13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Emil Jónsson:

Herra forseti. Þegar ég í gær bar hér upp till. um, að afbrigði yrðu veitt frá þingsköpum, til þess að eldhúsumræðum, sem svo eru kallaðar, yrði frestað þangað til síðar, gekk ég út frá því, að þessar eldhúsumræður yrðu þá líka látnar bíða, eins og farið var fram á og eins og mér var sagt að samkomulag hefði náðst um. Þetta hefur oft verið gert áður, og fjárlagaumr. hefur þá farið fram venjulega málefnalega og án þess að almennum umr. um stjórnarathafnir eða athafnaleysi væri blandað þar í. Nú hafa þessar umr., sem hér hafa farið fram við 2. umr. fjárlaga, að meira og minna leyti og ég vil segja að heldur meira, en minna leyti, verið nákvæm eftirmynd af því, sem eldhúsdagsumr, venjulega eru. Það hefur verið ádeila á ríkisstj. og flokka þá, sem styðja hana, fyrir ýmislegt, sem alls ekki kemur fjárlögunum við. Ég satt að segja, kann ekki meira en svo við þetta, eftir það samkomulag, sem ég taldi að gert hefði verið um þetta mál. Það er ekki sagt vegna þess, að ég sé nokkuð að mælast undan eða mæla stjórnina undan því, hæstv. ráðherra, að svara til saka um þessi mál. En þegar ákveðið hefur verið að gera það á öðrum vettvangi, er líka rétt, að sú umræða fari þannig fram, en sé ekki blandað inn í þessa umr., 2. umr. fjárlaganna, sem ávallt er og á að vera um einstakar greinar fjárlagafrv. Ég mun þess vegna ekkert út í þessi mál fara og ekki ræða þau sérstaklega, því að ég geri ráð fyrir, að tækifæri gefist til þess síðar.

Annað atriði, sem mjög hefur verið rætt um í þessum umr., er það, að afgreiðsla fjárl. hafi í þetta sinn verið með allt öðrum hætti, en áður hefur verið. Ég segi nú eins og hv. þm. A-Húnv. sagði hér áðan, að ég er nú búinn að vera æði mörg ár hér á Alþingi, — við erum víst búnir að vera hér álíka lengi, - en hann taldi, að hann myndi ekki eftir því, að fjárlagaafgreiðsla hefði verið á þann hátt, sem nú er. En ég tel mig ekki minnast þess, að hún hafi verið mikið öðruvísi, öll þessi ár, heldur en hún einmitt er núna. Það hefur æ ofan í æ komið fyrir, að verulegum atriðum eða atriðum, sem verulegu máli skipta, væri frestað til 3. umr. Ég fletti hér upp af tilviljun þingtíðindum, sem lágu við hliðina á mér, frá 1954, þegar hv. sjálfstæðismenn og framsóknarmenn fóru hér með stjórn, og þá sé ég ekki betur, en komið hafi frá fjvn. við 3. umr. milli 60 og 70 brtt. og sumar mjög verulegar, þannig að það er sannarlega ekki ný bóla, að fjárlögunum sé ekki í öllum atriðum lokið við 2. umr.

