13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að fara hér nokkrum orðum um í fyrsta lagi mál, sem varða mitt kjördæmi, og í öðru lagi nokkrum orðum um viðhorfin í efnahagsmálum þjóðarinnar almennt.

Áður en ég kem að þessum tveim atriðum, finnst mér ástæða til þess að víkja lítillega að nokkrum ummælum hæstv. fjmrh., sem nýlega hefur lokið máli sínu.

Hæstv. ráðh. var mikið niðri fyrir, þegar hann lýsti því hátíðlega yfir, svo hátíðlega, að það var eins og hv. þm. fyndist öðrum þræði, að þeir væru komnir í kirkju, að það væru hrein ósannindi, að erlendar lántökur hefðu nokkru sinni í tíð hæstv. núverandi ríkisstj. verið tengdar áframhaldandi dvöl varnarliðsins í landinu. Þetta lýsti hæstv. fjármálaráðherra tilhæfulaus ósannindi.

Ég skal ekki fara að skattyrðast lengi við hæstv. ráðh. um þetta, en ég vil leyfa mér að leiða vitni í þessu máli, — vitni, sem hæstv. ráðh. hlýtur að taka allmikið tillit til, þar sem er málgagn og málsvari stærsta flokksins, sem styður núverandi hæstv. ríkisstj.

Blaðið Þjóðviljinn, málgagn Alþýðubandalagsins, Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl., kommúnistaflokksins, komst þannig að orði hinn 11. des. 1956, er yfir stóðu samningar milli fulltrúa íslenzku ríkisstj. og fulltrúa Bandaríkjastjórnar um áframhaldandi dvöl hersins á Íslandi, á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Allt er þetta mjög alvarlegt. Og þó er sagan aðeins hálfsögð. Svo brá við, þegar búið var að gera nýju hernámssamningana, að Bandaríkjastjórn bauð Íslendingum allstórt dollaralán, en hafði þá ekki léð máls á slíku örlæti árum saman. Fylgdi það með, að lánið skyldi að nokkru lánað til að tryggja herstöðinni í Keflavík rafmagn eftir 1960. Utanrrh. hefur neitað því að hafa nokkuð rætt þessi atriði í hernámssamningunum við Bandaríkin, og ætti því þarna að vera um stórmerkilegar tilviljanir að ræða. En Íslendingar hafa lært að leggja saman tvo og tvo í samskiptum sínum við Bandaríkin á undanförnum árum og vita fullvel, að ekkert er eins vandlega undirbúið og tilviljanirnar.“

Enn segir málgagn stærsta stjórnarflokksins um svipað leyti, í desember:

„Og það liggur í augum uppi, að hér er náið samband milli þess, sem gerzt hefur í hernámsmálunum, og þessa óvænta lánstilboðs. Ætlunin er að greiða fyrir nýjum hernámsframkvæmdum með því að veita Íslendingum lán. Síðan er ætlazt til þess, að tekjur af þeim framkvæmdum gangi til þess að greiða aðstoðina, þegar séð er, að eðlileg kaup á afurðum okkar hrökkvi ekki til. Allt á þetta að binda land og þjóð fastara á hernámsklafann og tryggja Bandaríkjunum sem lengsta og öruggasta dvöl á Íslandi með herlið sitt og bækistöðvar.“

Ég verð að segja, að það eru mikil brjóstheilindi hjá hæstv. fjmrh. að láta eins og hv. 1. þm. Rang. hafi farið með einhverja goðgá, er hann bendir á það, sem allir vissu, og það, sem eitt af aðalmálgögnum og stuðningsblöðum hæstv. fjmrh. hefur fyrir rúmlega ári staðhæft. Ég segi: það þarf mikil brjóstheilindi hjá hæstv. fjmrh. að tala um yfirlýsingu hv. 1. þm. Rang. í þessu máli, sem allir vita að er sannleikanum samkvæm, eins og hann hafi farið með einhver höfuðósannindi.

