06.02.1958
Neðri deild: 47. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

99. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1958

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég held, að það hefði nú verið betra fyrir hv. þm. V-Húnv. að láta það vera að fara í ræðustólinn að þessu sinni.

Fyrst kemur hann hér og fullyrðir, að það hafi staðið á mínu atkv., að lög um ábyrgð á fiskverðinu 1946 næðu fram að ganga, og af því að ég hefði skroppið heim og þetta staðið á mínu atkv., þá hefði orðið að senda bíl eftir mér. En síðan, um leið og hann lýkur máli sínu, þá segir hann: Ég held, að það hafi verið í þetta skipti, sem ríkisábyrgðin var til umr. — M.ö.o.: hann staðfestir það, að hann hafi alls ekki verið viss um, að það væri rétt, sem hann fullyrti einni mínútu áður. En þetta er nú aðeins staðfesting á málflutningi þessa þm. oft og tíðum. Það munu fleiri, en ég vita það, að hann er ekki vandur að málflutningi og vílar ekki fyrir sér að fara með rangt mál. Hitt er svo aukaatriði, hvort ég hef skroppið heim eða hvort ég hafi verið sóttur, af því að mikið hafi legið við hér í hv. Alþ.

Ég vil þá upplýsa, að það er alloft, sem ég skrepp heim, en það mun vera sjaldan, sem mig vantar hér í þingsalinn, þegar ég þarf þar að vera vegna mikilsverðra mála. Og þótt hv. þm. V-Húnv. hefði geð í sér til þess að koma hér í ræðustólinn eða skrifa um það í Tímann, að ég mætti sjaldan í þingsölunum, þá mundi mig alls ekki undra það, þótt þessi hv. þm. gerði það. Annars er ég vanur því, þegar ég fer heim, að hafa ráð á farkosti, hvort sem er austur eða vestur, og þess hefur ekki þurft að senda bil eftir mér, Ég sé ekki, að það sé ástæða til að fjölyrða um þetta atriði eitt út af fyrir sig.

Í sambandi við það, sem var verið að ræða hér áðan, vinnubrögð hæstv. núverandi ríkisstj. og úrræðaleysi hennar, er það að segja, að fólkið í landinu hefur fengið nóg af slíku, Það hefur verið rifjað hér upp af tveimur hv. þm., hvernig þessi vinnubrögð yfirleitt eru, — vinnubrögð þeirrar hæstv. ríkisstj., sem með miklu yfirlæti sagðist ætla að koma efnahagslífi og fjármálalífi Íslendinga í gott horf fyrir einu og hálfu ári. Þessi hæstv. ríkisstj. lætur Alþ. vera starfslaust vikum og mánuðum saman, og nú eftir eins og hálfs mánaðar fundarhlé, sem nota átti til þess að semja álitsgerð fyrir hæstv. ríkisstj., kemur hæstv. forsrh. hér upp í ræðustólinn og segir, að það sé starfandi n. sérfræðinga í þessum málum og það séu vonir til, að bráðlega komi álit frá þessari n. og að bráðlega eigi hv. Alþ. kost á því að sjá framan í þessar sérfræðingatill. En hvað er langt síðan hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir, að það væru sérfræðingar starfandi á hennar vegum til þess að semja álitsgerð um efnahag þjóðarinnar, fjármál hennar og atvinnulíf? Þessir sérfræðingar áttu að skila áliti fyrir löngu, til þess að þjóðin gæti séð framan í hin varanlegu úrræði hæstv. ríkisstj. Það byrjaði með miklu brambolti hjá hæstv. ríkisstj., þegar hún settist að völdum, að nota sérfræðinga. Það voru fengnir sérfræðingar erlendis frá til þess að athuga okkar fjármála- og atvinnulíf. Og þessi sérfræðinganefnd samdi álitsgerð, sem hæstv. ríkisstj. hefur lokað niðri í skúffu og hv. Alþ. og alþjóð hefur ekki fengið að sjá. Það er þegar vitað mál, að í álitsgerð þessara sérfræðinga kemur ýmislegt fram, sem ekki staðfestir fullyrðingar hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarflokka fyrir síðustu alþingiskosningar. Það var þá, sem hv. stjórnarfl. fullyrtu, að þjóðarskútan væri að strandi komin og það þyrfti nýja menn og ný úrræði til að lagfæra það, sem úr lagi væri gengið. En það skyldi nú ekki vera, að í áliti þessara sérfræðinga væri eitthvað annað ,en staðfesting á því, að þjóðarskútan hafi verið komin í strand, þegar núverandi hæstv. ríkisstj. tók við? Skyldi það vera þess vegna, að þessir sérfræðingar staðfestu ekki fullyrðingar stjórnarflokkanna á þessu sviði, að við fáum ekki að sjá þessar till. sérfræðinganna og úttekt þjóðarbúsins, sem sagt var að hefði átt fram að fara fyrir opnum tjöldum? En eftir að hinir erlendu sérfræðingar höfðu lokið sínu starfi, voru hinir íslenzku fengnir til og hafa setið að störfum, ekki þetta þinghlé, einn og hálfan mánuð, heldur á annað ár, og enn eru þeir ekki tilbúnir. Ég held, að ef það væri von á því, að einhvern tíma kæmi á þessum vetri álit frá sérfræðingunum, þá væri réttast, eins og sagt var hér áðan, að láta verða hlé á fundum Alþ. En það eru ýmsir, sem eru í vafa um, að það sé von á nokkru viðunandi áliti frá þessum svokölluðu sérfræðingum hæstv. ríkisstj. Það er talið, að þeir séu ekki sammála um, hvað gera á, og það er vitað mál, að ríkisstj. í dag veit ekki sitt rjúkandi ráð. Við það líður öll þjóðin, að nú er siglt í fullkominni óvissu, og efnahagslíf og fjármálalíf landsins spillist óðfluga að áliti innanlands og utan.

Það hlýtur að koma í ljós, áður en langt líður, hvort það er ekki rétt, það sem hér hefur verið sagt, að ríkisstj. sé sjálfri sér sundurþykk og það sé þess vegna, sem engar till. eru fram komnar, en ekki af því, að hinir svokölluðu sérfræðingar, sem hæstv. forsrh. talaði hér um áðan, hafi ekki lokið störfum sínum.