13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Þótt hér séu ekki eldhúsdagsumræður, gefur stjórnarstefna sú, sem birtist í framlagningu þessa frv. hér og meðferð þess, ærið tilefni til gagnrýni, og það er skylda stjórnarandstöðunnar að gagnrýna athafnir ríkisstj. og engin ástæða til, hvorki fyrir hv. þm. Hafnf. (EmJ) né aðra hv. þm. stjórnarflokkanna að mælast undan þeirri gagnrýni.

Meðferð þessa fjárlagafrv. er einn aðalþátturinn í þeim sjónhverfingaleik, sem hæstv. ríkisstj. sýnir íslenzku þjóðinni um þessar mundir.

Leikur þessi var upphaflega settur á svið með misbeitingu kosningalaga og loforðum um, að engin hlutverk yrðu fengin fulltrúum þess flokks, sem ógnar nú lýðræðinu hvarvetna í heiminum, enn fremur með loforðum um verðstöðvun og varnarleysi í landinu, svo að nokkuð sé nefnt.

Fólk, sem í sakleysi sínu trúði orðum hv. núverandi stjórnarflokka, var því að kjósa yfir sig allt annað, en það hélt.

Fulltrúar þess flokks, sem nú ógnar frelsinu og lýðræðinu í veröldinni, gegna því mikilvæga hlutverki innan hæstv. ríkisstj. að hreinsa samráðh. sína af því óorði, sem á hæstv. ríkisstj. hefur komizt meðal annarra Atlantshafsbandalagsþjóða. Þessum tilgangi hyggjast þeir m.a. ná með bréfaskiptum um varnarmálin, sem áttu sér stað fyrir nokkru og sýna skyldu opinberlega það hyldýpi skoðanamunar á utanríkismálum, sem á að ríkja innan hæstv. ríkisstj.

En það gildir um varnarsamninginn eins og annað, að það er mjög vandasamt bæði að halda og sleppa. Þetta er almenningi vel ljóst, og því fyllist hann andúð á hæstv. ríkisstj., sem vílar ekki fyrir sér að tvístíga svo í þessum viðkvæmu málum, að fullkomin óvissa ríkir um, hvert stefnir.

Þetta kemur óþyrmilega í ljós, ef rifjað er upp efni þessara bréfa, annars vegar og skrif stjórnarblaðanna um þau hins vegar. Í bréfunum sjálfum virðast koma fram sæmilega ljósar stefnur. Efni bréfs Alþýðubandalagsins var á þá leið, að nú skyldi ríkisstj. þegar hefja viðræður um uppsögn herverndarsamningsins með það fyrir augum, að varnarliðið hyrfi þegar úr landi. En inntakið í bréfum hinna stjórnarflokkanna tveggja var hins vegar, að það samrýmdist engan veginn öryggi Íslands, að viðræður yrðu nú teknar upp um þessi efni.

S.l. sunnudag skrifuðu stjórnarblöðin athyglisverð ummæli hvert um sig um þessi bréf.

Í ritstjórnargrein Þjóðviljans er stjórnarseta kommúnista þrátt fyrir útreið varnarmálanna í fyrra mjög afsökuð á þá lund, að það sé nú sem fyrr kommúnistum nauðsynlegt að sitja í ríkisstj. til að geta unnið sjálfstæðismálinu verulegt gagn, og það muni verða hér eftir sem hingað til. Ég hygg, að þessi ummæli séu nokkurn veginn rétt eftir höfð, a.m.k. er meining þeirra áreiðanlega hin sama og var í blaðinu. En ritstjórnargreininni lauk með því, að sagt var, að kommúnistum yrði nú áreiðanlega nauðsynlegt að sitja áfram í ríkisstj. til þess að geta bjargað við sjálfstæðismálum Íslendinga.

Þannig átti að vega upp á móti þeirri undrun, sem komið hefur fram meðal ýmissa saklausra kjósenda eða kannske öllu heldur fyrrverandi kjósenda þessa flokks, yfir því, að svik í svo mikilvægu máli skuli ekki hafa verið látin varða stjórnarslitum.

