06.12.1957
Neðri deild: 34. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvmrh. taldi það byggt annaðhvort á misskilningi eða vanþekkingu eða hvoru tveggja, þegar ég benti á það, að þau tvö sjónarmið, sem samkv. hans skýrslu hafa legið til grundvallar þeim ráðstöfunum, sem hér er um að ræða, annars vegar tillitið til útflutningssjóðs og hins vegar tillitið til þess að bæta aðstöðu íslenzkra skipa í samkeppninni við erlend skip, samrýmdust ekki. Hann taldi, að þetta gæti ágætlega farið saman. Ég vil aðeins leyfa mér að benda á, að sé það nú þannig, að þessi erlendu skip sigli hingað eftir sem áður eða nánar tiltekið hafi jafnmikla flutninga, hvort sem þessi ráðstöfun er gerð eða ekki, þá fæ ég ekki komið auga á það, að hagur íslenzkra skipa í samkeppninni geti batnað. Þetta er alveg hliðstætt því, að ef lagður er tollur á vöru til þess að vernda innlendan iðnað og varan flyzt til landsins þrátt fyrir tollinn, þá getur það ekki skapað neina vernd. Hitt er svo annað mál, að það er mjög líklegt, að sá skattur, sem með þessu er lagður á hin erlendu skip, takmarki þessar siglingar, og þá nær það tilgangi sínum. En það er auðsætt mál að, að sama skapi og um takmörkun siglinganna er að ræða, þá minnka tekjur útflutningssjóðs. Þetta er alveg hliðstætt því, að ef verndartollur, sem lagður er á vöru, takmarkar innflutninginn af henni til landsins, þá skapar það betri samkeppnisaðstöðu. En jafnhliða getur tollurinn ekki gefið peninga í ríkissjóðinn. Ég held, að það sé málflutningur hæstv. ráðh., sem hér er sjálfum sér ósamkvæmur, en ekki það, sem ég sagði. En það er ávallt þannig, að þegar sagt er annað, en sannleikurinn, þá verður það mótsagnakennt, og það kemur fram hér eins og annars staðar. Annars hefur nú þrátt fyrir allar vífilengjur það sanna í málinu komið fram, nefnilega það, að hér er um að ræða lið í ráðstöfunum til þess að hækka farmgjöldin. Sjálfsagt hefur það verið nauðsynlegt vegna farmannadeilunnar, en þá á að kalla hlutina sínu rétta nafni og segja þingmönnum og þjóðinni sannleikann í því máli.

Ég ætla svo aðeins að lokum — því að ég vil ekki misnota það frjálslyndi hæstv. forseta, að ég hef fengið að gera hér stutta athugasemd — að víkja örfáum orðum að flugmannadeilunni.

Ég skal ekkert segja um það, hvort sanngjarnt hefur verið að veita flugmönnum þau fríðindi, sem um er að ræða, með tilliti til samanburðar við sjómenn og aðra. Það, sem um hefur verið deilt, er það, hvaða kauphækkanir flugmennirnir raunverulega fengu. Það er alveg rétt hjá hæstv. sjútvmrh., að á pappírnum var ekki um beina kauphækkun að ræða. Kauphækkunin var fólgin í því, að flugmennirnir fengu allmiklu meiri hluta af kaupi sínu, en áður, greiddan í erlendum gjaldeyri, en hagnaður þeirra við það kemur fram á tvennan hátt. Í fyrsta lagi liggur þetta í gengisskráningunni, að raunverulega er það kaup, sem greitt er í erlendum gjaldeyri, reiknað í kaupmætti tvöfalt á við það kaup, sem greitt er í innlendri mynt. Þetta hefur verið sýnt fram á með útreikningum, sem ekki hafa verið vefengdir, og þá útreikninga hef ég séð, þannig að það er ekki rétt hjá hæstv. ráðh., að eina heimild mín í þessu efni sé Morgunblaðið og það, sem skrifað hefur verið í það um deiluna, þó að ég að vísu álíti, að það sé í meginatriðum rétt, án þess að ég sjálfur hafi þar komið nálægt. Það er í þessu, sem hin raunverulega kauphækkun er fólgin, og svo líka í öðru, sem ekki er minna virði, nefnilega því, að kauphækkun, sem þannig er komin fram, er skattfrjáls, eins og allir vita.