Hæstv. ráðh. hefur svarað þessu með því, að nú séu sjálfstæðismenn farnir að vitna í Þjóðviljann sem sannleiksvitni. Því fer víðs fjarri, að ég haldi því fram nú frekar en áður, að málgagn kommúnista sé sérstaklega óljúgfrótt. En ég fæ ekki séð, þegar spurt er, hverjum það sé til góðs, þá eigi Þjóðviljinn að hafa sérstakra hagsmuna að gæta í því að segja rangt frá þessu. Það er hans eigin ríkisstj., sem hann ber fulla ábyrgð á, sem hefur framkvæmt þetta. Kommúnistaflokkurinn ber nákvæmlega jafnmikla ábyrgð á því, að tengdar eru saman lántökur og varnarmál Íslands, eins og Alþfl., sem á utanrrh., og eins og Framsfl., sem á fjmrh. Ég held, að hæstv. fjmrh. verði að gera svo vel að taka aftur allar fullyrðingar sínar og gífuryrði, sem hann viðhafði hér í þessum ræðustól áðan, og lesa biblíuna betur, — lesa Þjóðviljann betur, hlusta á það vitni, sem leitt hefur verið gegn honum úr hans eigin herbúðum. Það eru ekki vondir menn, eins og sjálfstæðismenn og hv. 1. þm. Rang., einir, sem segja það, að tengd hafi verið saman varnarmál og lántökur, Það er sjálfur stærsti flokkur ríkisstj. Það sýnir, hvað hæstv. fjmrh, grípur oft til þess að belgja sig þá mest út og þykjast vera sem hneykslaðastur, þegar hann er að verja sem verstan og hrapallegastan málstað.

Á það má enn fremur benda, að það eru ekki liðnir nema örfáir dagar, síðan einn af þm. Alþfl., Benedikt Gröndal, hv. 5. landsk. þm., ritaði grein í blað sitt, þar sem hann sýndi fram á, að þróunin gengi í þá átt innan Atlantshafsbandalagsins, að þjóðirnar víkkuðu samstarfssvið sitt, í staðinn fyrir að starfa eingöngu saman um landvarnir og öryggismál, þá hnígi það nú meira og meira í þá átt, að þær starfi saman að pólitískum málum og efnahagsmálum. Þetta upplýsir hv. þm. af því tilefni, að rætt hefur verið mikið um það undanfarið, að efnt hafi verið til samskota fyrir Ísland meðal NATO-þjóða. Í þessari grein staðfestir hv.

5. landsk. þm. nákvæmlega það, sem öll blöð stjórnarandstöðunnar hafa haldið hér fram, að ríkisstj., sem hóf feril sinn á því að lofa Íslendingum því að reka NATO-varnarsveitirnar burt frá Íslandi, hefur nú leitað lána meðal NATO-þjóða, og sjálf stjórnarblöðin hafa lýst því yfir, að vilyrði hafi fengizt fyrir lánum hjá tveim þessara þjóða, Bandaríkjamönnum og Vestur-Þjóðverjum.

Til viðbótar kemur svo þessi staðfesting hv. 5. landsk. þm. á því, að allt það hafi verið satt, sem málgögn stjórnarandstöðunnar hafa sagt um hina aumlegu samskotabeiðni vinstri stjórnarinnar á Íslandi til meðlimaríkja Atlantshafsbandalagsins.

Svo kemur hæstv. fjmrh. hér, eins og „María mey með hjartað utan á“, og ætlast til, að nokkur einasti maður trúi því, að ekkert slíkt hafi verið orðað.

Ég get ekki varizt því, að mér virðist sú kápa, sem hæstv. fjmrh. hefur íklæðzt á þessari stundu, fara honum frekar illa, og mér kemur í hug gömul vísa, sem mun vera ættuð að austan, um mann, sem var „skrýddur kápu Krists að ofan, klæddur skollabuxum neðan“. Um atferli hæstv. fjmrh. í þessu máli má segja, að hann hafi haft á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneitað hennar krafti.

En allt tal um það, að hæstv. fyrrv. ríkisstj. og hæstv. fyrrv. forsrh, fyrst og fremst hefði átt kost á allháu láni hjá Vestur-Þjóðverjum, ætlaði hæstv. fjmrh. sér að afsanna, en með hverju? Með því að lesa ársgamla ræðu eftir sjálfan sig, og þá fyrst áttu nú alvarlega að síga tvær grímur á hv. þingheim, þegar hæstv. fjmrh. las upp ársgamla ræðu eftir sjálfan sig.

