13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem nál. meiri hluta fjvn. ber með sér, er á þessu stigi málsins ógerlegt að ræða efnislega um afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1958,

Það er því ekki auðið að fylgja þeim reglum, sem almennt gilda um meðferð mála á Alþingi. Er þar ótvírætt gert ráð fyrir því, að öll meginatriði máls liggi fyrir til athugunar við 2. umr. og sé hvert þingmál þá rætt lið fyrir lið. Hins vegar er enn þá allt á huldu um veigamestu atriði fjárlagaafgreiðslunnar, og hefur því sú staðhæfing minni hluta fjvn. í nál. við full rök að styðjast, að óþinglegt sé að afgreiða fjárlagafrv. frá nefndinni og taka það til 2. umr. Furðar mig á, að formaður nefndarinnar skuli treysta sér til að andmæla svo ótvíræðri staðreynd. Fullyrðum við í minni hl. nefndarinnar og höfum þar við að styðjast eigin reynslu, að undirbúningur fjárlagafrv. til 2. umr. í þetta sinn muni algert einsdæmi. Svo þverbrotnar hafa verið þær starfsreglur og venjur, sem fylgt hefur verið í sambandi við afgreiðslu fjárlaga í fjvn. Mun ég síðar í ræðu minni gera grein fyrir því, hversu óhæfileg þau vinnubrögð hafa verið.

Ræða mín við þessa umr. hlýtur að mótast af því, að enn skortir allar forsendur til þess að ræða efnislega um afgreiðslu fjárlaga og fjármálastefnu ríkisstj. í heild á næsta ári.

Þegar hæstv. núverandi ríkisstj. lagði fram fyrsta fjárlagafrv. sitt haustið 1956, var á það bent af hálfu Sjálfstfl., að þar örlaði í engu á þeirri algeru stefnubreytingu í fjármálum og efnahagsmálum, sem stjórnarflokkarnir höfðu af miklu yfirlæti boðað og hæstv, forsrh. verið stórorðastur um, Hvergi bólaði á þeim niðurskurði kostnaðar við ríkisreksturinn, sem talsmenn Alþfl. og Sósfl. höfðu árum saman talið hina brýnustu nauðsyn.

Þegar fjárlagafrv. fyrir árið 1957 var lagt fram, mun hæstv. ríkisstj. hafa nokkuð fundið til þess, að mönnum mundi þykja lítið fara fyrir hinni nýju fjármálastefnu, og var því borin fram sú afsökun, að þar sem ríkisstj. væri nýtekin við völdum, hefði henni ekki unnizt tími til að marka hina nýju stefnu. Til þess að hafa þó af einhverri nýbreytni að státa fann stjórnin það þjóðráð að lækka framlög til lagningar vega, brúargerða, hafnargerða og skólabygginga um 8.2 millj. kr. Hefur þetta væntanlega átt að vera einn þátturinn í að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, sem ríkisstj. auglýsti að væri eitt aðalstefnumál sitt.

Fyrstu fjárlög vinstri stjórnarinnar voru ekki afgreidd frá Alþingi, fyrr en í lok febrúarmánaðar á þessu ári. Einu sjáanlegu merki hinnar nýju stjórnarstefnu voru seinagangur í afgreiðslu fjárlaga og niðurskurður fjárveitinga til mikilvægra framkvæmda víðs vegar um landið, sem stjórnarliðið á Alþingi treysti sér að vísu ekki að standa að baki stjórninni um vegna eindreginnar andstöðu Sjálfstfl.

