíkt verður tæpast, nema stefnubreyting verði í efnahagsmálum okkar og framleiðslumálum frá því, sem verið hefur nú um nærfellt tuttugu ár. Væri freistandi að ræða það atriði nánar, en til þess er ekki tóm.

Þá er full ástæða til þess að horfast í augu við, að það verður að fara varlegar í það, en gert hefur verið stundum, að kasta sér út í framkvæmdir, sem kosta hundruð millj. kr., án þess að hafa gert sér grein fyrir því, hvernig fjár skuli aflað til þeirra. Sé of langt gengið í þessu efni, getur það stórum veikt aðstöðu þjóðarinnar í baráttu hennar fyrir því að standa á eigin fótum fjárhagslega. Það er eðlilegt að taka erlend lán til arðbærra framkvæmda að vissu marki. Jafnframt vil ég leggja á það höfuðáherzlu, að framfarir hér megi ekki verða of háðar því, að erlent lánsfé sé fyrir hendi.

Þess vegna verður þjóðin að finna leiðir til þess að koma jafnvægi á efnahagsmál sín til þess að auka myndun fjármagns í landinu sjálfu. Einn líður í því er að draga nokkuð úr fjárfestingarframkvæmdum beinlínis í þágu framfaranna sjálfra, einnig í þágu framleiðslunnar og afkomu þjóðarbúsins út á við. Það vantar víðast fólk við framleiðslustörfin. Á sama tíma fáum við þúsundir útlendinga til þess að vinna að framleiðslustörfunum, en eigum mjög erfitt með að standa skil á vinnulaununum út úr landinu. Of ör fjárfesting dregur úr framleiðslunni og gjaldeyristekjunum og hvílir þyngra á sjálfri gjaldeyrisverzluninni en þjóðarbúið raunverulega þolir.

Íslenska þjóðin hefur um aldaraðir verið innilokuð í örbirgðarinnar húsi, ef svo mætti segja. Mönnum hættir því við að ryðjast nokkuð ört til dyranna, þegar þær opnast. En menn verða að gæta þess að ryðjast ekki svo ört til dyranna, að óbærileg þröng verði og tjón fyrir framfarirnar. Menn verða að læra þá list að sækja skipulega fram um dyr framfaranna. Með því móti mun mest vinnast.

Jafnhliða því, sem draga verður nokkuð úr fjárfestingarhraðanum, ég segi nokkuð, því að hér á ekki að verða hik á framfarabaráttunni, einmitt til þess að forðast stöðvun og öngþveiti um mörg nauðsynlegustu verkin, verður þjóðin að finna leiðir til þess, að meira fjármagn safnist innanlands til hinna stærri framkvæmda. Áhrifaríkast í því efni verður vitaskuld, ef samtök væru milli ríkisvaldsins og sterkustu almannasamtakanna í landinu, samtaka hins vinnandi fólks, um þá stefnu, sem tryggt getur jafnvægi í efnahagsmálum og stöðugt verðlag, eftir að jafnvægi hefur verið náð.

Íslendingar eru miklir framfaramenn, og er það mjög ánægjulegt. Á hinn bóginn verðum við alvarlega að gjalda varhuga við þeim kröfuanda, sem orðinn er landlægur hjá okkur. Þótt það sé mikilsvert, að menn séu vel vakandi og hafi áhuga fyrir umbótum, þá getur skortur á skilningi á því, að ekki er hægt að gera allt í einu, valdið stórtjóni. Óþolinmæði okkar Íslendinga er svo mikil að okkur hættir stundum við að halda eða telja okkur trú um, að hvergi vanti neitt nema hér, og að ímynda okkur, að við séum á eftir öllum öðrum í öllu. Mér dettur í þessu sambandi í hug að benda á, að í Bandaríkjunum býr ein auðugasta þjóð heimsins. Framleiðslan er hvergi meiri, en í Bandaríkjunum, og almenn velmegun hvergi meiri, en þar. Bandaríkjamenn hafa á undanförnum árum lagt á sig miklar skattabyrðar til þess að safna saman fé og gefa það eða lána í önnur lönd, styðja þannig framfarir þar og koma í veg fyrir kreppu og kyrrstöðu. Samt sem áður er það svo, að eitt af vandamálum þeim, sem liggja fyrir þingi Bandaríkjanna, er það, hvernig kosta skuli byggingar nýrra skólahúsa, sem skortur er á þar í landi. Það er sannarlega víða,r en á Íslandi, sem ýmislegt vantar af því, sem þörf er fyrir.

Hjá okkur hefur tæpast verið vinsælt að leiða athygli manna að þessum staðreyndum, en ég hika ekki við að gera það samt. Ég hika heldur ekki við að kalla það skort á raunsæi og skort á vilja til þess að horfast í augu við verkefnin eins og þau eru, þegar allt úir og grúir af kröfum um, að lagt verði tafarlaust í enn meiri kostnað og framkvæmdir á öllum sviðum, og einnig um, að komið verði tafarlaust upp nýjum útlánagreinum. Ætti þó flestum að vera ljóst, hvernig ástatt er hér um framkvæmdir, sem eru tiltölulega meiri, en nokkurs staðar annars staðar á byggðu bóli, og hvernig ástatt er um fjáröflun til framkvæmda og útlána, sem þjóðin hefur viljað láta sitja fyrir. En við borð liggur, að einmitt þessar framkvæmdir og þessi útlán stöðvist vegna fjárskorts. Þar sem allt verður að byggjast á skilningi og ákvörðunum fjöldans, er fátt hættulegra, en það, að menn venji sig af því að horfast í augu við raunveruleikann.