Hæstv. fjmrh. veit, að það liggja fyrir skjallegar sannanir um, að fyrrv. ríkisstj., sem hann einnig átti sæti í, sællar minningar, átti kost á tæplega 400 millj. kr. láni í Vestur-Þýzkalandi. Staðreyndin er, að þetta lán hefur ekki verið tekið. Ég skal ekkert fullyrða um það, hver er ástæða þess. Hins vegar er það ekkert óeðlilegt, þó að menn velti því nokkuð fyrir sér, hver orsökin sé, vegna þess að menn vita, að þörfin er jafnt fyrir hendi nú eins og í fyrra fyrir lánsfé til margvíslegra nauðsynlegra framkvæmda í þessu landi.

Ég fæ heldur ekki séð, að það sé nein goðgá, þó að hv. 1. þm. Rang. komi það til hugar, að ef til vill muni nú stjórn, sem kommúnistar eiga sæti í, á Íslandi, ekki njóta eins mikils trausts og ríkisstj., sem byggist á borgaralegu samstarfi.

Ég býst ekki við því, að hv. þm. finnist, að ég sé að tala eins og ég hafi fundið púðrið, þegar ég segi þetta. Ég býst við, að mönnum finnist, að það, sem hv. 1. þm. Rang. og ég segjum um þetta, sé eðlilegur og sjálfsagður hlutur.

Að öðru leyti skal ég ekkert fullyrða um það, hver ástæðan er fyrir því, að hæstv. ríkisstj, hefur ekki fengið þetta lán. En sem betur fer, er hún nú að fá eitthvert lán í Vestur-Þýzkalandi, ef trúa má hinum ágætu og óljúgfróðu málgögnum hennar, sem hafa upplýst það einmitt fyrir skömmu, að lántökur séu í burðarliðnum bæði í Bandaríkjunum og í Vestur-Þýzkalandi.

Ég hef nú e.t.v. fjölyrt um of um staðhæfingar hæstv. fjmrh. um þessi lánamál, vegna þess að mér virðist, að af þeim megi draga nokkrar ályktanir um trúverðugleik annarra ummæla hans, sem í raun og veru snerta meira kjarna þessa máls, sem hér er rætt um, fjárlagafrv. fyrir árið 1958 og efnahagsmál þjóðarinnar almennt.

En mér liggur við að taka mér í munn orð hæstv. ráðh., er hann viðhafði hér fyrr í dag. Hann spurði, eftir að hafa svarað ræðu leiðtoga stjórnarandstöðunnar, hv. 1. þm. Reykv.: „Er hægt að bjóða mönnum upp á annað eins?“ Ég spyr, eftir að hafa gert nokkuð að umtalsefni ummæli hæstv. ráðh. um þessi lánamál, þann eindæma tvískinnung, ósannsögli og hræsni, sem fram kemur í þeim: Er hægt að bjóða hv. þm. upp á annað eins af hálfu hæstv. fjmrh.? Ég held ekki.

Áður en ég skilst við hæstv. fjmrh., vil ég benda á það, að hann hefur ekki enn þá svarað þeirri fyrirspurn, sem hv. 2. þm. Eyf. bar fram til hans í framsöguræðu sinni fyrir minni hl. fjvn. í dag, um það, hvort það væri ætlunin að jafna greiðsluhalla fjárlaganna með því að kippa út af frv. framlögunum til niðurgreiðslu á verðlagi. Hæstv. ráðh. hefur, að ég hygg, haldið þrjár ræður síðan, en hann hefur í engri þeirra svarað þessu meginatriði, sem þessar umr. ættu í raun og veru að snúast að verulegu leyti um, vegna þess að þetta atferli, sem hv. 2. þm. Eyf. benti á, er ekkert annað en skefjalaus tilraun til þess að falsa niðurstöður fjárlaga.

Hvaða trygging er fyrir því, ef niðurstaðan verður sú, að þessi háttur verður á hafður nú, að einum stærsta útgjaldalið fjárlaganna sé kippt út úr fjárlögunum, — hvaða trygging er fyrir því, að næst þegar hæstv. fjmrh. leggur frv. til fjárlaga fyrir með greiðsluhalla og næst þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga, þá verði ekki kippt út einhverjum öðrum stórum lið og þannig jafnaður greiðsluhallinn? Mér kemur í hug, að það mundi vera handhægt fyrir hæstv. ráðh. um næstu áramót að kippa t.d. út framlögunum til félagsmála, framlögunum til heilbrigðismála, jafnvel til atvinnumála og leggja svo fyrir þing og þjóð frv., sem virðist vera greiðsluhallalaust.

