19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Frsm. samvn. samgm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Samgöngumálanefndir beggja þingdeilda hafa unnið að því sameiginlega, eins og venja er, að undirbúa till. um framlög til flóabáta og vöruflutninga, og liggur álit samvinnunefndarinnar fyrir á þskj. 197.

Ekki er hægt að komast hjá því að hafa í rekstri báta á allmörgum stöðum kringum strendur landsins til þess að veita þjónustu þeim byggðarlögum, sem afskekkt eru og hafa mjög takmarkaða aðstöðu til þess að njóta samgangna á landi eða með flugvélum.

Ég skal fara örfáum orðum um þær till., sem samvn. gerir að þessu sinni, og drepa á meginatriðin, sem þar koma til greina.

Djúpbáturinn annast ferðir um Ísafjarðardjúp til byggðanna, sem liggja inn með Djúpinu, og að vetrarlagi verður hann að halda uppi ferðum allt til Önundarfjarðar a.m.k., vegna mjólkurflutninga, þegar landleiðin er lokuð. Á þessu svæði eru vegasambönd mjög torveld, og er því ekki hægt að komast hjá að hafa þennan bát í förum.

Samvn. leggur til, að rekstrarstyrkur til Djúpbátsins verði ákveðinn hinn sami og s.l. ár, 460 þús. kr., en að auki verði veittar 75 þús. kr. vegna endurbóta á bátnum, sem óhjákvæmilegar eru. Enn fremur leggur n. til, að heimilað verði í 22. gr. fjárl. að greiða á næsta ári, ef óhjákvæmilegt reynist, rekstrarhalla vegna Djúpbátsins, allt að 50 þús. kr.

Strandabátur heldur uppi ferðum milli Hólmavikur og nyrztu byggða Strandasýslu. Norðurlandsbátur heldur uppi ferðum um Skagafjörð og Eyjafjörð og m.a. til Grímseyjar. Framlagi vegna Haganesvíkurbáts hefur verið varið til þess að greiða fyrir samgöngum á því svæði, í Haganesvík og byggðunum þar í grennd, en Hríseyjarbátur heldur uppi ferðum milli Hríseyjar á Eyjafirði og byggðanna þar í grennd. Nefndin leggur til, að framlag til Hríseyjarbáts hækki um 2.000 kr. frá því, sem var skv. fjárlögum þessa árs, en framlög til hinna bátanna, sem ég nefndi, standi óbreytt frá því, sem nú er.

Hið sama er að segja um Flateyjarbát á Skjálfanda, að hann heldur uppi ferðum milli Húsavikur og Flateyjar á Skjálfanda. En Flateyingar hafa ekki aðstöðu til þess að njóta flugsamgangna, og strandferðaskip ríkisins koma mjög sjaldan við í Flatey, svo að nær einu samgöngurnar, sem íbúar eyjarinnar njóta, eru þessi bátur, sem siglir til eyjarinnar frá Húsavík. Nefndin leggur til, að það framlag, sem veitt er til rekstrar þess báts, haldist óbreytt frá því, sem það er á þessu ári.

Loðmundarfjörður er fámenn byggð, en sú fámenna byggð er mjög illa sett að því er samgöngur snertir. Þangað liggur ekkert vegarsamband og ekki flugsamgöngur, svo að eina þjónustan, sem sú byggð hefur hvað samgöngur snertir, er bátur, sem gengur milli Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar. Samvn. leggur til, að framlag til þess báts haldist óbreytt að því er rekstrarkostnað snertir, en vegna sérstakra viðgerða, sem þurftu að fara fram á bátnum, leggur n. til, að veittar verði 10 þús. kr.

Um Mjóafjörð er mjög svipað að segja og Loðmundarfjörð, að það er fremur fámenn byggð og mjög einangruð. Ekki er hægt að komast hjá því að halda uppi samgöngum við það byggðarlag með bát, sem gengur milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar að staðaldri, m.a. vegna flutnings á afurðum bændanna í Mjóafirði. Nefndin leggur til, að rekstrarstyrkur til Mjóafjarðarbáts verði óbreyttur frá því, sem er á þessu ári, að styrkur, sem veittur hefur verið til vélakaupa, haldist að nokkru leyti, en lækki þó um 10 þús. kr. frá því, sem nú er. En upp í till. n. er tekinn nýr liður, 30 þús. kr., vegna ferða þessa báts milli Norðfjarðar og Seyðisfjarðar. En mikil þörf þykir á því yfir vetrarmánuðina að halda uppi þeim ferðum, þegar vegir eru tepptir vegna snjóalaga.

Vestur-Skaftafellssýsla hefur um mörg undanfarin ár notið nokkurs styrks vegna sérstakra erfiðleika á vöruflutningum svo langan veg sem Vestur-Skaftfellingar þurfa að fara til verzlunarstaða. Gert er ráð fyrir því í þessum till., sem hér liggja fyrir, að það framlag verði óbreytt frá því, sem er í fjárl. þessa árs.