Það þarf talsverða hreysti til, að mann hrylli ekki við þessum orðum blaðsins og hugsunum þeim, sem í verður ráðið.

Hin heimspekilega síða í blaði hæstv. forsrh. og fjmrh., sem þeir kalla „Skrafað og skrifað“, að ég held, gerði einnig þessi bréfaskipti að umtalsefni með nokkuð undarlegum hætti. Útskýrt var, að viðræður um varnarmálin samrýmdust ekki öryggi Íslendinga nú og bréf kommúnista kæmi á óheppilegum tíma. Það var kannske sannleikanum öllu samkvæmara, að þetta var ekki sá hentugi tími fyrir þennan hv. stjórnarflokk til að bregðast NATO.

En stjórnarblaðið Tíminn vill augljóslega gera báðum til hæfis, fylgjendum samstarfs lýðræðisþjóðanna annars vegar og hins vegar svonefndum hernámsandstæðingum, því að litlu síðar í sömu grein sagði blaðið, að þrátt fyrir þetta væri það augljóst, að þál. frá 28. marz 1956 væri enn í fullu gildi og yrði framkvæmd, bara síðar, þegar henta þætti.

Þriðji þátturinn í þeim aðgerðum ríkisstj., sem vita að kjósendum þessa dagana, er frv. um frelsisskerðingu kjósendanna, eða á máli stjórnenda: frv. um friðun kjördagsins. Hv. stjórnarherrum er vafalaust hugþekkari sá friður, sem fæst með frelsisskerðingu í einræðisþjóðfélagi, en gustur frelsisins í lýðræðisþjóðfélagi.

Allir þessir þættir eru settir upp með það fyrir augum að slá ryki í augu kjósendanna fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í janúarmánuði, Mikils þykir við þurfa hér í Reykjavík, höfuðvígi Sjálfstfl. í landinu. Það er auðséð, að hv. stjórnarherrar þekkja illa reykvíska kjósendur, ef þeir ætla skynsemi þeirra ekki meiri en svo, að blekkja megi þá með þeim hætti, sem ríkisstj. reynir að gera sí og æ. Nei, reykvískir kjósendur og almenningur yfirleitt vill láta segja sér sannleikann, allan og umbúðalausan.

Þetta frv., sem til umr. er, og meðferð þess er nýjasta dæmi um það undarlega og óheila stjórnarfar, sem við eigum við að búa. Það er lagt fram með þrefalt meiri greiðsluhalla, en hann hefur hæstur verið áður, tekið síðan til

2. umr. af mikilli skyndingu með 12 millj. kr. hækkunartill. frá fjvn., en án þess að vitað sé, hverra úrræða verði leitað til að vega upp hallann. Það á sem sagt með einhverju móti að afgr. fjárl. ríkisins fyrir áramót og benda svo kjósendunum á það í janúarmánuði, hve dæmafár dugnaður fjármálaspekinga ríkisstj, sé. Um það hins vegar, hvað hæstv. ríkisstj. ætlast fyrir í febrúarmánuði, mun áreiðanlega verða þagað. Þetta frv., sem að vísu er ófullkomin mynd af fjárl. eins og þau verða, er hins vegar ömurleg mynd af fjármálastefnu hæstv. ríkisstj.

