19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það á að láta það svo heita, að Alþingi ljúki afgreiðslu fjárlaga nú fyrir þinghléið. Í rauninni er slík afgreiðsla þó aðeins á pappírnum, því að öll vandamál, sem Alþingi ber að leysa í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, eru enn óleyst og skotið á frest.

Hv. þm. stjórnarflokkanna hefur orðið fátt um svör við gagnrýni okkar sjálfstæðismanna á þessari dæmalausu fjárlagaafgreiðslu, er nú fer fram, og er það að vonum. Eina hálmstrá þeirra virðist vera að segja sem svo, að sjálfstæðismönnum farist ekki að vita úrræðaleysi og eymd stjórnarliðsins í þessum málum, því að þeir geti ekki sjálfir bent á nein úrræði til lausnar efnahagsvandamálunum. Hæstv. fjmrh, innti m.a. mjög eftir því við 2. umr. fjárlaganna, hver væru úrræði Sjálfstfl. í efnahagsmálum. Þegar hann talaði hér við þessa umr., var hann að vísu ekki eins kröfuharður, en lét sér nægja að krefjast till. okkar um það, hvernig brúa eigi greiðsluhallabilið, en að því atriði mun ég lítillega víkja síðar.

Að gefnu þessu tilefni verður það meginefni máls míns hér að gera grein fyrir þeirri aðstöðu, sem stjórnarandstöðunni er búin til þess að gera heildartill. um lausn efnahagsvandamálanna og er slík, að þess verður ekki með neinni sanngirni af stjórnarandstöðunni krafizt að mínu áliti, svo sem í pottinn er búið. En áður en rædd verður sú aðstaða, sem við stjórnarandstæðingar höfum til þess að bera fram till. þessum málum til úrlausnar, verður fyrst að gera sér grein fyrir því, í hverju það vandamál er fólgið, sem leysa þarf.

Það hefur mikið verið um það talað, að dýrtíðarmálin svokölluðu væru erfiðustu vandamál efnahagslífsins í okkar þjóðfélagi. Þetta má vissulega til sanns vegar færa. En þó er það ekki alltaf ljóst, hvað átt er við með dýrtíð eða hvaða mælikvarða á að nota á hana. Ráðstafanir þær, sem hv. stjórnarflokkar hafa gert til framkvæmdar verðstöðvunarstefnu sinni, er þeir nefna svo, hafa einkum verið í því fólgnar að hagræða vísitölunni þannig, að hún sýni ekki rétta mynd af þróun verðlagsins. Ef hlutirnir væru kallaðir sínu rétta nafni, en það forðast hv. þm. stjórnarflokkanna hér eins og á öðrum sviðum, væri í rauninni réttara að tala um vísitölustöðvunarstefnu en verðstöðvunarstefnu. En jafnvel þótt vísitalan væri ekki fölsuð á svo markvissan hátt, sem átt hefur sér stað í tíð núv. hæstv. ríkisstj., væri ekki hægt að einblína á hana eina, sem óvefengjanlegan mælikvarða á dýrtíðina.

Grundvallarorsök aukinnar dýrtíðar er venjulega sú, að þjóðfélagsstéttirnar ætla sér að skipta á milli sín meiri verðmætum, en nemur þjóðarframleiðslunni. Þetta getur m.a. komið fram á þann hátt, að framleiðslunni er ætlað að bera hærra kaupgjald og annan tilkostnað og álögur, en samsvara þeim verðmætum, sem hún skapar. Afleiðingin verður þá aukin dýrtíð, hvort sem hún kemur fram í hækkaðri vísitölu þegar í stað eða ekki. Sama máli gegnir, ef bankarnir lána út meira fé, en nemur því sparifé, innlendu og erlendu, er þeir hafa yfir að ráða. Þriðja orsökin til myndunar dýrtíðar er greiðsluhalli á fjárlögum. Þegar eitthvað af þessu þrennu á sér stað, myndast aukin dýrtíð eða fölsk kaupgeta, eins og hinn glöggi fjármálamaður, Jón heitinn Þorláksson, nefndi það réttilega, því að það, sem raunverulega skeður, er að falskar ávísanir eru gefnar út á verðmæti framleiðslunnar, — ávísanir, sem ekki er innstæða fyrir. Það ætti að vera ljóst, að þjóðfélagið sem heild bætir ekki hag sinn með þessu, en á hinn bóginn hefur þetta ýmsar óheppilegar afleiðingar. Þessar afleiðingar koma í fyrsta lagi fram sem verðhækkanir, en í öðru lagi í því, að framleiðslan ber sig ekki og stöðvast, nema til komi opinberir styrkir. Af þessu tvennu tel ég að ríkisframfærsla atvinnuveganna sé öllu skaðvænlegri, en verðhækkanirnar, þótt þær séu auðvitað líka óæskilegar.

