06.02.1958
Neðri deild: 47. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

99. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1958

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu góðra gjalda vert, að hæstv. forsrh. skyldi gefa sér tíma til þess að mæta hér á þingfundi til þess að gera grein fyrir frv., en óneitanlega er sú töf, sem hér varð á fundarhaldi, meðan menn biðu eftir því, að honum þóknaðist að koma hingað, nokkuð táknræn fyrir þá starfshætti, sem verið hafa á þinghaldi nú í vetur og enn virðist stefnt að.

Ég skal ekki hefja almennar stjórnmálaumræður á þessu stigi málsins, en að gefnu því tilefni, sem felst í þessu frv., er óhjákvæmilegt að víkja að því, að illa hefur verið farið með tíma þingmanna, það sem af er þessu þinghaldi, og mikil þörf á því, að úr verði bætt. Út af fyrir sig geri ég að vísu ekki ráð fyrir, að neinn hafi á móti því frv., sem hér er fram borið. Eins og á stendur er það sjálfsagt eðlilegt. En það hlýtur að gefa tilefni til þess að víkja að þinghaldinu almennt.

Sama dag eða daginn eftir að Alþingi kom saman, birtist í málgagni minnsta stjórnarflokksins, flokks hæstv. forsrh., Tímanum, grein, sem heitir: „Verkefni framhaldsþingsins.“ Hún hefst, með leyfi hæstv. forseta, á þessum ummælum:

„Alþingi hóf störf sín að nýju í gær eftir 11/2 mánaðar hlé. Það verkefni, sem bíður þess fyrst og fremst að þessu sinni, er lausn fjárhagsmálanna. Eins og kunnugt er, var afgreiðslu fjárlaganna háttað þannig, að felldur var úr þeim meginhluti niðurgreiðslnanna á vöruverði. Á framhaldsþinginu verður að gera ráðstafanir til að afla þess fjár, sem þarf til þessara greiðslna, ef þær eiga ekki að falla niður, eða gera einhverjar tilsvarandi ráðstafanir. Þá er það ljóst mál, að útflutningssjóðinn vantar verulegar tekjur til þess að standa undir þeim skuldbindingum, sem á honum hvíla. Þessa fjár verður að afla eða gera aðrar jafngildar ráðstafanir. Það dugir ekki annað, en að horfast í augu við þessar staðreyndir.“

Með þessum orðum hefst forustugrein Tímans í gær. Síðar í greininni segir, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. hefur nú falið sérfræðingum að gera vandlega athugun þessara mála og gera till. til úrlausnar. Sennilega verða þær bráðlega tilbúnar. Þegar athuganir og till. sérfræðinganna liggja fyrir, mun vafalaust sjást betur, hvernig ástatt er í þessum efnum.“

Með þessum orðum virðist mér vera réttilega lýst því viðhorfi, sem blasir við nú, þegar framhaldsþingið kemur saman. Það verður að horfast í augu við, að ákveðin vandamál krefjist úrlausnar, en enn þá liggja engar till. frá hæstv. ríkisstj. fyrir um, hvers eðlis úrlausnin eigi að vera. Það eina, sem við fáum að vita, er, að sennilega verði bráðlega tilbúnar till. einhverrar ókunnrar sérfræðinganefndar. Eftir það, þegar þær eru svo „sennilega bráðlega“ tilbúnar, þá er eftir að athuga þær í ríkisstj. og bera þær undir stuðningsflokka hæstv. ríkisstj. og samkvæmt því, sem síðar segir í þessari sömu grein, ýmis stéttarsamtök. Það á því töluvert langt í land, að þessi mál, sem Tíminn réttilega segir að séu aðalverkefni þessa framhaldsþings, séu þannig undirbúin, að líklegt sé, að Alþingi geti tekið afstöðu til þeirra.