Ég viðurkenni, að það stendur nokkuð sérstaklega á nú, þar sem bæjarstjórnarkosningar eru fram undan. Þess vegna er þessi skollaleikur hafinn, að hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki til þess að sýna þjóðinni framan í hinn rétta svip þeirra fjárlaga, sem afgreidd verða fyrir þessi jól. Hæstv. fjmrh. treystir sér ekki til þess að koma hreinlega til þings og þjóðar og segja: Þetta miklar tekjur þarf ég að fá til viðbótar, áður en ég get tekið við fjárlögum, og ég ætla að afla þeirra tekna þannig, með því að leggja á þennan skatt og með því að leggja á þennan toll. — Það er þetta, sem hæstv. fjmrh. leggur ekki til, af því að það eru kosningar fram undan. Þess vegna er þessi skollaleikur leikinn, að kippa út einum hæsta útgjaldaliðnum og láta hann svífa í lausu lofti, enginn veit enn hér á hv. Alþingi hve lengi.

Ég vil nú samt vænta þess, að áður en þessari umr. lýkur, upplýsi hæstv. fjmrh. þingheim um það, hver sé ætlun hans í þessum efnum. Og ég fæ ekki betur séð, en Alþingi sem stofnun eigi skýlausan rétt á því að fá slíkar upplýsingar. Mundi fjmrh, í nokkru lýðræðislandi líðast það að mæta fyrirspurn eins og þeirri, sem hv. frsm, minni hl. fjvn, beindi til hans, með þögn einni og axlaypptingum? Mundi það ekki verða talið til hreinna embættisafglapa af fjmrh. í löndum, þar sem ábyrgðartilfinning ríkir og nokkur staðfesta er í meðferð opinberra mála? Ég er hræddur um það.

Ég er þá kominn að því að minnast örfáum orðum á mál míns kjördæmis, en mun að því loknu fara nokkrum orðum um efnahagsmál og stefnu hæstv. ríkisstj. almennt.

Ég hefði vænzt þess, þar sem núverandi hæstv. ríkisstj. hefur sérstaklega lýst því yfir, að hún hafi mikinn áhuga fyrir að stuðla að svokölluðu jafnvægi í byggð landsins, að hún hefði hlustað nokkuð á þær raddir, sem uppi hafa verið um það á þessu þingi og raunar á mörgum undanförnum þingum, að nauðsyn beri til þess að veita fjármagn til lífsnauðsynlegra framkvæmda í þeim héruðum, sem við erfiðasta aðstöðu búa, en þó hafa mikla og góða aðstöðu til mikillar framleiðslu og jákvæðrar þátttöku í sköpun verðmæta þjóðarbúsins.

Því miður bera ekki þessi fjárl., hvorki síðustu fjárl. né frv. að fjárl. fyrir næsta ár, neinn nýjan skilning á þessu með sér.

Ég nefni það sem dæmi, að Vestfirðir eru sá landshluti, sem nokkuð hefur orðið aftur úr í vegagerðum. T.d. brestur allmikið á það, að Ísafjarðarkaupstaður, einn stærsti kaupstaður landsins, sé kominn í akvegasamband og að vegir hafi verið lagðir um nærliggjandi sveitir þess kaupstaðar. Þannig vantar upp undir 100 km á það, að akvegur hafi verið lagður meðfram sunnanverðu Ísafjarðardjúpi til Ísafjarðar.

Hv. fjvn. hefur ekki treyst sér til þess að verða við ósk minni um það, að sérstaklega yrði snúizt við vandamáli þessa landshluta í þessum efnum og lagðar fram allháar fjárveitingar, þannig að myndarlegt átak yrði gert til þess að skapa akvegasamband við Ísafjarðarkaupstað og innbyrðis milli sveitanna í nágrenni kaupstaðarins. Þess vegna eru veittar sömu fjárupphæðir til vega í sýslunni og á s.l. ári. Ég harma það, að þessi hefur orðið niðurstaðan, en ég vænti, að sú till., sem við nokkrir þm. Sjálfstfl. flytjum um framkvæmdaáætlun um vegagerð í þeim landshlutum, sem hafa orðið eftir á í þeim efnum, kunni að geta bætt úr þessu vandamáli og Alþingi eigi síðar á þessu þingi eftir að sýna skilning sinn á því.

