16.10.1957
Sameinað þing: 3. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Af fagnaðartóninum í blöðum stjórnarandstöðunnar síðustu dagana mætti ætla, að mikill hvalreki hefði borizt á fjörur hennar. Svo er þó ekki, því að á hennar fjörur rekur enga hvali.

Það, sem blöð stjórnarandstöðunnar eru að hlakka yfir, er það eitt, að fjárlagafrv. fyrir árið 1958, sem hér er til umræðu, er lagt fram með 71 millj. kr. greiðsluhalla.

Því aðeins er þetta stjórnarandstöðunni fagnaðarefni, að hún er þess eðlis, eða réttara sagt með þeirri ónáttúru, að hryggjast yfir velgengni þjóðar sinnar, en fagna ákaflega, ef henni sýnist eitthvað muni illa ganga eða erfiðlega í þjóðarbúinu. Þetta ber hvorki þjóðhollustu vottinn né göfugu innræti og mun síður, en svo verða Sjálfstfl. til vegs eða álitsauka hjá kjósendum.

En það er allt of snemmt fyrir illgjarna menn að hlakka og ímynda sér, að einhver þjóðarógæfa sé dunin yfir, þó aldrei nema fjárlagafrv. sé með nokkrum halla, þegar það er lagt fyrir Alþingi. Þeir flokkar, sem að stjórninni standa, munu áreiðanlega verða samtaka um það og sjá örugglega um, að fjárlög næsta árs verði afgreidd frá þinginu greiðsluhallalaus.

Þannig verður fagnaðarefni hinnar meinfýsnu stjórnarandstöðu áreiðanlega algerlega að engu orðið, áður en þessu þingi lýkur.

Gjöldin á þessu fjárlagafrv. eru áætluð um 40 millj, hærri, en á gildandi fjárlögum, og tekjur frv. eru áætlaðar röskum 30 millj. lægri, en á fjárlögum þessa árs. Þetta er allur sannleikurinn. Nú er það kunnugt, að hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, gætir jafnan fyllstu varfærni, þegar hann áætlar fjárlagatekjur næsta árs. Sjálfsagt hefur hann ekki brugðið þeim vana sínum í þetta sinn. Þar við bætist, að þegar hann vann að samningu lagafrv. í sumar, var nýlokið 7 vikna verkfalli á öllum kaupskipaflotanum. Engum dylst, að það verkfallsævintýri íhaldsins seinkaði allverulega eðlilegum vöruinnflutningi til landsins og dró þannig að marki úr tolltekjum ríkissjóðs á fyrstu átta mánuðum ársins.

Hafi nú verið miðað við reynslu þessara 8 mánaða, sem ekki er óeðlilegt, og byggt á þeirri niðurstöðu, að tekjur þessa tímabils væru rýrari en næsta árs á undan, og út frá því síðan áætlaðar tekjur seinustu mánaða ársins, viðlíka mikið undir tekjum þeirra sömu mánaða á árinu 1956, þá er ég ekkert undrandi á því, þó að niðurstaða tekjuáætlunarinnar á frv. verði 30 millj. lægri, en á gildandi fjárlögum.

Enginn vafi er á því, að væri hér reiknað með jafnmiklum tekjum 4 seinustu mánuði ársins eins og þeir mánuðir gáfu árið áður, væri þegar komið miklu nær jöfnuði á tekjum þessa og seinasta árs. Mætti þó raunar telja líklegt, að frestun innflutnings á verkfallsvikunum segði einmitt til sín með auknum innflutningi seinustu fjóra mánuði ársins.

Með tilliti til alls þessa bið ég þess rólegur, að reynslan skeri úr um það, hverjar verði tekjur þessa árs um það er lýkur. Mætti þá svo fara, að rekstrarhalli fjárlagafrv. væri til muna minni orðinn undir áramótin, en hann er nú talinn.

Þá hef ég lengi verið þeirrar skoðunar, að vel mætti að skaðlausu skera nokkuð niður útgjöld fjárlaga, og þeirrar skoðunar er ég enn. Og svo margt hefur íhaldið, bæði fyrr og síðar, hjalað um sparnað, að ólíklegt má telja, að það rísi öndvert gegn skynsamlegum sparnaðaraðgerðum, m.a. með nauðsynlegum lagabreytingum í þá átt, ef þurfa þætti. Slíkar aðgerðir ættu því engan veginn að stranda á stjórnarandstöðunni, ef hún verður sjálfri sér samkvæm.