Meiri hluti fjvn. reyndi við afgreiðslu fjárlaga á síðasta þingi að hlaupa undir bagga með ríkisstj. við að afsaka, hvers vegna ekki væri framfylgt loforði stjórnarflokkanna um að draga úr ofþenslu efnahagslífsins og tryggja jafnvægi í fjármálum þjóðarinnar og öryggi, eins og meiri hluti fjvn. komst að orði í nál. sínu. Segir meiri hluti nefndarinnar um þetta efni:

„Sá maður, sem bjargar sér úr vagni, sem er á hraðri ferð, kemst ekki hjá því — til þess að forða sér frá að missa fótanna — að hlaupa fyrst í sömu átt og vagninn stefnir.“

Síðan þessi skáldlega lýsing á stjórnarstefnunni í fjármálum landsins var gefin, eru nú liðnir tæpir 10 mánuðir, og er því næsta fróðlegt að athuga, hvar hið fótfráa stjórnarlið er statt á hlaupabrautinni.

Þótt stjórnarliðinu gangi að vísu illa að halda jafnvæginu á efndabraut kosningaloforða sinna, ætti ekki að vera ósanngjarnt að ætlast til þess, að það hafi hlaupíð svo lengi í öfuga átt við stefnumið sín, að hægt sé með réttu að ætlast til, að ríkisstj. og lið hennar snúi inn á þá braut, sem lofað var að fara, án þess að þurfa að eiga á hættu að missa fótanna. Og hvernig er þá ferill hlauparanna?

Fjárlagafrv. fyrir árið 1958 var lagt fyrir Alþingi 10. okt. Þá hafði ríkisstj. setið rúma 14 mánuði að völdum og ekki með nokkrum frambærilegum rökum hægt að halda því fram, að ríkisstj. hefði ekki haft aðstöðu til þess að móta það eftir sinni vild. Og nú hefst metasaga hlauparanna, þegar undan er skilið stóra metið, 300 millj, kr. álögurnar um síðustu áramót. Í stað tugmilljóna greiðsluafgangs á undanförnum árum er nú gert ráð fyrir 71 millj. kr. greiðsluhalla og þó raunar 20 millj. betur, þegar með eru teknar niðurgreiðslur, sem ekki er gert ráð fyrir í frv., en ríkisstj. hefur ákveðið að greiða. Er greiðsluhallinn meira en þrefaldur á við það, sem hann hefur áður mestur verið í fjárlagafrv. Niðurstöðutölur frv. eru 40 millj. kr. hærri en fjárlög þessa árs, en þó raunverulega 60 millj. kr. hærri, ef niðurgreiðslurnar eru meðtaldar. Enn bólar ekki á neinum sparnaði í ríkisrekstrinum, heldur er vegið í sama knérunn og á síðasta þingi, nema hvað stjórnin gerist nú enn stórtækari á því sviði og lækkar framlög til vega, hafna, brúa og skólabygginga um 13.6 millj. kr. En um leiðir til að brúa hið mikla bil milli tekna og gjalda er algert úrræðaleysi. Og nú er afsökunin sú, að ríkisstj. hafi ekki haft tækifæri til þess að ráðgast við stuðningslið sitt á Alþingi um það, hversu mæta ætti þessum vanda. Vandræðalegri afsökun hygg ég enga ríkisstj. áður hafa borið fram. Það var heldur lægra risið á hetjunum, en þegar riðið var úr hlaði í fyrrasumar.

Ég get ekki stillt mig um að svara örfáum orðum útúrsnúningi hæstv. fjmrh, í svarræðu hans við 1. umr. fjárlaga. Átaldi ég þá ríkisstj. fyrir vandræðafálm hennar og hélt því fram, að henni hefði verið innan handar að ráðgast við stuðningslið sitt, áður en þing kom saman. Þessi orð mín lagði hæstv. ráðh. svo út, að ég vildi láta fámennan hóp forustuliðs flokkanna hér í Reykjavík taka allar ákvarðanir, en ekki leita álits þingmanna almennt. Um þetta fór ráðh. mörgum orðum og hugðist með því sanna einræðishneigð mína. Þessi útúrsnúningur hæstv. fjmrh. var vægast sagt óráðherralegur, því að ég tók það skýrt fram, að ég teldi, að ríkisstj. hefði verið innan handar að kveðja þingmenn sína saman fyrir þing til skrafs og ráðagerða um svo mikilvægt mál, því að raunverulega væri fjárlagafrv. lítils virði, eins og það væri fram borið. Hins vegar er auðvitað ástæðulaust fyrir okkur sjálfstæðismenn að vera að benda ríkisstj. á leiðir til að halda uppi heiðri sínum, úr því að henni virðist það kappsmái að bera hann fyrir borð og eyðileggja allt álit sitt hjá þjóðinni.

