22.10.1957
Efri deild: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það mátti búast við því, að hæstv. félmrh. gerði tilraun til þess að færa orðum sínum nokkurn stað. En eins og stundum áður tókst það illa. Hæstv. ráðh. kemst ekki fram hjá því, að ummæli hans í útvarpsumræðunum um afkomu útflutningssjóðsins voru þessi: Útflutningssjóður hefur staðið við allar skuldbindingar sínar gagnvart útgerðinni, það sem af er þessu ári. — Hæstv. félmrh. er sem sagt að tala þarna um allt annað, en hæstv. sjútvmrh. var að tala hér áðan. Hann talaði um uppgjör miðað við 15. sept. En hæstv. félmrh. hefur auðvitað ekki brostið óskammfeilni til þess frekar, en fyrri daginn, að telja sig þarna vera að flytja sömu upplýsingar og hæstv. sjútvmrh. var með. Ég skal sýna fram á það, að hæstv. ráðh. hefur farið með hreinar blekkingar í þessu efni.

Fyrri hluta októbermánaðar er það þannig, að útflutningssjóðurinn er í 25 millj. kr. vanskilum við fiskframleiðendur. Þar að auki skortir 4 millj. króna á, að hann hafi greitt uppbætur vegna saltsíldarframleiðslu norðanlands. Enn fremur á hann ógreiddar þá á þessu tímabili 10 millj. kr. vegna útfluttra landbúnaðarafurða. Samtals gerir þetta um 39 millj. kr. fyrir framleiðslu þessa árs.

Þetta var það, sem hefur verið upplýst í Morgunblaðinu og er byggt á öruggum heimildum. Og hæstv. sjútvmrh. má trúa því, þó að hann sé að reyna að koma hv. flokksbróður sínum til hjálpar, sem hefur hlaupið á sig, enn einu sinni, frammi fyrir alþjóð.

Það er svo dálítið táknrænt um sjálfgleði og gort þessara hæstv. ráðherra beggja, kommúnistaráðherranna, þegar hæstv. félmrh, er að breiða sig út yfir það, að „mikið hafi áunnizt“ og búið sé að greiða upp „vanskilavíxla íhaldsins“, og á þar við það, sem ógreitt var í gjaldeyrisfríðindum til útvegsmanna frá fyrri árum, — „mikið hafi áunnizt“.

Hvað hefur áunnizt? Hæstv. fjmrh., sem ætti nú að bera nokkurt skynbragð á það, hvernig ástandið er í efnahagsmálum þjóðarinnar, lýsir því yfir, um leið og hann leggur fjárlögin fyrir Alþ., að stórkostlegur greiðsluhalli muni verða hjá ríkissjóði. Og það er tekið fram í sjálfri grg. með fjárlagafrv., að þessi greiðsluhalli muni ekki verða minni, en allt að 100 millj. kr., 91 millj. kr. Hæstv. ráðh, lýsir því enn fremur yfir, að stórfelldur greiðsluhalli muni verða hjá útflutningssjóði á árinu. Svo kemur hæstv. félmrh. og segir, að „mikið hafi áunnizt“.

Það hefur „mikið áunnizt“ í því að koma efnahag þjóðarinnar út í öngþveiti og vandræði. Ef það er það, sem hæstv. ráðh. á við, þá má til sanns vegar færa ummæli hans um, að mikið hafi áunnizt. Öðruvísi er ekki hægt að skilja þau.

Ég vildi svo mega spyrja þessa hæstv. ráðherra um það, hvort nokkuð annað hafi komið til greina, þegar breytt var um skipulag á útflutningsuppbótum til sjávarútvegsins, en að greiða upp það, sem á skorti, að útvegsmenn og sjómenn hefðu fengið það, sem þeim bar frá fyrra ári. Vitanlega hlaut það að verða gert, þegar breytt var um kerfi í þessum efnum. Þá hlaut hið nýja kerfi að taka við skuldbindingum hins eldra, eins og tíðkazt hefur yfirleitt, þegar skipulagsbreytingar hafa verið gerðar í efnahagsmálum þjóðarinnar. En kommúnistaráðherrarnir halda því sífellt fast að fólki, að í raun og veru hafi þessu nýja kerfi alls ekki borið að taka við þessum gömlu skuldbindingum, og hæstv. sjútvmrh. sagði hér áðan, að í raun og veru bæri útflutningssjóðnum varla að borga þessar 20 millj. kr., sem þó voru gjaldfallnar. Hann gerði það nú samt sem áður, svona eins og í gustukaskyni, án þess að honum bæri nein skylda til þess.

Hér er auðvitað verið að fara með hreinar blekkingar. (Forseti: Þetta átti að vera athugasemd.) Ég bið hæstv. forseta afsökunar, en ræða hæstv. félmrh. gaf mér tilefni til þess að fara nokkrum orðum um málflutning hans bæði nú og í útvarpsumræðunum. Ég skal svo ekki lengja mál mitt meira, en aðeins endurtaka það, að það stendur óhrakið, að milli upplýsinga hæstvirtra ráðherra ber mikið og eins og vænta mátti fer hæstv. félmrh. þar með mestar rangfærslur. Það stendur eftir, að veruleg vanskil hafa orðið þegar nú upp úr miðjum október á rekstri útflutningssjóðs og fram undan er stórkostlegur greiðsluhalli, eins og hæstv. fjmrh. hefur margsinnis boðað í ræðu og riti. En hæstv. félmrh. telur, að með þessu hafi „mikið áunnizt“. Verði honum að góðu.