Þannig virðist mér algerlega ástæðulaust fyrir illviljaða að gleðjast og fyrir góðviljaða að vera að hryggjast nokkuð að ráði, út af greiðsluhalla fjárlagafrv. Alþingi og ríkisstj, munu örugglega finna úrræði til greiðsluhallalausrar fjárlagaafgreiðslu.

Sjálfsagt mætti fara ýmsar leiðir til að leysa þann vanda, en það er skoðun Alþb., að vandann beri að leysa með varlegri, en þó réttri tekjuáætlun, eftir þeim horfum, sem við kunna að blasa undir áramót, og síðan, ef með þarf, með niðurskurði útgjalda, þar til greiðslujöfnuði er náð. Slík fjárlagaafgreiðsla væri líka í fullu samræmi við þá viðnáms- og stöðvunarstefnu gegn verðþenslu og vaxandi dýrtíð, sem ríkisstj. fylgir.

Annars kemur það í ljós á næstu vikum, hvaða úrræðum verður beitt til þess að tryggja hallalausa afgreiðslu fjárlaga, og undan þeim vanda verður ekki vikizt af núv. stjórnarflokkum.

Eitthvað hefur stjórnarandstaðan líka verið að breiða út fagnaðarfréttir um það, að útflutningssjóður væri kominn í þrot. En þetta er á miklum misskilningi byggt. Útflutningssjóður hefur staðið við allar skuldbindingar sínar gagnvart útgerðinni, það sem af er þessu ári. Auk þess hefur hann greitt útgerðarmönnum um 80 millj. kr. af þeim 100 millj. óreiðu- og vanskilahala, sem íhaldið skildi eftir sig. Sannleikurinn er sá, að bátagjaldeyriskerfið hafði dregizt a.m.k. eitt ár aftur úr og var að stöðva útgerðina vegna vanskila sinna, þegar stjórnarskiptin urðu.

Þetta er nú glæsilegi arfurinn á því sviði. Annars er það sama að segja um útflutningssjóð og ríkissjóð, að sjö vikna stöðvun á innflutningi hlaut að valda því, að nokkuð drægi úr tekjum hans í bili af þeim sökum.

Það var þá heldur ekki óeðlilegt, að bankarnir drægju nokkuð úr innflutningi hátollaðra vara, meðan óvissa ríkti um eðlilega aðflutninga lífsnauðsynja. Þetta bitnaði auðvitað tilfinnanlega bæði á tekjuöflun ríkissjóðs og útflutningssjóðs. En nú er orðin breyting á þessu, og bendir nú allt til, að innflutningur hátollaðra vara verði sízt minni seinustu mánuði ársins, en var á sömu mánuðum ársins 1956.

Hér við bætist svo það, að á næsta ári er útflutningssjóður laus við ýmsar þær byrðar, sem leggja varð á hann á þessu ári vegna viðskilnaðar íhaldsins.

Þannig er það hin mesta fjarstæða að halda því fram, að kerfi útflutningssjóðs, sem byggt var upp með aðgerðunum í fyrrahaust, sé hrunið. Þvert á móti hefur mikið áunnizt, þó að ekki hafi tekizt að greiða upp öll þau vanskil, sem íhaldið skildi eftir sig gagnvart útgerðarmönnum. Athugun, sem gerð var á því, hvaða aðstoð útgerðinni hefði verið greidd úr bátagjaldeyriskerfinu og framleiðslusjóði fram til 13. sept. í fyrra, og hins vegar á því, hvaða aðstoð útflutningssjóður hefði veitt fram til sama tíma í ár, sýndi, að á árinu í ár hafði sjávarútvegurinn fengið rétt um 100 millj. kr. meiri aðstoð, en eftir gamla kerfinu. Væri rétt, að íhaldið spyrði útgerðarmenn, hvort þeir vildu sleppa því, sem þeir hafa, og fá í staðinn það, sem þeir höfðu. Þetta læt ég nægja um útflutningssjóðinn í þetta sinn. Þeir ættu bara að spyrja, og þeir munu áreiðanlega fá svarið frá útgerðarmönnunum.

Þá vil ég þessu næst víkja lítið eitt að dýrtíðarmálunum.