Ég hef komið það mikið nærri hraðri framsókn síðustu áratuga, að ég óttast ekkert áróður né útúrsnúning, þótt ég dragi fram þetta sjónarmið. Allra sízt ætti ég að þurfa að óttast óorð af hóflegum aðvörunum í þessa átt, eftir að því hefur nú um skeið verið svo rækilega lýst fyrir þjóðinni sem raun er á orðin, að öll sameiginleg útgjöld hennar undanfarin 20 ár eða svo hafi verið af mér ákveðin og séu á mína ábyrgð, og þá auðvitað framfarirnar með, þótt raunar hafi nú stundum gleymzt að halda því á lofti. Ég segi gleymzt, því að tæplega gæti verið meiningin, að ég bæri ábyrgð á útgjöldunum, en aðrir ættu heiðurinn af framförunum. Ætli þetta yrði ekki að fylgjast að? En allt er það tal fánýtt hjal, og nefni ég þetta fremur í gamni, en alvöru.

Ég kem þá að fjárlagafrv. því fyrir árið 1958, sem hér liggur fyrir. Heildarniðurstaða frv. er sú, að greiðsluhalli er áætlaður rúml. 71 millj. kr. í stað rúml. einnar millj. kr. greiðsluafgangs á gildandi fjárlögum. Verður útgjaldahækkun alls frá fjárlögum 1957 411/2 millj. og tekjurýrnun áætluð 31 millj., en niðurstaðan nálega 73 millj. óhagstæðari, en á gildandi fjárlögum.

Tekjur eru á þessu frv, áætlaðar samkv, þeirri reynslu, sem orðið hefur um tekjur þessa árs, það sem af er árinu, og er miðað við svipaða þróun það sem eftir er ársins og orðið hefur hingað til. Um niðurstöðuna vitum við hins vegar ekki að fullu enn þá. Hefur áætlun á verðtolli og tekjum samkv. lögum um útflutningssjóð o.fl. verið lækkuð mikið. Ekki þótti sem sé fært að miða áætlun tollteknanna við annað en reynslu þessa árs, það sem af er, og hef ég skýrt frá henni að framan. Hins vegar er tekju- og eignarskattur áætlaður nokkru hærri en á gildandi fjárlögum og þá miðað við upplýsingar um álagða skatta á þessu ári.

Síðan 1950 hafa margar ráðstafanir verið gerðar af ríkisvaldinu til þess að létta beinu skattana. Nú þarf að finna leiðir til þess að breyta reglunum um skattlagningu á tekjur hjóna, og er það mál í athugun. Einnig ber brýna nauðsyn til að breyta lagaákvæðum um skattlagningu á félög.

Síðan 1950 hafa m.a. eftirgreindar ráðstafanir verið gerðar til þess að lækka beinu skattana til ríkisins, en engar ráðstafanir til þess að hækka beina skatta til ríkisins, nema álagning stóreignaskattsins: Árið 1950 voru sett lög um lækkun skatta á lágum tekjum. Árið 1954 var sparifé gert skattfrjálst. Árið 1954 voru sett ný skattalög og tekjuskattur, annarra en félaga, lækkaður stórkostlega, eða um 29% að meðaltali. Þá fengu fiskimenn frádráttarhlunnindi, sem þeir höfðu ekki áður haft, og giftar konur, sem leggja í kostnað vegna vinnu utan heimilis, sömuleiðis frádráttarhlunnindi, meiri en þær höfðu áður haft. Árið 1956 var tekjuskattsviðauki félaga felldur alveg niður. Nú á þessu ári voru enn sett sérstök lög til þess að lækka tekjuskatt á lægri tekjum. Loks voru á þessu ári sett sérstök lög um aukinn skattfrádrátt, enn til handa skipverjum á fiskiskipum.

Það þyrfti að finna leiðir til þess að lækka tekjuskattinn enn á ný og örva með því framtak og sparnað og auka heldur eyðsluskatta, halda þannig fram stefnunni, sem fylgt hefur verið frá 1950 um lækkun beinna skatta. En þá væri nauðsynlegt að láta fylgja ráðstafanir til þess, að það yrði ekki tekið í útsvarshækkunum, sem skattar lækkuðu til ríkisins.

Ómögulegt er að fullyrða, hvort hægt er að finna á næstunni leiðir til þess að koma í framkvæmd enn nýrri lækkun beinna skatta. Það fer eftir úrræðum þeim, sem finnast í efnahagsmálunum. Skattamálin verða ekki slitin úr sambandi við afgreiðslu þeirra.

Þá kem ég að gjaldahlið fjárlagafrv. og mun gera grein fyrir því í höfuðdráttum, í hverju aukning ríkisútgjaldanna liggur.

Vextir hækka um 2 millj. og 300 þús. Þessi hækkun á vaxtaútgjöldum á eingöngu rót sína að rekja til þess, að ákveðið var á síðasta Alþ. með lögum um íbúðalán o.fl., að ríkið tæki að sér skuld Íbúðalánasjóðs við Landsbankann. Er því hér í rauninni um að ræða lögboðið framlag til Íbúðalánasjóðs.

Dómgæzla og lögreglustjórn hækkar um 4 millj. og 100 þús. Þar kemur til hækkun á landhelgisgæzlukostnaði 1 millj. og 600 þús. Koma þar til greina m.a. nýir kjarasamningar við yfirmenn á skipunum, og gert er ráð fyrir að reka björgunar- og varðskipið Albert allt árið 1958.

