19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég flyt hér nokkrar brtt. við fjárlögin, sem ég vildi leyfa mér að gera að umtalsefni, þó að þær séu ekki komnar úr prentun enn þá.

Það eru í fyrsta lagi brtt. varðandi framlög til skólabygginga, og snerta þær þau framlög, sem ætluð eru í fjárlögum til byggingar barnaskóla og gagnfræðaskóla í Reykjavík. Er þar skemmst frá að segja, að Reykjavíkurbær fær þar ekki nema tiltölulega lítinn hluta af því fé, sem óhjákvæmilegt er að veita til skólabygginga í bænum. Á s.l. ári vann fræðsluskrifstofa bæjarins ýtarlegt verk í því efni að gera áætlun um, hversu mikið af skólahúsnæði þyrfti að byggja á næstu 5 árum til þess að fullnægja fræðslulögunum, en eins og kunnugt er, hefur Alþingi sett skólalöggjöf með skólaskyldu, og er ætlazt til þess, að bæjar- og sveitarfélögin sjái m.a. fyrir húsnæði, til þess að slík kennsla geti farið fram. Athugun fræðsluskrifstofu bæjarins og sérstakrar nefndar sérfróðra manna, sem í þetta var sett, var á þá lund, að byggja þyrfti á ári hverju í Reykjavík næstu 5 ár skólahúsnæði, sem næmi a.m.k. 25 nýjum almennum kennslustofum á ári auk sérkennslustofa og annars slíks húsnæðis. Framkvæmdir hafa síðan verið við þetta miðaðar af bæjarstjórn Reykjavíkur á þessu ári, sem nú er að líða, í frv. því til fjárhagsáætlunar fyrir Reykjavíkurbæ, sem lagt verður fram í bæjarstjórn Reykjavíkur í dag. Er svo gert ráð fyrir, að byggðar séu á næsta ári ekki færri en 25 almennar kennslustofur til að fullnægja þessari þörf. Er þar skemmst frá að segja, að áætlanir um byggingarkostnað þessara skóla, sem eru bæði á barna- og gagnfræðastigi, munu vera um 19 millj. kr. Þetta fé á að skiptast til helminga milli ríkissjóðs og bæjarsjóðs samkvæmt skólalöggjöfinni. Í frv. að fjárhagsáætlun Reykjavíkurbæjar er því veitt 91/2 millj. í þessu skyni á næsta ári til að standa undir helmingi þessa kostnaðar.

Til samræmis við þessar óhjákvæmilegu byggingarfyrirætlanir flyt ég svo ásamt 5 öðrum hv. þm. till. um að færa fjárveitingar í fjárlögum í það sama horf, þannig að ríkissjóður standi við sinn helmingshluta til þessara byggingarframkvæmda. Ástæðurnar fyrir þessari miklu byggingarþörf þarf að sjálfsögðu ekki að rekja. Þær stafa fyrst og fremst af skólalöggjöfinni annars vegar og hins vegar af þeirri miklu íbúafjölgun, sem hefur orðið og er í Reykjavík um þessar mundir. En þó að almenn íbúafjölgun sé allmikil, er þó fjölgun skólaskyldra barna og unglinga hlutfallslega miklu meiri. Þannig fjölgar skólaskyldum börnum á hverju ári um 4–5%, og mun þurfa á næsta ári eingöngu vegna þess a.m.k. 7 almennar kennslustofur. Unglingum á gagnfræðastigi fjölgar hins vegar hlutfallslega miklu meira, eða um 15% árlega, og þarf jafnmikinn skólastofufjölda til að mæta þeim þörfum. Auk þess hefur síðustu árin orðið að þrísetja í nokkrar kennslustofur, en það er mjög óæskilegt, að ég kveði ekki sterkara að orði, og þarf að koma í veg fyrir, að sama kennslustofan sé meira en tvísett.

Ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri, en þó aðeins taka það fram, að við athugun skólafróðra manna hefur komið í ljós, að sú stefna, sem verið hefur ríkjandi, að aðgreina algerlega skólahús, barnaskólahús annars vegar og gagnfræðaskólahús hins vegar, sé ekki rétt eða heppileg. Svo er mál með vexti, að hver skólabygging þarf í rauninni, a.m.k. á hinum stærri stöðum, að vera margir smærri skólar, því að hér er svo margt sameiginlegt, eins og heilbrigðiseftirlit, samkomusalir, handavinnustofur, leikfimihús o, fl., þannig að það er talið hlutfallslega ódýrara að byggja stærri skólabyggingar saman, þar sem bæði yrði barnafræðsla og gagnfræðakennsla, en hins vegar yrði þessum byggingum skipt sundur, það yrði sameiginlegt allt, sem sameiginlegt yrði hægt að hafa, en skólarnir að öðru leyti aðgreindir. Af þessum ástæðum hefur Reykjavíkurbær nú sótt um leyfi til þess að byggja barna- og gagnfræðaskóla sameiginlega að nokkru leyti, og vil ég því segja, að ég tel, að sú skipting, sem nú er í fjárlagafrv. og till. fjvn., sé að sumu leyti úrelt orðin og þurfi að athugast nánar fyrir næsta þing.

Því miður hefur orðið á því mikill misbrestur, að meiri hl. fjvn, skildi þær þarfir, sem hér eru í höfuðborg landsins, og leggur til, að miklu minna fé sé veitt til skólabygginga, en brýnustu þarfir krefjast. Og það er ekki aðeins, að það hafi verið skorið niður almennt, heldur gætir því miður ekki réttlætis milli byggðarlaganna innbyrðis í þessum till., og fer því fjarri. Ég vil nefna sem dæmi einu till. um byggingu nýs gagnfræðaskólahúss á öllu landinu, — það er nú öll rausnin hjá meiri hl. fjvn., að það er aðeins lagt til, að hafin sé bygging eins nýs gagnfræðaskólahúss, og það er í Kópavogi, og er ég sannfærður um, að það er nauðsyn á því. En á sama tíma sem fjvn. leggur það til, neitar hún um einn eyri í tvo nýja gagnfræðaskóla í Reykjavík, sem á að hefja byggingu á á næsta ári. Þegar maður nú athugar, að fjölgun gagnfræðaskólanemenda er varðandi 1. og 2. bekk, og á ég þá aðeins við skólaskylduna, fjölgunin ein í Reykjavík er 172 á einu ári, eða 50% meira, en allir nemendur á gagnfræðastigi til samans í Kópavogi, þá sér maður náttúrlega, hversu fráleitt það er, um leið og þessi fjárveiting er, sem ég tel nauðsynlega, til Kópavogs, að neita þá algerlega um að hefja byggingu nokkurs nýs gagnfræðaskóla í Reykjavík. Það náttúrlega fær ekki staðizt.

Ég vil taka það fram, vegna þess að stundum verður vart nokkurs misskilnings í sambandi við þessar skólafjárveitingar í fjárlögum, að með þessu er auðvitað ekki verið að fara fram á neina styrki eða ölmusu til Reykjavíkur eða annarra héraða. Málið liggur þannig fyrir, að Alþingi sjálft hefur sett skólalöggjöf, þar sem er ákveðin skólaskylda og sveitarfélögunum er lögð sú skylda á herðar að byggja skólahús og hafa nægilegt skólahúsnæði til að framfylgja þessum lögum gegn því loforði ríkisins að greiða helming byggingarkostnaðar. Það, sem hér er um að ræða, er eingöngu það, að Alþingi standi við gefin fyrirheit, samkvæmt skólalöggjöfinni, og er í rauninni ekki sæmandi, ef Alþingi ætlar ár eftir ár að skjóta sér undan þeirri lagaskyldu.

