13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er vissulega margt, sem ástæða væri til að minnast hér á, en ég get tekið mér þau sömu orð í munn eins og hv. frsm. meiri hl., að það sé ekki ástæða til að vera að halda hér langa ræðu, þegar komið er fram á nótt. Það eru þó nokkur atriði, sem ég get ekki annað en minnzt á með nokkrum orðum, og ég vil þá leyfa mér að byrja á ræðu hv. frsm. meiri hl., sem hann var að ljúka hér áðan.

Hann fann mjög að því, að ræður sjálfstæðismanna hér í dag og kvöld hefðu ekki verið nema að ívafi, eins og hann orðaði það, um fjárlagaafgreiðsluna, heldur um allt önnur mál og ýmis fjarskyld fjárlögunum.

Ég hygg nú sannast sagna, að flest það, sem sagt hefur verið hér í þessum umr., hafi að einhverju leyti snert fjárl. beint eða óbeint, þ.e.a.s. efnahagsmál og fjármál ríkisins almennt. En hér er einmitt um þann vanda að ræða, sem ég gat um í minni framsöguræðu og eðlilega hefur mótað alla meðferð málsins hér í dag og kvöld, að undirbúningur fjárlfrv. til

2. umr. er ekki þannig úr garði gerður, að það séu tök á að ræða málið nema út frá almennum sjónarmiðum. Það vantar algerlega upplýsingar um hin veigamestu atriði, sem þarf að hafa fyrir sér til þess að geta rætt um málið í einstökum atriðum og samhengi og mynda sér yfirsýn yfir það, eins og nauðsynlegt er að gera, ef á að vera hægt að ræða fjárlögin á takmörkuðu sviði. Þessu gerði ég grein fyrir í minni framsöguræðu, og ég held sannast sagna, að allir hv. þm. hljóti að gera sér grein fyrir því, að eins og málið liggur fyrir, er ekki hægt að haga umr. á þann veg, eins og gert er ráð fyrir í þingsköpum, við þessa umr. Og það var blátt áfram staðfest af frsm. meiri hl. í hans frumræðu, að frv., eins og það lægi fyrir nú, væri mjög ófullkomin mynd af fjárl., eins og þau endanlega hlytu að verða.

Hv. 2. landsk. virðist hafa þá hugmynd, að það, sem þm Sjálfstfl. segi hér á Alþingi, eða yfirleitt það, sem þeir taki sér fyrir hendur, sé samkvæmt fyrirmælum frá skrifstofu flokksins.

Ég veit nú ekki, eftir hvaða starfsreglum er lifað í flokki þessa hv. þm. Það eru að vísu sagnir um, að þar sé æði strangur agi, og a.m.k. las ég fyrir nokkru frá æðsta presti þess flokks, að hann var vinsamlega að benda einum óþjálum flokksmanni sínum á það, að hann skyldi lesa flokksreglurnar, áður en hann skrifaði næst, og gera sér grein fyrir, hvernig hann ætti að haga sér. En ég get frætt þennan hv. þm. um það og tel mig hafa á því nokkra þekkingu, þar sem ég á að heita framkvæmdastjóri míns flokks, að það er ekki tíðkað, að þm. komi á flokksskrifstofuna til okkar þar til þess að sækja sín fyrirmæli um það, hvorki á hvaða fundum þeir eiga að mæta í það og það skiptið né heldur að fá sig búna út í umr. við fjárl. eða önnur tækifæri, enda sannast sagna verð ég að segja, að það mætti æra óstöðugan að eiga að standa í slíkri stjórnsemi, þannig að það er algerlega ofmetið hið mikla vald skrifstofu Sjálfstfl. að þessu leyti.