Styrkjafyrirkomulagið lamar allt framtak og framfaraviðleitni í atvinnurekstrinum, þegar það er komið í slíkan algleyming sem nú er hér á landi. Atvinnurekendur komast smám saman í sömu aðstöðu og fastlaunaðir embættismenn, þannig að það hefur ekki lengur nein áhrif á afkomu þeirra, hvort fyrirtækin eru vel eða illa rekin. Öllum hv. þm. er kunnugt, hvernig nú er komið með útflutningsframleiðsluna. Hún getur ekki borið sig nema með háum opinberum styrkjum, og sú regla, sem nú er fylgt við ákvörðun þessara styrkja, er yfirleitt sú, að hæð styrkjanna fer eftir þörf, eins og það er orðað, þannig að þeim mun afkastarýrari framleiðslu sem um er að ræða, þeim mun hærri verða uppbæturnar eða styrkirnir. Af þessu leiðir, að það kemur atvinnurekendunum í þessum greinum í sjálfu sér ekki að neinu gagni, þótt þeir fái t.d. hærra verð fyrir sína framleiðslu og leggi stund á að breyta framleiðslu sinni þannig, að hún gefi meira af sér, því að það leiðir aðeins til lækkunar á styrkjunum, þannig að fyrirhöfn þeirra í þessu sambandi verður ekki til neins eða kemur a.m.k. þeim sjálfum ekki til góða. Það er meira að segja komið þannig, að kaupmennirnir eða þeir, sem annast vörudreifingu, eru orðnir svipað settir og fastlaunamenn. Þeir fá skammtaðan sinn innflutning og skammtaða um leið þá álagningu, sem leggja má á vörurnar. Hins vegar er það þannig einmitt vegna innflutningshaftanna, að innflytjendur geta verið nokkurn veginn öruggir um að geta selt allt, sem þeir flytja inn. Ef verðlagsákvæði eru nú þannig, eins og raun er á hjá okkur, að þau verði ákveðin sem hámarksálagning, þá verður afleiðingin í rauninni sú, að þeim mun lakari innkaup sem kaupmaðurinn gerir, þeim mun meira ber hann úr býtum, en geri hann góð innkaup, þá leiðir það aðeins til þess, að álagningin verður lækkuð og hann fær minna fyrir þá þjónustu að dreifa vörunni. Af þessu leiðir, að innkaupakerfi okkar er í rauninni algerlega lamað, og hlýtur það að hafa í för með sér stórfellda gjaldeyrissóun, því að eins og réttilega hefur verið bent á, þá skiptir það í raun og veru engu minna máli fyrir gjaldeyrisafkomuna, að hagkvæm innkaup séu gerð, en hitt, að útflutningsvörurnar seljist á hagkvæmu verði.

Að áliti mínu og okkar sjálfstæðismanna er það kjarni efnahagsvandamálanna að fá því ófremdarástandi, sem nú hefur verið lýst í fáum orðum, kippt í lag. Framleiðslan þarf að geta borið sig án opinberra styrkja, þannig að áhætta sú, er atvinnurekstrinum fylgir, hvíli á herðum atvinnurekenda, en ekki almennings. En skilyrði þess, að atvinnurekendur fáist til að bera slíka áhættu, er það, að einhver von sé um hagnað, ef vel gengur. Skattarnir mega ekki vera svo háir, að þeir gleypi allt, sem fyrirtækin kunna að bera úr býtum, umfram rekstrarkostnað.

En hvaða leiðir eru þá færar til þess að koma efnahagsmálunum þannig á kjöl, að stöðvuð sé aukning dýrtíðarinnar og atvinnuvegunum sé gert kleift að standa á eigin fótum án opinberra styrkja? Í því efni duga ekki neinar kákráðstafanir, heldur verður að gerbreyta ýmsum grundvallaratriðum efnahagskerfisins frá því, sem nú er. Ákveðnar till. í því efni verða ekki gerðar nema að undangenginni víðtækri rannsókn á efnahagsmálum þjóðarinnar og upplýsingasöfnun, sem stjórnarandstaðan hefur enga aðstöðu til að framkvæma. Þessu til frekari sönnunar skal það nokkuð rakið í megindráttum, hvaða upplýsingar það eru, sem safna þarf, áður en slíkar till. eru gerðar.