Daglega fjargviðrast íhaldsblöðin yfir sívaxandi dýrtíð, tala jafnvel fjálglega um dýrtíðarhít stjórnarinnar, sem allt gleypi, um dýrtíðarskriðuna o.s.frv. Þessi mál er því sjálfsagt að ræða.

Nú hefur þessi ríkisstj. setið að völdum í tæpa 15 mánuði, og á því tímabili hefur vísitalan hækkað um 5 stig. En hvað gerðist í dýrtíðarmálunum á seinustu 15 mánuðum, sem Ólafur Thors sat að völdum? Dýrtíðin hækkaði þá um 25 stig. Þetta er sjálfsagt ekki dýrtíðarflóð eða dýrtíðarskriða? Ekkert sást a.m.k. um það í málgögnum íhaldsins, og ekkert heyrðist í málpípum íhaldsins í þá átt á þeim tíma.

En það var nú samt þessi dýrtíðarflóðalda, sem núv. stjórn ásetti sér að reyna að stöðva, og vissu samt allir, að slíkt mundi ekki verða auðvelt.

Þegar að því ráði var horfið að bjarga framleiðslunni frá algerri stöðvun á s.l. hausti með uppbyggingu útflutningssjóðs og mörg hundruð milljóna tollaálögum í því skyni, var öllum ljóst, að þessar aðgerðir hlytu beint að hækka vísitöluna um 3–4 stig. Samt varð þetta að gerast eða þá að grípa til stórfelldrar gengislækkunar. Þetta voru syndagjöld Ólafs Thors og stjórnarstefnu hans, og hjá því varð ekki komizt að greiða þau „kontant“ eða þá horfast í augu við bráða stöðvun atvinnulífsins. Síðan var komið á ströngu verðlagseftirliti og álagning lækkuð verulega, bæði í heildsölu og smásölu. Þá skorti ekki stóryrði af hendi íhaldsins um, að nú ætlaði nýja stjórnin að ganga af allri kaupsýslustarfsemi dauðri, hér yrði vöruskortur, svartur markaður og biðraðir á skömmum tíma o.s.frv. En ekkert slíkt hefur gerzt. Hér kallaði bara að sú þjóðarnauðsyn að hafa hemil á verðlagi og beina meiru af vinnuafli þjóðarinnar frá milliliðastarfsemi til framleiðslustarfa. Jafnframt þessu var því sjómönnum veitt nokkur kjarabót með hækkuðu fiskverði og auknum fríðindum. Og ég fullyrði, að þetta er þjóðhollari stefna, en níða niður lífskjör fólksins við framleiðslustörfin og gefa kaupsýslunni frjálsar hendur í verðlagsmálum, en þetta tvennt veit verkalýðsstéttin og þjóðin öll að hefur jafnan verið meginstefna íhaldsins.

Þessu næst skal ég gefa nákvæmar upplýsingar um, hvaða verðhækkanir það eru, sem orðið hafa og felast í hinum fimm vísitölustigum.

Það er þá fyrst, að verðhækkun á fiski veldur hálfu vísitölustigi, en af matvörum er það að öðru leyti sykur, sem langmest hefur hækkað í verði. Nemur sú hækkun af strásykri og höggnum molasykri samanlagt 1.71 stigi. Sú verðhækkun er okkur auðvitað með öllu óviðráðanleg. Af eldsneytisliðnum er það 6% hækkun á rafmagni í Reykjavík, sem mestri hækkun veldur, eða 1/4 úr vísitölustigi. Það er sem sé heimabrugg í dýrtíðaraukningu, og gæti komið til mála að kippa þeirri hækkun til baka með því að taka rafmagnsverð óumdeilanlega undir verðlagsákvæði. Fatnaður, að skófatnaði meðtöldum, hefur hækkað vísitöluna um 1.27 stig, Húsnæðisliðurinn hækkar vísitöluna um þriðjung stigs. Og þá eru það ýmis útgjöld, svo sem hækkun dagblaða, bíómiða og póst- og símagjalda, sem nema um 1/2 stigs hækkun. Þannig hefur Hagstofa Íslands gert grein fyrir eðli þeirrar vísitöluhækkunar, sem orðið hefur á seinustu 15 mánuðum, síðan núverandi stjórn tók við völdum.