En þá er komið að næsta þætti hlaupaleiks stjórnarliðsins.

Um tveggja mánaða skeið hefur ríkisstj, nú haft góða aðstöðu til samráðs við stuðningslið sitt um úrræði til afgreiðslu greiðsluhallalausra fjárlaga. E.t.v. væri réttara að segja, að ríkisstj, hefði haft þetta góða tækifæri til þess að spyrja stuðningslið sitt, hvað hún ætti til bragðs að taka, því að sjálf sagðist hæstv, ríkisstj. engin úrræði hafa. Tækifæri til fundarhalda með liði sínu hefur ríkisstj, sannarlega haft nægileg, því að ekki mun Alþ. í mannaminnum hafa verið svo starfslaust og jafnilla undirbúið af ríkisstj. En hvað er svo að segja af samráðum hæstv. fjmrh. og ríkisstj. yfirleitt við þingmannalið stjórnarflokkanna? Þau samráð virðast ekki hafa verið meiri en svo, að fram til síðustu helgar var stjórnarliðið í fjvn. algerlega andvaralaust og hafði engar ráðstafanir gert til þess að undirbúa afgreiðslu á ýmsum veigamestu liðum fjárlaga, þegar yfir það kemur sem þruma úr heiðskíru lofti bein fyrirskipun frá ríkisstj. um að afgreiða fjárlagafrv. til 2. umr. á tveimur dögum. Allt til þess tíma kváðust stjórnarliðar í n. ekkert um það vita, hvort fjárlög yrðu afgreidd fyrir áramót, enda engir tilburðir í þá átt.

Tilvera hæstv. núverandi ríkisstj. byggist á misnotkun laga, þótt hún hafi látið þinglið sitt leggja blessun sína yfir þessi lögbrot. Og henni virðist oft vera í mun að lifa í samræmi við þann grundvöll. Eitt lakasta dæmi þeirra nýju starfshátta, sem nú eru innleiddir hér á Alþingi, er vinnubrögðin við afgreiðslu fjárlagafrv, nú til 2. umr.

Fjárlög eru, eins og áður segir, eitt veigamesta, ef ekki mikilvægasta málið, sem hvert þing hefur til meðferðar. Fjárlög eiga að túlka fjármála- og efnahagsmálastefnu ríkisstj. á hverjum tíma. Hæstv, núverandi fjmrh. hefur að vísu komið því svo fyrir, að vandamál atvinnuveganna vegna verðbólgunnar í landinu hafa verið aðskilin fjármálum ríkisins að verulegu leyti, þótt tekna til að halda útflutningsframleiðslunni gangandi sé aflað með sama hætti og fjár til þeirra þarfa, sem fjárlög ná til. Er þessi aðgreining samt harla ógreinileg. En hvað sem þessu líður, bera þó fjárlög jafnan glögg merki ríkjandi stjórnarstefnu. Af þessum sökum er augljós nauðsyn þess, að fjárlagaafgreiðsla sé sem vönduðust og íhugaðir séu rækilega í nefnd einstakir útgjaldaliðir og þess gætt eftir megni, að því fé, sem hverju sinni er til ráðstöfunar til margvíslegra þarfa, sé varið á sem hagkvæmastan hátt. Þetta hygg ég að allir hljóti að vera sammála um.

Það er háttur fjvn. að kynna sér eftir föngum rekstur ríkisstofnana. Eru forstöðumenn þessara stofnana kvaddir til viðtals við n., og hefur svo einnig verið nú. Fjárveitingar til þessara stofnana eru í svo föstum skorðum, að þar verður litlu um þokað nema með algerri skipulagsbreytingu.