Ég mun því sennilega ekki gera tilraun til þess að fá þær fjárveitingar hækkaðar, sem hv. fjvn. hefur áætlað til nýrra þjóðvega í mínu kjördæmi, og yfirleitt hef ég ekki flutt neinar brtt: við fjárlfrv. við þessa umr. frekar en aðrir þm. Sjálfstfl. hafa gert.

Hins vegar mun ég freista þess að fá nokkuð aukin framlög til hafnarmála. Fram undan eru stórframkvæmdir í þeim efnum, bæði í Bolungavik og Hnífsdal. Hv. fjvn. hefur að vísu mælt með nokkrum fjárveitingum í því skyni, en engan veginn fullnægjandi.

Enn fremur hefur hv. n, ekki treyst sér til þess að taka upp nokkra fjárveitingu til ferjubryggna, sem eru sérstaklega nauðsynlegar við Ísafjarðardjúp, þar sem, eins og ég sagði, stór hluti sveitanna nýtur ekki samgangna á landi, en verður að byggja alla flutninga sína, bæði framleiðslu sinnar frá sér og allra nauðsynja sinna, á flutningum á sjó.

Ég mun skrifa hv. fjvn. milli umr. og freista þess að fá aukinn skilning og hljómgrunn hjá hv. n. fyrir fjárveitingum í þessu skyni og vil geta þess, að á undanförnum árum hefur ríkt skilningur á þessari sérstöðu þessara afskekktu sveita. Og ég vænti, að þegar situr stjórn, sem sérstaklega vill hjálpa hinum dreifðu byggðum og stuðla að jafnvægi í byggð landsins, verði ekki þyngra undir fæti, en áður var.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um mál, sem varða mitt kjördæmi. En ég vil leggja áherzlu á það í sambandi við hafnarmálin, að til þess ber alveg brýna nauðsyn, að þau mál verði á næstunni tekin nýjum tökum. Þess vegna er það einnig, að við nokkrir þm. Sjálfstfl. höfum borið fram till. um framkvæmdaáætlun um hafnargerðir í landinu og um endurskoðun á þeirri löggjöf, sem gildir um þessar þýðingarmiklu framkvæmdir. Það er auðsætt orðið, eftir að dýrtíðin hefur vaxið eins gífurlega og raun ber vitni, að efnalítil kauptún og bæjar- og sveitarfélög geta engan veginn risið undir greiðslu hafnarkostnaðar í þeim hlutföllum, sem nú er gert ráð fyrir, í hafnarlögunum. Það verður að finna einhverjar nýjar leiðir í þessum efnum, ef hægt á að vera að halda í horfinu um framleiðslu á mörgum þeim stöðum, sem nú leggja drjúgan skerf fram í þjóðarbúið.

Ég sagði áðan, að þessi fjárl. bæru ekki mikinn svip af þeim vilja eða stefnuskráryfirlýsingum hæstv. ríkisstj. að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Á það hefur verið bent áður í þessum umr., að framlög til verklegra framkvæmda eru raunverulega lækkuð með þessum fjárl. Það vita allir hv. þm., að t.d. verðhækkun á verkfærum til vegagerða ein ásamt nokkurri kaupgjaldshækkun hefur a.m.k. í för með sér 5–8% hækkun á vegagerðarkostnaði. Sömu upphæðir í fjárlögum til þessara þýðingarmiklu framkvæmda þýða þess vegna raunverulega lækkuð framlög til þeirra, enda þarf ekki nema tala við vegaverkstjórana, þeir ljúka upp einum rómi um það, að hverjar 10 þús. kr. endist allmiklu verr til framkvæmdanna, en var fyrir einu eða tveimur árum. En það er staðreynd, sem allir þm. vita, að einmitt samgöngurnar á landi eru hyrningarsteinninn undir framleiðslu landbúnaðarins og sveitanna. Það er því vissulega illa farið, að hæstv. ríkisstj., sem að sjálfsögðu hefur í mörg horn að líta, eins og allar ríkisstj., skuli ekki hafa talið sér fært að halda í horfinu um þessar fjárveitingar.