Þá hækkar hluttaka ríkissjóðs í lögreglustarfsemi í kaupstöðum. Eru það lögboðin útgjöld. Þá er gert ráð fyrir, að ríkislögregluþjónum verði fjölgað um 5 og löggæzla utan Reykjavíkur nokkuð aukin. Þá hækkar nokkuð kostnaður við vinnuhælið að Litla-Hrauni, þar sem þar verður aukin gæzla og lagt í endurbætur.

Kostnaður við innheimtu skatta og tolla hækkar um 3 millj. og 400 þús. Þar er að nokkru leyti um að ræða lagfæringu á áætlun, sem hefur verið of lág áður, en einnig verulegur kostnaðarauki við aukna tollgæzlu, sem efnt er til bæði í Reykjavík og úti um land. Var knýjandi nauðsyn á þessari aukningu tollgæzlunnar, þó að hún kosti verulegt fé, og hefur hún áreiðanlega nú þegar komið að gagni. Það skal tekið fram, að á nokkrum stöðum úti um land er ætlunin að sameina tollgæzlu og löggæzlu.

Útgjöld til heilbrigðismála hækka um 2 millj. og 200 þús. Er hér um að ræða aukinn halla á sjúkrahúsum ríkisins og aukinn kostnað vegna laga um framfærslu sjúkra manna og örkumla. Aukinn halli á ríkisspítölunum stafar fyrst og fremst af stækkun landsspítalans og nokkuð auknum kostnaði við sjúkrahúsreksturinn yfirleitt. Hefur farið fram athugun á því, hvort komast mætti hjá hækkun á rekstrarhalla sjúkrahúsanna og hjá hækkun heildarútgjalda vegna heilbrigðismála með því að hækka daggjöldin á spítölunum, Kemur þá í ljós, að hækkun daggjaldanna mundi valda hækkun á öðrum liðum fjárl., sem sé framlögum til sjúkra manna og örkumla svo og berklasjúkra. Enn fremur má telja víst, að daggjaldahækkun hefði í för með sér hækkuð sjúkrasamlagsiðgjöld, en eins og kunnugt er, greiðir ríkissjóður hluta af þeim. — Niðurstaðan af athugun á þessu máli er sú, að þó að beinn rekstrarhalli ríkisspítalanna mundi að sjálfsögðu lækka, ef daggjaldahækkun yrði, þá mundu önnur ríkisútgjöld vegna sjúkramála hækka meira, en daggjaldahækkuninni nemur. Sýnir þetta glöggt, hversu ríkið hefur nú tekið að sér mikinn hluta af sjúkrakostnaðinum í landinu. Bendi ég ekki á þetta til þess að telja það eftir, heldur sem dæmi um það, hvers vegna ríkisútgjöld fara hækkandi.

Kostnaður við ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla hækkar um 1 millj. Þessi liður hækkar ár frá ári, og er ástæðan sú, að sjúkrarúmum fjölgar og fleiri og fleiri geta leitað sér læknishjálpar á spítölum, og ber þetta vott um ánægjulegar framfarir í heilbrigðismálum, en hækkar auðvitað ríkisútgjöldin.

Ríkisútgjöld til kennslumála hækka um 9 millj. og 900 þús. á þessu frv. frá gildandi fjárl. Kemur hér ýmislegt til greina, eins og nánar er rakið í greinargerðinni fyrir fjárlagafrv., en nefna má sérstaklega mikla árlega fjölgun kennara í skylduskólunum og aukinn rekstrarkostnað þeirra, leiðréttingar á of lágt áætluðum kennaralaunum í gildandi fjárl., þótt merkilegt megi virðast, að ekki skuli hafa tekizt að áætla nokkurn veginn með vissu liði eins og kennaralaun í barnaskólum og gagnfræðaskólum.

Þá má nefna aukinn kostnað ríkisins við barnaskóla og gagnfræðaskóla, sem stafar af ákvæðum reglugerðar, sem fyrrverandi menntmrh. setti í júlímánuði 1956, og aukinn kostnað ríkissjóðs vegna laga um greiðslu skólakostnaðar, sem fyrrverandi menntmrh, beitti sér fyrir á Alþ. 1955.

Útgjöld til félagsmála hækka um 5 millj. Þar af er hækkað framlag til sjúkratrygginga 3 millj. og 300 þús. Er það fyrst og fremst vegna breytingar, sem gerð var á lögum um almannatryggingar á Alþ. 1955 og þáverandi félmrh. beitti sér fyrir, um að auka framlag ríkisins til sjúkrasamlaganna og nema úr lögum hámark, sem áður var á framlögum ríkisins.

Þá er hækkun til atvinnuleysistrygginga 11/2 millj. vegna áætlaðrar fjölgunar fólks á starfsaldri og vegna vísitöluhækkunar.

Þá er gert ráð fyrir, að hækkun á fjárveitingu til niðurgreiðslu á vöruverði innanlands hækki úr 84 millj. í 105 millj. Hækkunin nemur nærri 21 millj. Kemur hér þrennt til greina: Ríkisstj. hefur ákveðið niðurgreiðslur á nokkrum vörum, frá því að síðustu fjárlög voru sett, og geri ég ráð fyrir, að útgjaldaaukning af þeim ástæðum sé um 7 millj. Útgjöld við að greiða niður kartöfluverð voru á fjárl. 1957 áætluð 4 millj., og er sú áætlun allt of lág, og auk þess þarf miklu hærri fjárhæð á næsta ári, en áður, til þess að halda óbreyttum niðurgreiðslum á kartöfluverði, þar sem uppskeran verður nú óvenjulega mikil, en það er miklu dýrara að greiða niður innlendar kartöflur en útlendar. Verður því að áætla útgjöld til þess að greiða niður kartöflur á næsta ári 13.5 millj. Er það 9.5 millj. kr. hærra, en á gildandi fjárl. Eru þó niðurgreiðslur á hvert kartöflukíló ráðgerðar óbreyttar. Það, sem þá er ótalið af hækkuninni, eða 4 millj. og 400 þús., stafar af því, að gera verður ráð fyrir meiri heildarneyzlu innlendra vara á næsta ári, en í ár, m.a. vegna fólksfjölgunar.