Helztu viðfangsefni n. og það, sem snertir hag flestra landsmanna, er ákvörðun fjárveitinga til svokallaðra verklegra framkvæmda og skipting þess fjár. Nýtur n. í því sambandi ráðuneytis vegamálastjóra, vitamálastjóra, fræðslumálastjóra og fjármálaeftirlitsmanns skóla og enn fremur póst- og símamálastjóra, þótt þær fjárveitingar séu ekki eins margbrotnar. Og hér er ég kominn að öðrum þætti hinna óhæfilegu vinnubragða við undirbúning og meðferð fjárlaga í þetta sinn. Það liggur í augum uppi, að þessir trúnaðarmenn n, þurfa að hafa rúman tíma til þess að undirbúa till. sínar til nefndarinnar um skiptingu fjárveitinga til þeirra framkvæmda, sem undir þá heyra hvern um sig. Það hefur því verið föst venja að ákveða með góðum fyrirvara tillögur n. um fjárveitingar til verklegra framkvæmda, svo að þeir gætu undirbúið till. sínar um skiptingu fjárins sem bezt til leiðbeiningar fyrir nefndina.

Nú var beitt þeirri vinnutilhögun, sem við í minni hl. verðum harðlega að átelja: Fyrst s.l. laugardag tók n. sínar fyrstu ákvarðanir um afgreiðslu mála í nefndinni. Voru þá ákveðnar fjárveitingar til verklegra framkvæmda og viðkomandi embættismönnum ætlað að skila till. sínum á mánudag, þ.e. þeir höfðu eins dags fyrirvara. Þingmönnum gafst ekkert tækifæri til að skila tillögum sínum til að koma ábendingum sínum á framfæri við þessa embættismenn né heldur gafst þeim tóm til að ræða við einstaka þingmenn.

Þá var þess krafizt, að þm, skiluðu óskalistum sínum til n., áður en tillögur embættismannanna lágu fyrir, og sjálfum gafst nm. ekkert tóm til að athuga tillögurnar um skiptingu á einstaka framkvæmdaliði, svo að viðunandi væri.

Er vafalaust, sem betur fer, einsdæmi, að svo flausturslega hafi verið unnið að fjárlagafrv. í fjvn., því að raunverulega var málið afgreitt í n. á tveimur dögum, eftir að búið er að sitja við eintóm formsatriði í margar vikur.

Hinn þáttur hinna óhæfilegu vinnubragða varðar tekjuhlið fjárlagafrv. Eins og áður segir, er frv. raunverulega með yfir 90 millj. kr. greiðsluhalla, eins og ríkisstj. lagði það fyrir Alþ., og nú við 2. umr. flytur fjvn. tillögur um 12.4 millj. kr. ný útgjöld. Þetta er gert án þess að benda á nokkur úrræði til þess að brúa hið stóra bil milli tekna og gjalda í frv. Það er að sjálfsögðu hlutverk ríkisstj. að gera tillögur í þessu efni, og það var víst fyrst og fremst um þetta atriði, sem átti að ráðgast við stuðningslið ríkisstjórnarinnar. Hvað eftir annað höfum við í minni hl. innt eftir því í nefndinni, hvernig fyrirhugað væri að brúa þetta bil, en fengið þau svör, að enn lægju ekki fyrir neinar tillögur um það efni. Ég trúi því að vísu ekki, að meiri hl. n. hafi ekki einhverja hugmynd um væntanleg úrræði ríkisstj., en formlega hefur n. enga vitneskju fengið um þetta atriði, sem er frumskilyrði þess, að hægt sé að taka nokkra afstöðu til fjárlagaafgreiðslunnar í heild. Er að sjálfsögðu hin mesta óhæfa að ætla fjvn. að afgreiða fjárlagafrv. til 2. umr., án þess að n. hafi fengið nokkra yfirsýn yfir málið í heild.

