13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til þess eins að gera stutta grein fyrir brtt., sem ég flyt og prentuð er á þskj. 165. Þessi till. er viðkomandi utanríkisþjónustunni og er á þá lund, að ríkisstj. verði veitt heimild til þess á 22. gr. að greiða þriðja hvert ár ferðakostnað heim og heiman fyrir starfsmenn utanríkisþjónustunnar og fjölskyldur þeirra, er búa erlendis, ef þeir vilja eyða sumarleyfi sínu á Íslandi. Utanrrn. skal ákveða, hve margir og hverjir fá slíka ferðastyrki á ári hverju.

Ég vil taka það fram, að þetta mál á ekkert skylt við það, hvort utanríkisþjónustan er skipuð fleiri eða færri mönnum og stöðum en er í dag.

Þjónusta þessi er 10–15 ára gömul og því kornung. Eru að koma fram í henni ýmis vandamál, sem verður að leysa. Eitt þeirra er það, hvernig við getum tryggt, að fulltrúar okkar erlendis hafi nægilegt samband við heimalandið, að þeir fylgist nægilega vel með hér heima, og einnig, að fjölskyldur þeirra hafi það mikið samband við heimalandið, að ríkt geti ómengaður íslenzkur andi á heimilum þeirra. Mér er kunnugt um, að þetta er þegar orðið nokkurt vandamál, því að ferðalög eru dýr. Mér er líka kunnugt um, að Ísland muni vera eina landið, sem til þekkist í þessum hluta heims, sem ekki hefur það fyrir fasta reglu, ekki aðeins að tryggja sínum utanríkisþjónum, að þeir geti komið heim nægilega oft, heldur í flestum tilfellum að fyrirskipa þeim að gera það. Mér er líka kunnugt um, að alþjóðlegar stofnanir hafa margar hverjar fyrirskipað starfsmönnum sínum, að þeir verði að fara heim með vissu millibili, vegna þess, eins og einn maður orðaði það við mig, að þessar stofnanir vilja ekki hafa í þjónustu sinni þjóðlaus viðrini, eins og menn geta orðið, ef þeir dveljast með fjölskyldum sínum langdvölum að heiman.

Þetta er ástæðan fyrir því, að ég hef hreyft þessu máli. Ég hef sett skilyrði í þessa till. eða þessa heimild, sem mundi hafa það í för með sér, að utanrrn. gæti haft nokkurn hemil á þessu, þannig að útgjöld hrúguðust ekki upp og allir starfsmenn þjónustunnar kæmu heim á fyrsta ári. Það væri hægt að byrja í smáum stíl og þreifa sig áfram, unz utanrrn. sér, hver þörf er til að leysa þetta mál.

Ég vil nefna hér annað svipað vandamál, sem ekki er þessari till. viðkomandi, en kemur til lausnar mjög fljótlega. Það eru börn þessa fólks. Við megum ekki með okkar utanríkisþjónustu dæma börn þeirra manna, sem þar vinna, til þess að verða útlendingar. Þess vegna verðum við einhvern veginn að sjá fyrir því, að það fólk, sem árum saman dvelst í öðrum löndum að starfi fyrir íslenzka ríkið, geti forðazt þetta, t.d. með því að hjálpa því til að senda börn sín hingað heim til skólasetu. Ég vænti þess, að þm. skilji það, að hér er í raun og veru um þjóðernismál að ræða, sjálfsagt mál, til þess að þessi utanríkisþjónusta, sem ýmsum þykir nú vera stór og dýr, geti fullnægt því hlutverki fyrir okkur, sem hún á að gera.