07.02.1958
Neðri deild: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Bjarni Benediktsson [frh.]:

Herra forseti. Ég hygg, að það séu nú nær tveir mánuðir frá því að ég gat ekki lokið ræðu, þar sem komið var að kvöldmat, og veita þurfti mönnum hlé til þess að ljúka þeirri máltíð, og má segja, að það fundarhlé hafi verið alllangt. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að halda þeirri ræðu áfram. Sannast sagt man ég ekki, hvar ég var kominn í minni grg. þá, og hér við bætist, að á þeim tíma, sem liðinn er, hafa skapazt gersamlega ný viðhorf í íslenzkum stjóramálum vegna bæjarstjórnarkosninganna og þess ótvíræða vilja kjósendanna, sem þar kom fram. Þar eð ég hygg, að stjórnarflokkarnir komist ekki hjá því í ákvörðunum sínum að taka fyrr, en síðar afleiðingunum af því, sem þá gerðist, þá tel ég rétt að fresta þeirri almennu stjórnmálaumræðu, sem hafin var um það frv., sem nú er til umræðu, þangað til betur sést, hvað stjórnarflokkarnir hyggja fyrir sér, og tel því ekki ástæðu til að lengja umr. á þessu stigi.