Hið sama er að segja um framlag vegna vöruflutninga til Öræfa í Austur-Skaftafeilssýslu og um styrk vegna bátaferða á Hornafirði, að n. gerir ráð fyrir, að það framlag haldist óbreytt frá því, sem nú er, og ferðunum verði hagað á sama hátt og verið hefur.

Vestmannaeyjar eru mjög illa settar að því leyti, sem snýr að framleiðslu landbúnaðarafurða. Óhjákvæmilegt er fyrir svo fjölmenna byggð sem Vestmannaeyjar eru orðnar að fá mjólkurafurðir fluttar eftir þörfum neytenda í Eyjum. Undanfarin ár hefur verið séð fyrir þeim flutningum á þann hátt að halda uppi ferðum báts, að staðaldri, milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Á næsta ári verður að sjálfsögðu að halda þeim ferðum uppi á sama hátt og verið hefur, og leggur samvn. samgm. til, að framlag vegna þeirra ferða verði hið sama og nú er veitt samkvæmt fjárl. þessa árs. En eins og kunnugt er, þá er unnið að því að láta smíða sérstakt skip fyrir Vestmannaeyjar og nálægar hafnir, og þegar það skip verður fullbúið og tekið í þjónustu eyjanna, má vænta þess, að þessar bátaferðir leggist niður,

Hlutafélagið Skallagrímur í Borgarnesi fékk nýtt skip og vandað á árinu 1956 í sína þjónustu, og heldur það skip uppi daglegum ferðum milli Reykjavíkur annars vegar og Akraness og Borgarness hins vegar. Sótt hefur verið til samvn. samgm. um mjög mikla hækkun á framlagi vegna þessara ferða. Umsókn stjórnar Skallagríms h/f er um 900 þús. kr. framlag vegna ferða skipsins. Hún er rökstudd með því, að í fyrsta lagi reynist halli á rekstri skipsins. í öðru lagi hvíli á hlutafélaginu mikil skuldabyrði vegna stofnkostnaðar, eða hátt á 3. millj. kr., og standi sú skuld í Danmörku. Og í þriðja lagi hafi félagið orðið að ráðast í kaup á gúmmíbjörgunarbátum, sem því hafi verið gert skylt að tilhlutun stjórnarvalda að hafa sem öryggistæki í skipinu, það séu 12 20 manna bátar og kostnaður af því nemi um 150 þús. kr. Á hinn bóginn er á það að líta, að taxtar fyrir vöruflutninga á þessari leið eru mun lægri, en taxtar hjá Skipaútgerð ríkisins. Stjórn hlutafélagsins, sem annast rekstur þessa skips, hefur gert grein fyrir því, að hún hafi oftar en einu sinni farið þess á leit við verðlagsyfirvöldin að fá að hækka taxtana að nokkrum mun og færa þá nær töxtum Skipaútgerðar ríkisins, en nú er og auka tekjur fyrirtækisins á þann hátt. En þessari beiðni hefur fram að þessu verið synjað af verðlagsyfirvöldum, sjálfsagt með það sjónarmið í huga að halda þessum flutningatöxtum niðri og þar af leiðandi koma í veg fyrir verðhækkun þeirrar vöru, sem þannig er flutt.

Samvn. telur, að ekki sé hægt að komast hjá því til lengdar að leyfa útgerðarstjórn skipsins að hækka taxta sína að nokkrum mun og færa þá nær töxtum Skipaútgerðar ríkisins, en nú á sér stað. Og með sérstöku tilliti til þess hefur n. talið, að komast mætti af með að hækka styrkinn til Akraborgar um 50 þús. kr., og er till. n. byggð á því.

Á Breiðafirði sigla í raun og veru 3 bátar, sem halda uppi samgöngum við strönd Breiðafjarðar bæði að sunnan og norðan. Lagt er til, að svonefndur Langeyjarnesbátur, sem fer ferðir á Skógarströnd og til nokkurra staða í Dalasýslu, haldi óbreyttu framlagi eins og honum er veitt samkvæmt fjárl. þessa árs. Gert er ráð fyrir, að svonefndur Flateyjarbátur á Breiðafirði, sem heldur uppi ferðum á marga staði í Barðastrandarsýslu, fái hækkun á sínu framlagi, sem nemur 10 þús. kr. En n. hefur kynnt sér, að fjárhagur þess útgerðarfélags, sem rekur svonefndan Stykkishólmsbát, stendur mjög höllum fæti, m.a. vegna mikils viðgerðarkostnaðar, sem óhjákvæmilegt var að leggja í nú í haust. Með tilliti til þess leggur n. til, að framlag til þess báts hækki um 100 þús. kr. frá því, sem það er samkvæmt fjárl. þessa árs.

Þá hefur n. leyft sér að verða við eindregnum umsóknum, sem fyrir henni lágu um lítils háttar stuðning til bátaferða á Dýrafirði og Arnarfirði, og tekur upp í till. sínar 10 þús. kr. til hvors þeirra.

Samkvæmt till. samvn., sem ég hef nú gert grein fyrir í einstökum atriðum, nema framlög til flóabáta og vöruflutninga samtals 3 millj. 78 þús. og 600 kr., og er það 287 þús. kr. hærri fjárhæð, en veitt er í sama skyni á þessu ári.