Þá verður þess að geta, að útgjöld við þá niðurgreiðslu landbúnaðarafurða, sem ákveðin var enn til viðbótar í haust til þess að koma í veg fyrir hækkun á landbúnaðarafurðum, er ekki meðtalin í frv. Hefur engin ákvörðun verið tekin um það, hvort þessi niðurgreiðsla skuli verða til frambúðar eða ekki, og er því ekki tekin með. En eigi hún að standa, mundi þurfa að hækka fjárveitingu til niðurgreiðslu á vöruverði, sem henni svaraði. Væntanlega eigi fjarri 20 milljónum.

Á 20. gr. fjárlagafrv. hækkar fjárveiting til afborgunar af ríkislánum um 3 millj, og 700 þús. kr., og er það aðallega vegna skulda, sem ríkissjóður tók á sig vegna íbúðalánasjóðs. Er hér því í raun og veru um að ræða lögboðið framlag til íbúðalánasjóðsins.

Loks er þess að geta, að fjárveiting vegna vanskila á ríkisábyrgðarlánum á 20. gr. er hækkuð úr 18 millj., og mun sízt af því veita samkv. því, sem horfir á þessu ári. Hafa þurrafúaábyrgðir drúgum bætt við útgjöld á þessum lið, og eru þær m.a. orðnar að stórfelldu vandamáli, sem þetta hv. Alþingi kemst ekki hjá að taka til nýrrar meðferðar.

Á móti hækkunum vegur nokkuð lækkun á ýmsum fjárveitingum til fjárfestingarmála, sem nema sem næst 23 millj. kr. Þessi lækkun á fjárfestingarútgjöldum frv. frá gildandi fjárlögum kemur þannig fram, að fjárveitingar til margra fjárfestingarframkvæmda á 20. gr. eru lækkaðar um 10% frá gildandi fjárlögum. Fjárveitingar til nýrra akvega, brúargerða, hafnarmannvirkja og skólabygginga eru settar talsvert lægri, en þær eru í gildandi fjárlögum, en yfirleitt um 10% hærri, en þær voru á fjárlagafrv. stjórnarinnar s.l. haust.

Heildarhækkun fjárlagafrv. nemur um það bil 5% frá gildandi fjárlögum. Þar af eru um 21/2%, eða helmingur af hækkuninni, vegna aukinna niðurgreiðslna á vöruverði innanlands, en 21/2% allir aðrir liðir samanlagt, og eru það langsamlega mest hækkanir á lögboðnum útgjöldum.

Fyrir utan lögboðna fjölgun embættismanna, svo sem kennara og þvílíkra, og fjölgun á tollgæzlu- og lögreglumönnum og fangavörðum á Litla-Hrauni, sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, er ekki í fjárlagafrumvarpinu ráðgerð önnur fjölgun á starfsliði, en þremur starfsmönnum á landsspítala, þremur hjá flugmálastjórninni, tveimur riturum hjá sýslumönnum, einum ritara og fulltrúa að hálfu í ráðuneytum og einum sendli.

Ríkisstj, er ráðin í því að gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að koma í veg fyrir óeðlilega aukningu á starfrækslukostnaði ríkisins. Ríkisstj. mun leita allra tiltækra ráða til þess, að vinnubrögðum í opinberum rekstri verði hagað á sem heppilegastan hátt og með sparnað fyrir augum. Hefur ríkisstj. nú þegar látið vinna undirbúningsstörf í þessu efni, og verður því verki haldið áfram.

Ég hef nú rakið, í hverju hækkun fjárlagafrv. liggur. En mér finnst einnig nauðsynlegt, að menn geri sér grein fyrir, hvernig á því stendur, að ríkisútgjöldin hafa farið hækkandi á undanförnum árum. Ég tel hyggilegt að miða slíkan samanburð við árið 1952 annars vegar og fjárlagafrv. það, sem hér liggur fyrir, hins vegar. Þetta sýnist mér ráðlegt af því, að árið 1952 voru áhrif gengisbreytingarinnar frá 1950 alveg komin fram, og það ár hafði einmitt myndazt nokkuð stöðugt verðlag. Má segja, að það hafi verið eins konar vatnaskilaár í þessum efnum.

Í fjmrn. hefur verið gert yfirlit um þetta, sem ég ætla að greina hér frá.

Samkv. fjárlagafrumvarpi því, sem hér liggur fyrir, eru heildarútgjöld ríkisins, 20. gr. meðtalin, 851.8 millj. Hliðstæð tala fyrir árið 1953 varð 410 millj. Heildarútgjöld ríkisins eru því skv. þessu frv. ráðgerð 441 millj. hærri en 1952. Þetta er 107.6% hækkun og ekkert smáræði.

Til þess að gera sem nánasta grein fyrir, í hverju hækkun ríkisútgjaldanna er fólgin á þessu tímabili, hefur verið gert eftirfarandi yfirlit um hækkun á einstökum liðum eða málaflokkum, sem hafa hækkað verulega, og mun ég geta um nokkrar ástæður fyrir þessum hækkunum.

