16.10.1957
Sameinað þing: 3. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Emil Jónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það virðist hafa verið föst regla, að öll fjárlagafrumvörp, sem lögð hafa verið fram hin síðari ár, hafa verið þau hæstu, sem þá hafa þekkzt. M.ö.o. öll fjárlagafrumvörp og fjárlög hafa farið síhækkandi frá ári til árs, og stundum hefur þessi hækkun verið mjög veruleg. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., er engin undantekning frá þessari reglu. Niðurstöðutala á greiðsluyfirliti fjárlaga yfirstandandi árs er rúmar 810 millj. kr., en tilsvarandi tala í fjárlagafrv. fyrir 1958 er 852 millj. kr., eða 42 millj. hærri, en í fjárlögum í ár. Er þó sjálfsagt fjarri því, að öll kurl séu komin til grafar, því að reynsla undanfarandi ára hefur jafnan verið sú, að gjaldaliðir frv. hafa hækkað í meðförum þingsins, og stundum hefur sú hækkun orðið mjög veruleg. Það má því fyllilega gera ráð fyrir, að ýmsar breytingar verði einnig gerðar í þátt átt nú á frv., og er raunar alveg fyrirsjáanlegt, að ekki verður komizt hjá að hækka nokkra gjaldaliði allverulega. Það liggur því augljóslega fyrir, að ef ekki verður gripið til alveg nýrra og óvenjulegra aðgerða, muni þau fjárlög, sem út úr þessu fjárlagafrv. eiga eftir að koma, verða þau hæstu, sem samþykkt hafa verið nokkurn tíma á Alþingi.

En þó að af þessari staðreynd megi þegar nokkuð ráða um fjárlagafrv., segir hún þó ekki nærri allt, sem segja þarf í þessu sambandi. Hitt skiptir sannarlega ekki minna máli, hvernig þessa mikla fjár er aflað, hvernig því er varið og hvaða ástæður liggja til þess, að ekki verður komizt hjá þessum sífelldu hækkunum, jafnvel þó að ekki sé til beinna nýrra útgjalda stofnað.

Um tekjuöflunina er yfirleitt lítið nýtt að segja. Þar hefur þessi ríkisstjórn, bæði við setningu síðustu fjárlaga og við samningu þessa fjárlagafrv., yfirleitt farið sömu brautir og áður hefur verið gert. Langsamlega yfirgnæfandi hluta teknanna er aflað með aðflutningsgjöldum, söluskatti, tekju- og eignarskatti og með rekstri tóbaks- og áfengisverzlunarinnar. Verður þar varla miklu um þokað né nýjar leiðir farnar að svo stöddu.

Skattlagning svokallaðrar óþarfaeyðslu, hárra tekna og áfengis- og tóbaksnotkunar, er líka sú aðferð í þessum málum, sem flestir telja eðlilegasta og minnstum andmælum sætir. Þó hefur sú skoðun skotið upp kollinum oftar og oftar nú á seinni árum og kom raunar lítillega fram í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan, að taka beri til mjög alvarlegrar athugunar, hvort ekki væri mögulegt að draga meira úr tekjuskattsálagningunni, en þegar hefur verið gert. Nokkrar breytingar hafa á undanförnum árum verið gerðar á tekjuskattslögunum og flestar eða allar til bóta, að mínu viti, þar sem skatturinn hefur verið lækkaður á lágum tekjum. En ég tel það vel athugandi, hvort ekki er hægt að ganga þar enn nokkru lengra í þeirri veru að lækka skattinn.

Í landi eins og okkar landi, svo fjármagnsfátæku sem það nú er og þar sem eftirspurnin eftir fjármagni er jafngífurleg og hér og þörfin fyrir það jafnbrýn, getur það haft úrslitaþýðingu, að menn leggi nokkuð að sér til þess að safna sér svolitlum varasjóði, en hjá mörgum hefur dregið úr viðleitni til slíks vegna hárra skatta. Ég á hér ekki við sérstaklega skatt á háar tekjur, mjög háar, síður en svo, heldur miðlungstekjur og kannske nokkuð þar yfir. Þegar menn leggja hart að sér til tekjuöflunar, verkar það ekki vel að straffa þá með því að taka af þeim meginhlutann í skatt. Og við þetta vil ég aðeins bæta því, að það mun að langsamlega mestu leyti vera alþýða manna í þessu landi, þ.e.a.s. sá hluti hennar, sem hefur eitthvað lítils háttar meira, en til hnífs og skeiðar, sem leggur til spariféð. Hinir, sem miklu meira hafa úr að spila, ávaxta það frekar á annan hátt, en að leggja það í sparisjóðsbók. En það er einmitt spariféð, sem þarf að aukast, því að það er grundvöllurinn að heilbrigðu efnahagslífi.