Orsakir þess, að ekki hefur tekizt strax á fyrsta ári að stöðva algerlega vöxt dýrtíðarinnar, eru að mínu áliti aðallega þrjár: Í fyrsta lagi tollaálögurnar í fyrrahaust, sem hlutu að segja til sín í verðlaginu. Það var, eins og ég áðan sagði, greiðslan á óreiðuvíxlum Ólafs Thors, Í öðru lagi erlendar verðhækkanir, einkanlega vegna Súezstríðsins. Og í þriðja lagi áhrifin af hinni óþjóðlegu baráttu Sjálfstfl. svokallaða, fyrir því að koma nýrri verðbólguskriðu af stað.

Þegar á allt þetta er litið, tel ég mig ekki hafa orðið fyrir vonbrigðum með árangurinn af viðnámsstefnu stjórnarinnar í dýrtíðarmálunum, og ég fæ ekki betur séð, en fram undan geti verið ár algerrar verðlagsstöðvunar, ef haldið er áfram á sömu braut, án þess að hika. Verðlag á heimsmarkaðinum er nú tiltölulega stöðugt. Líkur eru til, að engar nýjar ráðstafanir þurfi að gera til hjálpar útgerðinni, og alveg er víst, að fylgjendur Sjálfstfl. muni snúa sér með fyrirlitningu frá verðþenslustefnu hans og kenna þannig flokksforustunni betri siði í þeim efnum, eins og verkfallsbrölt hans fékk skjótan endi vegna fordæmingar fólksins sjálfs. Að mínu áliti ber því að halda áfram á hinni mörkuðu braut og slaka sízt á klónni.

Að vísu veit ég vel, að íhaldið hefur allt á hornum sér gagnvart verðlagseftirliti og öllum öðrum ráðstöfunum, sem gerðar eru til að fyrirbyggja, að hver og einn hafi fullt frjálsræði til að hækka verð á vörum og þjónustu að eigin ósk og vild. Kenning íhaldsins er sú, að frjáls verðmyndun sé almenningi hagstæðust, allt verðlagseftirlit sé því til bölvunar. Þetta tel ég augljósa falskenningu. Nægir þar að vitna til þeirrar reynslu, sem fékkst, þegar verðlagseftirlitið var gert óvirkt. Þá stórhækkaði allt verðlag. Í annan stað þarf ekki annað, en benda á allan þann sæg umsókna, sem daglega berst skrifstofu verðlagsstjóra um stórfelldar verðhækkanir. Hverjum dettur í hug, að frjálst verðlag yrði ekki á skömmum tíma í samræmi við þær umsóknir, ef verðlagsyfirvöld hömluðu ekki á móti? Tökum verðlagningu olíunnar á þessu ári sem dæmi.

Það er staðreynd, að fast var á það sótt s.l. haust, að verðlag olíu yrði ákveðið á þann veg, að árssala gæfi olíufélögunum 30 millj. meira en það verð, sem ákveðið var. Getur nokkur maður efazt um, að þessar 30 millj. hefðu verið teknar af notendum olíunnar, ef frjáls verðmyndun hefði ákveðið verðið? Nei, um það þarf enginn að efast. Miklu líklegra er, að þá hefði það orðið drjúgum meira en 30 millj. Eða hvað mundi hafa orðið s.l. vor, þegar olíuverð var lækkað, svo að nam 10 millj. á eins árs olíunotkun? Er líklegt, að þeim 10 millj. hefði verið skilað notendum, ef ekkert verðlagseftirlit hefði tekið í taumana? Ég segi nei. Til þess eru engar líkur, ef verðlag hefði verið frjálst og eftirlitslaust.

Þannig mætti taka fjölda dæma, en þetta verður að nægja, tímans vegna, að sinni.

Þessu næst örfá orð um kaupmátt vinnulauna. Þekktur hagfræðingur hefur nú í haust gert á því sams konar athugun og hann hefur gert í mörg ár fyrir Alþýðusamband Íslands, hvað liði kaupmætti vinnulauna, miðað við vísitöluvörur. Niðurstaða hans er sú, að kaupmáttur launa sé nú mjög sá sami í byrjun september og hann var í fyrrahaust og í apríl í vor, er þessi atriði voru seinast athuguð.

