24.10.1957
Efri deild: 8. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

4. mál, gjaldaviðauki

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv., sem hér liggur fyrir. Fjhn. hefur gengið úr skugga um, að það er algerlega samhljóða því frv., sem samþ. var á síðasta þingi, og frumvörpum, sem samþ. hafa verið árlega mörg síðustu ár.

Það kynni að virðast um þetta frv. og reyndar ýmis önnur, sem svipað er ástatt um, gjaldaheimildir, sem eru framlengdar frá ári til árs, að það væri að ýmsu leyti verklegra að endurskoða þau með tilliti til þeirrar verðmætisrýrnunar, sem orðið hefur á þessum gjöldum vegna rýrnandi gildis peninga, og er mér ekki fyllilega kunnugt um, hvaða ástæður eru fyrir því, að sú aðferð er viðhöfð að framlengja þetta aðeins frá ári til árs.

Í sambandi við þetta er þó rétt að geta þess, að á síðasta þingi var flutt stjórnarfrv. um breyt. á lögum um gjald af innlendum tollvörutegundum, sem hefur inni að halda nákvæmlega sömu ákvæði og þarna eru ákveðin í d-lið 1. gr. þessa frv. En það frv. varð ekki útrætt, og því er þessi liður hafður óbreyttur frá því, sem hefur verið á undanförnum árum.

Það má minna á, þó að það hafi verið gert oft áður, að þau gjöld, sem hér ræðir um, eru yfirleitt lögð á miðað við ákveðna krónutölu, en ekki sem hundraðshluti af verði eða verðmæti, og þó að álagið sé nokkuð mikið, eða frá 100 og upp í 740%, mun samt sem áður vera um raunverulega lækkun þessara gjalda að ræða frá því, sem áður var.

Fjhn. hefur verið algerlega sammála um það að mæla með samþykkt frv., þ.e.a.s. þeir nm., sem á fundi voru, en hv. þm, Vestm. var fjarstaddur, þegar málið var afgreitt.