13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki verða langorður, en ég sá ástæðu til þess að segja nokkur orð í tilefni af því, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan í sambandi við lánstilboð frá Vestur-Þýzkalandi, sem fyrir lá, áður en fyrrv. ríkisstj. fór frá völdum. Það er ekki rétt, sem hæstv. ráðh. vildi láta í skína, að ég hefði verið með einhverjar aðdróttanir í garð stjórnar Vestur-Þýzkalands um það, að hún hefði viljað setja einhver óvenjuleg skilyrði fyrir þessari lánveitingu hingað. Það er á engan hátt rétt. En ég staðhæfði það, sem hæstv. fjmrh. er nú þegar ljóst, þótt hann vilji ekki við það kannast, að þetta lánstilboð var fyrir hendi, en af einhverjum ástæðum hefur núv. hæstv. ríkisstj. ekki tekið þetta lán eða fengið þetta lán, hverjar sem þær ástæður kunna að vera. Ég benti á, að það mætti vera, að Íslendingar hefðu ekki aukið traust sitt á erlendum vettvangi með þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur eða boðaði í utanríkismálum og atvinnu- og fjármálum. Og Vestur-Þjóðverjar eru það miklir fjármálamenn, að þeir kynna sér stefnu þess ríkis í atvinnu- og fjármálum, sem væntanlegt er að lána. Það er áreiðanlegt, að heimurinn, a.m.k. hinn vestræni heimur, fylgist með því, sem er að gerast á Íslandi, þótt þetta ríki sé fámennt og lítið, og stefna núverandi hæstv. ríkisstj. í fjármálum og atvinnumálum hefur áreiðanlega veikt traust okkar út á við, og það eitt út af fyrir sig gæti verið þess valdandi, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki fengið þetta þýzka lán. Ég sagði einnig, að það gæti verið, — ég sagði ekki, að það hafi verið, — að það hefði haft einhver áhrif, hvernig ríkisstj. var samansett og hvernig stefnu hún boðaði í utanríkismálum, um leið og hún var sett á laggirnar.

Það er ástæðulaust að vera að karpa við hæstv. fjmrh. um það, hvort þetta lánstilboð hafi legið fyrir. Skjöl, skeyti og önnur gögn eru til sannindamerkis um þetta, og það er beinlínis óskynsamlegt fyrir hæstv. fjmrh. að vera að reyna að þræta fyrir það, sem hægt er að sanna með vottfestum skjölum og skeytum. Læt ég svo útrætt um það, sérstaklega vegna þess, að ég vil vera stuttorður, þegar svo er liðið á nóttu.

En hv. form. fjvn. gaf mér tilefni til þess að segja örlítið við hann. Hann var að tala um, hv. formaður, barnaskóla í mínu kjördæmi, og tilkynnti, sem rétt er, að upphafleg kostnaðaráætlun við þennan skóla hafi verið 1.5 millj. kr. Ég veit ekki, hvenær þessi upphaflega kostnaðaráætlun var gerð, en hitt er augljóst á skýrslum frá skólaeftirliti ríkisins, að hin nýja kostnaðaráætlun hefur hækkað um 2.1 millj., þannig að kostnaðaráætlun þessa skóla nú, eins og liggur fyrir í skjölunum, er 3.6 millj., en ekki 1.5 millj. Að nokkru leyti mun þetta stafa af því, að hin fyrri áætlun er gömul. Í öðru lagi mun það stafa af því, að upphaflega ætluðu aðeins 2 hreppar að vera saman um þennan skóla, en niðurstaðan varð sú, að hrepparnir urðu 3. Nú gerðu sveitarstjórnir eða skólanefndir þessara hreppa ráð fyrir því, þegar hafizt var handa um byggingu skóla, að þeir fengju þann styrk, sem ákveðinn er samkvæmt skólalöggjöfinni, vegna þess að allt, sem hefur verið gert í sambandi við skólann, hefur verið gert í samráði við stjórnarvöldin, í samráði við menntmrh., í samráði við fræðslumálastjóra og í samráði við skólaeftirlitið. Það er áreiðanlegt, enda þótt þessar áætlanir séu svo einkennilegar sem raun ber vitni, að það er ekki ástæða til þess að saka skólanefndirnar um það. Ég veit ekki, hvort fyrsta áætlunin hefur verið gerð í tíð stjórnar Steingríms Steinþórssonar eða í tíð síðustu ríkisstjórnar, en ég hygg, að seinni áætlunin hafi verið gerð á þessu ári eða seint á því síðasta. Byrjað var á þessari byggingu á s.l. vori með leyfi allra þeirra stjórnarvalda, sem þessi mál snerta. Ég vænti þess því, að styrkur til byggingarinnar miðist við hina raunverulegu kostnaðaráætlun, 3.6 millj., en ekki við hina upphaflegu og gömlu áætlun, 1.5 millj., sem miðaðist við allt aðra byggingu og allt annað hús, en hefur verið byrjað að byggja og nú þegar er komið undir þak. Ég er hv. form. fjvn. þakklátur fyrir að minnast á þetta mál hér, enda þótt ég geti nú ekki séð, hvaða erindi þetta mál átti í sambandi við hans ræðu og það, sem hann var að tala um, því að það var út í hött. En eigi að síður er ég honum þakklátur fyrir að hafa komið þessu máli á dagskrá nú inn í umr., enda þótt ég hafi ætlað að geyma það til 3. umr.

