05.12.1957
Neðri deild: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég var annar þeirra nefndarmanna, sem skrifuðu undir nál. fjhn. með fyrirvara, og fyrir því hefur nú verið gerð grein af meðnm. mínum, hv. 5. þm.

Reykv., hvers vegna við gerðum það. Í n. komu alls ekki fram neinar upplýsingar um þetta mál, aðrar en þær, sem fylgdu þskj., en það var prentaður texti þeirra brbl., sem hér er um að ræða, án nokkurrar grg. Við óskuðum mjög eindregið eftir því í n., að frekari grg. fengist fyrir málinu, en það fékkst þó ekki, og því skrifuðum við undir það með fyrirvara.

Hv. frsm. nefndarinnar, hv. þm. V-HÚnv. (SkG), upplýsti það að vísu í sinni framsöguræðu í viðbót við það, sem áður lá fyrir, að hæstv. sjútvmrh. hefði talað um það í Ed., að tilgangurinn með þessum lögum væri tvenns konar: í fyrsta lagi sá að afla útflutningssjóði aukinna tekna og í öðru lagi að bæta aðstöðu hinna innlendu skipafélaga.

Ég vil mjög taka undir það, sem þegar hefur komið fram í ræðu hv. 5. þm. Reykv., að það væri mjög æskilegt fyrir þingheim að fá upplýsingar um, hver áhrif þetta hefur haft, t.d. hvort útflutningssjóður hefur vegna þessa fengið auknar tekjur og þá hvað mikið, og ef þetta hins vegar hefur bætt aðstöðu skipafélaganna, með hvaða móti það hefur verið, því að í fljótu bragði get ég ekki séð annað, en þessar tvær ástæður, sem hæstv. sjútvmrh. hefur borið fram fyrir þessu máli, hljóti að stangast á. Að því leyti sem þetta gefur tekjur í útflutningssjóðinn, þá þýðir það, að þessi erlendu skipafélög sigla hingað áfram, og þá kemur það ekki innlendu skipafélögunum að gagni. Verði það hins vegar til þess að draga úr samkeppninni, þá má vera, að það komi innlendu skipafélögunum að gagni, en þá koma ekki neinar tekjur í útflutningssjóðinn. Ég fæ í fljótu bragði satt að segja ekki séð annað, en að þessar tvær röksemdir stangist á. Það kann að vera, að einhverjar upplýsingar liggi fyrir frekar í málinu, sem skýri þetta. En þá þurfa þær að koma fram, og ég vil mjög; taka undir þau tilmæli, sem borin hafa verið fram af hv. 1. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Reykv., að málinu verði aftur vísað til n., og vænti þess þá, að ríkisstj. eða fulltrúar hennar sjái sér fært að mæta á þeim fundi og gefi hinar umbeðnu upplýsingar. Það er ekki hægt að heimta það af þingmönnum, að þeir samþykki mál, sem þeir fá enga grein gerða fyrir, hver tilgangurinn er með að samþykkja.