06.02.1958
Neðri deild: 47. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

99. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1958

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er ekki að óþörfu, að nokkuð séu ræddir starfshættir Alþingis, og sannast að segja hafa þeir upp á síðkastið verið þannig, að þess er nú brýnni þörf, en oft áður, enda þótt rétt sé, sem viðurkennt hefur verið af hv. 1. þm. Reykv. (BBen), að sú afgreiðsla á stórum málum að veita þinginu til þess lítinn tíma sé ekki ný. En í því, sem hér hefur fram komið, hefur þó sumt verið með öðrum hætti, en ætla má af máli manna, og ég hygg, að það sé töluvert mikið misminni hjá hæstv. forsrh., að það hafi verið hespað hér í gegnum þingið á skömmum tíma lögum um það, þegar fyrsta sinn voru samþ. lög um ríkisábyrgð á sjávarútveginum.

Ef ég man rétt, þá mun það hafa verið á þinginu 1946, og ég hygg, að nánari athugun muni leiða í ljós, að það mál hafi fengið nokkuð langa meðferð hjá þinginu, og enda þótt það hafi færzt í vöxt á síðari árum, að þinginu væri ætlaður stuttur tími til afgreiðslu stórra mála, þá er þó einnig þess að minnast, að áður hefur verið hafður mjög annar háttur á þessu. Hv. 1. þm. Reykv. viðurkenndi, að sjálfstæðismenn, sem nú eru í stjórnarandstöðu, hefðu í stjórn verið á sama hátt og núverandi hæstv. stjórn á vissum tímum sekir í þessum málum, að því leyti að ætla þinginu skamman tíma. En þess er einnig að minnast, að þegar sjálfstæðismenn fóru einir með stjórn eftir alþingiskosningarnar 1949, minnihlutastjórn, og lögðu þá fram viðreisnartill. sínar í efnahagsmálum, höfðu forgöngu um það, þar sem í fólust till. um gengislækkun og ýmislegar aðrar ráðstafanir í sambandi við það og fram hafði farið mjög ýtarleg rannsókn á efnahagsmálum í sambandi við það, að áður en það mál var lagt fram, höfðu verið gerðar ráðstafanir til þess, að þáverandi stjórnarandstöðuflokkar hefðu töluverðan tíma og ég vildi segja nægan tíma til þess að kynna sér meginatriði málsins.

Þetta vil ég benda á, að við höfum þarna fordæmi fyrir því, að það hefur verið leitazt við að gefa stjórnarandstöðunni, stjórnarandstöðuflokkum tækifæri til þess að átta sig á málunum. Það skiptir ekki máli, hvort það er gert áður, en málin eru lögð fram í þinginu eða eftir á. Og varðandi meðferð sumra greina efnahagsmála verða menn að gera sér ljóst, að þau geta ekki tekið langan tíma e.t.v., eftir að búið er að leggja þau fram, og felst í sambandi við afgreiðslu slíkra mála nokkuð þung skylda á ríkisstj. að hafa þá, ef aðstæður leyfa, einhverja aðvörun um málið við stjórnarandstöðuna áður.

Hitt er svo annað mál, sem ekki eru almennar hugleiðingar í þessu sambandi, að nú stendur nokkuð sérstaklega á, í þessum málum. Hér situr nú ríkisstj. við völd, sem búin er að sitja í þrjú missiri og hafði það að meginmáli, þegar hún var mynduð, að leysa efnahagsmálin til frambúðar, að leggja fyrir varanlega lausn í efnahagsmálunum. Og þess er að minnast, að fyrstu ráðstafanir núv, hæstv. ríkisstj. voru bráðabirgðaráðstafanir á haustinu 1956, þegar átti sér stað verðstöðvun á því hausti, og réttlætti þessar bráðabirgðaráðstafanir með því, að ríkisstj. þá þyrfti að vinnast nokkur tími til að undirbúa hin varanlegu úrræði, og við því var ekkert að segja, þegar stjórnin var nýsetzt á laggirnar. Framhald málsins þekkja menn svo nokkuð vel, að þegar komið er fram undir áramót þessa fyrsta árs núv. hæstv. ríkisstj. og almenningur í þessu landi beið eftir hinum varanlegu úrræðum, þá varð auðvitað allt annað upp á teningnum, en varanleg úrræði, heldur víðtækari og hæpnari bráðabirgðaráðstafanir, en nokkru sinni áður höfðu verið gerðar.

