10.02.1958
Neðri deild: 49. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

100. mál, skattur á stóreignir

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Skatturinn er, eins og allir víta, aðallega til kominn á þann hátt, að fasteignir, sérstaklega hér í Rvík, hafa verið metnar miklu hærra, en skynsamlegt má teljast. Þær hafa verið metnar svo hátt, að sýnilegt er nú, að fjöldi manna kemst í mikil vandræði með að greiða skattinn skv. því nýja mati, sem framkvæmt hefur verið.

Ein aðalástæðan og sterkustu rök stjórnarliðsins fyrir því, að óhætt væri að leggja skattinn á, var einmitt sú, að hann næmi ekki hærri fjárhæð en 80 millj. kr. Ef hæstv. fjmrh. hefði í öndverðu tilkynnt, að mjög væri líklegt, að skatturinn yrði 130–140 millj. kr., þá er engin trygging fyrir því, að þingið hefði samþ. frv. Þess vegna er þetta að fara aftan að skattborgurunum. Og ég vil spyrja: Ef skatturinn skyldi nú reynast svo sem 160 millj., þannig að hann hækkaði um 100%, því að vel getur verið, að hann hækki enn að einhverju leyti, þegar ekki er búið alveg að ljúka við útreikninginn, ætlar þá stjórnin samt sem áður að taka af skattgreiðendum, helmingi hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir í upphafi? Ég endurtek því, að farið er aftan að skattgreiðendum með því að taka af þeim skatta á þann hátt, sem hér er gert.