19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr, neitt og mun ekki fara að kappræða hér mjög fram og aftur almennt ummálið, en tvö höfuðatriði vil ég aðeins minnast á örfáum orðum.

Annars vegar virðist deilt um, að hv. stjórnarandstæðingar segja, að við, sem stöndum fyrir afgreiðslu fjárlaganna á þennan hátt, séum að gera það til þess að dylja þjóðina, hversu ástatt sé í efnahagsmálunum, og blekkja hana, og annað þar fram eftir götunum, sem hv. andstæðingar bera okkur á brýn. Og hv. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, lagði mikla áherzlu á þetta atriði, sem er vitaskuld stórt atriði. Hann sagði, að málflutningur málgagna ríkisstj. bæri þess vott, að til þess væri stofnað að dylja, hversu ástatt væri, einmitt með þessari afgreiðslu. En hann gat litið um það, sá hv. þm., hvernig þessi málflutningur væri. Ég ætla að bæta ofur lítið úr því til þess að sýna, hversu réttmæt þessi aðfinnsla er. Ég ætla að lofa mönnum að heyra um þetta. Hv. þm. kannast við það, en ég vil, að það sé bókfært í þingtíðindunum, hvernig sagt er frá þessu máli í Tímanum, málgagni Framsfl. Þar er fyrirsögnin á þessa lund:

„Verulegur hluti af dýrtíðargreiðslum tekinn út af fjárlögunum, og verður fjallað um það mál á framhaldsþingi. Að óbreyttum niðurgreiðslum vantar um 90 millj. til þess að mæta þeim.“

Þetta eru aðalfyrirsagnir blaðsins um fjárlagaafgreiðsluna. Þá eru það hin stjórnarblöðin. Ég hef ekki gætt nákvæmlega að því, en ég sá, að í Þjóðviljanum var lögð mikil áherzla á, að 65 millj. af dýrtíðargreiðslunum hefðu verið teknar út og ætti að fjalla um það mál á framhaldsþinginu.

Þetta hvort tveggja stangast heldur illilega við þessar ásakanir hv. þm. Sjálfstfl. og sýnir glöggt, að einmitt með því að haga afgreiðslu fjárlaganna á þessa lund, er þjóðinni gefin rétt mynd af því, hvernig ástatt er. En ef þessum málum öllum hefði verið frestað, hefði þetta verið allt hulið móðu.

Þá er það aðalatriðið, sem um er deilt. Við höldum því fram, að hv. stjórnarandstæðingum sé skylt að gera till, um það, hvernig þeir vildu afgreiða fjárlögin, en hv. stjórnarandstæðingar eyða meginhluta ræðutíma síns hér til þess að sýna fram á, hvað það sé óskaplega ósanngjarnt að ætlast til þess, að þeir geri till. um það, hvernig afgreiða eigi fjárlögin. Út af þessu get ég ekki stillt mig um að minnast á það, að einu sinni var hér forsrh., sem var að ræða við stjórnarandstöðuna einmitt um þetta mál, sem nú er deilt um, og hann sagði svo, — það er tekið upp úr þingtíðindunum frá 1953, B-deild, dálki 507, hann var að ræða við formann stjórnarandstæðinga, annan af tveimur, sem þá voru, og þessi hæstv. forsrh. sagði:

„Þessi hv. þm. gleymdi að segja, hvað hann vill láta gera. Ég skora nú á hann að leiða rök að því, að hægt sé að hverfa frá stefnu ríkisstj., og segja til, hvaða ráða hann ætlar að grípa þá til í staðinn. Þá dugir ekki að segja: Leiðir má finna, — eins og hann sagði hér áðan, Hann verður að finna þessar leiðir og sýna mönnum þær, því að á neikvæðum belgingi lifir enginn til lengdar.“

Hver var þessi forsrh., sem þarna talaði á þessa lund um skyldur stjórnarandstöðunnar við annan formann stjórnarandstöðuflokksins? Það var form. Sjálfstfl., hv. þm. G-K., Ólafur Thors. Ég hygg, að það væri hollt fyrir talsmenn Sjálfstfl. að leggja sér á hjarta þessi orð formannsins í stað þess að reyna að fleyta sér hér á neikvæðum belgingi, — því að á neikvæðum belgingi lifir enginn til lengdar, eins og þessi hv. formaður þeirra svo spámannlega sagði.