Áður en ég kem að hækkununum, vil ég þó fyrst geta þess, að einn einasti liður hefur lækkað, og það eru vextir af skuldum. Skuldir ríkissjóðs, sem hann verður að standa straum af, hafa sem sé lækkað verulega síðan 1952, Segir það sína sögu um heildarafkomuna og áhrif ríkisbúskaparins á þróun efnahagsmálanna, m.a. sína sögu um það, hvort þangað muni að rekja rót verðbólgunnar.

Kem ég þá að hækkun ríkisútgjaldanna frá 1952.

I.

Framlög til byggingarframkvæmda hafa á tímabilinu hækkað um

24.2

millj.

II.

Framlög til helztu verklegra framkvæmda hafa á tímabilinu hækkað um

85.1

millj.

Hl.

Á

9. gr. fjárlaga: Alþingiskostnaður

3.3

millj.

IV.

Á

10. grein fjárlaga:

a)

Utanríkismál

3.9

millj.

b)

Kostnaður vegna laga frá 1956 um þjóðskrá

577

þús.

4.5

millj.

V.

Á

11. grein fjárlaga:

a)

Lögreglukostnaður, vegna stóraukinnar löggæzlu um land allt, sbr.

m. a. lög frá 1956, um breyting á lögum um lögreglumenn

5.9

millj.

b)

Embættiskostnaður sýslumanna og bæjarfógeta, annarra dómara

og lögreglustjóra

6.4

millj.

e)

Kostnaður við landhelgisgæzlu, m. a. fyrir tilkomu nýrra varð-

skipa og aukinnar fluggæzlu.

6.7

millj.

d)

Tollgæzlukostnaður, m.a. vegna stóraukinnar tollgæzlu um allt land

4.1

millj.

e)

Kostnaður við tollstjóraembættið í Reykjavík, skattstofur og

skattanefndir

6.2

millj.

29.5

millj.

VI.

A

12. grein fjárlaga:

a)

Hækkun á rekstrarhalla ríkisspítala, sem m. a. stafar af tilkomu

nýrra sjúkrahúsa, fjölgun sjúkrarúma í eldri sjúkrahúsum og þar

með legudagafjölgun, launahækkunum, og nú á síðasta ári af því,

að daggjaldahækkun hefur eigi átt sér stað þrátt fyrir hækkun

kostnaðar. Starfsfólki ríkissjúkrahúsa hefur fjölgað um 51 frá

árinu 1952

12.2

millj.

b)

Ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla. Hækkunin stafar fyrst

og fremst af fjölgun legudaga, sem aftur á rót sína að rekja til

tilkomu nýrra sjúkrahúsa og stækkunar eldri sjúkrahúsa. Einnig

hefur daggjaldahækkun á árunum 1952–1956 hér mikil áhrif. Loks

má nefna nýja hópa sjúklinga, sem látnir hafa verið falla hér

undir, svo sem drykkjusjúklinga. Þá hafa mænuveikifaraldrar

undanfarinna ára haft hér kostnaðarauka í för með sér

8.9

millj.

e)

Rekstrarstyrkur til sjúkrahúsa, sem fyrst var upp tekinn, svo að

nokkru næmi, með lögum frá 1953 og hefur verið aukinn með

breytingum á þeim lögum síðan, og rekstrarstyrkur til St. Jósefs-

spítala fyrst tekinn í fjárlög árið 1956

3.3

millj.

d)

Laun héraðslækna – sbr. m. a. læknaskipunarlög frá 1955, en með

þeim lögum er læknishéruðum fjölgað og teknar upp greiðslur

til aðstoðarlækna

1.6

millj.

26.2

millj.

VII.

Á

13. grein fjárlaga:

a)

Vegaviðhald

13.6

millj.

b)

Framlag til strandferða ríkisins og til flóabáta. Rekstrarhalli

Skipaútgerðar ríkisins hefur farið vaxandi á undanförnum árum.

Veldur því stóraukinn tilkostnaður á öllum rekstrarliðum, svo sem

launum skipshafna og starfsfólks, viðhaldi skipa, sjóvátryggingu

skipa o. s. frv., en hins vegar það, að gjaldskrár stofnunarinnar

eru óbreyttar frá 1951 (fargjöld) og 1952 (farmgjöld)

8.3

millj.

e)

Rekstrarhalli flugmála

2.8

millj.

24.8

millj.

VIII.

Á

14. grein fjárlaga:

a)

Laun og embættiskostnaður presta, sbr. m. a. fög frá 1956, um

skipun prestakalla

4.1

millj.

b)

Til Háskóla Íslands. Fjölgun prófessorsembætta með lögum og

önnur aukning kostnaðar

1.8

millj.

c)

Hækkun skólakostnaðar vegna nýrra laga og reglugerðarbreytinga

á árunum 1952–1957:

1.

Lög frá 1952 um breyting á l. um stýrimannaskólann

í Reykjavík

160

þús.

2.

Ákvæði laga frá 1946 um menntaskóla i sveit látin

koma til framkv.

534

þús.

3.

Lög frá 1954 um réttindi og skyldur starfsm. ríkisins

— forfallakennsla

272

þús.

4.

Lög frá 1955 og reglugerð sama ár um iðnskóla

1.431

þús.

5.

Reglugerð frá 21. júlí 1956 um listiðnaðardeild hand-

íða- og myndlistaskólans í Reykjavík

200

þús.

6.

Lög frá 1955 um greiðslu rekstrarkostnaðar skóla ..

1.954

þús.

7.

Lög frá 1955 og reglugerð frá 21. febrúar 1956, um

almenningsbókasöfn

568

þús.

8.

