13.03.1958
Neðri deild: 65. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

71. mál, Veðurstofa Íslands

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem nú liggur fyrir til 2. umr., er stjórnarfrv., flutt í hv. Ed. og þaðan komið. Í Ed. var frv. breytt lítils háttar, og er sú breyting, sem þar er um að ræða, við 9. gr.

Allshn. hefur haft frv. til meðferðar á tveim fundum og rætt um það við veðurstofustjórann. Gildandi lög um Veðurstofu Íslands eru nú rúmlega 30 ára gömul, voru sett árið 1926, en síðan þau lög voru sett, hefur starfsemi stofnunarinnar mjög aukizt og orðið fjölbreyttari, en hún var áður og starfsfólk fleira, en áður var. Það hafa komið til ný verkefni á síðari áratugum, eins og það að annast þjónustu vegna flugsamgangna, sem ekki var þörf á þá, en hefur komið til síðan og fer mjög vaxandi.

Lögin um veðurstofuna hafa því verið endurskoðuð, og það stjórnarfrv., sem lagt var fyrir þingið, er árangur þeirrar endurskoðunar.

Í frv. hafa verið tekin ýmis ný ákvæði, sem ekki voru í eldri lögum, og eru miðuð við hina breyttu aðstöðu, hin breyttu verkefni. M.a. er það nýmæli í 6. gr. frv., sem ég skal nefna til dæmis.

Þar er gert ráð fyrir, að veðurstofan hafi nú samband og samráð við opinberar stofnanir, fyrirsvarsstofnanir atvinnuvega og samgöngumála, en þýðing veðurstofunnar og veðurþjónustunnar fyrir atvinnuvegina mun nú vera almennt viðurkennd.

Í 9. gr. er gert ráð fyrir því, að byggt verði yfir veðurstofuna á þeim stað, sem hentar starfsemi hennar, þegar fé verður veitt til þess í fjárlögum, en nú starfar stofnunin á fleiri en einum stað.

Nefndin leggur til, að frv. verði samþykkt, og ber ekki fram við það neinar brtt.