Þá er hér önnur brtt., sem ég flyt ásamt sömu hv. þm. Það er varðandi heilbrigðisstofnanir í Reykjavík. Á undanförnum árum hefur Reykjavíkurbær haft tvær stórbyggingar í smíðum. Annað er heilsuverndarstöðin, sem nú er tekin til starfa, og hitt er bæjarsjúkrahús. Skv. lögum á ríkissjóður að greiða 2/5 af stofnkostnaði slíkra bygginga. Það hefur síðustu árin og m.a. í fjárlagafrv, nú verið veitt 11/2 millj. kr. til þessara stofnana, og fer því fjarri, að það sé fullnægjandi til greiðslu á þessum 2/5 hlutum ríkissjóðs. Það er nú svo komið, eins og ég gat um, að heilsuverndarstöðin er tekin til starfa, en hinn mikli bæjarspítali, þar sem eiga að vera um 300 sjúkrarúm, er í smíðum. Um þessi áramót mun ríkissjóður vera á eftir með sinn hlut um 51/2 millj. kr. Á næsta ári er gert ráð fyrir að vinna fyrir um 6 millj. kr. í bæjarspítalanum, og af því á þá ríkissjóður að greiða 2.4 millj. Ef aðeins er veitt 11/2 millj, á næsta ári, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., mundi skuld ríkisins í árslok 1958 vegna þessara framkvæmda verða um 6.4 millj. kr. Með brtt. okkar er ekki farið fram á, að þetta sé greitt að fullu eða varið til þess fé að fullu, heldur aðeins að sýna þó lit á því að hækka þessa 11/2 millj. upp í 2 millj.

Fleiri brtt. skal ég ekki gera hér að umtalsefni. Ég er meðflm. nokkurra annarra, sem aðrir hv. þm. munu gera grein fyrir. En mér þykir rétt út af einni brtt. meiri hl. fjvn. að segja nokkur orð. Það er 15. till. n. um að fella niður fjárveitingu til rekstrar vinnuhælis að Kvíabryggju. Svo er mál með vexti, að í framfærslulögunum er svo ákveðið, að sveitarstjórn sé heimilt að afla sér úrskurðar valdsmanns, í Reykjavík sakadómara, um, að styrkþega, sem hefur ekki fyrir heimili að sjá, skuli skylt að vinna af sér á vinnuhæli meðlag eða barnalífeyri, sem sveitarsjóður hefur orðið að greiða með barni hans, skilgetnu eða óskilgetnu, enda þótt hann hafi verið til þess fær. Þetta ákvæði er í framfærslulögunum frá 1947. Nú hefur það orðið reynsla margra sveitarfélaga, að innheimta slíkra barnsmeðlaga gengur ákaflega erfiðlega. Hér er oft um að ræða einhleypa menn, sem jafnvel hafa ekki heimilisfang á föstum ákveðnum stað, og innheimtuaðgerðir reynzt mjög erfiðar. Sú eina ráðstöfun eða innheimtuaðgerð, sem verkað hefur verulega, hefur verið þessi, sem hér er heimild til í framfærslulögunum, þ.e. að fá slíka vanskilamenn úrskurðaða af valdsmanni eða sakadómara til að afplána þessa skuld á vinnuhæli.