Þetta skiptir að sjálfsögðu ekki máli, en ég minnist aðeins á þetta út af orðum hv. þm. Hann vék að því, að það væri mjög fráleitt hjá hv. 1. þm. Rang. (IngJ) að tala um, að það hefðu verið skynsamlegar áætlaðir tekjuliðir fjárl. hér fyrr á árum, en nú síðustu árin, þ.e.a.s. á þessu ári, fyrsta ári vinstri stjórnarinnar, vegna þess að einmitt það, að afgangur hefði orðið á ríkisbúskapnum, sýndi það og sannaði, að tekjur ríkissjóðs hefðu verið rangt áætlaðar. Það kann vel að vera. En ég held nú, að sú ranga áætlun hafi þá verið til góðs, Það er auðvitað ekkert við því að segja, að tekjur ríkissjóðs séu áætlaðar í hámarki, eins og gert er ráð fyrir að þær verði, en það verður þá jafnframt að gæta þess að hafa nægilegt svigrúm, nægilegan greiðsluafgang til að mæta þeim gjöldum, sem jafnan eru á hverju ári umfram fjárl. Það, sem gerzt hefur á þessu ári nú, er blátt áfram það, að tekjurnar hafa verið áætlaðar það háar, að það er ekkert svigrúm fyrir slík aukin útgjöld, þannig að þau verða öll umfram fjárl., og af því kemur greiðsluhallinn hjá ríkissjóði. Slíkur búskapur og afgreiðsla fjárl. held ég að sé mun ófarsælli fyrir ríkissjóð og afkomu hans, heldur en hinn fyrri afgreiðslumáti.

Hv. frsm. meiri hl. tók það fram hér og taldi það vera rangt gefið í skyn af hv. 1. þm. Rang., að það væri fyrir einhvern þrýsting frá sjálfstæðismönnum, að hækkaðar hefðu verið fjárveitingar til verklegra framkvæmda bæði nú í till. n. og á fjárl. í fyrra.

Ég hef bent á það, og það stendur óvefengt, að bæði í fyrrahaust, þegar fjárlfrv. var lagt fram, og einnig nú í haust var því lýst yfir af hálfu Sjálfstfl., að hann væri andvígur þeim niðurskurði, sem væri á framlögum til verklegra framkvæmda á frv., eins og ríkisstj. lagði það fram.

Í fyrra lögðum við fram formlega till. um hækkun þessara liða. Sú till. var felld, það er rétt hjá frsm. n., en síðan var þó í stórum dráttum fallizt á af meiri hl. n., hvort sem það hefur verið frá innri innblæstri þeirra eða einhverjum áhrifum frá okkur, að þó skyldu hækkaðar þessar fjárveitingar mjög nálægt lagi því, sem við lögðum til, eða um 20%, að öðru leyti en því, að framlög til vega voru hækkuð minna, sem leiddi af því, að við fluttum till. um hækkun á vegafé, sem nam misræmi þess, sem var á till. meiri hl. n. og okkar tillagna.

Ég held, að það sé engin goðgá að segja, að við höfum a.m.k. átt einhvern þátt í því, ég hef ekki haldið því fram hér, að við höfum knúið nú í þetta sinn meiri hl. n, til þess að gera sínar till. um það efni. Það er rétt hjá frsm. meiri hl., að af hálfu þeirra var lögð fram till. um þá afgreiðslu, sem nú var gerð, og við lýstum því yfir af okkar hálfu, fulltrúa sjálfstæðismanna, að við gætum eftir atvikum sætt okkur við þær till. um hækkanir. Og enda þótt við gerum okkur grein fyrir, að þessar hækkanir eru ekki nægilegar til að halda í horfinu um framkvæmdir, vildum við a.m.k. á þessu stigi málsins, meðan ekkert lægi fyrir um afkomuhorfur ríkissjóðs, ekki stíga stærri spor eða stærri skref í þessu efni, því að það leit sannarlega ekki út fyrir eða lítur ekki út fyrir, að afkoma ríkissjóðs muni verða það glæsileg.

Ég held því, að ekki sé neitt rangt með farið í þessu efni, og það liggur ótvírætt og afdráttarlaust fyrir, að við sjálfstæðismenn höfum lýst yfir þegar við framlagningu fjárlfrv. bæði skiptin, að við vildum stuðla að hækkun þessara fjárveitinga, þannig að það stendur óhaggað.

Ég skal ekki fara hér að eyða tímanum í að svara hv. frsm. meiri hl. varðandi ummæli hans um árangur gengisbreytingarinnar, sem framkvæmd var 1950. Hvað snertir fjárlagaafgreiðsluna sjálfa, vitum við það mætavel, að sú ráðstöfun, sem þá var gerð, lagði grundvöllinn að þeirri mjög góðu afkomu ríkissjóðs, sem síðan hefur verið. A.m.k. hvað snertir það mál, sem við erum hér með til umr., þá er það engum efa bundið og óvefengjanlegt, að með þeirri stefnubreytingu, sem þá var tekin upp, var mjög bætt öll afkoma ríkissjóðs, og það var ekki fyrr en eftir að afleiðingar verkfallanna 1955 komu í ljós, sem fór mjög að halla undan fæti fyrir ríkissjóði og raunar þjóðarbúskapnum í heild.

