22.10.1957
Efri deild: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Það var aðeins eitt lítið atriði. — Það er ekki rétt skilið hjá hv. þm. N-Ísf., að þær tölur, sem ég nefndi, bendi til þess, að útflutningssjóður hafi um miðjan septembermánuð verið í vanskilum. Ég sagði, að hann hefði þá verið búinn að greiða upp í gamlar vanskilaskuldir frá bátagjaldeyriskerfinu 72 millj. kr., en að samtals mundu þá enn standa eftir af því uppgjöri 32–34 millj. kr., en af þessum 32–34 millj. kr. hafi um 20 millj. þó legið fyrir þannig, að hægt hefði verið að borga þetta. En þar með var ekki sagt, að á útflutningssjóði hafi hvílt nein sérstök skylda til þess að vera búinn að borga þessar 20 millj. kr. Í lögunum um útflutningssjóð segir svo, að hann skuli taka að sér að greiða skuldir hins gamla bátagjaldeyriskerfis, þannig að við það sé miðað, að útvegsmenn fái þær greiðslu, ekki síðar en þeir hefðu fengið þær, ef gamla kerfið hefði enn haldið áfram.

Ég fyrir mitt leyti vil ekki fallast á það, að útflutningssjóður hafi ekki einnig að því leyti til að borga upp þessar gömlu skuldir staðið við það, sem honum lagalega bar skylda til. En hitt er annað mál, að það hefði verið mjög æskilegt, að hann hefði getað verið búinn að borga þetta. Ég tel, að þessar tölur sanni, að hann hefur staðið í skilum fram að þessu uppgjöri, svo að segja algerlega varðandi árið 1957 og greitt mjög verulega upp af eldri skuldunum, svo mikið, að þar þurfi í rauninni enginn undan að kvarta. Hitt er svo vitanlega alltaf hægt að segja, að miklu hefði verið betra, að menn hefðu borgað allar gömlu skuldirnar — yfir 100 millj. kr. — strax.

Varðandi þá tölu, sem ég nefndi, að um 13 millj. kr. hefðu þó verið komnar inn til sjóðsins af kröfum varðandi árið 1957 um miðjan septembermánuð, sem sjóðurinn hefði þó ekki verið búinn að taka til endanlegrar afgreiðslu, hvort bæri að greiða eða væru réttar, þá vildi ég aðeins taka það fram, að sú upphæð sýnir miklu fremur það, að sjóðurinn hefur fram að þessum tíma borgað alveg skilvíslega allar kröfur tilheyrandi árinu 1957, vegna þess að 13 millj., þó að þær hafi allar verið réttar og engar athugasemdir hefðu komið við þær, þá greiðir sjóðurinn út vikulega í kringum 10 milljónir eða svo, og hér gat því ekki verið um annað að ræða, en aðeins tilfærslu um eina viku eða svo, hvort þessi upphæð var greidd eða ekki.

Ég tel, að fullt samræmi sé í því, sem sagt hefur verið varðandi útflutningssjóð af hálfu einstakra ráðherra. Það er rétt, að tekjur sjóðsins hafa orðið nokkru minni, en ráð var fyrir gert, og það er verulega hætt við því, að tekjur hans á árinu verði eitthvað lægri. En eigi að síður er það rétt, að sjóðurinn hefur fram að þessu tímabili, sem uppgjör liggur fyrir um, staðið í skilum, eins og honum bar, í sambandi við allar bætur varðandi framleiðslu ársins 1957 og greitt mjög verulega upp í eldri skuldirnar, svo að stórum fjárhæðum munar á því, hvað hann hefur gert betur við framleiðsluna, en hið eldra kerfi. Það er heldur ekki rétt að tala um það, að á árinu kunni að verða einhver stórkostlegur tekjuhalli hjá sjóðnum, heldur aðeins um það að ræða, að með minnkuðum tekjum, ef svo fer, þá vitanlega þýðir það það, að sjóðurinn verður annaðhvort nú um næstu áramót að skulda eitthvað af þeim bótum, sem ráð var fyrir gert að ljúka að greiða varðandi framleiðslu ársins 1957 fyrir áramót, það verður að færast eitthvað fram yfir sig, eða þá hann verður ekki búinn til fullnustu að borga upp gamla skuldahalann, sem hefði þó verið æskilegt að búið væri að greiða. En þrátt fyrir það, þó að svo væri, hefði sjóðurinn staðið allvel og mér er vel kunnugt um það, að útvegsmenn almennt telja, að sjóðurinn hafi fært þeim gífurlega mikil og aukin réttindi frá því, sem áður var, og miklum mun betra uppgjör, en þeir áttu að venjast.