Þá vekur það nokkra furðu, að í fjárlagafrv., eins og það liggur nú fyrir, er gert ráð fyrir því, að lækkuð séu framlög til atvinnujöfnunar.

Á fjárlögum yfirstandandi árs eru veittar í því skyni 15 millj. kr. Nú mun vera í fjárlagafrv. 13.5 millj. kr. fjárveiting í þessu skyni. Ég held, að það sé nauðsynlegt við 3. umr. að hækka þessa upphæð a.m.k. upp í sömu upphæð og á yfirstandandi fjárlögum. Enn fremur held ég, að það sé nauðsynlegt að fela sérstökum mönnum að annast úthlutun þessa fjár, því að á því munu vera mjög miklir misbrestir, að því hafi nú á þessu ári verið úthlutað réttlátlega. Því miður eru mörg dæmi um mjög mikla hlutdrægni í úthlutun þessa fjár, og það þarf ekki nema líta yfir þann lista, sem fjvn. hefur borizt um þetta, til þess að sjá, að þar muni vera einhver maðkur í mysunni.

Í þriðja lagi vil ég benda á það, að hæstv. núv. ríkisstj. lofaði því að kaupa skip til eflingar atvinnulífinu víðs vegar um land, og það átti að vera ein fegursta rósin í hennar hnappagati. Fyrir tiltölulega skömmum tíma, líklega 11/2 mánuði, var það upplýst af hæstv. sjútvmrh. hér á hv. Alþingi, að þessum málum er nú ekki lengra á veg komið en svo, að enginn samningur hefur verið gerður um kaup á einum einasta þeirra 15 togara, sem ríkisstj, var fyrir um það bil ári heimilað að semja um kaup og smíði á.

Hæstv. sjútvmrh. var allönugur í svörum við mig, þegar ég krafði hann sagna um þetta fyrir um það bil 11/2 mánuði, og hann upplýsti með allmiklum þjósti, að samninganefnd væri á förum næstu daga. Það var svona nálægt. Samninganefnd var á förum næstu daga til að semja um smiði togaranna. En þó varð hæstv. ráðh. að viðurkenna, að enginn eyrir hafi verið fenginn að láni til smíði þessara skipa, en engu að síður var samninganefnd á förum næstu daga til þess að semja um smíði og kaup skipanna.

Ég vildi nú mega spyrja hæstv. ráðh. að því, hvernig hann skilgreini hugtakið „næstu daga“, Mér er ekki kunnugt um, að þessi ágæta sendinefnd, skipuð sérfróðum mönnum, stórkostlegum vísindamönnum á sviði skipabygginga, að því er mér skildist á hæstv. ráðh., og ég efa ekki, að hann hefur valið góða menn til þess að annast þessi þýðingarmiklu mál, væri á förum til útlanda. Ég veit, að hv. þm. vita ekki til þess, að þessir menn séu farnir út fyrir landssteinana enn þá. Þeir fara kannske næstu daga.

Um 250 tonna skipin upplýsti hæstv. ráðh., að búið væri að gera samninga um smíði 6 þeirra af 12 eða nokkru fleiri, en ekkert lán hefði heldur verið fengið til þeirra nema til eins eða tveggja ára. Og það kallaði hæstv. ráðh. lán, en það mundu aðrir menn alls ekki kalla lán.

Þannig standa nú þessi mál, sem áttu að bjarga atvinnulífi sjávarsiðunnar úti um land. Það er ekki búið að semja um smíði eins einasta togara. Það hefur ekkert lán verið fengið til þeirra. Það er orðað af hæstv. ráðh., að það sé búið að semja um smíði 6 af 12 eða fleiri 250 tonna skipa, en það hefur heldur ekkert lán nema eins til tveggja ára lán verið fengið til smíði 6 þessara skipa. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann sé nærri lokum sinnar ræðu.) Ef hæstv. forseti gæfi mér 10 mínútur — eða 5–10 mínútur — þá mundi ég freista þess að stytta mál mitt. (Forseti: Umræður virðast nú dragast svo á langinn, að þörf sé einhverrar hressingar, áður en lengra verði haldið.) Ég mun freista þess að ljúka máli mínu innan 10 mínútna, e.t.v. fyrr.