Þegar þetta tvennt er athugað, liggur ljóst fyrir, hversu óhæfilega hefur í þetta sinn verið unnið að afgreiðslu fjárlagafrv. í n. og hversu ógerlegt er fyrir minni hl. n. að minnsta kosti að mynda sér nokkra heildarmynd af fjárhagsafkomu ríkissjóðs á næsta ári.

Svo sem tekið er fram í nál. minni hl., munu upptök þessara óhæfilegu vinnubragða vera hjá ríkisstj., sem krafðist fyrirvaralausrar afgreiðslu málsins af stuðningsliði sínu í nefndinni. En meiri hl. n. á þó sína sök fyrir að hafa ekki neitað svo ótilhlýðilegum fyrirmælum.

Hv. frsm, meiri hl. n. hefur gert grein fyrir tillögum n. í heild við þessa umræðu, en þær till. eru fluttar af n, sameiginlega, en þó með þeim fyrirvara af hendi okkar sjálfstæðismanna, að við erum ekki samþykkir ýmsum einstökum liðum tillagnanna. Ríkisstj. hefur aftur neyðzt til að hverfa frá þeirri eftirlætisstefnu sinni og einustu sparnaðarúrræðum að skera stórlega niður fjárveitingar til verklegra framkvæmda. Leggur n, til, að þær fjárveitingar verði hækkaðar í sömu upphæðir og eru í fjárl. þessa árs, og er hér um að ræða yfir 11 millj. kr. hækkun. Þá er enn fremur lagfærður niðurskurður ríkisstj. á fjárveitingu til íþróttasjóðs, sem býr við mikinn fjárskort. Um rökstuðning fyrir ýmsum styrkveitingum vísa ég í framsöguræðu formanns nefndarinnar.

Við 1. umr, fjárl. lýsti ég því yfir af hálfu Sjálfstfl., að við teldum eins og í fyrra eigi fært að byrja samdrátt ríkisútgjalda á þessum liðum og mundum við því ekki sætta okkur við þessa niðurskurðarstefnu ríkisstj. Var þá einnig tekið fram af talsmanni Alþfl., að hann teldi þennan niðurskurð varhugaverðan, en hæstv, fjmrh, varði í sinni framsöguræðu niðurskurð verklegra framkvæmda. N. var sammála um hækkun þessara liða. Vegna aukinnar dýrtíðar þyrftu þessar fjárveitingar að vísu að hækka meira, ef auðið á að vera að halda í horfinu með framkvæmdir.

Þótt við í minni hl. n. gerum ekki frekari till. um heildarhækkun þessara fjárveitinga, erum við ekki ásáttir meiri hl. um einstaka liði í skiptingu fjárupphæðanna. Við fluttum í n. ýmsar till., sem ekki hlutu stuðning meiri hl. n. og ég rek ekki frekar á þessu stigi. Aftur á móti flytjum við engar sjálfstæðar till. um útgjöld úr ríkissjóði við þessa umr. Forsenda þeirrar afstöðu okkar er sú, að okkur skortir allar nauðsynlegar upplýsingar til að geta gert okkur raunhæfa grein fyrir gjaldgetu ríkissjóðs á næsta ári. Það eina, sem við er að styðjast, er mjög ósamhljóða yfirlýsingar aðalforingja stjórnarliðsins við 1. umr. fjárl. Þar lýsti hæstv, fjmrh. því yfir, að mikill greiðsluhalli væri óhjákvæmilegur, ef ekki yrði aflað nýrra tekna. Hæstv. félmrh. og hv. þm. Hafnf. héldu því hins vegar fram, að ekki væri þörf nýrrar tekjuöflunar, ef skynsamlega væri að fjárl. unnið.