Reglugerð frá 13. júlí 1956

2.113

þús.

9.

Lög frá 1956, um ríkisútgáfu námsbóka

863

þús.

10.

Reglugerð frá 2. maí 1956, um laun stundakennara

266

þús.

11.

Lög frá 1957, um heilsuvernd í skólum — skólayfir-

læknir

115

þús.

12.

Fjölgun námsstjóra og söngmálastjórn í skólum ....

242

þús.

13.

Reglur um gjald fyrir heimavinnu við leiðréttingar

stila, frá 18. marz 1957.

320

þús.

9.0

millj.

d)

Hækkun heildarlauna barnakennara, gagnfræðaskólakennara og hús-

mæðraskólakennara skv. nýjum launalögum og vegna vísitöluhækk-

unar og kennarafjölgunar. En kennurum í barnaskólum og héraðs-

og gagnfræðaskólum hefur skv. starfsmannaskrám fjölgað um 430

manns frá 1952 til 1958. Þessi fjölgun er að mestu leyti vegna

fjölgunar barna og unglinga í skólum

30.0

millj.

45.6

millj.

IX.

Á

15. grein fjárlaga:

a)

Til atvinnudeildar háskólans. Hér stafar hækkunin, auk almennrar

launa- og kostnaðarhækkunar, af því, að mjög hefur fjölgað sér-

fræðingum, er starfa að rannsóknum í þágu höfuðatvinnuveganna,

iðnaðar, sjávarútvegs og landbúnaðar, en kröfur um aukna þjónustu

atvinnudeildarinnar hafa gerzt æ meiri á undanförnum árum

2.9

millj.

b)

Til Veðurstofu Íslands. Um ástæður þeirrar hækkunar má segja

hið sama og um hækkunina hjá atvinnudeildinni

1.6

millj.

c)

Til opinberra safna og listamannafé

2.1

millj.

6.7

millj.

X.

Á

16. grein fjárlaga:

a)

Til Búnaðarfélags Íslands, Fiskifélags Íslands og Iðnaðarmálastofnunar

Íslands

3.6

millj.

b)

Kostnaður við eyðingu refa og minka, sbr. lög frá 1957

700

þús.

c)

Til að leita nýrra fiskimiða og til ýmissa rannsókna og tilrauna

í þágu sjávarútvegsins

3.1

millj.

7.5

millj.

XI.

Á

17. grein fjárlaga:

a)

Almannatryggingar:

1.

Vegna laga frá 1956, um atvinnuleysistryggingar

22.6

millj.

2.

Vegna breytinga á lögum um almannatryggingar 1952–1957, aðallega vegna laga frá 1956

26.6

millj.

Þessar breytingar eru einkum: Grunnhækkun elli- og

örorkulífeyris, rýmkun ákvæða um skerðingu lífeyris,

fjölskyldubætur með þriðja barni, mæðralaun upp

tekin, auknar uppbætur á elli- og örorkulífeyri og

hækkun fæðingarstyrks.

3.

Vegna vísitöluhækkunar og fjölgunar bótaþega að

frádreginni iðgjaldaaukningu

3.7

millj.

52.9

millj.

b)

Til bindindisstarfsemi, m. a. vegna ákvæða VII. kafla áfengislag-

anna frá 1954 — áfengisvarnir

627

þús.

e)

Greiðslur með börnum erlendra manna, sbr. lög frá 1954

1.1

millj.

54.7

millj.

XII.

Á

I8. grein fjárlaga:

a)

Eftirlaun og styrktarfé, samkvæmt ákvörðun Alþingis, framlag til lífeyrissjóða

og framlag til grunnlaunauppbóta á lífeyri og verðlagsuppbóta á lífeyri

9.5

millj.

XHI.

Á

19. grein fjárlaga:

a)

Framlag ríkissjóðs til lækkunar á vöruverði

77.8

millj.

XIV.

Á

20. grein fjárlaga:

Útlagðir vextir og afborganir af lánum með ríkisábyrgð, sem eru í vanskilum

11.7

millj.

Samtals I–XIV

411.8

millj.

Samtals nema þá þessir liðir, sem ég hef nefnt 411 millj. og 800 þús. Og þá standa eftir af hækkuninni frá 1952 um 29 millj. og 300 þús. En þar, í þessum 29 millj. og 300 þús., eru m.a. innifaldir eftirtaldir liðir eða hækkun á eftirtöldum liðum: rekstur fangahúsa, nýtt vinnuhæli á Kvíabryggju, ýmislegir liðir til heilbrigðismála á 12. gr. fjárlaga, sem ekki eru taldir áður, áhaldakaup vegamálastjórnar og vitamálastjórnar, auknar orlofsgreiðslur vegna lagabreytinga, laun vitavarða og rekstrarkostnaður vita, kostnaðaraukning vegna kennslumála, sem enn er ótalin í því, sem ég hef lesið, um 17 millj. kr., og loks margvíslegir styrkir á 15. gr., kostnaðaraukning við land- og sjómælingar og við húsameistaraembættið, gjöld skv. nýjum lögum um búfjárrækt, aukið framlag til hlutatryggingasjóðs samkv. lögum og ýmsir liðir á 17. gr. fjárlaganna, sem ekki hafa verið taldir áður, svo sem aukin tillög til alþjóðastofnana og ýmislegra félagsmála innanlands, enn fremur kostnaðaraukning við hagstofu og stjórnarráð. Allt þetta o.fl. er innifalið í þessum rúmlega 29 millj.