Það væri fróðlegt, að hæstv. sjútvmrh. gæfi nú nýjar upplýsingar um það, hvernig þessi skipasmiðamál standa. Ég held, að það væri mjög gagnlegt, ekki sízt vegna þess, sem ég einnig benti á við umr. um fyrirspurn mína fyrir nokkrum vikum, að allmörgum byggðarlögum hefur verið gefið í skyn, að þau ættu von á þessum skipum, ýmist stærri eða minni skipunum. Hæstv. ráðh. vildi að vísu ekkert upplýsa um það þá, hvaða byggðarlög eða hvaða aðilar og með hvaða kjörum hafi komið til mála í þessu sambandi.

Ég vildi svo þessu næst fara örfáum orðum um það atriði, sem náttúrlega skiptir mestu máli fyrir afkomu alls almennings við sjávarsíðuna og þá ekki hvað sízt úti um land, þar sem fólkið fyrst og fremst vinnur framleiðslustörf, þar sem svo að segja hver einasti maður í sjávarþorpunum á afkomu sína undir því, hvernig fiskast og hvernig aðstaða sjávarútvegsins er. Hvernig er ástand sjávarútvegsins, sem á að standa undir atvinnu fólksins í dag?

Við minnumst þess, að á síðasta Alþ., nokkru fyrir jól, voru lagðar á um það bil 300 millj. kr. í nýjum sköttum og tollum til þess að nota það fé til þess að borga upp hallarekstur sjávarútvegsins. Þetta þýddi u.þ.b. 9.500 kr. skatt á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu. En látum nú vera, ef þetta hefði nægt til þess að tryggja rekstrargrundvöll sjávarútvegsins, eins og hæstv. ríkisstj. lét í veðri vaka á s.l. þingi, fyrir réttu ári, þegar verið var að afgreiða „jólagjöfina“. Því miður hefur það ekki reynzt sannmæli. Á aðalfundi L.Í.Ú. fyrir skömmu var því lýst yfir, að miðað við óbreytt fiskverð og óbreytta aðstoð hins opinbera reiknuðu samtökin, afurðasölunefnd og verðlagsráð L.Í.Ú., með því, að 140 þús. kr. rekstrarhalli yrði á meðalvélbát á komandi vertíð. Enn fremur var upplýst, að 1.1 millj. kr. halli mundi verða á rekstri meðaltogara, miðað við óbreyttar aðstæður, þ.e.a.s. óbreytt fiskverð og óbreyttan stuðning hins opinbera.

Meiri árangur hafa þá efnahagsmálaráðstafanir hæstv. núverandi ríkisstj., sem gerðar voru fyrir u.þ.b. einu ári til bjargar sjávarútveginum, ekki borið. Stórfelldur rekstrarhalli er fyrirsjáanlegur á meðalvélbát og á meðalútgerð togara. Frammi fyrir þessari staðreynd stendur Alþ. og núverandi hæstv. ríkisstj. í dag.

Í sambandi við ráðstafanir hæstv. ríkisstj. til stuðnings útgerðinni á s.l. ári vil ég vekja athygli á því, að því var þá heitið, að hinum nýju álögum skyldi haga þannig, að þær legðust ekki á nauðsynjar útvegsins, enda var það eðlilegt fyrirheit, því að það var útgerðin, sem átti að bjarga með þessum nýju álögum. Það hefði þess vegna verið fáránlegt að vera að leggja álögurnar á útgerðina sjálfa. En því miður hefur hæstv. ríkisstj. ekki haldið þetta loforð sitt frekar en önnur. Það var upplýst á fundi útvegsmanna, að nauðsynjar útgerðarinnar hefðu hækkað um hvorki meira né minna en 8–38% af völdum hinna nýju tolla og skatta ríkisstj., sem sagt, ríkisstj. leggur hinar nýju álögur einnig á útgerðina til þess að „bjarga“ útgerðinni. Minnir þetta ekki nokkuð á manninn, sem brauzt um í mýrinni og reytti hár sitt og hélt, að hann gæti dregið sjálfan sig á hárinu upp úr feninu? Ég get ekki varizt þess, að mér virðist hæstv. sjútvmrh, minna átakanlega á þennan vesalings mann.