Þessi hugsun hefur komið víðar fram upp á síðkastið. T.d. flutti norski fjármálaráðherrann um þetta mjög ýtarlegt og fróðlegt erindi hér á þingmannafundi í Reykjavík í sumar. Ég skýt þessu aðeins fram hér til athugunar, því að mér sýnist, að þetta gæti verið sú breyting á tekjuöflun ríkissjóðs, sem tiltölulega auðveldast væri að gera og líklegust væri til þess að hafa heillavænlegar afleiðingar, á fleiri en einn hátt.

Gjaldahlið frv. hefur hæstv. ráðh. gert svo ýtarlega grein fyrir, að ég þarf þar ekki neinu við að bæta, en vil þó leyfa mér að fara um hana nokkrum orðum.

Ég vil fyrst aðeins vekja athygli á því, að framlög til verklegra framkvæmda, svo sem til vegagerða, brúargerða og hafnarframkvæmda, eru í frv. áætluð allmörgum milljónum króna lægri, en var í fjárlögum yfirstandandi árs, og þar sem hæstv. fjmrh. var hér áðan að tala um mjög mikla hækkun á þessum framkvæmdum, hefur hann tekið miklu fleira með en það, sem ég nú nefndi, eða vegi, brýr og hafnir, því að framlögin til þeirra eru í frv. þó áætluð nokkuð mörgum milljónum lægri, en er í gildandi árs fjárlögum. En ég tel mjög litlar líkur til, að frá fjárlagafrv. verði endanlega gengið á þann hátt, að ekki verði eitthvað bætt við þessa áætlun. Þörfin er svo brýn fyrir miklar framkvæmdir á þessum sviðum, að ég tel litlar líkur til, að alþm. uni því, að þessar upphæðir verði færðar niður frá því, sem er í núverandi fjárlögum. Ég skal t.d. segja um þann þátt þessara framkvæmda, sem ég er persónulega kunnugastur, hafnargerðirnar, að fjöldamörg sveitarfélög víðs vegar úti um land hafa talið þessar framkvæmdir svo lífsnauðsynlegar fyrir sig og svo aðkallandi, að þau hafa ráðizt í að hrinda verkum í framkvæmd langt umfram það, sem ríkisstyrkurinn hefur náð til, og þau eiga því nú inni og hafa átt inni í mörg ár sum hver upphæðir, sem skipta mörgum milljónum króna, hjá ríkissjóði. Hafnargerðir viða úti um land eru að kalla má grundvöllurinn undir öllu efnahagslífi viðkomandi staða og því lífsnauðsyn, að þeim sé hraðað svo sem frekast eru föng á. Teldi ég því nauðsynlegt, að ýtt yrði undir þessar framkvæmdir sem mest og fjárveitingar til þeirra auknar frá því, sem var í núgildandi fjárlögum, en ekki dregnar saman.

Eins og áður er sagt, er niðurstöðutala á greiðsluyfirliti 852 millj. kr. Þetta er vissulega há upphæð og ekki að undra, þó að menn staldri við til að skoða nánar, hvað það er, sem þessi mikla fjárfúlga er notuð til. Er oft af hálfu stjórnarandstöðunnar látið liggja að því, að mikið og kannske allt of mikið fari í beina eyðslu við rekstur ríkisbáknsins, eins og það þá er orðað. En sannleikurinn er sá, að meira og meira af tekjum ríkissjóðs fer nú árlega til þess að létta undir með þeim þegnum þjóðfélagsins, sem helzt þurfa þess með.

