05.12.1957
Neðri deild: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil aðeins af því tilefni, að formaður fjhn. kvaddi sér hljóðs aftur, segja nokkur orð. Ég hafði vitaskuld aldrei dregið í efa, að þingmenn hér kynnu að lesa og að þeir gætu allir lesið það, sem í þessu frv. stæði. En vegna þess að þó að maður sé læs, þá gerir maður sér ekki grein fyrir efni þessa máls, hafði ég óskað eftir frekari upplýsingum, og þær hafa ekki komið. Og vegna þess að mér þykir miklu máli skipta að vita um framkvæmd og meðferð málsins, þá óskaði ég eftir, að málið færi aftur í nefnd og umr. yrði núna frestað til þess þar að gefast kostur á að ræða við hæstv. ríkisstj. innan nefndarinnar, og það er sá vettvangur í þinginu, sem við þm. höfum til þess einmitt að geta fengið upplýsingar og skýringar frá hæstv. ríkisstj. um einstök mál, sem ákaflega erfitt er — ekki sjaldan, heldur oft — að fá nokkrar skýringar á hér í þingsölunum, þegar þingfundir eru haldnir. Oft og tíðum standa þeir ekki lengi, en það er líklega miklu algengara eins og nú í dag, að ráðherrastólarnir allir sex séu auðir. Og einhvers staðar unir hæstv. ríkisstj. sér betur, en í ráðherrastólunum hér á Alþingi, það er eitt, sem víst er.

Ég skal láta það koma fram, að mér er kunnugt um það, að í erlendum blöðum hefur þetta mál verið nokkuð gagnrýnt, og því hefur verið haldið fram, að við Íslendingar værum að brjóta gerða samninga við önnur ríki með þessu máli og þær samningsskuldbindingar, sem á okkur hvíla innan Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu, með þeirri mismunun, sem erlendum og innlendum skipum eða skipafélögum er gerð með framkvæmd þessa máls.

Ég ætlaði mér ekki að gera þetta að umtalsefni og mun ekki gera það nánar á þessu stigi málsins, en ekki sízt vegna þessa hefði ég viljað fá aðstöðu til þess að ræða málið nánar við hæstv. ríkisstj. Ég skal sem sagt ekki á þessu stigi orðlengja þetta, en mér kom mjög á óvart, að hv. þm. V-Húnv. og formaður fjhn. lagðist gegn því, að málið færi til fjhn., og ég tek alveg undir það með hv. 1. þm. Reykv., að hér er um að ræða mjög samvizkusaman þm. og hef ég setið mjög lengi með honum í fjhn. og aldrei orðið var við annað, en hann vildi rækja þingstörf sín af alvöru og samvizkusemi. En það er eitthvað annað, þegar svona bregður við. En ég vona nú, að hæstv. forseti verði á öðru máli í þessu sambandi og verði við fram kominni ósk um það, að umr. verði frestað og málið fari aftur til nefndar.