Sennilega finnst mönnum, sem nú hafi margar tölur nefndar verið og ekki gott að átta sig til fulls eða fá greinilega mynd af málinu, en sannleikurinn er þó sá, að með þessum upplýsingum hafa menn fengið í hnotskurn höfuðstaðreyndir um þróun ríkisútgjaldanna síðan 1952. Koma fram í þessu yfirliti tiltölulega fáir skýrir drættir, sem gera myndina ekki flókna, þegar að er hugað nánar. Og nokkra þessara drátta vil ég benda á sérstaklega.

Mesta hækkun á einum lið er vegna niðurgreiðslu á vöruverði, eða 77 millj. kr. hækkun frá 1952, og er þetta um 286% hækkun.

Ef við athugum, á vegum hvaða rn. útgjaldaaukning hefur orðið mest á tímabilinu, kemur í ljós, að útgjöld á vegum félmrn. hafa vaxið um 64.4 millj. kr., á vegum menntmrn. um 63 millj, kr. Útgjöld til raforkumála hafa vaxið tiltölulega mest, eða um 468%.

Á yfirliti þessu kemur einnig glöggt í ljós, hvernig háttað er um aukningu framlaga til opinberra framkvæmda, og mun mörgum leika forvitni á að vita, hversu farið hefur um þau framlög í þessari þróun. Kemur þá fram, að framlög til opinberra framkvæmda eru nú í þessu fjárlagafrv. 109 millj. kr. hærri en árið 1952. Nemur hækkunin til þeirra í frv. því 137%, og er það mun meiri aukning, en orðið hefur á ríkisútgjöldunum í heild. Framlög til verklegra framkvæmda hafa því hækkað meira, en flestir aðrir liðir á fjárlögunum.

Byggingarkostnaður er talinn hafa hækkað um 40.5% síðan 1952, samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar fyrir þetta tímabil. Sýnir þetta glöggt, að framlög til verklegra framkvæmda hafa einnig raunverulega stóraukizt á þessu tímabili, bæði hlutfallslega við fjárlagaútgjöldin í heild og þó einkum, ef borið er saman, hvað hægt er að framkvæma fyrir fjárveitingarnar á hverju ári, bæði árin.

Þá hef ég athugað sérstaklega um beinan starfrækslukostnað í nokkuð þröngri merkingu, Ég tek með í því sambandi kostnað við Alþingi, stjórnarráðið, utanríkismál, opinbert eftirlit og innheimtu tolla og skatta. Þessir liðir hafa hækkað á tímabilinu um 93.3% og hafa því hækkað heldur minna, en sem svarar hækkun fjárlaganna. Nema þessir liðir 6.2% af gjöldum fjárlagafrv. núna, en námu 6.7% árið 1952.

Einn er sá liður í ríkisbúskapnum, sem hefur algera sérstöðu, og það eru útgjöld til þess að halda niðri vöruverði. Þau eru ekki sambærileg við neitt annað, og í rauninni er þar um að ræða ráðstafanir til þess að halda niðri verðlagi á einstökum vörutegundum fyrir milligöngu ríkisins og láta kostnaðinn af því koma fram í hækkuðum álögum á aðrar vörur. Þegar athuguð er þróun ríkisútgjaldanna, mætti því setja dæmið upp þannig að athuga, hver hækkun ríkisútgjaldanna hefur orðið, að frátöldu því fé, sem notað er til lækkunar á vöruverði. Sé þetta gert, kemur í ljós, að hækkun á heildarútgjöldum ríkisins á þessu tímabili, að frátöldu þessu fé, nemur 94.9%.

Ekki þurfa menn lengi að skoða þróun ríkisútgjaldanna til þess að sjá, að fjárlögin verða fyrst og fremst spegilmynd af löggjafarstarfi Alþingis annars vegar og á hinn bóginn af þróun verðlagsmálanna í landinu. Meginhluti ríkisútgjaldanna er að sjálfsögðu lögboðinn, og sjálft fjárveitingarvaldið er hjá Alþingi, og með hækkandi verðlagi og rýrnandi verðgildi peninga, hvort sem það kemur fram í skráðu gengi krónunnar eða í gegnum áhrif uppbótakerfisins, hækka ríkisútgjöldin.

Það er ef til vill sérstök ástæða til þess að draga þetta fram nú, þegar hafðar eru í huga þær fáránlegu umræður, sem fram hafa farið undanfarið um ríkisbúskapinn og ríkisútgjöldin, þar sem um þessi efni hefur verið rætt eins og fjmrh. ákvæði ríkisútgjöldin og bæri höfuðábyrgð á þeim.

Efast ég um, að fitjað sé upp á umræðum um þessi mál á jafnlágu „plani“, ef svo mætti segja, hjá nokkurri þjóð, sem telja vill sig sæmilega siðmenntaða. Samkvæmt þessum áróðri, ætti fjmrh. að vera ofar Alþingi og eins konar yfirráðuneyti allra ráðuneyta, sem yfir höfuð fjalla þó miklu meira um útgjaldahlið fjárlaganna, en fjmrn.

Í þeim upplýsingum, sem ég nú hef gefið, kemur samhengi þessara mála nokkuð glöggt í ljós, og segir það sína sögu, m.a. í hvaða málaflokkum útgjaldaaukningin hefur orðið. Geta allir skoðað það. Geta þá einnig þeir, sem staðið hafa fyrir þeim málum á undanförnum árum, hugleitt, hvort þeir hafi þar nokkuð nærri komið og hvers vegna ríkisútgjöldin hækkuðu í þessum málaflokkum.