Um sjálft efni till. skal ég alls ekki ræða á þessu stigi né víkja að því, hvort hæstv. ríkisstj. sé líkleg til að gera um þessi vandamál skynsamlegar till. eða ekki. Um það hefur hver sitt álit, og er óþarft að deila um það nú, En það eru starfshættirnir, sem óhjákvæmilegt er að ræða um, og sannast sagt ætti að vera vilji af allra hálfu, allra þingflokka hæstv. ríkisstj., stuðningsflokka hennar og stjórnarandstöðu, að koma á betri starfsháttum í þessum efnum, en verið hafa. Við vitum, að sú aðferð hefur verið höfð, að stjórnarflokkar ræða sín á milli, hvað gera skuli til að leysa þann vanda, sem löngum hefur steðjað að í efnahagsmálum að undanförnu, og síðan eru þær till., þegar þær eru fastmótaðar, lagðar fyrir hv. Alþingi og því ætlað að taka afstöðu til þeirra á örstuttum tíma.

Ég játa, að þessi háttur er ekki nýr, að þannig hefur alllengi verið farið að, að dregizt hefur að semja till. og síðan eru þær í skyndi samþykktar. Um leið og ég játa, að hæstv. núv. ríkisstj. er enginn upphafsmaður þessara starfshátta, þá er óhikað hægt að halda því fram og með réttu, að hún hefur gengið lengra í því að stytta umhugsunarfrest Alþingis og halda Alþingi í raun og veru fyrir utan málið heldur en nokkrir aðrir. Og hvað sem um það er, þá er ljóst, að óskynsamlegir starfshættir eru jafnóskynsamlegir og óheppilegir, hvort sem það er núverandi hæstv. ríkisstj., sem heldur þeim við og ef til vill magnar þá, eða hvort það eru núverandi stjórnarandstæðingar, sem áður voru í ríkisstj., sem eiga þar einnig hlut að máli. Aðalatriðið er, að hér er í raun og veru um óhæfilega starfsaðferð að ræða, sem er Alþingi og virðingu þess ósamboðin og getur ekki horft til farsællar lausnar þeim málum, sem er um fjallað.

Ég hygg, að það sé nú orðið öllum ljóst, að frv., sem nefnt hefur verið jólagjöfin og samþykkt var í skyndi fyrir áramót 1956, hafi verið mjög vanathugað á Alþingi, að alþingismönnum hafi yfirleitt verið mjög óljóst, hvað í þeirri lagasetningu fólst, og að hæstv. ríkisstj. hafi verið fjarri því sjálf, að hafa kannað málið til hlítar, þegar það var í skyndi knúið fram. Ég játa, að það getur staðið þannig á, að suma þætti slíks máls sé óheppilegt að hafa lengi til meðferðar, sumt þurfi að afgreiða a.m.k. á opnum fundum nokkuð fljótlega. Þannig kann að standa á, en þá er betra að leita um það samkomulags allra aðila, hvað í málunum kunni að vera þess eðlis. En varðandi hin helztu vandamál, þá er það auðvitað sjálfsögð regla, sem nú er að falla úr gildi, að a.m.k. séu ætlaðir lögáskildir frestir í þingsköpum til þess, að þau séu meðhöndluð. Til þess eru frestirnir settir, jafnvel um hin einföldustu og ómerkilegustu mál, að málin hafa í eðli sínu, alveg án tillits til þess, hver fjallar um þau hverju sinni, gott af því að vera endurskoðuð með nokkurri umhugsun á milli. Hvað þá, ef það verður venja og óhagganleg regla hjá þeim, sem með völdin fara hverju sinni, að hafa þá starfshætti að keyra málin í gegnum Alþingi, þegar þeir sjálfir hafa komið sér saman, án þess að gefa sjálfum sér, hvað þá sínum stuðningsmönnum og allra sízt stjórnarandstöðunni, færi á að brjóta málin til mergjar, koma að þeim athugunum og leiðréttingum, sem þingleg meðferð á að geta komið áleiðis?