Hv. form. fjvn. var að tala um það hér áðan, að við sjálfstæðismenn, stjórnarandstaðan, kæmum ekki með bjargráðatill. til lausnar þeim vanda, sem Alþ. horfir nú upp á, í sambandi við fjármálin og atvinnumálin. Það er nú svo komið, að hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkar hrópa til stjórnarandstöðunnar og segja: Komið með bjargráðatillögur. — En hvað eru margar vikur síðan við sáum í stjórnarblöðunum yfirlýsingar með feitu letri um það, að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir ætluðu að koma með tillögur í þessum málum og ekki hafa samráð við Sjálfstfl.? En það er áreiðanlegt, að það mun ekki á okkur sjálfstæðismönnum standa, þegar hæstv. ríkisstj. eða stjórnarflokkar senda út neyðarkallið til bjargar þeim, og við munum koma með till., þegar á daginn kemur, að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir vilja leysa þessi mál í samráði við okkur og með aðstoð okkar. En þeir hafa lýst því fyrir skömmu, að þeir ætluðu ekki að hafa samráð við stjórnarandstöðuna. Það kemur sennilega greinilegar í ljós næstu daga, hvort skilja ber það, sem hv. form. fjvn. sagði hér áðan, sem neyðarkall og beiðni til stjórnarandstöðunnar um að koma með bjargráð og úrræði, af því að hæstv. ríkisstj. hafi gefizt upp.

Hv. form. fjvn. sagði, að Sósfl. hefði komið með till., þegar hann var í stjórnarandstöðu. En ég held, að hv. form. fjvn. hefði ekki átt að minnast á þessar till., því að till. voru ekki raunhæfar. Eða hvers vegna hafa sósíalistar nú, þegar þeir hafa aðstöðu til, ekki reynt að framkvæma þær till., t.d. að skattleggja bankana, eins og var þeirra bjargráð í stjórnarandstöðunni, t.d. að skattleggja olíufélögin, sem var þeirra bjargráð, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu? Í stað þess að skattleggja olíufélögin hafa þeir og núverandi hæstv. ríkisstj, búið miklu betur að olíufélögunum, en áður var í tíð fyrrv. ríkisstj., þannig að olíufélögin hafa nú aðstöðu til þess að reka sín fyrirtæki jafnvel með hagnaði eða án þess að tapa. En í tíð fyrrv. ríkisstj., síðustu tvö árin a.m.k., var það sýnt og sannað, að þau töpuðu, vegna þess að þau fengu ekki að hækka verðlagið á olíunni eins og þau töldu nauðsynlegt vera.

Ég lofaði því að vera stuttorður, og það vil ég efna. En ég vil segja það, áður en ég lýk máli mínu, að ég hefði getað unnt hv. þm. Hafnf. þess og hæstv. forseta Sþ., að hann hefði látið það vera að afsaka meðferð fjárlaganna að þessu sinni, vegna þess að það er óafsakanlegt, hvernig meðferðin á þessu máli er. Ég fullyrði, að þótt hv. þm. Hafnf. hafi sagt, að þetta væri ekkert óvenjulegt, þá er það í fyrsta sinni, sem meðferð fjárl. er á þann hátt, sem nú gerist. Eða hvenær hefur slíku stórmáli verið flaustrað af eins og nú á að gera? Og hvenær hafa hv. þm. séð framan í 120 millj. kr. greiðsluhalla eða allt að því, þegar fjárl. hafa verið komin á lokastigið? Og hvenær áður hafa Íslendingar átt svo úrræðalausa ríkisstj., að hún hefur ekki á síðasta stigi við afgreiðslu fjárl. getað látið þm. vita, hvernig eigi að afla tekna til þess að afgreiðsla fjárlaganna verði greiðsluhallalaus? Það hefur alltaf verið gert undanfarin ár og aldrei komið til mála annað, en afla tekna á móti gjöldunum, en nú virðist svo vera, þar sem hæstv. fjmrh. hefur ekki á móti því mælt, að meiningin sé að blekkja alþjóð, að hæstv. ríkisstj. og stjórnarlið ætli einnig að blekkja sig með því að taka þann liðinn, sem á að verja til dýrtíðarráðstafana, út úr frv., leggja hann til hliðar og afla teknanna eftir bæjarstjórnarkosningarnar í febrúarmánuði, gera það til þess að skattlagningin eða gengislækkunin, hvort sem það verður nú, komi ekki í ljós fyrr, en að kosningum loknum.

Hv. stjórnarliðar treysta ekki betur en svo, á kosningalagafrv., sem þeir hafa borið hér fram til þess að torvelda kosningarnar, að þeir telja, að það þurfi líka til að koma að fresta þessum óvinsælu aðgerðum, sem eru skattlagning eða gengislækkun, sem eiga að koma síðar í vetur.