Svo er mál með vexti, að ég hef með höndum daglegan rekstur einnar af þeim stofnunum, sem fjármálastefna hæstv. ríkisstj. kemur hvað harðast niður á, en þessi stofnun er eitt af mörg þúsund heimilum í landinu. Þótt fæstir skilji upp né niður í því, hvert ríkisstj. stefnir, og hjalað sé fjálglega aftur og aftur um verðstöðvunarstefnu, mun ekki finnast sú húsmóðir, sem ekki hefur orðið vör við þau lamandi áhrif, sem álögur hæstv. ríkisstj. hafa haft á fjárhag heimilanna. Við förum nú heim með léttari pyngju að loknum kaupum á heimilisnauðsynjum en var, áður en fjármálastefna ríkisstj. komst í algleyming, Ég tek undir það með öðrum hv. þm. Sjálfstfl., að það er, síður en svo af ánægju með þetta frv., sem ég flyt ekki við það brtt., heldur eru þm. Sjálfstfl. sammála um það, að á þessu stigi málsins sé ótímabær tillöguflutningur, eins og öllum málatilbúnaði er hér háttað.

Ég vil taka fram um nokkur einstök atriði þessa máls, að ég tek eindregið undir ósk hv. þm. Reykjavíkur, sem hafa talað hér í dag um, að heimild verði hækkuð til framlags til útrýmingar heilsuspillandi íbúða úr 4 millj. upp í 12, og legg eindregið til, að um það verði farið eftir tilmælum bæjarstjórnar Reykjavíkur.

Annars vil ég lítillega minnast hér á tvö önnur mál, sem brýn nauðsyn er á að fjárveitingavaldið sinni. Annað málið varðar frv., sem við hv. þm. Ísaf. fluttum á þinginu í fyrra, en efni þess var, að farið var fram á fjárhagslegan stuðning ríkisins til að koma á fót öryrkjaheimili fyrir fyrrverandi geð- og taugasjúklinga. Þarna var ekki gert ráð fyrir stórri stofnun, en sýnt var fram á, að hún mundi þó bæta úr brýnni þörf og um leið losa nokkuð af sjúkrarúmum, sem mikill skortur er á. Segja má, að frv. þetta hafi efnislega hlotið fylgi á þinginu í fyrra, og hlaut það góð meðmæli heilbrigðisyfirvalda. Landlæknir sagði í umsögn sinni um það, að hér væri farið fram á hóflegan stuðning til þarflegs máls og að sér væri ljúft að styðja það hið bezta. Þessu máli var vísað til ríkisstj. í þeirri von, að hún hlutaðist til um fjárveitingu á fjárl. Það hafa þó ýmsir haft takmarkað traust á ríkisstj. í því efni sem fleirum, fleiri en við sjálfstæðismenn höfðum, því að ef ég man rétt, fengum við liðsauka frá þm. stjórnarflokkanna, og aðeins munaði einu atkv. um, að felld yrði tillaga frá meiri hl. heilbr.- og félmn. um, að þessu frv. yrði vísað til ríkisstj. Hins vegar, þegar litið er til þess fylgis, sem þm. stjórnarflokkanna vildu gjarnan veita þessu máli, mátti búast við, að nú yrði tekin upp fjárveiting í þessu skyni. En svo hefur þó ekki orðið, og munum við sennilega flytja till. um það við 3. umr., ef ekkert kemur frekar um þetta frá fjvn.

Hitt málið, sem um var að ræða, var um uppeldisskóla fyrir ungar stúlkur, sem ríkisvaldinu er skylt að koma á fót og starfrækja samkvæmt l. um vernd barna og ungmenna, nr. 29 frá 1947. Meðferð hæstv. ríkisstj. á þessu máli er því miður til mestu hneisu. Nauðsyn þessa máls er ótvíræð, og hafa verið gerðar um það fjöldamargar samþykktir utan þings og innan. Skortur á þeim skóla, sem hér um ræðir, háir mjög starfi þeirra, sem vinna að vernd barna og ungmenna, og veldur því, að aftur og aftur fá þeir aðilar til meðferðar mál sömu unglinganna, sem lent hafa í vandræðum hvað eftir annað, einmitt af þeim sökum, að hvergi er til staður til þess að vista þessa unglinga á. Fyrir nokkrum árum var stofnsett svipað heimili fyrir drengi, og hefur orðið af því mjög góður árangur, svo að ekki ætti það að fæla frá þessari framkvæmd, heldur mun hitt ráða hér meiru um, að eitt „útgjaldaráðuneytanna“ hefur þessi mál með höndum, og er leitt til þess að vita, að hæstv. núverandi menntmrh. skuli vera eftirbátur fyrirrennara síns í að sækja af kappi um fé til síns ráðuneytis. En eins og hv. þm. muna, veittist hæstv. fjmrh, að hv. 1, þm. Reykv. fyrir að hafa sótt af af miklu kappi um fé til síns ráðuneytis, þegar hann var menntmrh. En því verður ekki á móti mælt, að það, sem gerzt hefur í þessum málum, var framkvæmt í hans ráðherratíð, og væri vel, ef héldi áfram á þeirri braut. Ég flutti á s.l. þingi brtt. við fjárlög um fjárveitingu til þessa skóla. Sú till. var felld að viðhöfðu nafnakalli, en hins vegar var samþ. brtt. fjvn, við 22. gr. fjárl. um heimild til landkaupa í þessu skyni fyrir ríkisstj.

