13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Á þskj. 165 ber ég fram 2 brtt., sem báðar miða í hækkunarátt.

Önnur till. er um, að styrkur til elliheimilisins Grundar verði hækkaður úr 40 þús. upp í 60 þús. Þetta elliheimili, sem er langstærsta elliheimili landsins, hefur nú um 350 vistmenn, sem eru hvaðanæva að af landinu. Flest af þessu fólki er heilsuveilt og margt af því farlama. Á elliheimilinu Grund mun vera lægra daggjald, en á nokkru öðru hjúkrunarheimill í landinu. Það er nú 55 kr. á dag fyrir þá, sem eru rólfærir, og 65 kr. á dag fyrir sjúklinga.

Þessi hækkun, sem ég fer fram á, er vissulega óveruleg, þegar miðað er við stærð heimilisins, einar 20 þús. kr., og það má því segja, að lítið muni um það til eða frá. En mér finnst þetta þó vera nokkurt réttlætismál og ekki sanngjarnt, eins og nú er gert ráð fyrir, að þetta heimili, sem er mörgum sinnum stærra, en nokkurt annað samsvarandi heimili í landinu, skuli ekki fá nema 10 þús. kr. meira, en fámennustu heimili þessarar tegundar.

Ég fer svo ekki fleiri orðum um þessa till., en sný mér að hinni, sem er um aukningu á rekstrarstyrk til St. Jósefsspítalanna. Ég legg til, að þeim styrk verði komið upp í 750 þús. úr 525 þús., eins og reiknað er með nú í frv.

Raunverulegur kostnaður við rekstur almennra sjúkrahúsa er nú orðinn mjög hár, reiknaður í krónutali. Nákvæmar tölur get ég þó ekki nefnt, en á landsspítalanum mun kostnaðurinn á legudag vart vera undir 250 kr., en meira eða minna þar undir hjá einkaspítölunum. Á St. Jósefsspítalanum í Reykjavík er kostnaðurinn nálægt 140 kr. á legudag. Af þessum kostnaði greiða sjúkrasamlög rúmlega 90 kr. daggjald, en mismuninum verða einkasjúkrahúsin að ná með öðru móti, sumpart með viðbótargjaldi, sem lagt er á sjúklingana, og sumpart með opinberum styrkjum. Að sjálfsögðu verða þau sjúkrahús, sem ekki eru rekin fyrir opinbert fé, að spinka og spara, stundum sjúklingunum til mikils óhagræðis. Ég tel, að það mundi hvorki vera ríkissjóði né þjóðinni í heild neinn hagur, að sá aðili, sem nú rekur St. Jósefsspítalana hér á landi, yrði að gefast upp vegna fjárskorts. Enn sem komið er verður ekki komizt af án þeirra liðlega 200 sjúkrarúma, sem þessir spítalar hafa. En ef kaþólska trúboðið í Landakoti gefst upp, sem vel gæti komið fyrir, þá er hætt við, að byrðin legðist með öllum sínum þunga á hið opinbera, ríki og sveitarfélög. Og sé þetta ekki talið æskilegt, þá ber að koma í veg fyrir það með því að auka nokkuð þann litla stuðning, sem þessir spítalar nú fá. Hann mun vera um 7 kr. á legudag, en í till. minni er lagt til, að hann sé hækkaður upp í um það bil 10 kr. á dag.

Á þinginu í fyrra lagði ég til, að sama upphæð yrði veitt. Það náði ekki fram að ganga þá. Þörfin var þá til staðar, og hún er það ekki síður nú, í ár. Ég gat þess í fyrra, að vel mættum við vera minnugir þess, að Landakotsspítali veitti allri þjóðinni einstæða þjónustu árum eða áratugum saman, á meðan yfirvöld landsins vanræktu að reisa nokkurt almennt sjúkrahús, sem það nafn verðskuldaði. Fyrir framtak kaþólska trúboðsins fengu íslenzkir sjúklingar á þeim árum hjúkrun og læknishjálp, sem þeir ella hefðu ekki fengið. Þar fengu líka íslenzkir læknar, eins og Guðmundur Magnússon prófessor og Matthías Einarsson, viðunandi skilyrði til starfs, og þar hlutu ungir læknar faglega þjálfun sína. Þessu framlagi St. Jósefsspítalanna er óþarft að gleyma. Enn getum við ekki verið án þessara sjúkrahúsa, og þess vegna verðum við að láta okkur hag þeirra nokkru skipta, ekki vegna þeirra, sem þessi sjúkrahús reka, heldur vegna þeirra sjúklinga, er þangað verða að leita.