Berum þetta nú saman við reynslu okkar frá þeim árum, þegar skiptust á kauphækkanir fengnar með fórnfrekum verkföllum og sífelldar verðhækkanir rétt á eftir hverri kauphækkun. Hver reyndist þá jafnan niðurstaða þessarar hagfræðiathugunar um kaupmátt vinnulauna, sem gerð var þá með sama hætti og nú og af sama manni? Eins og margir muna, varð niðurstaðan þá sífellt rýrnandi kaupmáttur launa nema skamman tíma rétt eftir hverja vinnudeilu. Ef ég man rétt, nam rýrnun kaupmáttarins ca. 20 stigum á árunum 1947 fram til verkfallsins haustið 1955.

Það var ekki sízt vegna þessarar bitru reynslu af vaxandi dýrtíð og verðbólgu, sem verkalýðshreyfingin varð að yfirgnæfandi meiri hluta sammála um, að hagsmunum vinnandi fólks væri betur borgið með stöðvun verðbólgu og dýrtíðar, en með því að búa við sífelld víxláhrif kauphækkana og verðhækkana til skiptis. Og ég verð að segja það, að mér er ekki kunnugt um, að verkalýður landsins hafi skipt um skoðun í þessu efni. Það er bara íhaldið eitt, sem mælir nú hvað ákafast með því, sem það áður fordæmdi, hvað svo sem þeim sinnaskiptum vinnuveitendaflokksins kann að valda.

Nú standa verkalýðsfélögin á þeim tímamótum að taka ákvörðun um, hvort segja skuli upp samningum eða ekki. Um það munu fáir efast, að þau hafa nægan styrkleika til þess að knýja fram kauphækkanir. Það mundi vissulega takast fyrir þeim. En þá þarf heldur enginn að efast um, að útgerðin yrði að fá aukna aðstoð, annaðhvort í formi nýrra skatta, sem rynnu í útflutningssjóð, eða þá með beinni gengislækkun. Sjómenn yrðu líka að fá hækkað fiskverð. Hvers konar atvinnurekstur, mundi heimta hækkað verðlag, vegna aukins vinnulaunakostnaðar við framleiðsluna, Og bændur ættu siðferðilegan og lagalegan rétt til hækkaðs afurðarverðs, ekki síðar en á hausti komanda. Spurningin er því aðeins sú, eftir að þessi umferð hefði farið fram, hverjir hefðu grætt. Mig skortir trú á, að gróðinn mundi falla verkalýðnum í skaut. Hitt veit ég, að þeir, sem safnað hafa fasteignum og miklum vörubirgðum á seinustu árum, og raunar ýmsir fleiri eru andvígir stöðvunarleið ríkisstj. og hafa lengi þráð þessa síðarnefndu þróun málanna, og þá dreymir enn um að geta hrundið henni af stað, auðvitað sjálfum sér til hagsbóta, en ekki vinnustéttum landsins. Hér er aðeins um að ræða val um leiðir. Og svo mikið er víst, að frá stöðvunarleiðinni verður ekki vikið af núverandi ríkisstj. nema þá í fullu samráði við verkalýðssamtökin og í samstarfi við þau. Án slíks samstarfs eru nýjar leiðir í efnahagsmálunum fyrir fram dæmdar til að mistakast.

Það var frá öndverðu eitt höfuðstefnumál Alþb. að gera allt, sem unnt væri, til að byggja upp stöðugt og samfellt atvinnulíf um land allt. Í samræmi við þetta hefur verið stutt að byggingu fiskiðjuvera og fiskvinnslustöðva í kaupstöðum landsins. Einnig hefur verið samið um smíði fjöldamargra fiskiskipa, sem síðan er ætlað það hlutverk að jafna atvinnuaðstöðuna í landinu. Samtals voru þau fiskiskip, sem samið hafði verið um smíði á fyrir Íslendinga nú þann 1. sept. s.l., 5.090 smálestir. Til samanburðar má geta þess, að tvö næstu árin á undan nam smálestatala þeirra fiskiskipa, sem smíðuð voru fyrir Íslendinga, ekki nema 3.500 smálestum. Takið eftir: á einu ári 51.00 smálestir móti 3.500 lestum á tveimur árum. Hér er um þrefalt meiri skipakaup að ræða, og eru hér þó ekki taldir með þeir 15 stóru togarar, sem tilboð hafa nú borizt frá ýmsum þjóðum um að smiða fyrir Íslendinga.

Í atvinnumálunum er því, eins og sjá má af þessu, allt önnur stefna uppi, en þegar keyptir voru 5.000 bílar til landsins, en ekki einn einasti togari á sama árabili. Það var stjórnarstefnan hans Ólafs Thors og Sjálfstfl.