Hv. frsm. meiri hl. vék að ummælum mínum í frumræðu minni varðandi afstöðu meiri hl. til sparnaðartillagna, sem við höfðum óskað eftir samvinnu um.

Ég sé, að við frsm. meiri hl. höfum nokkuð mismunandi skoðanir um það, hvernig að málum eigi að vinna í n. Hann telur, að það hafi verið eitthvert kostaboð af hálfu meiri hl. að bjóðast til þess að koma hugmyndum okkar um sparnað á framfæri við ríkisstj, og spyrja hana um það, hvort hún gæti á þetta fallizt. Ég get ekki talið það fela í sér neitt tilboð um samvinnu og að það sé algerlega óeðlilegur starfsmáti í n. að starfa á þeim grundvelli. Fyrsta skilyrðið var að sjálfsögðu, að n. sjálf sameiginlega reyndi að leggja niður fyrir sér, hvaða till. hún ætti að gera, en ekki, að hver og einn nm. afhenti þær í einhverja hrúgu til formanns n., án þess jafnvel að hver um sig hefði vitneskju um annars hugmyndir í því efni, þannig að eitt kynni að rekast á annars horn á því sviði. Það var ætlun okkar, að sameiginlega væri unnið að athugun á þessu í n. sjálfri og síðan að sjálfsögðu haft samráð við ríkisstj. um það, hvort þetta fengi staðizt eða ekki, og leitað eftir samkomulagi um að koma þeim málum fram í þessu efni, sem samkomulag yrði um í nefndinni.

En minn skilningur á nefndarstörfum er sá, að það beri fyrst að leita eftir því í n. sjálfri, hvaða grundvöllur sé þar til samvinnu, en ekki hlaupa til ríkisstj. fyrir fram til þess að spyrja hana, hvað henni þóknist að styðja af hugmyndum í því efni. A.m.k. vona ég, að okkur verði ekki láð það sérstaklega, þó að við sem stjórnarandstæðingar hlaupum ekki upp til handa og fóta og afhendum okkar hugmyndir formanni n. til að skila þeim upp í stjórnarráð. Ég kysi heldur að eiga samvinnu við hann og aðra meðstarfsmenn í n. um þær hugmyndir.

Hv. frsm. meiri hl. endurtók það hér, sem hann flutti í frumræðu sinni í dag, að hann geti ekki séð, að það væri í neinu óþingleg meðferð á fjárlfrv. nú fremur venju, annað en að því leyti, að það væri hraðari afgreiðsla, en verið hefði.

Ég vil leyfa mér að halda því fram og endurtaka, að hér sé um mjög óþinglega afgreiðslu að ræða. Það er alls ekki mín skoðun, að það eigi að vera seinagangur á málum í n., en það er mín skoðun, að mál eigi að fá nauðsynlega yfirvegun í n., og það hlýtur, held ég, að liggja í augum uppi, hverjum sem á það lítur með raunsæi, og ég veit, að hv. form. n. er mér sammála um, að það hafi verið allt of mikil fljótaskrift á undirbúningi og afgreiðslu tillagna n. nú, þar sem í raun og veru fór öll afgreiðsla mála fram í n. á tveimur dögum. Og það er ekki aðeins þetta, að hér hafi verið að málum unnið í slíku flaustri, sem óþekkt er áður, heldur einnig hitt, sem er óþinglegt, að ætlast til þess að leggja málið fram til 2. umr. á þann hátt, að fullkomin leynd hvíli yfir öllum hugmyndum ríkisstj, og meiri hl. n. um það, hvernig eigi að afgr. fjárlfrv. Það er væntanlega ætlazt til þess, og maður a.m.k. heyrir það æði oft, og það er ekkert að undra, að það sé ætlazt til þess af hálfu stjórnarandstöðunnar, að hún miði till. sínar við greiðslugetu ríkissjóðs, og ég hygg, að við höfum fyllilega gætt þess að haga okkur eftir því. Það má segja kannske, eins og atvik málsins eru nú um afkomu ríkissjóðs, að tillögur okkar á síðasta þingi við afgreiðslu fjárl. þá hefðu orðið til þess að auka þann halla. En hvað sem því líður, þá held ég, eftir því sem ég hef bezt getað séð á síðustu árum, að þess séu engin dæmi, að stjórnarandstaða hafi ekki lagt fram till. um hækkanir nema um tæpt 1% af fjárl., eins og við gerðum á síðasta þingi.

