02.12.1957
Efri deild: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

66. mál, farsóttarlög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. það til farsóttalaga, sem hér liggur fyrir, er samið af Vilmundi Jónssyni landlækni til endurskoðunar laga nr. 66 frá 19. júní 1933, um varnir gegn útbreiðslu næmra sjúkdóma. Endurskoðun þessara laga fylgir í kjölfar setningar sóttvarnarlaga, nr. 34 frá 12. apríl 1954, en með þeirri lagasetningu voru endurnýjuð lögin um varnir gegn því, að næmir sjúkdómar berist til landsins, nr. 35 frá 19. júní 1933. Sú endurskoðun varð nauðsynleg, eftir að Ísland hafði á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar gerzt aðili að hinum alþjóðlega sóttvarnarsamningi frá 1951, en hann tók gildi 1. okt. 1952. Höfundur þessara laga hvorra tveggja, laga, sem gilt höfðu nær aldarfjórðungsskeið, hefur því nú endurskoðað báða þessa lagabálka til samræmingar við breytt viðhorf og til innbyrðis samræmis.

Hinum nýju lagasmíðum hafa nú verið valin nöfn, sem virðast vera vel til þess fallin eftir málvenju að segja með einu orði það, sem áður var sagt með mörgum, þ.e.a.s. í stað heitisins „lög um varnir gegn útbreiðslu næmra sjúkdóma“ kemur nú „farsóttalög“ og í staðinn fyrir hið langa nafn „um varnir gegn því, að næmir sjúkdómar berist til landsins“ er aftur „sóttvarnarlög“.

Svo sem í grg. þessa frv. segir, er ekki um stórfelldar breytingar að ræða, og svarar hver grein til greinar gildandi laga, og er efnisbreytinga ekki að leita nema í 3., 15., 16. og 17. gr., en orðabreytingar eru þó að vísu víðar í frv.

Í 3. gr. frv. er sóttatal þessara laga samræmt sóttatali 1. gr. sóttvarnarreglugerðarinnar eftir sóttvarnarlögunum frá 1954, en þar eru taldar sóttir þær, sem alþjóðlegi sóttvarnarsamningurinn fjallar um, að undanskilinni þó gulri hitasótt, en gegn útbreiðslu hennar er íslenzkt loftslag talið vera nægileg vörn,

Refsifyrirmæli 17. gr. frv. eru gerð samsvarandi refsifyrirmælum sóttvarnarlaganna, en það má hafa þó í huga, að við hlið þessara refsifyrirmæla gilda svo hin ströngu refsifyrirmæli 175, gr. hegningarlaganna fyrir að valda vísvitandi hættu á því, að næmir sjúkdómar komi upp eða breiðist út.

Formlega er viðurhlutamest sú breyting frv. frá gildandi lögum, að horfið er frá þeirri skipan að hafa sérstakan sótthreinsunarmann í hverju sveitarfélagi. En reynslan hefur sýnt, að þeirri skipan verður ekki haldið uppi, og er hún raunar úrelt orðin, svo mjög sem sótthreinsanir eru nú yfirleitt úr gildi fallnar. Heimild er þó áfram í 15. gr. fyrir sveitarstjórn, ef hún telur henta, að hafa á að skipa föstum sótthreinsunarmanni og fá löggiltan til þess starfa hæfan mann að dómi héraðslæknis og heilbrigðisnefndar, ef til er. Mundu þá önnur sveitarfélög í þeim fáu tilfellum, sem til þess kemur, geta leitað til hinna fáu sérfróðu sótthreinsunarmanna, enda er samgöngum nú svo háttað, að vandkvæði ættu ekki að vera veruleg á slíkri framkvæmd.

Ákvæði 16. gr. frv. um greiðslu kostnaðar vegna ráðstafana samkv. lögunum eru gerð allmiklu ýtarlegri, en í gildandi lögum til þess að taka af vafa, sem þótt hefur vera á því í framkvæmd, hvernig um greiðslu slíks kostnaðar færi, svo að til málaferla hefur jafnvel komið út af því. Meðal hinna nýju ákvæða um greiðslu kostnaðar er fyrirvari um, að ekki falli niður greiðsluskylda sjúkrasamlaga eða ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla, eftir því sem við getur átt, þótt ríkissjóður beri tilgreindan kostnað vegna opinberra farsóttavarna.

Þá er þarna að finna almennt ákvæði til áherzlu þess, að hlutaðeigendur skuli sjálfir bera kostnað af ráðstöfunum í samræmi við hina almennu aðgæzluskyldu samkvæmt 1. gr. laganna gagnvart farsóttum og hvers konar næmum sjúkdómum og það jafnvel þótt héraðslæknir fyrirskipi aðgerðir samkvæmt ákvæðum sóttvarnarlaga, farsóttalaga, ef aðgerðir samt teljast innan marka nauðsynlegra og viðurkenndra venjulegra ráðstafana til þess að hefta sóttnæmisútbreiðslu.

Orðalagsbreytingar eru margar og ýmiss konar f frv., en raska ekki neinum efnisákvæðum gildandi laga.

Ég legg til, að þessu máli verði vísað til heilbr.- og félmn. að lokinni umræðunni.