22.10.1957
Efri deild: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti, Ég kom hér inn í deildina af tilviljun og heyrði þá, að hv. þm. N-Ísf. var að breiða sig út yfir það, að Morgunblaðið hefði sagt sannleika. Það eru fréttir, það verð ég að segja. En hins vegar vildi hann í leiðinni halda því fram, að félmrh. hefði farið með ósannindi, — og það held ég að væru nú líka fréttir, ef svo væri. (Gripið fram í: Ekki stórfréttir.) Ég býst nú frekar við því, að það yrði nú samt sett á forsíðu í Morgunblaðinu, ef tilefni gæfist til. Hann var svo að leggja út af því, hvaða upplýsingar ég hefði gefið í útvarpsræðu viðvíkjandi afkomu útflutningssjóðs, og nú er ósköp auðvelt að ganga úr skugga um það, hvað ég sagði um það mál, því að handritið að minni ræðu kom til mín núna áðan, og því vill ekki bera saman við það, sem hv. þm. N-Ísf. segir nú að ég hafi sagt.

Það, sem ég sagði um afkomu útflutningssjóðs, var um afkomu hans fram til 1. sept. s.l. og um það, hvernig honum hefði tekizt að grynna á vanskilaskuldum frá bátagjaldeyriskerfinu og framleiðslusjóði, og hygg ég, að allt það, sem ég sagði í minni útvarpsræðu um það, hafi komið fram. Ég heyrði ekki betur, en að það væri einmitt staðfest af hæstv. sjútvmrh. áðan, og áreiðanlega hefur þeim upplýsingum ekki borið saman við það, sem Morgunblaðið sagði. En það, sem ég sagði um hag útflutningssjóðs í útvarpsumræðunum, var þetta, — og getur maður þá gengið úr skugga um, hvort það kemur ekki heim við það, sem sjútvmrh. upplýsti hér áðan, — ég sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Eitthvað hefur stjórnarandstaðan líka verið að breiða út fagnaðarfréttir um það, að útflutningssjóður væri kominn í þrot. En þetta er á misskilningi byggt. Útflutningssjóður hefur staðið við allar skuldbindingar sínar gagnvart útgerðinni, það sem af er þessu ári. Auk þess hefur hann greitt útgerðarmönnum um 80 millj. kr. af þeim 100 millj. kr. óreiðu- og vanskilahala, sem íhaldið skildi eftir sig, Sannleikurinn er sá, að bátagjaldeyriskerfið hafði dregizt a.m.k. ár aftur úr og var að stöðva útgerðina vegna vanskila sinna, þegar stjórnarskiptin urðu. Þetta var nú glæsilegi arfurinn á því sviði. Annars er það sama að segja um útflutningssjóð og ríkissjóð, að sjö vikna stöðvun á innflutningi hlaut að valda því, að nokkuð drægi úr tekjum hans í bili af þeim sökum. Þá var það heldur ekki óeðlilegt, að bankarnir drægju nokkuð úr innflutningi hátollaðra vara, meðan óvissa ríkti jafnvel um eðlilega aðflutninga lífsnauðsynja. Þetta bitnaði auðvitað tilfinnanlega bæði á tekjuöflun ríkissjóðs og útflutningssjóðs. En nú er orðin breyting á þessu, og bendir nú allt til, að innflutningur hátollaðra vara verði sízt minni seinustu mánuði ársins, en var á sömu mánuðum ársins 1956. Hér við bætist svo það, að á næsta ári er útflutningssjóðurinn laus við ýmsar þær byrðar, sem leggja varð á hann á þessu ári vegna viðskilnaðar íhaldsins. Þannig er það hin mesta fjarstæða að halda því fram, að kerfi útflutningssjóðs, sem byggt var upp með aðgerðunum í fyrrahaust, sé hrunið. Þvert á móti hefur mikið áunnizt, þó að ekki hafi tekizt að greiða upp öll þau vanskil, sem íhaldið skildi eftir sig gagnvart útgerðarmönnum. Athugun, sem gerð var á því, hvaða aðstoð útgerðinni hefði verið greidd úr bátagjaldeyriskerfinu og framleiðslusjóði fram til 13. sept. í fyrra, og hins vegar á því, hvaða aðstoð útflutningssjóðurinn hefði veitt fram til sama tíma í ár, sýndi, að á árinu í ár, hafði sjávarútvegurinn fengið rétt um 100 millj. kr. meiri aðstoð, en eftir gamla kerfinu. Væri rétt, að íhaldið spyrði útgerðarmenn, hvort þeir vildu sleppa því, sem þeir hafa, og fá í staðinn það, sem þeir höfðu. Þetta læt ég nægja um útflutningssjóðinn í þetta sinn. Þeir ættu bara að spyrja, og þeir munu áreiðanlega fá svarið frá útgerðarmönnunum.“

Ég held, að það fari ekkert á milli mála, að hér er upplýst, að það hafi nokkuð af eðlilegum ástæðum dregið úr tekjum útflutningssjóðsins á fyrstu átta mánuðunum, að það eru líkur til eftir því samkomulagi, sem þá hafði verið gert, að tekjur útflutningssjóðs yrðu nokkuð svipaðar bátagjaldeyristekjunum á seinustu fjórum mánuðum ársins í fyrra, enn fremur upplýst, að það væri búið að borga af halanum frá bátagjaldeyriskerfinu og framleiðslusjóði um 80 millj., og samanburðurinn, sem gerður hefði verið, miðaður við 13. sept. í ár og 13. sept. í fyrra; væri sá, að nú væri búið að borga útgerðinni um það, bil 100 millj. kr. meira, en á sama tíma í fyrra. Ég hygg, að þetta sé allt saman staðfest af sjútvmrh., að þetta sé rétt. Hafi Morgunblaðið í einhverjum atriðum upplýst það sama, þá hefur það sagt sannleikann, en að öllu öðru leyti hefur það sagt ósatt. Það er alveg greinilegt.

Ég skal svo ekki segja fleira um þetta. Hér hefur það verið lesið orði til orðs, sem ég sagði um útflutningssjóðinn, og ég heyri ekki betur en að því beri að öllu leyti saman við upplýsingar hæstv. sjútvmrh. Annars held ég, að það geti varla misskilizt, ég hef a.m.k. tekið það þannig, að hv. þm. N-Ísf. hafi meint Morgunblaðið, hann nefndi það ekkí, en hann sagði alltaf blaðið mitt: Blaðið mitt hefur sagt þetta. Ég hefði að vísu frekar talið það hafið yfir allan vafa, hvaða blað hann ætti við, ef hann hefði sagt blað Bjarna Benediktssonar eða blað aðalritstjórans Bjarna Benediktssonar eða blað okkar Bjarna Benediktssonar.