Nú var gersamlega útilokað fyrir okkur að hafa nokkra hugmynd um það og fengum um það engar upplýsingar, þótt við hvað eftir annað spyrðum um það í n., hvað væri fyrirhugað um afgreiðslu fjárl. nú, hverjar væru horfur um afkomu ríkissjóðs á næsta ári með hliðsjón af þeim leiðum, sem fara ætti. Það liggur ekkert fyrir um þetta efni, og það að afgr. mál úr n. án þess að hafa nokkra forsendu til þess að geta skapað grundvöll undir brtt., sem nm. kynnu að vilja flytja, það álit ég að sé fullkomlega óþinglegt. Það er alveg rétt, að í einstaka tilfellum á undanförnum árum hafa ekki alltaf verið teknar inn í fjárlfrv. við 2. umr. að fullu þær tekjuáætlanir, sem lögin endanlega hafa verið afgreidd með, en ég man ekki til þess, síðan ég fór að fást við þessi mál, að það hafi ekki legið fyrir við 2. umr. í stórum dráttum, hvaða fé muni verða til ráðstöfunar. Að vísu var n. í fyrra neitað um nauðsynlegar upplýsingar um það efni varðandi afkomu ríkissjóðs árið áður, þótt fjárl. væru ekki afgr. fyrr en síðast í febrúar, en það lá þó þá ljóst fyrir um það þegar við 2. umr., hvaða nýir tekjustofnar væru fyrirhugaðir til þess að jafna fjárl. með.

Nú liggur ekkert slíkt fyrir. Og það er ekki nóg með, að það liggi ekki fyrir, heldur smeygir hæstv. fjmrh. sér algerlega undan því, sem er þó tvímælalaust skylda hans gagnvart Alþingi og gagnvart n., sem hefur mál til meðferðar og er ætlað að ræða það við 2. umr., eftir að því hefur verið skilað úr n., að gefa upplýsingar um ákveðin atriði, sem hann er spurður um varðandi afgreiðslu málsins í heild. Og síðan er hneykslazt yfir því, að við getum ekki efnislega rætt málið eins og þingsköp gera ráð fyrir.

Þetta er náttúrlega fullkomlega hneykslanlegt framferði af hæstv. ráðh. og hv. þingmeirihluta, ef þeir þá sjálfir vita, hvað á að gera. Ég skal ekkert um það segja. Þeir eru a.m.k. mjög hljóðir um það, og ekki ber að lasta þagmælskuna, úr því að þetta á að vera eitthvert hernaðarleyndarmál, og kannske eigum við í stjórnarandstöðunni ekki að fá að heyra það fyrr en daginn sem 3. umr. fer fram. Það væri eftir öðru, að því yrði þá laumað inn, svona rétt áður en atkvgr, verður, til þess að það væri nokkurn veginn öruggt, að það væri ekki hægt að ræða það einu sinni. Ég gæti vel trúað því eftir öðru, að þannig yrði vinnubrögðunum hagað, svo að það virðist sannarlega ekki vera neitt fallegt, sem á að gera, úr því að það má ekki sjá dagsins ljós einu sinni 4–5 dögum áður en endanlega á að afgr. málið, að manni er sagt.

Ég held, að ekki sé hægt að segja, að það sé nein ósanngirni, þó að maður haldi fram, að þetta framferði verði að víta harðlega.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að hæstv. fjmrh. Ég hef að vísu svarað með þessum orðum mínum nokkru einnig af því, sem hann mælti í sinni ræðu. En það eru örfá atriði, sem ég sérstaklega vildi víkja að, þar sem hann í sumum tilfellum algerlega rangfærði mín orð, og mig satt að segja undrar, hvað hæstv. fjmrh. er orðið gjarnt að rangfæra þau ummæli, sem viðhöfð eru. Ég held, að hann sé eitthvað miður sín, því að ég minnist þess ekki sérstaklega hér áður fyrr, meðan okkar samstarf var, að þessi vankantur á hans málflutningi væri svo áberandi. Hann t.d. segir það í upphafi síns máls, til svars því, að ég hafi talað um óþingleg vinnubrögð, að það eigi alls ekki að ræða mál, — að ég hefði sagt, að það ætti að ræða mál almennt við 2. umr. Því fer alveg víðs fjarri. Ég sagði einmitt, að það ætti að ræða mál við 2. umr, í einstökum atriðum, en það væri gersamlega útilokað að gera það, eins og málið lægi nú fyrir. Þetta voru mín orð.