Sjálfstæðismenn eru jafnt í stjórnarandstöðu sem stjórnaraðstöðu þeirrar skoðunar, að af greiða beri greiðsluhallalaus fjárlög. Að sjálfsögðu höfum við sjálfstæðismenn ýmsar óskir um fjárveitingar til brýnna nytjamála, sem við unum ekki við að séu fyrir borð bornar. En við viljum geta rökstutt það, að gjaldgetu ríkissjóðs sé ekki ofboðið með þeim óskum út af fyrir sig. Munum við því fresta okkar till. til 3. umr. En vissulega verður fróðlegt að sjá, hver áður greindra stjórnarforingja hefur réttast fyrir sér.

Við 1. umr. fjárlfrv, talaði hæstv. félmrh. mjög fjálglega um sparnaðarúrræði, sem hann hefði á reiðum höndum, og einnig tók formaður Alþfl. í sama streng. Auglýsti hæstv. félmrh. sérstaklega eftir aðstoð sjálfstæðismanna við að koma þessum tillögum fram. Er það að vísu harla einkennilegt, ef hæstv. fjmrh. er ekki treystandi til að styðja sparnað í ríkisrekstri. En hvað sem því líður, töldum við í minni hl. n. mikla nauðsyn að taka til rækilegrar athugunar í n., hvort eigi væri auðið að fá samstöðu um einhver raunhæf úrræði til sparnaðar í ríkisrekstrinum, a.m.k. til að vega upp á móti þeim útgjaldaliðum, sem n. ber fram. Var ætlun okkar sú, að innan fjvn. yrði sett undirnefnd til að athuga þetta mál. Stjórnarliðið í n. kvaðst hafa rætt sín á milli um ýmsar leiðir til sparnaðar, en hafnaði samstarfi við okkur um þessa athugun. Vonum við þó, að meiri hl. n, breyti þeirri afstöðu sinni, því að hér er vissulega um mál að ræða, sem ástæða er til að taka til rækilegrar athugunar í fjvn., en óhæfileg vinnubrögð, að menn séu að pukra með hugsanleg úrræði í þessu mikla vandamáll eins og feimnismál hver í sínu horni.

Útgjöld ríkissjóðs vaxa ár frá ári með meiri hraða en hæfilegur er, miðað við aukningu þjóðartekna og fjölgun þjóðarinnar, og er mikið alvörumál, ef árlega þarf að leggja á nýja skatta til að koma í veg fyrir greiðsluhalla hjá ríkissjóði. Er því þjóðarnauðsyn, að unnið sé af fyllstu alvöru að því að finna sparnaðarúrræði, án þess þó að skerða um of þá mikilvægu þjónustu, sem ríkisvaldið veitir þjóðfélagsborgurunum á ýmsum sviðum. Það er þó ljóst, að þjóðin verður í því efni sem öðrum að sniða sér stakk eftir vexti.

Skiljanlega er torvelt fyrir stjórnarandstöðuna að vinna að þessum málum eina, og því töldum við æskilegt að efna til allsherjarsamvinnu um málið,. Við getum þó ekki neytt stjórnarliðið til samstarfs, en munum fyrir 3. umr. íhuga, hvort við teljum fært að leggja fram sjálfstæðar till. um sparnað á einhverjum liðum fjárlfrv.

Heildarmyndin af fjárlfrv, eftir þessa umr. verður væntanlega sú, að það verður með 83–84 millj. kr. greiðsluhalla, og hafa þá ekki verið meðtaldar 20 millj. kr. í auknum niðurgreiðslum á vöruverði.

Enn fremur bíða til 3. umr. hækkanir á fjárveitingum til skólabygginga, sem hljóta að verða töluverðar, auk ýmissa annarra mála, sem enn eru óafgreidd hjá nefndinni.

Hið fótfráa stjórnarlið virðist því ekki draga úr sprettinum í þá átt, sem það vildi þó forðast. Sýnist svipað ástatt fyrir því og manni, sem hleypur niður bratta brekku og á erfitt með að stöðva sig á sprettinum. Er ekki annað sýnna, en fæturnir hafi algerlega tekið við stjórn hjá hlaupagörpunum, svo að notuð sé áfram mynd sú af fjármálastefnu stjórnarliðsins, sem dregin var upp í nál. meiri hl. fjvn. á síðasta þingi.