Það er talið, að lífskjör almennings á Íslandi séu nú kannske jafnari, en viðast hvar annars staðar í heiminum. Og það er sennilega rétt. En þetta hefur náðst með tvennum hætti: Annars vegar með samtakamætti íslenzkrar verkalýðshreyfingar, og í öðru lagi með pólitískri baráttu hér á Alþ., þar sem málum hefur verið þokað í þá átt, að ríkissjóður hefur verið látinn taka að sér að jafna metin. Tekjujöfnun milli einstaklinga fer nú í ríkari mæli fram fyrir atbeina ríkissjóðs, en nokkru sinni áður. Ég gæti nefnt um þetta fjölda dæma, en ég skal aðeins geta hér um eitt. Það eru tryggingarnar.

Fyrir nokkrum árum, eða um það bil, sem stofnað var til alþýðutrygginganna hér, — ég ætla, að það hafi verið í kringum árið 1936, —voru útgjöld til tryggingastarfsemi tæpast til á fjárlögum. Nú er varið úr ríkissjóði 85 millj. kr. í þessu skyni samkvæmt fjárlagafrv, því, sem nú liggur fyrir. Þetta verkar beinlínis á þann hátt að jafna lífskjör almennings í landinu.

Þá má nefna framlög ríkisins til atvinnuveganna. Til landbúnaðar eru á frv. ætlaðar 67 millj. rúmar, til sjávarútvegs 111/2 millj., til iðnaðar 3.7 og til rafmagnsframkvæmda 30.3 millj., eða samtals til þessara atvinnumála og raforkumála 113 millj. rúmar. Þó að hér sé að vísu nokkuð misskipt á milli atvinnuveganna, má þó í heild segja, að allt þetta mikla fé fari til þess að létta þeim, sem við þessi störf fást, lífsbaráttuna og alveg sérstaklega til þess að koma í veg fyrir, að atvinnuleysi skapist.

Sama eða svipað má segja um flesta aðra liði fjárl., eða með örfáum undantekningum um þá alla, svo sem eins og framlögin til heilbrigðismála, til kennslumála, til verklegra framkvæmda o.s.frv. Hækkun fjárl. er því að mjög verulegu leyti orðin til á þann hátt, að ríkissjóður hefur tekið sér að veita aðstoð ýmsum þjóðfélagsþegnum og þá fyrst og fremst þeim, sem talið hefur verið að þyrftu þess mest með.

Hin pólitíska barátta á sviði félagsmála, menningarmála, heilbrigðismála og atvinnumála hefur vissulega borið mikinn og góðan árangur, þannig að ungir fá nú miklu meiri fræðslu, en áður, sjúkir og vanheilir aðhlynningu kunnáttumanna í góðum sjúkrahúsum og gamlir nokkra aðstoð til þess að komast sæmilega af í ellinni. Og reynt er að skapa atvinnuvegunum aðstöðu til þess, að þeir með starfrækslu sinni geti komið að notum, geti látið í té atvinnu fyrir fleiri og fleiri starfsmenn.

Allt þetta kostar mikið fé, og það er þetta, sem fyrst og fremst hefur orðið til þess að hækka fjárl. jafngífurlega og raun hefur á orðið. Að vísu kemur svo rekstrarkostnaður ríkisins þarna til viðbótar. Hann hefur líka nokkuð vaxið með eðlilegum hætti, vegna þess að ríkið hefur fært út sína starfsemi. En þessi kostnaður hefur líka vaxið með vaxandi verðlagi. Og þá er komið að öðru atriði og ekki þýðingarlitlu, eða réttara sagt atriði, sem öll íslenzk pólitík hefur meira og minna snúizt um síðustu árin, en það er um vöxt verðbólgunnar og hvernig komið verði í veg fyrir áframhaldandi vöxt hennar.