Það þarf þá í fyrsta lagi að gera sér grein fyrir því, hvað miklar tekjur útflutningsatvinnuvegirnir þurfa til þess að geta staðið á eigin fótum, en öllum upplýsingum um afkomu útvegsins, sem lagðar hafa verið til grundvallar ákvörðun þeirra uppbóta, er hann fær, hefur hingað til verið haldið stranglega leyndum fyrir öðrum en ríkisstj, og þeim sérfræðingum, er með henni hafa unnið að lausn þessara mála.

Þessi ástæða ein er næg til þess, að stjórnarandstaðan hefur enga aðstöðu til þess að leggja fram ákveðnar till. í þessu efni. En fleira kemur hér einnig til. Það er ekki nóg að gera sér grein fyrir því, hvað útgerðin þarf til þess að geta staðið á eigin fótum, heldur líka því, hvað útgerðin á að fá í stað uppbótanna. Hér koma margar leiðir til greina, svo sem niðurfærsla innlends verðlags, gengisbreyting, almennur gjaldeyrisskattur o.fl. Verður sú leið að sjálfsögðu valin, sem minnsta röskun hefur í för með sér fyrir efnahagsstarfsemina og minnstum óþægindum veldur almenningi, en til þess að gera sér grein fyrir því, hvaða úrræði hér verður að telja bezt, þarf að framkvæma viðamikla útreikninga og safna upplýsingum, — verk, sem ríkisstj. ein hefur aðstöðu til að láta framkvæma. Samkvæmt áður sögðu er það heldur ekki nóg, að atvinnuvegunum sé skapaður rekstrargrundvöllur. Það þarf líka að gera þær breytingar á skattakerfinu, að vel rekin fyrirtæki haldi einhverju eftir af hagnaði sínum, þannig að hann gangi ekki óskiptur til hins opinbera. En slíkar breytingar á skattakerfinu verða ekki framkvæmdar nema í samvinnu við embættismenn skattheimtunnar og á grundvelli upplýsinga frá þeim, sem þeir eðlilega telja sér hvorki skylt né heimilt að láta öðrum í té en ríkisstj. og trúnaðarmönnum hennar.

Af þessu öllu ætti að vera ljóst, að stjórnarandstöðunni er ekki mögulegt að gera till. um heildarlausn efnahagsvandamálanna og þá ekki heldur um einstaka þætti þeirra, þar sem slíkt er tilgangslitið nema sem liður í heildarlausn, og hér hef ég sérstaklega í huga einmitt till. um það, hvernig brúað skuli nú tekjuhallabilið. Um það er ekki hægt að gera till. nema sem lið í heildarlausn efnahagsvandamálanna.

Ég býst nú við, að því verði til svarað við þessu af hálfu hv. stjórnarsinna, að þá sé heldur ekki hægt að heimta það af ríkisstj., að hún leggi fram till. um að brúa þetta greiðsluhallabil öðruvísi, en í sambandi við þær heildartill., sem hún hafi að gera í efnahagsmálunum. En þessu skal ég svara strax. Aðstaða hæstv. ríkisstj. er hér auðvitað allt önnur, en okkar stjórnarandstæðinga. Hæstv. ríkisstj, hefur í sínum fórum hina frægu úttekt, sem áður hefur verið nefnd hér, og auk þess hefði hún strax á miðju s.l. sumri eða jafnvel fyrr, getað byrjað á undirbúningi undir það að leggja fram heildartill. sínar í efnahagsmálunum.

Nei, hæstv. ríkisstj. getur ekki borið fyrir sig tímaleysi í þessum efnum, enda er það öllum vitanlegt, að það er annað en það, sem veldur því, að hún hefur ekki lagt slíkar till. fram, áður en fjárlög voru afgreidd, en þessi ástæða er sú, að ekki þykir hagkvæmt að sýna kjósendum framan í þessar væntanlegu till. fyrir bæjarstjórnarkosningar þær, sem í hönd fara.