Þá segir hann, að það hafi ekki ætíð legið fyrir við 2. umr. um tekjuhliðina. Ég vék að því áðan, að það sem ég man a.m.k., — ég hef að vísu ekki átt mjög langa setu hér á Alþingi, en hef þó um allmörg ár fengizt við afgreiðslu fjárlaga, — þá man ég ekki eftir því, að það hafi ekki nokkurn veginn legið fyrir um tekjuhliðina, þegar 2. umr. fjárlaga hefur farið fram. Og a.m.k. hefur stjórnarandstöðunni ekki mér vitanlega, meðan ég var í stjórnarliði þar, nokkurn tíma verið neitað um þær upplýsingar, sem hún hefur beðið um varðandi þessi efni.

Varðandi fsp. mína um, hvort ætti að fara þá leið að taka niðurgreiðslur á vöruverði út úr fjárlagafrv. og ná þannig greiðsluhallalausum fjárlögum á pappírnum, svaraði hann því einu, að það mundi koma í ljós á sínum tíma, en auðvitað yrði annaðhvort að afla nýrra tekna eða taka útgjaldaliði út af frv., um það mundum við fá að vita við 3. umr. Það atriðið að afla nýrra tekna er að sjálfsögðu skiljanlegt, en hitt, að hugsa sér að leysa þetta vandamál með því að falsa niðurstöður fjárlaga á þann hátt að halda ákveðnum liðum utan við fjárlög og greiða þau eftir einhverjum öðrum leiðum, ég hélt fram í minni frumræðu, að það væri svo stórvítaverð afgreiðsla fjárlaga, að ég vildi ekki trúa því fyrr, en í lengstu lög, að það væri hugmynd hæstv. ráðh. að afgreiða málið á þann hátt. Og ég satt að segja var ekki ýkja trúaður á það, þegar ég skýrði hérna frá þessum orðrómi, að það væri ætlun hæstv. fjmrh. að haga afgreiðslu fjárlaga á þennan hátt. En undanbrögð hæstv. ráðh. hafa nú vakið hjá mér nokkurn grun um, að það hafi, ef til vill ekki verið svo fjarri lagi, að þetta hafi að honum hvarflað. Og sé svo, þá verð ég að segja, að honum er mjög aftur farið.

Þá sagði hæstv. ráðherra og hélt áfram mistúlkun sinni á orðum mínum um samráð við þinglið stjórnarflokkanna, að ég hefði haldið því fram, að þingmenn ættu ekki að vera á þingi, þegar samráð væri við þá haft um þessi mál, heldur vildi ég, að þeir væru kallaðir saman utan þings, því að á þingi ættu málin alls ekki að gerast, eftir minni skoðun. Þetta er algerlega rangt og rangfærsla á mínum orðum. Ég sagði það eitt, að það væri enginn máti á undirbúningi fjárlagafrv. að leggja það fyrir þingið eins og fjárlagafrv. var lagt fram í haust. Og ef ríkisstj. hefði ekki haft nein úrræði sjálf handbær, þá hefði hún heldur átt að kveðja þm. sína saman sér til ráðuneytis og ábendingar fyrir þing, til þess að hún gæti lagt fjárlagafrv. fram með einhverri stefnu varðandi lausn þessara mála. Mér hefur aldrei hugkvæmzt, að vinnubrögð við meðferð málsins sjálfs yrðu færð út fyrir veggi þingsins, því fer víðs fjarri. En úr því að hæstv. ríkisstj. er svona ráðalaus, þá held ég, að það yrði ekki af neinum talin goðgá, heldur blátt áfram eðlileg vinnubrögð, að hún kallaði sína þingstuðningsmenn saman fyrir þing til þess að aðstoða sig við undirbúning fjárlaga fyrir Alþingi. Annars hefur það litla þýðingu að leggja fjárlögin fram við 1. umr., leggja fjárlögin fram í þingbyrjun.