Þessi stefna hefur líka þegar borið gifturíkan ávöxt, því að nú þegar er fólksflóttinn til Reykjavíkur að mestu stöðvaður. Fólk hefur þegar öðlazt trú á það, að innan skamms verði eins lífvænlegt í heimahögum á Austfjörðum, Norðurlandi og Vestfjörðum eins og á Suðurnesjum, og þetta tel ég eina ánægjulegustu og þýðingarmestu þjóðlífsbreytinguna, sem orðið hefur síðan núverandi stjórnarsamstarf hófst.

Naumast verður hjá því komizt að segja nokkur orð um gjaldeyrismálin. Íhaldið hefur þrástagazt á því, að algert öngþveiti ríki nú í gjaldeyrismálunum og að vöruskortur og hvers kyns vandræði sigli í kjölfar vinstri stjórnarinnar. Samkv. nýútkomnum Fjármálatíðindum Landsbankans var gjaldeyrisstaða bankanna gagnvart útlöndum 19 millj. kr. betri, nú í ágústlokin, en í fyrra um sama leyti, Gjaldeyrisstaðan hefur því fremur batnað, en versnað, um það verður ekki deilt. Opinberar tölur sýna, að gjaldeyrissala hefur verið álíka mikil á þessu ári og hún var á s.l. ári, en þá var hún meiri, en nokkru sinni áður. Vörukaup munu því vera svipuð og áður. Í tíð núverandi stjórnar hefur engin framleiðslustöðvun átt sér stað, og gjaldeyrisöflunin hefur því verið eins mikil og afli og veðrátta hafa leyft. Frammistaða íhaldsins í gjaldeyrismálunum var annars þessi:

Árið 1955 var beinn greiðsluhalli við útlönd 142 millj. kr. Árið 1956 var beinn greiðsluhalli við útlönd 162 millj. kr. í ársbyrjun 1955 áttu bankarnir 100 millj. kr. inni í erlendum bönkum. En þegar íhaldið lét af völdum, á miðju ári 1956, skulduðu þeir um 70 millj. Það var kveðjan. Og svo þykist íhaldið hafa efni á því að tala um bágborið gjaldeyrisástand hjá núverandi stjórn.

Eitt langar mig enn til að minnast á, ef tími minn leyfir, og það er þetta: Ekkert áróðursatriði gegn núverandi stjórn var eins oft endurtekið og margtuggið á s.l. hausti og það, að þegar nýja stjórnin hefði setzt í stólana, hefði skyndilega tekið fyrir alla innstæðuaukningu í bönkum og sparisjóðum. Þetta var talin ein órækasta sönnun þess, að nýja ríkisstj, hefði ekki traust sparifjáreigenda. Hún væri þar rúin trausti.

Nú liggja fyrir tölur, sem tala skýru máli um þetta atriði, og þær tölur eru sem nú skal greina: Á fyrstu sjö mánuðum ársins 1956 varð innstæðuaukning í bönkum og sparisjóðum 98.9 millj. Þetta voru, eins og menn sjálfsagt muna, seinustu valdadagar íhaldsins, því að þeir dagar voru taldir seinustu daga í júlí 1956. Og nú mundi mönnum efalaust þykja fróðlegt að heyra, hver sparifjáraukningin hafi orðið í bönkum og sparisjóðum fyrstu sjö mánuði þessa árs. Varð hún 98.9 millj. eins og í fyrra, eða varð hún yfirleitt nokkur? Jú, reyndar hefur hún samkv. opinberum skýrslum orðið ekki sú sama og í fyrra, 98.9 millj., heldur 141 millj. kr. á fyrstu sjö mánuðum ársins 1957. Og hafi þetta atriði skorið örugglega úr um traust eða vantraust sparifjáreigenda til ríkisstj. í fyrra, þá er hér nú vissulega um mikla og ótvíræða traustsyfirlýsingu að ræða frá sparifjáreigendum til núverandi ríkisstjórnar.

Nú vil ég að lokum rifja upp, hvernig viðskilnaður íhaldsins var í aðalatriðum, þegar Ólafur Thors strandaði þjóðarskútunni og hljóp frá stýrinu í fáti, þó að heilt ár væri þá enn til kosninga.