Ég hygg, að það sé sízt ofmælt, að þeir starfshættir, sem smám saman, — og ég legg áherzlu á, að það er smám saman, og í því eru allir að vissu leyti jafnsekir að eiga þátt í að koma því á, — að þessir starfshættir eru einstæðir fyrir Ísland og eru ekki heppilegir til þess að halda þeim við, og Alþingi gerði vel í því að beita sér fyrir, ef svo mætti segja, með samtökum þingmanna utan við stjórnmáladeilur að fá leiðréttingu hér á og koma á nýrri skipan, sem menn hefðu dug í sér og drengskap að halda við, hver sem með völdin fer á hverjum tíma.

Það má segja, og ég veit, að ég fæ það svar eflaust frá sumum, að nú séu sjálfstæðismenn að kveina undan því, að þeir séu beittir svipuðum ráðum og þeir hafi áður beitt aðra. Slíkt er ekkert svar, enda er sannast að segja, að ég efast mjög um, að það sé stjórnarandstöðunni sérstaklega óheppilegt, að þannig sé með málin farið. Það er alveg ljóst mál, að eins og málefni hafa snúizt hér undanfarið, þá hefur þessi aðferð að beita ofbeldi við að knýja mál fram á óhæfilega skömmum tíma beinlínis snúizt gegn stjórnarvöldunum og orðið til þess að gera ráðstafanir, sem í eðli sínu hljóta að vera umdeilanlegar og efni sínu samkvæmt oft hæpnar, enn þá tortryggilegri en ella. Þess vegna tel ég mér fullkomlega fært að víkja að því hér, ekki sem neinu sérstöku hagsmunamáli Sjálfstfl. í dag, nema síður sé, að reynt verði að koma á þetta með skaplegu samkomulagi annarri skipan, en verið hefur áður.

En þá kem ég að því, sem ég einnig vildi víkja að, og það er, að ég tel, að það hefði verið miklum mun skynsamlegra af hæstv. ríkisstj. nú að beita sér fyrir áframhaldandi þingfrestun, þangað til hún hefði sínar till. fram að færa, og eftir að þær svo liggja fyrir í því meginmáli, sem sjálft stjórnarblaðið hér segir að sé aðalverkefni framhaldsþingsins, þá sé þingið boðað til fundar og því þá fenginn nægur tími til þess að íhuga málið, bæði það sérstaka mál, sem þá krefst úrlausnar, og þá samtímis, vegna þess að við vitum, að allir þm. gefa sig ekki jafnt að afgreiðslu hvers einstaks máls, að afgreiða þau önnur tiltölulega einföldu mál, sem nú liggja til úrlausnar og sannast að segja eru óvenjulega fá.

Hæstv. ríkisstj. hefur þetta í hendi sér, og það er út af fyrir sig ekki fyrir stjórnarandstöðuna að kvarta undan því að sitja hér á fundum yfir litlu starfi og skemmta sér af því að horfa upp á ráðaleysi valdhafanna. Það getur verið ágætt fyrir okkur til þess að sýna fram á, að stjórnarfarið sé með öðrum hætti, en vera ber og þar sé allt með svipuðu móti, bæði málefnin, aðferðin, sem beitt er, og mennirnir, sem beita sér fyrir henni. Þetta er mál fyrir sig. En ef menn vilja fá skynsamleg vinnubrögð, spara fé ríkissjóðs og spara starfskrafta alls þess mikla hóps, væntanlega nokkuð starfhæfra manna, sem á sæti á Alþingi, þá væri óneitanlega miklu skynsamlegra að fresta nú þinghaldinu, þangað til þessar væntanlegu tillögur hæstv. ríkisstjórnar verða til, gefa Alþingi þá rúman tíma til þess að meðhöndla þær till. og ræða þjóðmálin í ljósi þeirra atburða og þeirrar höfuðstefnu, sem hæstv. ríkisstj. þá hefur markað, en allir eru í dag í fullkominni óvissu um, hvert hún ætli að halda.