Þegar núverandi ríkisstj. settist að völdum, lýsti hún því yfir, að hún mundi beina mikilli orku að því að leysa vandamál hinnar vaxandi dýrtíðar og verðbólgu og gera það í samráði við verkalýðssamtökin. Hvernig hefur nú þetta tekizt? Sjórnarandstaðan og blað hennar segir, að þetta hafi gersamlega mistekizt og allt farið úr reipunum hjá stjórninni, og því má bæta við, að stjórnarandstaðan og blað hennar, Morgunblaðið, hefur gert það, sem hún mögulega gat, til þess að láta líta út eins og það hafi mistekizt. Uppáhalds umræðuefni þar í sveit, hefur verið að undanförnu í hálfkveðnum vísum að ala á tortryggni út af þeim ráðstöfunum, sem ríkisstjórnin hefur gert til þess að stöðva vöxt verðbólgunnar. Þegar þeir hafa sjálfir verið í stjórnaraðstöðu, hafa þeir haft allt aðra skoðun á þessum sama hlut. M.ö.o.: afstaða þeirra til sama málsins hefur mótazt af því, hvort þeir hafa fengið að sitja í ráðherrastólunum eða ekki. Þessa tækifærissinnuðu áróðurspólitík má hiklaust telja allt að því ósæmilega og óþjóðholla, svo að flokkurinn getur tæpast verið þekktur fyrir hana, Hvar sem mögulegt hefur verið að kynda undir óánægju, og það er ekki svo ýkja erfitt að finna tækifæri til þess, ef menn leggja sig fram í því, hefur það verið gert. Þar hefur flokkurinn í gegnum blað sitt beint og óbeint hvatt almenning, einstaklinga og samtakahópa til aðgerða, sem ef framkvæmdar yrðu stefndu í tvísýni þeirri viðleitni, sem ríkisstj. hafði uppi um stöðvun verðbólgunnar.

Í átökum þeim um launahækkanir ýmissa tekjuhæstu manna þjóðfélagsins, sem farið hafa fram á síðasta ári, hefur Morgunblaðið ekki verið í vafa um, hvoru megin það átti að skipa sér, og beinlínis hvatt aðra til þess að fara sömu leið. Ég tel, að þessa pólitík megi ekki Sjálfstfl. reka. Þó að flokkurinn hafi áhuga fyrir að koma núverandi ráðh. úr stjórnarstólunum og setjast sjálfur í þá, má hann ekki sem ábyrgur flokkur reka þá baráttu á þennan hátt og beinlínis verða til þess að skaða með því þjóðfélagsheildina.

Nú hefur að vísu furðulítill árangur náðst af þessum áróðri, en það er ekki Sjálfstfl. að þakka. Söm var hans gerðin. Þessi áróður hefur að vísu oftast verið fluttur eins og hálfkveðnar vísur til þess að koma óánægju af stað, sem síðar endaði í aðgerðum, sem ríkisstj. yrðu óþægilegar, jafnvel þó að þær yrðu þá þjóðfélaginu til skaða í leiðinni. Það varð að þola það eins og hvert annað hundsbit, sem ekki var hægt að komast hjá, til þess að ná sér niðri á andstæðingunum. Það var aðalatriðið.

En hver hefur svo orðið árangurinn af þessari viðleitni stjórnarandstöðunnar? Og hver hefur orðið árangurinn af viðleitni ríkisstj. til þess að halda niðri verðbólgunni? Árangurinn hefur orðið sá, að vísitalan hefur á s.l. ári hækkað um 5 stig, eða 2.7%, eins og hér hefur verið lýst í kvöld, en það er miklu minna en meðaltal undanfarinna 7 ára, sem liðin eru síðan núverandi vísitöluútreikningur var upp tekinn, sællar minningar, eða rétt rúmur þriðjungur af þeirri meðaltalsupphæð. Nú má að vísu segja, að ekki sé allt fengið með því að halda í skefjum verðlagi á svokölluðum vísitöluvörum, en það er þó sá eini samanburður, sem til er frá einu ári til annars og frá einni ríkisstj. til annarrar.

Spurningin, sem nú leitar á, er fyrst og fremst sú, hvort ríkisstj. tekst að halda svo í horfi áfram eins og verið hefur, hvort með náinni samvinnu við verkamenn og bændur tekst að stöðva vöxt verðbólgunnar eða hvort stjórnarandstöðunni tekst með áróðri sínum að véla svo um fyrir mönnum, að allt fari úr reipunum á ný. Eins og hér hefur verið fram tekið í kvöld, er fjárlagafrv. lagt fram með 71 millj. kr. greiðsluhalla. Og eins og ég gat hér um áðan, eru þó ekki öll kurl komin til grafar enn. Þannig er ljóst, að nokkrir gjaldaliðirnir a.m.k. eiga eftir að hækka. Þá er þess einnig að geta, að allmikið virðist skorta á, að tekjur útflutningssjóðs hrökkvi fyrir gjöldum, þannig að einnig þar verði að sjá fyrir nokkrum tekjuauka. Hversu há sú upphæð þarf að vera, er ekki gott að segja á þessu stigi málsins enn. Það kemur til að liggja ljósar fyrir síðar, um áramótin eða þar um bil, þegar gera þarf ráðstafanir til þess að bæta úr því. Væntanlega liggur þá málið ljósar fyrir.

