06.02.1958
Neðri deild: 47. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

99. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1958

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég skal nú ekki lengja þessar umr., en það kom fram hjá hv. þm., að hann beindi deilu sinni aðallega gegn ríkisstj. með nokkuð öðrum hætti, en hv. 1. þm. Reykv., sem bar þetta saman við það, sem verið hefur. Það sló nú að vísu aðeins út í fyrir hv. 1. þm. Reykv., því að hann sagði, þegar hann var að tala um hina miklu erfiðleika, sem þyrfti að ráða fram úr, að það væri ekkert á móti því fyrir stjórnarandstöðuna að skemmta sér við úrræðaleysi ríkisstj.

Það er staðreynd, sem líka kom fram í ræðu hv. 1. þm. Reykv., að þessi mál hafa svo að segja undantekningarlaust verið með seinni skipunum hér inn á Alþ., og á meðan hefur Alþ. haft misjafnlega mikið að gera og venjulega haft fremur lítið að gera. Ég minntist á það, að ég hefði ekki haft tíma til að líta eftir því, hvenær frv. um ríkisábyrgð, upphaf allra þessara mála, var afgreitt, en það var borið fram, og það hefði einhvern tíma þótt aðfinnsluvert, enda var nú víst fundið að því, — það var borið fram 20. des. Og ég man nú ekki betur — það leiðréttist þá, ef ég fer rangt með — en það mál væri afgreitt á örstuttum tíma. Þannig hefur þetta alltaf verið síðan, og það hefur heldur ekki verið nein undantekning, þó að fjárl. hafi ekki verið afgreidd fyrr, en á því ári, sem þau áttu að gilda fyrir. Það hefur komið fyrir hvað eftir annað og dýrtíðarráðstafanir dregizt langt fram á vetur hvað eftir annað og verið vegna þeirra vandræða, sem ríkisstj. hafa verið í að ráða fram úr þessum málum, kastað inn í þingið og afgreiddar á stuttum tíma hvað eftir annað.

Ég fellst á það með hv. 1. þm. Reykv., að þetta eru vinnubrögð, sem væri æskilegt að komast hjá, og ef þingið hefur ekki nægilega mikið að gera, þangað til till. í dýrtíðarmálunum verða lagðar fram, þá er það vitanlega sjálfsagður hlutur að taka það til athugunar, hvort á að fresta því.

Ég sé svo ekki, að þessar umr. gefi mér ástæðu til að segja frekar um þetta mál annað en það, að þeir menn, sem eru að rannsaka dýrtíðarmálin, hafa unnið að því síðan í haust og án þess að nokkur dráttur hafi orðið á þeirri vinnu fram yfir það, sem nauðsynlegt er. Það er alveg tvímælalaust. Ég geri ráð fyrir því, að þessar till. þeirra til athugunar fyrir ríkisstj., eins og tekið hefur verið fram, verði tilbúnar um mánaðamót eða upp úr mánaðamótum, þó að ekki sé hægt að segja um það með fullri vissu, og þá kemur til athugunar, hvaða tíma það tekur fyrir ríkisstj, að athuga málið, áður en till. verða lagðar fram hér á Alþingi.