19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég vil aðeins með fáum orðum gera grein fyrir nokkrum tillögum, sem ég ber fram á þskj. 199. Þær eru 4 talsins og þó í rauninni ekki nema 3, því að 1. og 2. tillaga heyra saman, þannig að aðra leiðir af hinni.

Ein af þessum tillögum er í hækkunarátt. Það er till., sem ég flutti við 2. umr. og tók þá til baka og flyt nú enn. Hún fjallar um, að rekstrarstyrkur til St. Jósefs-spítalanna verði hækkaður úr 525 þús. upp í 750 þús. kr. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þá till., því að eins og ég sagði, þá gerði ég grein fyrir henni við 2. umr. Ég vil aðeins taka það fram, að mér þykir það illt, ef hv. þingheimur hefur ekki skilning á þörfum annarra sjúklinga en þeirra, sem eiga því láni að fagna að komast í landsspítalann, þar sem ekkert er til sparað og hverri ósk um aukinn kostnað fullnægt. Í St. Jósefsspítölunum dveljast um 200 sjúklingar dag hvern. Til þeirra hefur opinber styrkur veríð klipinn við nögl og talinn eftir til þessa, og auðvitað bitnar það á sjúklingunum fyrst og fremst. Þetta þarf að laga og leiðrétta, og í þá átt miðar þriðja till. mín á þskj. 199.

Ég flyt tvær till., sem miða í lækkunarátt, og vil nú fara um þær örfáum orðum.

Fyrri till. er þess efnis, að 9. liður í 10. gr. falli niður, en það er skrifstofa fastafulltrúa Íslands hjá NATO. Ísland hefur í París ekki eitt sendiráð, heldur tvö. Kostar annað þeirra á aðra millj. kr. á ári. Hitt sendiráðið, sem heitir: skrifstofa fastafulltrúa Íslands hjá NATO, kostar þjóðina liðlega hálfa milljón. Er gert ráð fyrir því í fjárlfrv., að kostnaðurinn hækki nú um tæpar 48 þús. vegna sívaxandi dýrtíðar í Frakklandi, eins og það er orðað.

Ég hef heyrt marga og þ. á m. ekki svo fáa hv. alþm. halda því fram, að engin þörf væri á að hafa tvö sendiráð í París, eitt gæti sem bezt annað störfum beggja. Mín sannfæring er sú, að þetta sé rétt. Það er hrein sóun á verðmætum að halda uppi tveim sendiráðum í sömu borg eða sama landi. Stjórn fámennrar þjóðar á ekki að leyfa sér slíkt, og sízt af öllu getur stjórn hinna vinnandi stétta látið það viðgangast. Í þessu tilfelli er verið að skattleggja þjóðina um hálfa milljón króna að þarflausu.

Ég veit ekki sönnur á því, en heyrt hef ég, að í því Parísarsendiráðinu, sem árlega sogar til sín á aðra millj. kr. frá íslenzkum almenningi, séu störfin unnin af einni franskri stúlku. Ég hef aldrei komið í þetta sendiráð, en einhverjir hv. alþm. munu hafa komið þar og geta borið um, hvort þetta sé rétt. En hvað sem um það er, þá eru tvö íslenzk sendiráð í sömu borg hreinasta háðung. Því legg ég til, að kostnaðarsama sendiráðinu verði falin störf beggja og 58.6924 kr. þannig sparaðar. Þeim krónum má sannarlega verja betur.

Síðari lækkunartillaga mín fjallar um ríkislögregluna á Keflavíkurflugvelli. Í fjárlfrv. er gert ráð fyrir rúmlega 3 millj. kr. fjárveitingu til ríkislögreglu á Keflavíkurflugvelli. Ókunnugir hljóta að reka upp stór augu, þegar þeir heyra þetta. Ekki er tollgæzla á vellinum með í þessu, því að henni er annars staðar í frv. ætluð tæp 1 millj. kr. Ríkislögreglukostnaður á Keflavíkurflugvelli er viðlíka hár og framlag ríkissjóðs til löggæzlu í Reykjavík. Ef finna ætti út með samanburði við Reykjavík tölu íslenzkra manna á þessum flugvelli og miða við lögreglukostnað á báðum stöðum, þá kæmi út, að um 15 þús. Íslendingar dveldust á vellinum að staðaldri. Ég veit ekki, hve margir þeir eru í rauninni, en efast um, að þeir séu meira en 1.500 talsins, svo að mikið er þarna i borið um lögregluvernd.

Ég lít svo á, að kostnaðarliðurinn ríkislögreglan á Keflavíkurflugvelli nái engri átt, og legg til að kostnaðurinn sé lækkaður um þriðjung. Mun samt sem áður fullvel séð fyrir nauðsynlegri löggæzlu þar.

Ég flyt aðeins þessar tvær brtt. um lækkun á útgjöldum ríkissjóðs á næsta ári. Ég flyt þær, þótt ég geri tæpast ráð fyrir, að þær verði samþ.

Lækkunartillögurnar hefðu mátt vera fleiri og koma fyrr fram í umr., en áhuginn á slíku virðist ekki mikill þessa stundina hjá meiri hl. hv. þingheims.

Að mínu áliti hefði vel mátt lækka kostnað vegna þátttöku í alþjóðaráðstefnum um nokkur hundruð þúsundir króna öllum að skaðlausu. Það hefði mátt draga örlítið úr kostnaði við ríkislögreglu í Reykjavík. Þá þætti mér ekki ólíklegt, að minnka mætti nokkuð hinn geipilega skrifstofukostnað flugmálastjórnar, eins og hann er uppfærður í frv. Kennslumál eru viðkvæm, þegar um lækkun á kostnaði er að ræða. Námsstjórastöðurnar eru af mörgum taldar meira til skrauts en gagns og mættu þá gjarnan leggjast niður. Þessar stöður skipa nú mikilhæfir menn, sem vafalítið ynnu þó meira gagn sem skólastjórar eða yfirkennarar. En það er til lítils að telja upp fjárlagaliði, sem unnt væri að lækka, úr því að það verður ekki gert.

Ég stend í þeirri meiningu, að þjóðin ætlist til þess af hæstv. ríkisstj., að hún beiti sér fyrir sparnaði í ríkisrekstrinum og niðurskurði þeirra útgjalda, sem óþörf eru. En mér finnst hæstv. ríkisstj. enn ekki nógu mikilvirk í þessu efni. Ég veit þó, að hv. þm. Alþb. hafa beitt sínum áhrifum í þessa átt, bæði í hæstv. ríkisstj. og í hv. fjvn., og orðið nokkuð ágengt. En betur má, ef duga skal. Sparnaður í ríkisrekstri er eitt af áhugamálum hæstv. ríkisstj. Enn þá hefur hún ekki nema að mjög litlu leyti framkvæmt það áhugamál. Það þarf þó senn að fara að gerast. Það er góðra gjalda vert, að nú er fram komið frv. til laga um ráðstafanir til að draga úr kostnaði við opinberan rekstur. Það felur í sér ákvæði, sem miða að því að koma í veg fyrir óþarflega fjölgun starfsmanna ríkis og ríkisstofnana. Er það út af fyrir sig mikilvægt spor. En það þarf líka að skrúfa niður, þar sem hægt er, og það hefði mátt gera betur, en gert var í sambandi við afgreiðslu þessa fjárlagafrv. að mínum dómi.