Þessi mynd af ríkisbúskapnum, sem sýnir nokkuð glöggt, hvers vegna ríkisútgjöldin hafa hækkað, gæti ef til vill einnig orðið nokkurt umhugsunarefni þeim mönnum, sem sífellt tala um ríkisútgjöld og framlög til sameiginlegra þarfa sem þjóðarböl, enda þótt þeir hafi heimtað með manna mestri frekju síaukin útgjöld í flestum greinum. Er hollt að hugleiða tvennt einkum í því sambandi: Í annan stað um manndóminn, sem í því felst — eða hitt þó heldur — að krefjast sífellt aukinna ríkisútgjalda og telja sér þær kröfur til gildis, en vilja svo ekki við neitt kannast, þegar fjárlögin hækka. Á hinn bóginn, hvort það hefði orðið sérstakt bjargráð að láta allt það ógert til stuðnings margvíslegum framförum og þeim, sem miður mega sín í þjóðfélaginu, sem hækkað hefur ríkisútgjöldin á undanförnum árum.

Það hefur lítið gildi að æpa órökstuddar fullyrðingar um efnahagsmálin. Það þarf meira til, ef ræða skal þessi mál svo að, að gagni verði og þjóðin sé einhverju nær, þegar hún þarf að velja eða hafna.

Sama er að segja um það, þegar menn standa og hrósa sér og vilja láta þakka sér margvíslegar framfarir, sem orðið hafa á undanförnum árum, en biðja menn jafnframt að kenna öðrum um, að þessar framfarir skuli hafa kostað fé úr sameiginlegum sjóði landsmanna.

Það er enginn vandi að standa fyrir framförum, ef menn hafa fjármagn til þeirra. Vandinn er að útvega féð.

Einmitt þegar þetta er athugað, kemur í ljós, að menn vaxa ekki af slíkum málflutningi. Ríkisstj. var það ljóst, þegar hún var að vinna að fjárlagafrv., að mikill vandi verður að afgreiða fjárlögin og efnahagsmálin yfirleitt, svo að vel fari, á þessu Alþingi. Samkvæmt stjórnarskránni ber að leggja fram fjárlagafrv. í upphafi Alþingis. Ríkisstj. taldi sér engan veginn fært að ákveða það án náins samstarfs við þingflokkana, sem hana styðja, hvernig leysa skuli þann vanda, sem við er að fást í efnahagsmálunum, þ. á m. á hvern hátt fjárlögin geti orðið afgreidd greiðsluhallalaus.

Ríkisstj. hafði ekkert tækifæri til þess að ráðgast við stuðningsflokka sína á Alþingi um fjárlagafrv., áður en það væri lagt fram, né viðhorf í efnahagsmálum, eins og það er nú eftir reynslu þessa árs. Þess vegna er fjárlagafrv. lagt fram með greiðsluhallanum, og ríkisstj. mun í samráði við stuðningsflokka sína á Alþingi taka ákvörðun um, á hvern hátt verði tryggð afgreiðsla greiðsluhallalausra fjárlaga. Niðurstöður frv. og upplýsingar þær, sem því fylgja um ráðstafanir til niðurgreiðslu á vöruverði til bráðabirgða, gefa til kynna, að þetta verður ekki auðvelt viðfangsefni.

Þeir flokkar, sem standa að núverandi ríkisstj., hafa nægilega fjölmennu þingliði á að skipa, og ríkisstj. hefur haft og mun hafa samráð við fjölmennustu og öflugustu stéttasamtökin í landinu til sjávar og sveita, er hafa á sínu valdi að miklu leyti suma þýðingarmestu þættina í þjóðarbúskapnum. Þessi öfl þurfa að standa saman áfram um þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess að tryggja grundvöll framleiðslunnar, jafnar og öruggar framfarir og fulla atvinnu, en undirstaða þessa er fjárhagslegt öryggi.

Þegar þessir kraftar sameinast, geta þeir, sem nú vilja rífa niður, alls ekki eyðilagt það, sem upp er byggt, hversu mikið sem þeir reyna. Þeir flokkar, sem stjórnina styðja, eiga að sjá um, að þær ráðstafanir, sem gera þarf, komi ekki meira við almenning í landinu, en brýnustu hagsmunir alþýðunnar sjálfrar og þar með þjóðarheildarinnar krefjast.

Ætlun mín hefur verið með þeim orðum, sem ég nú hef mælt, að gefa hv. Alþingi og raunar allri þjóðinni nokkrar upplýsingar um höfuðþætti efnahagsmálanna, þ. á m. um ríkisbúskapinn. Með þessu vil ég eiga þátt í því að reyna að auka skilning á þessum málum og leggja grundvöll að umræðum til undirbúnings ákvörðunum.

Valdið til ákvörðunar í efnahagsmálum er mjög dreift í okkar landi, landi félagssamtakanna og frelsisins. Þetta vald er ekki í einu ráðuneyti, ekki einu sinni allt hjá ríkisstjórn og Alþingi. Félagssamtök í landinu hafa suma þætti nær alveg í sínum höndum.

En einmitt af því, að svona er, þá er okkur meiri nauðsyn en flestum öðrum, að margir kynni sér þessi efni af samvizkusemi. Við viljum fremur þola ýmis mistök í efnahagsmálum, sem ef til vill stafa að verulegu leyti af því, hve valdið er dreift, en fórna frelsinu. En markmiðið hlýtur að vera að halda frelsinu og komast hjá mistökunum.

Í þá átt verðum við öll að vinna, hvert á sínu sviði, af þolinmæði og þrautseigju. Hver maður á Íslandi, landi félagssamtakanna og hins dreifða valds, verður að gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð, sem á honum hvílir, og gæta vel göngu sinnar.