19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja tvær tillögur á þskj. 204, lið XIII og XIX.

Fyrri tillagan er um 700 þús. kr. fjárveitingu til uppeldisskóla fyrir ungar stúlkur samkv. 37. gr. laga nr. 29 1947, um vernd barna og ungmenna, og til vara er lagt til, að veittar verði í þessu skyni 500 þús. Þetta ákvæði í lögum, að þessum uppeldisskóla skuli komið á fót, er nú orðið allgamalt, og árið 1955, 4. apríl, var samþ. svo hljóðandi breyting á þessu ákvæði, með leyfi hæstv. forseta:

„Hefja skal þegar undirbúning að stofnun og rekstri vistheimilis fyrir stúlkur. Ríkisstjórninni er heimilt að leita eftir hentugu húsnæði, sem til kann að vera, fyrir vistheimili og gera samninga um afhendingu þess og afnot. Enn fremur er heimilt að taka til þessara nota húsnæði, sem ríkið á eða hefur umráð yfir.“

Í samræmi við þetta var þetta sama vor skipuð nefnd af þáverandi menntmrh. til að undirbúa og athuga fyrirkomulag uppeldisskóla fyrir stúlkur. Síðar á árinu skilaði nefndin mjög ýtarlegu áliti. Í samræmi við álit nefndarinnar voru bornar fram fjárveitingartillögur við afgreiðslu næstu fjárlaga, en þær náðu þá ekki fram að ganga. Á næsta þingi þar á eftir var einnig mjög knúið á um framgang þessa máls, en allt kom fyrir ekki. Þó var veitt heimild í 22. gr. fjárl. til þess að festa kaup á landi til að reisa á uppeldisskóla fyrir ungar stúlkur, og þóttist þá hæstv. núverandi ríkisstjórn hafa vel borgið þessu máli.

Barnaverndarnefndir og lögreglan hafa lengi knúið mjög á um lausn þessa máls, en það er því miður fjárveitingarvaldinu til lítils sóma, hvernig um það hefur farið og hvernig það horfir nú.

Ég vil ekki trúa öðru, en skilningur sé meðal hv. þm. á vandamálum þeirra unglinga, sem hér er um að ræða, og ég hygg, að þeir séu flestir sjálfir feður og þeir mundu ekki horfa í aukaútgjöld, ef svo illa væri komið fyrir þeirra eigin börnum, sem er um börnin, sem hér er um að ræða. Alþ, getur ekki lengur látið undir höfuð leggjast að veita þetta fé, enda ekki mikil fúlga, sem farið er fram á.

Raunin hefur oft orðið sú um þessi börn, sem hér er um að ræða, að þau hafa flækzt á milli staða, þegar ekki hefur verið hægt að koma þeim á neitt sérstakt uppeldisheimili eða skóla. Hafa þá uppeldisáhrif af þeim vistum orðið mjög tvísýn.

Eina raunhæfa lausnin á þessu er að koma upp þeim uppeldisskóla, sem raunar er skylt samkv. lögum, og það er margítrekað af þeim, sem mesta reynslu hafa í þessum efnum og hafa mest starfað að barnavernd og unglinga. Slíkur uppeldisskóli ætti að koma þeim unglingum, sem leiðzt hafa á afbrotabrautir, á réttan kjöl og verða öðrum til varnaðar, bæði unglingunum sjálfum og foreldrum þeirra.

Nú er mér engin launung á því, að ég tel, að það væri mun heppilegri lausn á þessu máli, ef hægt væri að vista þessa unglinga einn og einn á heimilum fólks til frambúðar. En því miður hefur raunin orðið sú, að það hefur alls ekki reynzt unnt að fá nægilega mörg og nægilega góð heimili til þess að gera þetta, og þessum heimilum hefur oft reynzt erfitt að halda í unglingana. Þess vegna er uppeldisskóli eina lausnin á þessu máli.

Í fyrra var veitt heimild á 22. gr. fjárl. til þess að festa kaup á landi til þess að reisa á uppeldisskóla fyrir ungar stúlkur, og ætla mætti, að samkv. þeirri heimild hefði verið talað við landeiganda, sem vildi selja jörð í þessu skyni. Það er þó komið á daginn, að það hefur alls ekki verið gert, hvorki þá né síðar. Það hefur verið bent á ýmsar jarðir í þessu skyni og þá fyrst og fremst jörð í Grímsnesinu, Ormsstaði, sem er nágrannajörð við Sólheima. Hefur hún verið talin mjög heppileg að ýmsu leyti, og gæti heimilið, ef það væri staðsett þar, notið jarðhitaréttinda frá Sólheimum. Það er einnig að ýmsu öðru leyti heppilega í sveit sett, og mun jörðin vera föl, a.m.k. að hluta. En því miður hefur heimildin í fjárl. ekki verið notuð, hver sem ástæðan kann að vera.