Og þá kom hæstv. fjmrh. með þá kenningu, sem raunar hv. frsm. meiri hl. fjvn. tók einnig undir, að það væri ástæðulaust fyrir okkur sjálfstæðismenn hér á þingi að vera að fjargviðrast yfir því, að ríkisstj. hefði engar till. lagt fram, við ættum þá sjálfir að leggja fram till. — Það skyldi nú fara svo, að þrautaráðið hjá ríkisstj. yrði að biðja Sjálfstfl. að ganga frá þessu máli fyrir sig. Það var varla hægt annað að hugsa sér, því að hvers konar forusta er það hjá ríkisstj. og hjá meiri hl. þings, ef þessir aðilar, sem hafa óskað eftir því að taka við völdum í þjóðfélaginu og vera forsjá þjóðarinnar, ætla að smokra sér undan að gera till. og ætla stjórnarandstöðunni að bera fram sínar till. Þegar hún fær ekki upplýsingar, sem hún biður um, um úrræði stjórnarinnar, þá er því bara svarað: Ja, blessaðir góðu, leggið þið fram ykkar eigin till. Lofið okkur að sjá þær, þá skulum við sýna ykkur okkar till. á eftir.

Ég er nú sannast sagna mjög hissa á því, að jafnglöggir og greindir menn og hæstv. fjmrh. og hv. frsm. meiri hl. n. skuli halda fram slíkri firru sem þessari, að það hvíli ekki á ríkisstj. á hverjum tíma tvímælalaus skylda til þess að hafa forgöngu um að leggja fram úrlausn vandamála þjóðfélagsins. Ef hún getur ekki lagt þessar till. og úrræði fram, á hún að fara frá völdum og láta þá aðra taka við, sem treysta sér til þess að leggja till. fram um lausn vandamálanna. En það þýðir ekki að sitja og kveina yfir því, að stjórnarandstaðan í þinginu leggi ekki fram tillögur.

Það er ekki eftir þingræðisskipulagi skylda stjórnarandstöðu að hafa forgöngu um tillöguflutning um lausn vandamálanna, enda hefur hún ekki aðstöðu til þess. Það er hennar skylda að gagnrýna með skynsamlegu móti það, sem gert er, og vera aðhald ríkisstj. og þingmeirihl. á hverjum tíma. Það er hennar skylda. Það er að sjálfsögðu eðlilegt, að stjórnarandstaða komi fram með sínar hugmyndir um lausn mála, ef þau eru þannig fyrir þing lögð og undirbúin af stjórnarliði og ríkisstj. á hverjum tíma, að það sé aðstaða til þess. En það fer að færast skörin upp í bekkinn, ef krafa er gerð til stjórnarandstöðunnar um það, að hún eigi að hafa algerlega vit fyrir ríkisstj., þegar hana brestur getu til þess að leysa vandamálið.