Þá var bátagjaldeyriskerfið gjaldþrota og orðið rúmu ári á eftir með allar greiðslur sínar til útgerðarmanna. Halli framleiðslusjóðs nam auk þess 20–30 millj. Niðurgreiðslur höfðu aukizt um 30 millj. Á þriðja hundrað milljóna þurfti að útvega til viðbótar, til þess að framleiðsluatvinnuvegirnir stöðvuðust ekki og gætu haldið áfram næsta ár. Og það var gert. Hið almenna veðlánakerfi var félaust, og bygging íbúðarhúsnæðis var að stöðvast um land allt. Það hefði þurft hátt á þriðja hundrað milljónir til þess að fullgera hálfgerðar byggingar í Reykjavík einni saman. Til þess að standa við lofaðar og umsamdar framkvæmdir í raforkumálum dreifbýlisins á árinu 1956 vantaði 20 millj. Ræktunarsjóð vantaði 20 millj. til að geta bætt úr brýnustu lánaþörf. Fiskveiðasjóð vantaði 15 millj. til þess að standast hátíðlega gefin loforð um lán á árinu 1956. Hið mikla fyrirtæki sementsverksmiðjan var stöðvuð, og vantaði 60 millj. til þess að fullgera hana, en enginn peningur til. Hálfgerð fiskiðjuver voru stöðvuð eða að stöðvast víða úti um land sökum fjárskorts. Bygging nýrrar rafstöðvar við Sog var komin í eindaga og ótíma og raforkuskortur vofði yfir höfuðborginni og Suðvesturlandinu innan tveggja ára. Lán höfðu hvergi fengizt til verksins, og hafði þeirra þó verið leitað land úr landi í tveimur heimsálfum. Stjórn Ólafs Thors, sem keypti inn bílana, en gleymdi atvinnutækjunum, hafði auðvitað hvergi nokkurs staðar lánstraust í löndum hvítra manna og hrökklaðist þá frá völdum.

Hvað hefur svo gerzt í þessum málum síðan? Bátagjaldeyriskerfið var lagt niður og fjár aflað til framleiðsluatvinnuveganna, svo að stöðvun varð engin um áramót, og er nýtt í sögunni. Merk löggjöf var sett um byggingu íbúðarhúsa, 65 millj. kr. lán fékkst í Bandaríkjunum, og var það látið ganga til ræktunarsjóðs 20 millj., fiskveiðasjóðs 10 millj., til raforkuplansins 18 millj. og til sementsverksmiðjunnar 7 millj., og þykir nú víst, að byggingu hennar verði lokið á næsta ári. Aðstoð var veitt til þess, að hægt væri að ljúka byggingu hinna miklu fiskiðjuvera og hefja rekstur þeirra, og eru sum þeirra nú þegar komin í rekstur. Og útvegað var stórlán í Bandaríkjunum til Sogsvirkjunarinnar, og eru virkjunarframkvæmdir nú hafnar af fullum krafti og þar með afstýrt þeim ógnarlega rafmagnsskorti, sem yfir Reykjavík vofði.

Í sambandi við síðastnefnda stórmálið, Sogsvirkjunina nýju, gerðist það, að stjórnarandstaðan reyndi að koma í veg fyrir, að lánið fengist, slík lánveiting væri hættuleg, því að hún væri aðeins vatn á mylnu kommúnista. Þetta var allt því furðulegra, þegar þess er gætt, að Reykjavík á að heita eigandi Sogsvirkjunar að hálfu á móti ríkinu og hefur ekki til þessa reynzt fær um að leggja fram nokkurt fé til verksins að sínum hluta. Má telja víst, að hið alræmda viðtal hins óánægða sjálfstæðisleiðtoga við Wall Street Journal til þess að spilla fyrir lánsmöguleikum þjóðar sinnar og grafa undan lánstrausti hennar út á við hljóti einstæða endemafrægð í Íslandssögunni. Hjá því getur varla farið. Sú stjórnarandstaða, sem slíkt lætur henda sig og leggur auk þess ekkert jákvætt til lausnar nokkurs vandamáls, heldur ástundar ábyrgðarlausa verðþenslustefnu og verkfallapólitík fyrir hálaunamenn, er ekki hættuleg stjórnarandstaða. Hún fellur á sjálfs sín bragði og fær áreiðanlega þungan áfellisdóm þjóðarinnar.