Eins og kunnugt er, þá er hæstv. ríkisstj. hvers konar nefndarskipun mjög hugleikin. Ýmist eru skipaðar nefndir til að marka stefnu í mikilvægum málum, nefndir til að leggja blessun sína yfir verk, sem aðrar nefndir, skipaðar af fyrirrennurum hæstv. ráðherra, hafa unnið, og svo nefndir til ýmiss konar rannsókna og alls konar ráðuneytis.

Ef til vill var líklegt, að sá hæstv. ráðh., sem uppeldismálum sinnir helzt, kynni að skipa nefnd í þetta mál, fljótlega eftir að hann fékk heimild til að kaupa land í þessu nauðsynlega skyni, en raunin varð sú, að það leið mestur hluti ársins, án þess að það yrði gert, Það var gert nú fyrir rúmum mánuði og þar með fengin kærkomna afsökun fyrir því að láta fjárveitingu nú undir höfuð leggjast, þar eð málið væri aðeins á byrjunarstigi í rannsókn í nefnd.

En á þessi rök munu þeir ekki geta fallizt, sem vita, að raunverulega er undirbúningi þessa máls lokið. Þó að það fólk, sem hæstv. ráðh. hefur skipað í nefnd þessa nú, sé að öllu leyti hið mætasta fólk og hafi vel vit á þessum málum, er ekki endalaust hægt að skipa nefndir á nefndir ofan til að athuga hlutina. Væri mun nær, að hafizt væri handa um þetta mál á grundvelli þeirra rannsókna, sem þegar liggja fyrir.

Auk þess munu þeir heldur ekki fallast á þessi rök, sem raunverulega vilja hraða þessu máli og skilja, hverja nauðsyn ber til, að þessi uppeldisskóli rísi sem fyrst. Það hefur æ ofan í æ verið bent á það, hve erfitt bæði almennu lögreglunni, kvenlögreglunni og barnaverndarnefndum er gert fyrir, með því að láta dragast svo úr hömlu að koma á fót þessu uppeldisheimili. Þannig fá þessir aðilar aftur og aftur mál sömu ungmennanna, sem óhætt er að segja að ómögulegt sé að hjálpa, nema til sé slíkt uppeldisheimili.

Það er áreiðanlegt, og hefur rækilega verið á það bent hér í dag og oftar, að ferill hæstv. ríkisstj, er allt annað, en blómum stráður, og ætla ég mér alls ekki að rekja þann raunaferil. Þó tel ég mér skylt að benda á örfá atriði í sambandi við þann nýjasta áfanga á þessum ferli, sem þetta fjárlfrv. er.

Á því eru margir stórir blettir, en svo er að sjá sem einn svartasti bletturinn sé, að ýmsar ákvarðanir hæstv. núverandi valdhafa bitna beinlínis á þeim, sem sízt skyldi, þ.e.a.s. börnunum í landinu. Á ég hér við m.a., hvernig á fjárveitingum til skóla í Reykjavik er haldið. Hvergi nærri er staðið við það, sem lögboðið er um framlag ríkisins til skólabygginga í Reykjavík, og bitnar þröngt húsnæði að sjálfsögðu á þeim börnum, sem skóla borgarinnar koma til með að sækja. En tilgangurinn er hins vegar sá, og ég hygg, að öllum sé það ljóst, að geta sagt það í blöðum hæstv. ríkisstj., að Reykjavíkurbær sjái ekki börnum sínum fyrir nægilegu skólahúsnæði. Það verður varla nægilega á það bent, hver nauðsyn ber til, að ríkið geri skyldu sína í þessum efnum og fallizt verði á þær till., sem sjálfstæðismenn bera fram um þessi efni.

Þá bitnar það á þeim börnum, sem einna erfiðast eiga fyrir, að ekki er enn þá tekin upp fjárveiting til uppeldisskóla þess, sem tillögur mínar fjalla hér um, og veldur sá dráttur sívaxandi vandamálum.

Ég vil því beina því til hv. þingmanna, að þeir geri sitt til þess að þvo þennan blett af frv. með því að styðja þær tillögur, sem að þessum málum lúta. Vegur hæstv. ríkisstj. yrði ögn meiri, ef þær yrðu studdar. Tillögurnar eru svo hógværar, að það ætti síður, en svo að vera ofraun að veita þeim stuðning.