06.02.1958
Neðri deild: 47. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

99. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1958

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að nefndin, sem er að rannsaka fjárhagsmálin, hefði lokið störfum og það væri aðeins vegna ósamkomulags í nefndinni, að stæði á þessu máli. Ég skýrði frá því áðan og endurtek það, að þetta er rangt. Það var lögð áherzla á það við þá nefnd, sem vinnur að þessum málum, þegar í byrjun að hraða verki sínu sem mest, og sú beiðni var endurtekin, áður en ég fór til útlanda. Þá ræddi ég við nefndina um það mál, og núna eftir að ég kom heim, þá spurðist ég fyrir um það, hvað væri eftir að inna af hendi af vinnu, til þess að henni væri fulllokið, og var mér þá skýrt frá því, að það væri von til þess, eins og ég sagði áðan, að það væri hægt að ljúka því starfi fyrir byrjun næsta mánaðar. Það, sem hv. þm. sagði um þetta og er í ósamræmi við þær upplýsingar, sem ég gaf um þetta efni, er því algerlega rangt.

Viðkomandi því atriði, hvort frv., sem hv. 5. þm. Reykv. upplýsti hér að hefði verið lagt fyrir fjhn. hér á Alþingi, væri það sama sem var borið fram 20. des., þá hef ég ekki haft tækifæri til að athuga það. Hann upplýsti, að það hefði verið flutt nýtt frv. 20. des., og það var afgr. í Ed. 22. des, Ég hef ekki haft ástæður til þess að bera það saman, hvort frv. eru eins, en svo mikið er víst, að einn af þm., sem fylgist vel með málum og betur en margir aðrir, fór heim stuttu fyrir jól og vissi ekkert um málið fyrr, en hann heyrði í útvarpi um afgreiðslu þess. Ég veit, að það var ágreiningur um það þá í ríkisstj., hvernig ætti að afgreiða málið, mér er það ósköp vel kunnugt, og ég er ekkert að setja þetta fram í aðfinnslutón. Eins og ég sagði áðan, hafa verið hér mikil vandræði með afgreiðslu fjárhagsmálanna hvað eftir annað og undantekningarlítið eða ég held undantekningarlaust, og eins og hér hefur komið fram við þessar umr., hefur það verið svo, að málin hafa verið afgreidd með stuttum fyrirvara, sem er, eins og ég sagði áðan, mjög óæskilegt.

Viðkomandi þeirri fyrirspurn, sem hér kom fram um það, hvort nál. það, sem kæmi frá þeirri nefnd, sem nú starfar að efnahagsmálunum, yrði lagt fyrir þingið, get ég svarað því, að ég geri frekar ráð fyrir, að svo verði, en það verður vitanlega ekki lagt fyrir þingið, fyrr en það hefur verið athugað í ríkisstj. til þess að gera sér grein fyrir, hvaða till. verða gerðar.

Frekara er það svo ekki, sem ég sé ástæðu til þess að svara.