En það er ekki einungis það vandamál, að stórkostlegur rekstrarhalli sé hjá útgerðinni eftir þessi nýju úrræði hæstv. ríkisstj. Annað vandamál verður stöðugt meira aðkallandi. Það er skortur á mannafla.

Árið 1954 voru ráðnir í fyrsta skipti, að ég hygg, svo að nokkru næmi, útlendingar til þess að manna íslenzka fiskiskipaflotann, og þá voru ráðnir skv. upplýsingum Landssambandsins 172 færeyskir sjómenn á íslenzk fiskiskip, á árinu 1955 voru ráðnir 470, á árinu 1956 943 og á árinu 1957 1.344, og samkvæmt upplýsingum, sem einnig komu fram á Landssambandsfundinum, var talið, að allt að því 40% af sjómönnunum, þeim mönnum, sem á sjóinn fara á flotanum, væru útlendingar. Í þessu sambandi get ég ekki varizt þess að minna á það, að þegar Sjálfstæðisfl. fór með stjórn varnarmálanna, var það eitt aðaládeiluefni Framsfl. og fleiri manna á Bjarna Benediktsson og Sjálfstfl., að þeir sæju ekki um það, að varnarliðsvinnan drægi ekki vinnuafl frá framleiðslunni. Sannleikurinn er svo sá, að eftir að Framsfl. tekur við stjórn varnarmálanna, þá fyrst tekur úr um vandræði framleiðslunnar vegna fólksleysis. Og enn keyrir um þverbak, þegar vinstri stjórn er mynduð. Þá er það hvorki meira né minna, en allt að því 40% sjómanna, sem á sjóinn fara, sem eru útlendingar, og borga verður 15 millj. kr. á ári í erlendum gjaldeyri til þess að launa erlenda sjómenn á fiskiskipaflota okkar. Enn virðist eitthvað hafa mistekizt við framkvæmd hinna fögru loforða, sem flokkar núverandi hæstv. ríkisstj. gáfu um það að kippa öllu í lag, ef þeir aðeins fengju völdin.

Ég vil ekki vanefna fyrirheit mitt við hæstv. forseta og því ljúka máli mínu. En undir lokin vil ég aðeins benda á það, að þó að hæstv. ríkisstj, hafi vanefnt mörg loforð, hefur hún þó vanefnt það einna hrapallegast að stöðva hækkun verðlags og aukningu dýrtíðar og verðbólgu í landinu. „Verðstöðvunarstefna“ hennar er að engu orðin. Það sést bezt á því, ef litið er á örfáar tölur. Vísitalan hefur á þessu ári hækkað um 5 stig, en átti að hækka um 1–2 stig, að því er sagt var af hálfu hæstv. ríkisstj. um síðustu áramót. Niðurgreiðslurnar á verðlagi hafa hækkað úr 25 millj. kr. árið 1952 og 57 millj, kr. árið 1956 upp í 125 millj. kr. samkvæmt því, sem lýst er yfir í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. En sú hækkun, 68 millj. kr. hækkun á niðurgreiðslunum frá árinu 1956, þýðir hvorki meira né minna en 11 vísitölustig, 11 stiga hækkun vísitölunnar. Svo kemur hæstv. ríkisstj., eftir jafnframt að hafa lagt á almenning 9.500 kr. gjaldabyrði á hverja einustu 5 manna fjölskyldu í landinu, og segist hafa stöðvað vöxt dýrtíðarinnar og standa með verðstöðvunarstefnuna eins og pálmann í hendinni.

Ég segi: þeir menn eiga vissulega gott, sem þetta hafa afrekað, en trúa því sjálfir, að þeir séu að vinna sinni þjóð vel, trúa því einlæglega í sínu hjarta, að þeir hafi stöðvað kapphlaupið milli kaupgjalds og verðlags og vöxt dýrtíðarinnar. Ef þeir trúa því hins vegar ekki, en halda áfram að segja þjóðinni það, þá mætti segja mér, að þessir menn svæfu oft illa.

Ég vil svo endurtaka það, að ég mun við 3. umr. flytja brtt. um þau atriði, er ég nefndi sérstaklega í fyrri hl. ræðu minnar og varða mitt kjördæmi. — [Fundarhlé.]