Það væri vissulega hægt að bæta aðstöðu stjórnarandstöðunnar í þessum efnum þannig, að kröfur mætti gera til þess, að hún legði fram heildartill. um lausn efnahagsvandamálanna, og í þessu efni hefur verið á það bent, að í nágrannalöndum vorum væru starfshættir flokka í stjórnarandstöðu öðruvísi, en hér gerist, þar sé það siður, að stjórnarandstaða leggi að jafnaði fram um það till. í einstökum atriðum, hvernig hún vill leysa efnahagsvandamálin í heild og einstaka þætti þeirra. En í þessu sambandi ber þess að gæta, að aðstaðan hvað snertir aðgang að nauðsynlegum upplýsingum o.s.frv. er önnur þar, en hér. Má þar í fyrsta lagi á það benda, að tölulegar upplýsingar um efnahagsmál, sem almenningi eru birtar, eru miklu ýtarlegri og aðgengilegri en hér. Í öðru lagi má á það benda, að hér hefur að jafnaði verið sá háttur hafður á, þegar gerðar hafa verið rannsóknir á efnahagsmálunum, — og skal það fúslega viðurkennt, að þar hafa starfshættir hæstv. núv. ríkisstj, yfirleitt ekki verið frábrugðnir því, sem tíðkazt hefur, — að slík rannsókn hefur aðeins verið falin þeim hagfræðingum, sem viðkomandi ríkisstj. hefur talið sér hliðholla, og svo embættismönnum, sem bundnir eru trúnaði við ríkisstj. sem slíkir, en stjórnarandstöðu er að jafnaði ekki veitt nein hlutdeild að slíkum rannsóknum.

Í okkar nágrannalöndum er þessu yfirleitt öðruvísi varið, þannig að slíkir rannsóknarnefndir, er þær eru skipaðar þar, eru jafnan skipaðar þannig, að sem flest sjónarmið komi fram. Þannig mundi það vera, ef maður tæki sem dæmi land eins og Svíþjóð, en þar fara jafnaðarmenn, sem kunnugt er, einir með stjórnina nú. Ef þar ætti að skipa rannsóknarnefnd hagfræðinga, mundi ríkisstj. ábyggilega ekki detta í hug að skipa hana eingöngu flokksbundnum sósíaldemókrötum, en hugsunarhátturinn er þar, annar en hér. En hvað sem því atriði líður og hvað sem æskilegt er í þeim efnum, þá leiðir af þessu, sem hér hefur verið sagt, að ríkisstj. getur ekki gert þá kröfu á hendur stjórnarandstöðunni, að hún komi með heildartill. í þeim efnum, sem hér er um að ræða.

Að lokum vil ég nefna þriðja atriðið í sambandi við þetta, og í því efni hefur aðstaða stjórnarandstöðunnar, síðan núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, verið til mikilla muna lakari, en aðstaða stjórnarandstöðu var í þessum efnum, t.d. meðan samstjórnir Framsfl. og Sjálfstfl. sátu að völdum. Í þessu sambandi mætti nefna gengislækkunarfrv. og undirbúning þess. Þar voru öll þau gögn, sem safnað hafði verið, birt, ekki eingöngu útreikningar um það, hver áhrif gengislækkunarleiðin mundi hafa, heldur líka útreikningar um það, hvernig aðrar hugsanlegar leiðir mundu verka á hag hinna ýmsu stétta og þjóðfélagið í heild. Aðstaða þeirra flokka, sem þá voru í stjórnarandstöðu, til þess að bera fram aðrar till. í því efni, var til mikilla muna betri, en tilfellið er nú. Annað mál er það, að þeir munu ekki hafa haft fyrir því sérstakan áhuga, því að í hjarta sínu voru flestir stjórnarandstæðingar, sem þá voru, sjálfsagt sannfærðir um það, að þær till., sem þá voru fram lagðar, væru eftir atvikum þær beztu, sem völ var á, miðað við þær aðstæður, sem þá voru.

Í þessum efnum hefur hæstv. núv. ríkisstj, hins vegar haft annan hátt á, eins og kunnugt er. Að vísu var það básúnað út í blöðum hæstv. ríkisstj., eftir að hún tók við völdum, að nú ætti að framkvæma úttekt í augsýn alþjóðar, eins og það var orðað. Þessi úttekt mun að vísu að einhverju leyti hafa verið framkvæmd. Það voru kallaðir hingað til lands erlendir sérfræðingar í þeim tilgangi o.s.frv., en úttektin kom aldrei í augsýn alþjóðar. Hún mun ekki einu sinni hafa komið í augsýn þeirra hv. þm., sem ríkisstj, styðja. Hæstv. ríkisstj. hefur a.m.k. fram að þessu valið þann kost að halda algerðri leynd yfir öllum þeim gögnum og upplýsingum, sem hún hefur safnað í efnahagsmálunum, og meðan svo er, þá getur hæstv. ríkisstj. ekki krafizt þess með neinni sanngirni, að stjórnarandstaðan, sem algerlega hefur verið meinaður aðgangur að þessum upplýsingum, leggi fram neinar heildartill. í þessum efnum. Það getur skeð, að á þessu eigi eftir að verða breyting, en þá skapast ný viðhorf, sem ekki liggja fyrir nú.