Hvernig þessir hnútar verða leystir báðir, að ná greiðslujöfnuði á fjárl., en það er yfirlýst stefnuskráratriði hæstv, ríkisstj., og að afla nægilegs fjár handa útflutningssjóði, til þess að hann geti staðið við skuldbindingar sínar, það eru atriði, sem verða meginverkefni þessa þings, a.m.k. til að byrja með, og ekki hægt að segja á þessu stigi málsins nákvæmlega a.m.k., hvernig gert skuli. En á það má benda, að skilyrðin fyrir því, að viðunandi árangur náist með þessu efnahagskerfi okkar, sem við búum undir, uppbóta- og aðstoðargreiðslum til atvinnuveganna, sem allar ríkisstj. undanfarandi ár hafa að meira eða minna leyti staðið að, eru aðallega tvö: Í fyrsta lagi, að gjaldeyrir sé fyrir hendi til þess að flytja inn svokallaðar hátollavörur og að kaupgeta og kaupvilji sé fyrir hendi hjá nægilega mörgum, til þess að nægilegar tekjur fáist í ríkissjóð og útflutningssjóð af þessum innflutningi.

Um síðara atriðið, kaupgetuna og kaupviljann, má fullyrða, að hann er fyrir hendi enn a.m.k. og í miklu stærri stíl, en hægt er að fullnægja og hefur verið hægt að fullnægja að undanförnu. Um það ber vitni sú geysilega ásókn í gjaldeyri til þessara vörukaupa, sem alltaf er til staðar. Um hitt atriðið, gjaldeyrinn til þessara vörukaupa, hefur komið í ljós, að hann hefur ekki nægt með núverandi álagi, til þess að áætlaðar tekjur næðust í ríkissjóð og í útflutningssjóð. Óumflýjanlegar greiðslur, sem engan veginn hefur verið hægt að komast hjá, hafa tekið svo mikið af gjaldeyristekjunum, að ekki hefur orðið nægilega mikið eftir til þess að fullnægja eftirspurninni til kaupa á hátollavörunum. Getur ekki þetta e.t.v. gefið okkur nokkra hugmynd um, hvaða leið fara skuli í þessu máli?

Niðurstaða mín af þessum bollaleggingum er því í örstuttu máli sú, að þó að augljóst sé, að nú sé mjög reynt á þanþol þess efnahagskerfis, sem við búum við, þá sé enn möguleiki til að halda áfram að búa við það um sinn, vel að merkja, ef tekst að halda stöðugu verðlagi og kaupgjaldi, eins og ríkisstj. hefur lýst yfir að hún vilji gera og eins og henni hefur tekizt að gera þann tíma, sem hún hefur farið með völdin í samráði við verkalýðssamtökin og bændurna í landinu. Greiðsluhallabilið efast ég ekki um að megi brúa á venjulegan hátt við nákvæma yfirferð og endurskoðun hinna einstöku liða fjárlagafrv. hjá fjvn., sem nú fær málið til meðferðar. Þó að einstaka gjaldaliðir þurfi jafnvel að hækka, a.m.k. eitthvað, eins og ég hef áður bent hér á, virðist mér við fljótan yfirlestur, að aðrir liðir séu þannig, að þeir mundu þola nokkra lagfæringu, bæði tekjuliðir til hækkunar og gjaldaliðir til lækkunar í þá átt að ná endunum saman, ef vilji er fyrir hendi og án þess að rýra verulega gildi frv. nokkuð sem nemur fyrir alla alþýðu manna. Enn er á það að líta, að öll framleiðsluaukning útflutningsverðmæta eykur möguleika ríkissjóðs til tekjuöflunar með aðflutningsgjöldum. Kjarni málsins finnst mér vera og langsamlega aðalatriðið, að takast megi að halda verðlagi og kaupgjaldi stöðugu, og um það þurfa allir nú að sameinast.