Hér eins og á öðrum sviðum er stefnt með síauknum hraða út í fullkomna ófæru.

Herra forseti. Svo sem ég í upphafi máls míns benti á, hefur þannig verið hagað undirbúningi fjárlfrv. til 2. umr., að þess er enginn kostur að draga upp nokkra heildarmynd af fjárlagaafgreiðslunni, því að nauðsynlegar forsendur skortir algerlega til þess að fá yfirsýn yfir fjármálaviðhorfið. Staðfesti frsm. meiri hl. n. þetta í framsöguræðu sinni, því að hann sagði, að fjárlfrv., eins og það lægi fyrir, gæfi litla mynd af fjárl., eins og þau verða.

Ræða mín hefur því fyrst og fremst snúizt um ýmis almenn atriði í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna og svo um hin óhæfilegu vinnubrögð við undirbúning frv. til 2. umr. Áskil ég mér rétt til að ræða málið nánar í einstökum atriðum við 3. umr., þótt að vísu allar horfur séu á því, að stjórnarandstöðunni sé ekki ætlað mikið svigrúm til að kynna sér væntanleg úrræði ríkisstj.

Það skal skýrt tekið fram, að við í minni hl. n. erum því sízt andvígir, að fjárl. séu afgr. fyrir áramót, því að fjárlög eiga auðvitað jafnan að vera tilbúin, áður en fjárlagaárið byrjar. Við hljótum hins vegar að mótmæla harðlega þeim óverjandi vinnubrögðum, sem beitt hefur verið í þetta sinn við afgreiðslu fjárlaga.

Alþingi hefur setið aðgerðalaust í tvo mánuði, en samt kemst hæstv. ríkisstj. ekki að neinni niðurstöðu varðandi hin veigamestu vandamál, fyrr en allt er komið svo í eindaga, að setja verður til hliðar allar venjur og þingreglur um hæfilega afgreiðslu mála. Slík vinnubrögð á Alþingi ekki að þola.

Eins og ég hef skýrt frá, hefur hæstv. ríkisstj. varizt allra fregna um úrræði sín til að jafna greiðsluhallann á fjárlfrv., og enn er heldur ekkert vitað um úrræði hennar til að leysa vandamál útflutningsframleiðslunnar um næstu áramót. Hv. frsm. meiri hl. komst að vísu svo að orði í lok ræðu sinnar áðan, að ætlunin væri að brúa þetta bil með einhverjum tilfæringum, að mér helzt skildist, en ekki beint með nýrri tekjuöflun. Á annan veg urðu orð hans naumast skilin. Þetta gefur ástæðu til að minnast hér nokkuð á orðasveim, sem á kreiki hefur verið meðal þm. nú síðustu daga og ég hef einkum orðið var við í dag, að fyrirhugað væri að leysa vandann varðandi fjárlagaafgreiðsluna á þann einfalda hátt að taka allar fjárveitingar til niðurgreiðslu á vöruverði út úr fjárlfrv. og láta þar við sitja fram yfir bæjarstjórnarkosningar a.m.k.

Ég skal taka það fram, að ég á mjög erfitt með að trúa því, að hæstv. fjmrh. hafi komið til hugar svo fáránleg lausn á þessu vandamáli, því að hér væri að sjálfsögðu ekki um annað að ræða en stórfellda fölsun á fjárl., því að ríkissjóður verður eftir sem áður að standa straum af þessum útgjöldum, nema þá gengislækkun sé fyrirhuguð.

Þar sem hér er hins vegar um talsvert útbreiddan orðróm að ræða, þætti mér æskilegt, ef hæstv. fjmrh. gæti nú staðfest, að þessi fjarstæða lausn kæmi ekki til greina.