Nú er það svo, að ríkinu ber skylda til þess að sjá fyrir vinnuhælum til þess að afplána bæði refsingar og m.a. þessi barnsmeðlög. Nú var svo komið fyrir nokkrum árum, að ríkið stóð ekki við sína lagaskyldu í þessu efni. Það eina vinnuhæli, sem ríkið rekur, er vinnuhælið að Litla-Hrauni, og það var ekki einu sinni hægt að koma þangað þeim refsiföngum, sem áttu að afplána refsidóma, og þurfti oft að láta slíka menn, sem biðu þess að afplána dóma, bíða árum saman, til þess að þeir afplánuðu þá. En þar sem svo stóð, var gersamlega loku fyrir það skotið, að hægt væri að láta á vinnuhælið nokkurn af þessum vanskila barnsfeðrum. Því miður var ekki skilningur fyrir því hjá fjárveitingavaldinu, að ríkið þyrfti að gegna sinni skyldu betur með því að sjá fyrir nægilegum vinnuhælum og fangelsum. Til þess hins vegar að reyna að koma einhverri hreyfingu á þetta mál, bauðst Reykjavíkurbær til þess að koma upp vinnuhæli á sinn kostnað, að Reykjavíkurbær byggði sjálfur eða greiddi allan stofnkostnað slíks hælis, sem skv. lögum ríkissjóður á að greiða, gegn því, að ríkið tæki að sér rekstur hælisins. Ríkisstj. tók þá — það var árið 1950 — þessu tilboði fegins hendi, taldi sig ekki hafa bolmagn til þess að reisa á ríkisins kostnað slíkt vinnuhæli, en sem sagt tók þessu tilboði Reykjavíkurbæjar fegins hendi og skuldbatt sig til þess að taka við rekstri þess á kostnað ríkisins, þegar slíkt vinnuhæli væri tilbúið. Þetta var samþykkt af þáverandi ríkisstj. og m.a. af núverandi hæstv. fjmrh., sem þá einnig var fjmrh. Nú hefur þetta hæli verið starfrækt í að ég ætla tvö ár eða á þriðja ár og kostnaður þess greiddur af ríkinu. Þetta er ekki aðeins til þess, að þeir barnsfeður, sem standa í skuld við bæjarsjóð Reykjavíkur, afpláni þar sínar skuldir, heldur hefur staðið opið öllum öðrum sveitarfélögum að nota það. Með því að hafa þennan möguleika hefur innheimta þessara vanskilaskulda að sjálfsögðu batnað stórlega og það svo mjög, að í stað þess að um tíma var innheimtuprósentan af þessum skuldum fallin niður í milli 20 og 30%, hefur hún nú upp á siðkastið komizt upp í 60% af þessum skuldum, sem endurgreiddar hafa verið, eingöngu fyrir áhrif þess, að þarna var fyrir hendi vinnuhæli, sem var hægt að úrskurða mennina á, og hótunin um það hefur þessi miklu áhrif til innheimtunnar.

Ég verð að segja, að það vekur því alveg stórkostlega furðu, að stjórnarflokkarnir og hæstv. fjmrh. skuli leyfa sér að leggja til, að ríkisvaldið gangi gersamlega á gerða samninga og á bak orða sinna með því að leggja niður þetta hæli, án þess þó að hægt sé að benda á annað vinnuhæli, sem geti við tekið. En því fer fjarri, að svo sé. Sakadómarinn í Reykjavík hefur skýrt mér svo frá seinast í gær, að það sé hvorki meira né minna, en um eitt hundrað dæmdir menn, refsifangar, sem bíða eftir plássi á Litla-Hrauni til þess að afplána sína refsingu, og meðan svo sé, komi auðvitað ekki til mála að hans dómi, og ég býst við, að það sé álit þeirra, sem um þessi mál fjalla, að vanskilamenn, sem skulda barnsmeðlög, verði látnir afplána. M.ö.o.: ríkið stendur ekki við sínar skuldbindingar um að sjá sjálft fyrir nægum vinnuhælum, en ætlar svo ofan á það að ganga á gerða samninga við Reykjavíkurbæ og hætta rekstri þessa hælis, sem ríkið hefur lofað að taka að sér og hefur starfrækt núna undanfarin ár.

Ég tel þetta svo langt fyrir neðan virðingu Alþingis og ríkisstj., að ekki tekur nokkru tali. Fyrir utan það að ganga þannig á gerða samninga og bregðast þeim skyldum, sem á ríkinu hvíla, er það náttúrlega fjarri öllu lagi að ætla sér að eyðileggja þannig þær aðgerðir, sem gerðar hafa verið í þessu. Hins vegar er það auðvitað ljóst, að þessar tiltektir mundu vekja mikinn fögnuð í hjörtum allra þessara vanskilamanna, þessara barnsfeðra, sem hafa látið vangoldin barnsmeðlög hrúgast upp svo að þúsundum og tugum þúsunda skiptir. Nú munu þeir auðvitað hrósa sigri, þegar ríkisstj. hefur þannig og þingmeirihl. gengið í lið með þeim og bent þeim á, að nú sé engin þörf á því lengur að standa í skilum.

Ég sannast sagna kemst ekki hjá því að lýsa yfir sérstakri undrun minni yfir þessu framferði og þykir það furðulegt, ef stjórnarflokkarnir ætla að láta þá vansæmd um sig spyrjast ofan á allt annað að ganga þannig á gerða samninga og fella niður rekstur þessa hælis.