13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég mun ekki fara að svara þessari málþófsræðu hv. 1. þm. Rang. (IngJ). En það eru tvö atriði, sem ég mun ekki láta hér ómótmælt, vegna þess að ég man ekki til þess, að þau hafi áður komið fram hér á hv. Alþ. og því ekki tækifæri gefizt til þess að mótmæla þeim hér.

Það fyrra var, að hv. þm., eins og hann var líklegastur til, endurtók hér þau ósannindi, sem hvað eftir annað hafa verið borin á borð í blöðum sjálfstæðismanna, að það hafi verið útveguð hér á s.l. ári eða í fyrravetur erlend lán og þau hnýtt við dvöl varnarliðsins á Íslandi, sem sé, að það hafi verið tekin erlend lán með því skilyrði, að varnarliðið ætti að vera hér kyrrt. Ég lýsi því yfir, að þetta eru tilhæfulaus ósannindi. Og það, sem hv. 1. þm. Rang. sagði svo til viðbótar þessu, að þetta sæist m a. á því, að það hefði verið bundið við þetta bygging raforkulínu suður á Keflavíkurflugvöll og sú bygging væri eingöngu byggð á áframhaldandi dvöl varnarliðsins, er rangt. Það vita allir, og er gleggstur um það vitnisburður raforkumálastjórnarinnar íslenzku, að þessi lína eða afnot hennar eru ekkert bundin við dvöl varnarliðsins. Það þarf á henni að halda, hvort sem nokkurt erlent varnarlið er þar syðra eða ekki. Þetta er lína, sem við þurftum hvort sem er að fá til afnota.

Á sama hátt vil ég hér á þessum stað lýsa það tilhæfulaus ósannindi, að til mála komi að taka ný lán, sem blandað sé saman við dvöl varnarliðsins á íslandi.

Þá sagði þessi hv. þm., — það var dálítið athyglisvert, að hann hélt því hérna fram, ég bara skýt því nú inn í leiðinni, — að það væri eyðslulán að taka 2-3 millj. dollara erlendis til þess að leggja í Sogið.

Þá sagði hv. þm. enn eitt, sem ástæða er til þess að fara um örfáum orðum. Hann sagði: Fyrrv. stjórn átti kost á 390 millj. kr. láni í Vestur-Þýzkalandi, og ég held, að hann hafi einhvers staðar í tali sínu um þetta talað um, að það hefði verið með góðum kjörum. Hann sagði: Fyrir þetta hefur hæstv. fjmrh. þrætt, en er nú guggnaður á því.

Allt, sem ég hef sagt um þetta mál á Alþ., er það, sem nú skal greina, og það sagði ég hér í fyrravetur:

„Þá er það um þýzka tilboðið, sem sjálfstæðismenn hafa svo oft talað um, en ég hef ekki gert að umtalsefni fyrr, en ég ætla að gera það með örfáum orðum núna.

Hingað kom einn af aðstoðarmönnum dr. Adenauers í orlofsferð — að ég hygg — s.l. vor. Utanrrh. og forsrh. hittu hann að máli. Þar barst í tal, að Ísland þyrfti á erlendum lánum að halda. Kvaðst hann mundu vekja athygli dr. Adenauers á því sérstaklega. Út af þessu kom síðar orðsending frá dr. Adenauer til forsrh. þáverandi, þar sem segir, að lánbeiðni frá Íslandi skyldi verða rannsökuð af vandvirkni og vinsemd — eins og það er þýtt af löggiltum skjalaþýðanda. Að sjálfsögðu var þessu fylgt eftir af núverandi ríkisstj., og hefur verið unnið í málinu síðan. En ég mun ekki á þessu stigi málanna gefa frekari skýrslu, þar eð það er ekki tímabært, eins og þau mál standa.

