05.12.1957
Neðri deild: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er borið fram af hæstv. ríkisstj. til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 11. Sept. í haust.

Í 15. gr. laganna um útflutningssjóð, sem sett voru í des. 1956, er heimild til að undanþiggja yfirfærslugjaldi nauðsynleg skipagjöld og flugvélagjöld erlendis að nokkru eða öllu leyti, en í 16. gr. sömu laga segir, að yfirfærslugjald skuli ekki innheimt af skipaleigum. Með brbl. er sú breyting gerð á þessu, að skipaleigurnar eru ekki undantekningarlaust eða skilyrðislaust undanþegnar yfirfærslugjaldi, en í staðinn er veitt heimild til að sleppa yfirfærslugjaldi af þessum greiðslum eins og af gjöldum íslenzkra skipa í öðrum löndum.

Við umr. um frv. í hv. Ed. gerði hæstv. sjútvmrh. þannig grein fyrir málínu, að með því væri stefnt að því að fá möguleika til að afla nokkurra tekna í útflutningssjóð með gjaldi á greiðslu fyrir leigu á útlendum skipum, sem jafnframt yrði þá til þess að bæta aðstöðu íslenzku skipanna í samkeppni við þau útlendu. Eftir setningu brbl. eru samhljóða ákvæði í lögunum um hvort tveggja, leigugjöldin fyrir útlendu skipin og kostnaðargreiðslur vegna viðkomu íslenzkra skipa í útlendum höfnum, og verður að telja, að þetta sé eðlilegt.

Frv. þessu var vísað til fjhn. og hefur hún athugað það á fundi sínum 28. nóv., og mælir n. með því, að frv. verði samþykkt, en tveir nm. hafa þó skrifað undir nál. með fyrirvara.