Hv. 2. landsk. þm. sagði hér áðan, að Sjálfstfl. nennti nú ekki að gera till., en það hefði ekki staðið á sósíalistum að gera sínar till., þegar fyrrv. ríkisstj. lagði fram frv. sitt um framleiðslusjóð. Nei, það stóð ekki á sósíalistum þá að gera till. En ég held nú sannast sagna, að það sé betra að gera engar till. heldur en till., sem eru svo fjarri öllu lagi, að eftir að menn koma sjálfir í stjórn, þá dettur þeim ekki í hug að hafa þau bjargráð og úrræði að leiðarljósi við úrlausn vandamálanna. Og það var dálítið gaman í því sambandi, þegar hv. þm. fór að tala um, að þeir hefðu viljað láta leysa þennan vanda með því að láta olíufélögin leggja töluvert mikið af mörkum. Maður þekkir nú nokkur dæmi um það, hvernig það hefur verið framkvæmt af þeirra ráðherrum, aðhaldið að olíufélögunum í þessu efni, þar sem þeir hafa rétt að einu olíufélagi alveg sérstaka gjöf, sem er víst æði miklu meiri, en nokkurn tíma hefur verið gefin einu fyrirtæki hér á okkar landi og jafnvel þótt fleiri væru saman, þannig að eitthvað hefur þetta nú snúizt við í höfðinu á þessum hv. núverandi stjórnarstuðningsmönnum, eftir að þeir komust í ríkisstj. Ég held því, að það sé ekki til fyrirmyndar að benda á þessa till. En látum það vera. Ég get ekki stillt mig um í þessu sambandi að benda á það, sem hv. stjórnarliði virðist alltaf stöðugt gleymast, og það er, að þeir hafa lýst því yfir mjög ákveðið, að sjálfstæðismenn væru ófærir um að leysa þessi vandamál, og þeir hafa gengið fram fyrir þjóðina og tekið við stjórnarforustu með því loforði og kjörorði, að þeir skyldu leysa þetta eftir alveg nýjum leiðum og stefna inn á nýjar brautir og taka upp nýja starfshætti. En nú er svarið jafnan þetta hjá þessum ágætu mönnum: Ja, var þetta ekki eins hjá fyrrv. stjórn? Af hverju eruð þið að finna að þessu núna? Og svo eiga það allt í einu að vera sjálfstæðismenn, þessir menn, sem voru ófærir til að leysa allan vanda, sem nú eiga að vera ríkisstj. leiðarljós, þegar hún er komin algerlega í strand með öll sín úrræði. Hver hefði ímyndað sér, að svo illa væri komið hjá hæstv. ríkisstj. eftir þó ekki lengri stjórnarferil, en hún á að baki. Og það skyldi jafnvel ekki vera svo, eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, að það yrði úrræði stjórnarinnar að bjóða sjálfstæðismönnum sérstaka kaupgreiðslu fyrir það, ef þeir vildu nú setjast niður og reyna að finna einhverja leið út úr þessum vanda, sem stjórnin er í.

Hæstv. fjmrh. sagði í sinni ræðu áðan, fyrstu ræðu sinni, að það væri enginn mælikvarði á afgreiðslu í fjvn., hvenær nál. væri útbýtt, og gat um, að því hefði áður verið útbýtt seint og ekki fyrr en undir miðjan desember og þm. hefðu átt nægan tíma frá þingbyrjun til þess að koma fram sínum óskum. Það er eins og hæstv. fjmrh, hafi ekki hugmynd um, hvernig að málum er unnið í fjvn. Ég hélt, að hann vissi mætavel, að það, sem er mælikvarði á vinnubrögðin í n., er ekki endilega það, hvenær nál. er útbýtt, heldur hitt, hvernig málin eru undirbúin, og það, sem ég var að vita, eins og nú er ástatt, var það, að afgreiðsla mála í n. er ekki hafin fyrr en tveimur dögum áður en á að skila nál., og það er þetta, sem ekki hefur þekkzt áður. Og það, að þm. hafi haft nægan tíma frá þingbyrjun til að koma óskum sínum að, er auðvitað jafnfráleitt, vegna þess að það er venja, eins og ég gat um í minni frumræðu, að þeim trúnaðarmönnum, sem þm. hafa aðallega áhuga á að ræða við, er með rúmum fresti veitt aðstaða til þess að gera sínar till. til n., en nú var ekki um neitt slíkt að ræða. Og þm. biðu einmitt eftir því að fá vitneskju um það frá n., hvenær þessir viðkomandi embættismenn mundu hefja sín störf um skiptingu væntanlegrar fjárveitingar, en það var engu slíku til að dreifa nú, að nokkur tími væri til samráðs við þessa trúnaðarmenn n., þannig, að allt þetta stendur, sem ég hef sagt um hin fráleitu vinnubrögð í nefndinni.