Annars minna þessar sögur um það, hvernig lánatilboðin áttu að hafa drifið að úr öllum áttum, þegar Ólafur Thors var að fara eða jafnvel kominn út úr dyrunum, helzt á sögu laxveiðimannanna um laxana, sem þeir misstu. Þeir voru alltaf stærstir.“

Þetta sagði ég í fyrra um þetta mál. Allt, sem ég sagði um þetta þá, er rétt, og ekkert í því er rangt. En hvernig stendur þá á því, að stórfelldar lántökur hafa orðið síðan, en þær hafa ekki orðið í Vestur-Þýzkalandi? Það mun bráðlega að því koma, að það verði skýrt frá því, og þá verður þetta allt saman til ósköp lítillar gleði fyrir sjálfstæðismenn. Þá munu blekkingar þeirra um þessi efni koma í ljós, þegar frá þessum málum er tímabært að skýra öllum í heild. En það er auðvitað engin tilviljun, að lán hafa verið tekin, stór lán, en þau hafa verið tekin annars staðar, en í Vestur-Þýzkalandi.

Loks gat þessi hv. þm. ekki á sér setið að drótta því hér að vestur-þýzku stjórninni, að ástæðan til þess, að ekki hafi orðið stórfelldar lántökur í Vestur-Þýzkalandi, síðan stjórnarskiptin urðu, muni vera sú, að stjórnin í Vestur-Þýzkalandi hafi ætlað að lána fyrrv. stjórn stórfé með góðum kjörum, en algerlega fyrir það synjað að lána Íslandi, ef núv. stjórn sæti þar að völdum. M.ö.o.: þessi hv. þm. dróttar því að stjórn Vestur-Þýzkalands, að hún vilji skipta sér af innanlandsmálum á Íslandi með því að segja: Ég skal gefa Íslandi kost á stórfelldu láni, ef það hefur þessa stjórn, en alls ekki, ef Íslendingar leyfa sér að hafa hina stjórnina. — Þessu leyfir þessi hv. þm. sér að drótta að stjórn Vestur-Þýzkalands.

Þetta mun allt saman skýrast síðar, eins og ég segi, en það er vel í stíl við smekkvísi þessa hv. þm. að öðru leyti og heppni hans yfirleitt að verða til þess að bera fram þessar aðdróttanir.

En hann gerði meira, — hann gerði betur. Hann var nýbúinn að tala um það sem höfuðhneyksli, sem það líka væri, ef dvöl varnarliðsins væri fléttuð inn í lántökur. En hvað sagði hann svo? Svo fór hann að gera því skóna í sambandi við lánamálin, að það mundi vera vegna þess, að núv. stjórn hefði staðið að samþykktinni um varnarliðið frá því í fyrravetur, að stjórn Vestur-Þýzkalands hefði kippt að sér hendinni, að því er hann hélt, um stórfelldar lánveitingar til Íslands. M.ö.o.: hann er að saka stjórn Vestur-Þýzkalands um það, að hún hafi tekið til greina í þessu sambandi þær ályktanir, sem gerðar voru hér um varnarliðið ásamt því, hvaða stjórn sæti á Íslandi. Það væri þokkaleg iðja eða hitt þó heldur, ef stjórn stórveldis færi að skipta sér af málefnum Íslands með því að segja: Ef þið hafið þessa stjórn, sem mér líkar, þá skuluð þið fá 390 millj. með góðum kjörum, en ef þið gerið það ekki og farið öðruvísi að, þá er ekkert hér að hafa, þá er hér engin lán að hafa. — En þetta er það, sem þessi hv. þm. og náttúrlega Sjálfstfl. óneitanlega líka með þessum þokkalega málflutningi sínum um þetta mál hefur alla tíð verið að gefa í skyn.

En sem ég hef sagt, þessi mál eru enn í athugun. En þegar um þessi efni verður gefin heildarskýrsla og yfirlit, mun það ekki verða til neinnar gleði fyrir hv. 1. þm. Rang. eða þá, sem hafa verið að kasta þessu máli á milli sín.