Um vinnubrögð fjvn. veit ég náttúrlega ekki sérstaklega, en ég hygg þó, að þau hafi verið með svipuðum hætti og gerzt hefur áður, þ.e.a.s. nefndin fær fjárlagafrv. í upphafi þings, sem mjög hefur þó skort á oft og tíðum að hún hafi fengið, en hún gat strax í upphafi þings nú tekið til við frv, og gert sínar athuganir á því. síðan fær hún til viðtals ýmsa embættismenn ríkisins, sem hún telur sig þurfa að ræða við um málið, og hún fer í gegnum erindi, sem borizt hafa. Þannig var þetta a.m.k. þann tíma, sem ég var í fjvn., og ég geri ráð fyrir, að það sé svo enn. Fyrstu vikurnar fara í það hjá n. ávallt að gera sér grein fyrir einstökum liðum frv. og einstökum atriðum, en afgreiðsla fer svo fram með mismunandi skjótum hætti, þegar undir áramótin er komið, og þó að það hafi meira að segja oft dregizt fram yfir áramótin, sem við erum víst allir sammála um að sé til hins verra og óeðlilegt, ef hægt er að ljúka afgreiðslunni fyrir áramót. Hvort það er einhver einn tekjuliður, sem stendur á að ákveða, eða einhver stór gjaldaliður, sem eftir er að ákveða, þá skiptir það ekki mjög miklu máli. Það hefur nákvæmlega sömu áhrifin á útkomu eða niðurstöðu fjárlaganna, hvort það er eftir að ganga endanlega frá, að tekjur fáist á móti gjöldum, eða það er eftir að ákveða svo og svo marga gjaldaliði, sem krefjast aukinna útgjalda. Ég sé ekki, að í því felist neinn verulegur munur. Og ég held, að ég megi fullyrða, að það hafi oft verið gengið frá fjárlögum við 2. umr., án þess að fyrir lægi alger viss um það, hvernig endanleg niðurstaða frv. mundi verða við þá 3. Ég þekki kannske ekki nægilega mikið til vinnubragða n., en ég hygg þó eftir þeim upplýsingum, sem ég hef um það fengið, að þau séu ekki mjög mikið á aðra lund, en þessi vinnubrögð hafa verið jafnan áður.

hæstv. ríkisstj. hafi samband við stuðningsmenn sína í n., það er heldur engin nýlunda. Og að þeir beri fram vissar óskir á ákveðnum tíma, það er heldur engin nýlunda. Þetta hefur tíðkazt, ævinlega, svo lengi sem ég man eftir a.m.k., og það er alveg sama, hver sú ríkisstj, hefur verið, hún hefur á vissu stigi málsins borið fram sínar till. við fjvn.-mennina, sem þeir þá að athuguðu máli í flestum tilfellum, að ég ætla, hafa tekið fullkomið tillit til og hagað sér eftir.

Ég tel þess vegna, að þessi fjárlagaafgreiðsla sé ekki ólík þeim, sem áður hafa átt sér stað, nema að þessu leytinu, að það er reynt að gera 2. umr. fjárlaganna að eldhúsdagsumræðu. Það er bæði á móti þingsköpum og samkomulagi, sem um þetta mál hefur verið gert, og það álit ég óviðurkvæmilegt.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. En mín meining með því að biðja um orðið var aðeins sú að mæla nokkur orð fyrir þeim till., sem ég hef borið fram á þskj. 165, eins og venja er að gera við 2. umr. fjárlaganna. Ég hafði nefnilega í minni einfeldni haldið, að við þessa umr. mundu frá fleiri, en mér koma fram ýmsar till. til breytinga. Það er nú það almenna og venjan, að menn beri fram sínar aðalbreytingar við 2. umr., þó að stjórnarandstaðan hafi nú algerlega látið það undir höfuð leggjast. En þessar till., sem ég hef leyft mér að bera hér fram á þessu þskj., eru aðeins tvær, og ég skal stuttlega gera grein fyrir þeim.

Það er þá í fyrsta lagi brtt. við 13. gr., um skiptingu á fénu til hafnargerða, að í stað 200 þús. kr. til Hafnarfjarðar komi 250 þús. Það mætti segja ýmislegt og raunar margt um þessa hafnargerð, og hún hefur nú staðið yfir í 15–16 ár, en orðið að fara miklu hægar, en æskilegt hefði verið, vegna þess að ekki hefur verið nægilegt fé til ráðstöfunar. Þó hefur það oft og tíðum verið þannig, að hafnarsjóður þar hefur átt inni fé hjá ríkissjóði, svo að hundruðum þús. kr. hefur skipt og jafnvel milljónum, vegna þess að unnið hefur verið meira, en ríkissjóður hefur stundum a.m.k. talið sig geta lagt á móti. En þetta verk er enn langt frá því að vera að fullu lokið, enda þótt unnið hafi nú verið fyrir nokkuð á annan milljónatug og með þeim árangri, að þar geta nú stærstu skip, sem til landsins koma, olíuskipin, lagzt að bryggju, og er það eini staðurinn á landinu, þar sem það er hægt. En allur útbúnaður er þó eins og er ófullkominn, sérstaklega við afgreiðslu þessara skipa, og verður mjög fljótlega að bæta úr því. Það verk kostar margar millj. kr., og nú er meiningin að snúa sér að því á næstunni og reyna að þoka því verulega áleiðis.