Ég flutti fjárveitingatill. mína við 3. umr. engu að siður, taldi ekki minni nauðsyn þess, að hægt væri að hefja framkvæmdir á því landi, sem keypt yrði, ef til kæmi. En sú till. var felld og hæstv. ráðh. hafði um atkvæði sitt fyrirvara, sem var eitthvað á þá leið, að hann teldi máli þessu mjög vel borgið, þar eð nú hefði verið veitt heimild til að kaupa land í þessu skyni, og ætti það að vera nóg á þessu ári, því að þá væri sjálfsagt hægt að hefja framkvæmdir á næsta ári. En það hryggilega kom fram í þessu máli, þegar leið á árið, að aldrei hafði verið ætlunin að nota þessa heimild, heldur aðeins að kaupa sér stundarfrið. Alveg nýlega var skipuð nefnd í þetta mál, að vísu með ýmsu vel hæfu fólki, en málið hafði þegar áður verið vel undirbúið af nefnd, sem fyrrverandi menntmrh. hafði skipað. Hæstv. menntmrh. tjáði mér, að skipun þessarar n. hefði verið vegna þess, að nú ætti ef til vill að hefjast handa um fjárveitingu, og þess vegna væri nauðsynlegt, að ný n. hefði athugað málið. Þess var tæplega að vænta, að svo nýlega skipuð nefnd lyki störfum fyrir fjárlagaafgreiðslu, því að augljóslega er ætlunin að sneiða hjá fjárveitingu: Þegar ljóst var, að hverju rak, flutti ég þáltill. um málið, en hún hefur ekki komið til umr., sem kunnugt er. Það hefur sem sé verið augljóst, að það var aldrei ætlunin að nota þessa landkaupaheimild, enda hafði aldrei verið við jarðeiganda nokkuð talað, sem gefið hafði nokkrum árum áður góð orð um að láta land sitt falt í þessu skyni, en það land var jörðin Ormsstaðir í Grímsnesi, sem er nágrannajörð við Sólheima. Og nú hefur hvorki verið tekin upp aftur þessi landkaupaheimild né heldur fjárveiting verið veitt í þessu skyni. Þess vegna mun ég áskilja mér rétt til að flytja um þessi mál till. við 3. umr. fjárl., en vona þó, að hv. n. sjái sér fært að taka þessi mál upp áður.

Ég mun annars ekki reifa þessi mál nánar nú að sinni, því að færi mun gefast til þess við 3. umr.

Ég minnist þess, að tveir hv. þm. úr flokki hæstv. fjmrh. kvörtuðu mjög hér á þinginu ekki alls fyrir löngu um það, að uppeldismálum væri ekki nægur gaumur gefinn á Alþ. Þess væri óskandi, að þessir hv. þm. gætu haft einhver áhrif á samherja sína í þá átt, að þessum þætti uppeldismálanna yrði nú sá gaumur gefinn, að eitthvert raunhæft spor yrði stigið í þessum efnum.