Það voru ýmis önnur atriði, sem fróðlegt gæti verið að ræða, en ég ætla ekki að lengja tímann með lengri ræðu nú við þessa umr. málsins. Hæstv. fjmrh. sagði, að stjórnarandstæðingar hefðu aðgang að sömu gögnum í fjvn. og stjórnarliðið og hefðu því jafna aðstöðu til þess að ganga frá sínum till. Mig furðar mjög á því, að hæstv. ráðh. skuli fullyrða annað eins og þetta, því að þessu fer mjög víðs fjarri. Meiri hl. fjvn. hefur á hverjum tíma náið samband við ríkisstj. og fylgist með þeim hugmyndum, sem hjá henni eru um afgreiðslu einstakra mála. Þau erindi koma ekki fyrir fjvn., og ég benti á það við afgreiðslu fjárlaga á síðasta þingi og gæti einnig nefnt dæmi um það nú, að einstakir liðir, sem inn í fjárlagafrv. voru teknir, voru sendir n. og teknir upp af meiri hl. hennar, án þess að fyrir lægju nokkrar sérstakar greinargerðir eða skýringar hjá fjvn., og það jafnvel um upphæðir, sem skiptu milljónum króna. Og það sést bezt nú, þegar á að fara við þessa umr. að ganga frá fjárlagafrv. og gera sér grein fyrir öðrum höfuðþætti þess, tekjuhliðinni, sem er að sjálfsögðu undirstaða fjárlaganna, að þá hefur minni hl. n. engar upplýsingar, ekki einar einustu, og er neitað um þær upplýsingar, sem um er beðið.

Ég skal ekkert segja um það, hvort það er rétt hjá hæstv. ráðh., sem ég þó leyfi mér fullkomlega að efast um og vefengja, að það geti verið rétt, að meiri hl. n, hafi ekki meiri vitneskju um þetta en við. Ég held, að það sé algerlega útilokað, að meiri hl. n. viti ekki nú í dag nokkurn veginn um það, hvernig ætlunin er að afgr. fjárlagafrv., þó að þeir viti ekki nákvæmlega tölulega um það, hvort það skiptir einni, tveimur eða þremur milljónum til eða frá. En í meginatriðum hljóta þeir að vita það í dag, því að mér skilst, að ætlunin sé að afgr. frv. endanlega sem lög í næstu viku.

Það liggur því í augum uppi og hefur sjaldan verið staðfest betur, en einmitt við meðferð fjárlaga nú, að það er mjög mikill munur á aðstöðu meiri hl. og minni hl. í fjvn. að þessu leyti. Það hafa því miður verið tekin upp vinnubrögð nú við afgreiðsluna, sem ber að harma að skuli hafa verið upp tekin. Eins og ég tók fram í minni frumræðu, er ég ekki á neinn hátt að víta það, að fjárlög séu afgreidd fyrir áramót. Það eiga þau jafnan að vera. En það á að haga málunum þannig, að það þurfi ekki að afgr. þau með jafndæmalausu flaustri og nú er gert ráð fyrir. Og það að neita minni hl. n. um nauðsynlegar upplýsingar til þess að geta myndað sér heildarsýn yfir fjármálaástandið og vera síðan jafnframt að víta okkur í stjórnarandstöðunni fyrir að hafa ekki rætt málið eins og gert er ráð fyrir við 2. umr., það finnst mér nálgast fullkomna ósvifni, þegar þannig er í pottinn búið eins og allir sjá.

Við höfum ekki, sjálfstæðismenn, flutt við þessa umr. neina brtt., sem er alger nýlunda, en er glöggt dæmi um þau einstæðu vinnubrögð, sem hér hefur verið fylgt, og hversu við teljum gersamlega útilokað að byggja brtt. á nokkrum raunhæfum grundvelli.

Ég vil leyfa mér að lokum að vonast til þess um upplýsingar þær, sem þarf til þess að geta myndað sér heildarskoðun um fjárlagaafgreiðsluna, að ekki verði dregið fram á síðasta dag að leyfa okkur í minni hl. n. að fá vitneskju um þau leyndardómsfullu úrræði, sem eiga að vera hér til þess að jafna metin. Ég held, að það hafi ekki áður komið fyrir, að Alþingi hafi staðið andspænis þeim vanda, að það vantaði yfir 100 millj, kr. til þess að jafna halla á fjárlagafrv., svo að það hlýtur að vekja æði mikla eftirtekt og vera forvitnilegt að heyra, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar sér að leysa þennan vanda eða hvort hún blátt áfram gefst upp við að leysa hann, sem ég vil þó ekki trúa á þessu stigi málsins að minnsta kosti. En ég get ekki stillt mig um í lok þessarar umr. að endurtaka það, sem ég sagði í upphafi míns máls hér í dag, að ég verð að harma það og átelja, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa gripið til þeirra vinnubragða, sem hún fylgir hér nú við afgreiðslu þessara fjárlaga, og sérstaklega harma það, að okkar ágætu samstarfsmenn í fjvn, skyldu ekki rísa gegn slíkum vinnubrögðum.