Ég sé í till. vitamálastjóra, að það er gert ráð fyrir að vinna fyrir 2 millj. kr. á næsta ári, en eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið nýjastar um það efni, er talinn vera möguleiki á því, að þessi upphæð geti orðið mjög verulega hærri, og það þarf hún líka að vera. Mér þykir það þess vegna illt, að sú fjárveiting, sem Hafnarfjarðarbær eða sjóður Hafnarfjarðar hefur notið á fjárl. undanfarið, hefur verið færð svo niður, sem gert hefur verið, eða niður í 200 þús. kr., og það þrátt fyrir að vitamálastjóri hefur lagt til hærri fjárhæð. Það er að vísu rétt, að á síðasta ári var ekki að fullu unnið fyrir það fé, sem þá var fyrir hendi, og voru víst eitthvað um 100 þús. kr. afgangs, eða rétt ríflega það. En það var vegna þess, að bærinn hafði þá með höndum annað verkefni mjög fjárfrekt, sem var bygging hraðfrystihúss, sem kostaði á annan milljónatug, en er nú að mestu lokið, svo að hægt er að snúa sér aftur að þessu verki.

Ég vildi mjög mælast til þess, að hv. Alþ. sæi sér fært að samþykkja þessa brtt.

Ég hef einnig á þessu þskj. flutt brtt. við 17. gr., að þar komi nýr liður, um framlag til byggingar dagheimilis verkakvennafélagsins Framtíðarinnar í Hafnarfirði. Það hefur verið byggt mjög myndarlegt dagheimili af verkakvennafélaginu, og sú nýbygging, sem reist hefur verið nú, kostar um 540 þús. kr. þegar, og það er raunar viðbótarbygging við annað eldra hús, sem þar var fyrir og hefur verið notað í þessu skyni nú í yfir 20 ár. Verkakvennafélagið Framtíðin starfrækir þarna dagheimili í tveim deildum nú, aðra fyrir tveggja ára börn og hina fyrir þriggja til fimm ára börn, og auk þess leikskóla og getur með þessari viðbyggingu tekið um 100 börn til dvalar að sumri, þegar þau að mestu leyti eru úti, en um 70 að vetri. Ég sagði, að byggingin hefði kostað um 540 þús. kr. þegar, en eftir er enn að ganga frá henni, og er ætlað, að sá kostnaður nemi um 70 þús. kr. Bæjarsjóður Hafnarfjarðar hefur lagt fram í þessa byggingu 300 þús. kr., og á fjárl. fyrir yfirstandandi ár voru veittar til byggingarinnar 30 þús. kr., sem er eina framlag Alþ. í þessu skyni. Með hliðsjón af því, að félagið á nú í kröggum og þarf nauðsynlega að ljúka þessu verki og hefur notið mjög góðrar fyrirgreiðslu bæjaryfirvaldanna á staðnum, hef ég leyft mér að fara fram á í þessari brtt., að veittar yrðu 50 þús. kr. á fjárl. fyrir árið 1958 í þessu skyni, og vænti ég, að því verði vel tekið.

Ég skal svo ekki tefja umr. með lengri ræðu. Ég hef þegar lýst þessum tveim till., sem ég flyt. Ef hv. fjvn. sæi sér fært eða gæfi mér tilkynna, að hún mundi taka þær til athugunar á milli umr., væri ég eftir atvikum fús til þess að draga till. til baka til 3. umr., svo að n. gæfist tóm til að athuga þær, og mundi þá hafa um það samráð við formann nefndarinnar.