Hæstv. ríkisstj. sagði sem sagt á þessu fyrsta starfsári sínu eða fyrstu mánuðum, að það yrði að ætla henni nokkurn tíma til þess að leggja málin fyrir, og á það var fallizt. Þegar svo þing kemur saman í haust, 1957, þá verður að ætla, að almennt hafi verið ástæða til þess að gera ráð fyrir, að nú væri stjórn hinna varanlegu úrræða í efnahagsmálunum, búin að átta sig og gera sér grein fyrir þeim úrræðum og till., sem gera skyldi, og ekki sízt vegna þess, að hún hafði algerlega í þeim efnum brugðizt á sínu fyrsta þingi. Þá er enn afsakað sig með því, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki haft tíma til að undirbúa tillögurnar, hin varanlegu úrræði í efnahagsmálunum, og alveg sérstaklega vegna þess, að hún hafi ekki haft aðstöðu til þess að bera sig saman við hv. stjórnarflokka, en nú, þegar þingið sé komið saman, hafi hún öðlazt þetta tækifæri til þess að tala við stuðningsflokkana, og mátti þá heyra, að ekki væru langt undan hin varanlegu úrræði.

Svo, eins og kunnugt er, líður að jólum, og lítið er starfað á þinginu, en á örfáum dögum fyrir jól eru svo afgreidd fjárl. með þeim endemum, að aldrei hefur annað eins þekkzt hér á Íslandi. Það er stórkostlegur greiðsluhalli á fjárlögunum, stjórnin segist vilja afgreiða greiðsluhallalaus fjárl., og þá er fundið upp það snjallræði, sem sennilega aðrir fjármálaráðherrar í öðrum löndum þekkja ekki, að það eru teknir tugir milljóna, fast upp undir 100 millj. kr., af gjaldaliðum út úr fjárl., til þess að þau geti verið afgr, greiðsluhallalaus, og síðan eru fjárl. samþ. Um önnur úrræði í efnahagsmálunum, en afgreiðslu fjárl. með þessum hætti heyrist ekkert, og síðan er þinginu frestað. Og nú verður að segja, að það hefði mátt ætla, loksins þegar þingið kemur saman eftir hálfs annars mánaðar frest, að till. í efnahagsmálunum væru tilbúnar, og þá kemur stjórnarblað minnsta stjórnarflokksins, eins og hv. 1. þm. Reykv. gerði grein fyrir áðan, og upplýsir, að það muni „sennilega bráðlega“ að vænta einhverra till. frá sérfræðinganefnd, sem nú sé að starfa að þessum málum, en hafi ekki enn þá lokið störfum.

Ég held þess vegna, þó að allt sé rétt um það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, sé ekkert nýmæli í þingsögunni, að fresta samkomudegi Alþingis, og það sé heldur ekki nýtt, að skammur tími sé til að afgreiða stór mál, að þá standi nú alveg sérstaklega á. Við höfum á þinginu í fyrra þurft að hraða alveg með sérstökum hætti afgreiðslu mjög þýðingarmikilla bráðabirgðaráðstafana í efnahagsmálunum, sem voru sannast að segja svo flóknar og erfiðar viðfangs, að þingmenn gátu ekki með nokkru móti krufið þær til mergjar á þeim stutta tíma, sem þeim var ætlaður til þess. Og ekki var það aðeins, að stjórnarandstaðan hefði ekki getað það, heldur var yfir lýst af einum hæstv. ráðh., að hv. stuðningsmenn ríkisstj, hefðu heldur ekkert fengið að vita um þessar till., fyrr en þær voru fram lagðar, og þótti það á sínum tíma mjög furðuleg yfirlýsing.

Ég tel þess vegna, að það standi alveg sérstaklega á nú, að það sé búið að fara með undarlega ábyrgðarlausum hætti að á þinginu 1956, enn fremur á þinginu 1957, þ.e.a.s. á haustinu, þegar þingið kemur saman og er svo að segja starfslaust fram undir jól, og þá er boðað, að þá muni till. koma í efnahagsmálunum, og nú þegar þingið kemur saman aftur, er sagt, að enn séu ekki till. til og einhver ótilgreind sérfræðinganefnd sé enn að vinna að málunum. Ég tek undir það, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Reykv., að það er ekki sýnt, að þetta sé í sjálfu sér erfiðast og verst fyrir stjórnarandstöðuna, og það sé full ástæða fyrir hæstv. ríkisstj. að athuga þá ábendingu, sem fram hefur komið hér, hvort ekki sé ráð að hafa þann hátt á að fresta störfum þingsins, þangað til hv. stjórnarlið er tilbúið að taka upp alvarlega starfsemi á þinginu.