07.11.1957
Efri deild: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um útflutningssjóð o.fl., er flutt til staðfestingar á brbl. um sama efni, sem út voru gefin á s.l. hausti. Þetta frv. er ákaflega einfalt og ekki ástæða til að fara um það mörgum orðum. Sú eina breyting, sem það felur í sér, er sú, að skipaleigur skuli ekki undantekningarlaust vera undanþegnar yfirfærslugjaldi, og báðar greinar frv. fjalla um þetta. Í fyrsta lagi er það fellt niður úr 15. gr. laganna, að skipaleigur skuli vera undanþegnar yfirfærslugjaldi, en aftur í síðari gr. er heimild til þess fyrir ríkisstj. að fella gjaldið niður að einhverju eða öllu leyti og setja um það þau skilyrði, sem þurfa þykir. Tilgangurinn með þessari breytingu á lögunum er, eins og kom fram í ræðu hæstv. viðskmrh., sá að jafna nokkuð metin á milli erlendra skipafélaga, þ.e.a.s. leiguskipanna, og íslenzkra vöruflutningaskipa. Þetta virðist vera mjög eðlilegt. Það er vitað mál, að fragtir á frjálsum markaði eru háðar miklum sveiflum, og þróunin hefur orðið sú á þessu ári, að fragtir á frjálsum markaði hafa farið mjög lækkandi og eru nú í sumum tilfellum langt fyrir neðan það, sem íslenzk skip geta staðizt með heldur hækkandi tilkostnaði, heldur en hitt.

Það virðist fyllilega eðlilegt, þegar þannig er háttað, að nokkur gjöld verði lögð á leigu erlendu skipanna, og er alveg hliðstætt því, sem á sér stað um margs konar tollvernd. Í öðru lagi er svo tilgangur þessarar breytingar sá að afla útflutningssjóði nokkurra tekna, sem þörf er fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til þess, að svo komnu a.m.k., að hafa um þetta fleiri orð. Eins og nál. ber með sér, er fjhn. algerlega sammála um að mæla með því, að frv. verði samþykkt.